
Föstudaginn 11. marz 2011 skall á mikill jarðskjálfti af stærðargráðunni 8,9
undan norðaustur strönd Japans, með upptök á 24 km dýpi í jarðskorpunni, og 4 metra há flóðbylgja fylgdi í kjölfar hans.
Þessar miklu hamfarir er afleiðing af stöðugum flekahreyfingum á þessu svæði, þar sem Kyrrahafsflekinn sígur niður undir Japan.
Á þessum flekamótum skríður Kyrrahafsflekinn áfram á um 8 til 9 sm hraða á ári, og sígur niður undir Japan, með um 30 gráðu halla frá láréttu.
Sigbelti eru stórkostlegasti vígvöllur jarðskorpuhreyfinga á jörðu.
Hér leysist úr læðingi um 85% af allri jarskjálftaorku á jörðinni, og hér verða stærstu eldgosin.
Þetta gerist þegar um 100 km þykkur fleki sígur niður í möttul jarðar.
Flekinn er gerður úr eldri jarðskorpu, um eitt hundrað og þrjátíu milljón ára gamall hér á Kyrrahafsflekanum hjá Japan, og flekinn er því kaldur, þungur og vill síga niður í heitari og eðlisléttari möttulinn undir.
Þetta er sýnt á myndinni fyrir ofan, sem er þverskurður frá austri (hægri) til vesturs (vinstra megin).
Þetta þversnið nær um 340 km niður í jörðu.

Tölurnar og litir sýna hita í flekanum, en neðra borð hans er vel yfir 1200
oC.
Á mörkum flekana myndast kvika, sem rís og gýs á yfirborði í eldfjöllum Japans.
Neðri myndin sýnir þverskurð af sigbeltinu undir Japan, en hér er það sýnt langt niður í jörðu, eða allt að mörkum kjarna og möttuls (CMB) í um 2700 km dýpi.
Flekinn er blálitaði flekkurinn, sem sígur niður í möttul.
Slikar sneiðmyndir af jörðu eru nú fáanlegar, og eru þær að gjörbylta þekkingu okkar á innri gerð plánetunnar okkar.
Það mikilvægasta við sigbeltin er, að sennilega eru þau aðal mótorinn í hreyfingu flekanna.
Það er sigið á flekanum niður í sigbeltið, sem dregur allan flekan með sér, eins og blautt handklæði sígur af borðbrúninni og niður á gólf.
Hér er þyngdarkrafturinn einfaldlega að verki, svo lengi sem flekinn er eðlisþyngri en heiti möttulinn umhverfis.
Athugasemdir
Ég er einn af þeim sem fylgist með þessu frá sjónarhorni áhugamanns. Ég hef enga djúpa þekkingu á þessu sviði og því skal nálgast mín afskipti fyrst og fremst út frá því.
Þú talar um að continental plates hreyfast eins og handklæði eftir yfirborði jarðar. Hér á landi er ameríkuflekinn og evrópu-asíuflekinn að fara í sitt hvora áttina. Hvaða áhrif gæti það haft þegar þrýstingur minnkar hér á landi með tillit til þess að við erum með eina af tveimur beintengingu yfirborðs við möttul jarðar í Bárðarbungu?
Eru ekki að skapast kjöraðstæður hér á landi fyrir stórt eldgos á næstu áratugum?
Sumarliði Einar Daðason, 11.3.2011 kl. 19:51
Ég sé enga ástæðu til að halda að skilyrði séu neitt að breytast hér á landi. Gliðnun flekamótanna sem kljúfa Ísland er nokkuð stöðugt fyrirbæri, og fer hægt. Þótt mikið gangi á hinumegin á jarðkúlunni, er engin ástæða til að halda að gauragangurinn berist hingað.
Haraldur Sigurðsson, 11.3.2011 kl. 20:16
Ég geri mér grein fyrir því að þú þarft að vera mjög varkár í því sem þú segir.
Ég veit að þú veist hvað "Butterfly-Effect" er.
Sumarliði Einar Daðason, 11.3.2011 kl. 23:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.