Metan Gas frá Hafsbotni
5.3.2010 | 22:31
Ég las nýlega blogg grein þar sem fyrirsögnin var á þessa leið: Nýjustu rannsóknir sýna að hættulegt gas lekur nú uppúr sífreranum á heimskautasvæðnunum. Undirfyrirsögnin segir: En hafið engar áhyggjur þetta eru bara vísindi. Svona er tortryggni varðandi vísindin komin á hátt stig í dag. Ég leyfi mér nú þrátt fyrir það að fjalla um þetta gas, sem heitir metan eða mýragas. Einu sinni var ég að vinna á hafrannsóknaskipi við að taka sýni af setinu á hafsbotni í Norður Atlantshafi. Við notuðum bor eða kjarnarör til að ná sýninu. Eitt sinn þegar rörið kom upp, þá var ís í setinu. En þetta var ekki venjulegur vatnsís heldur ís af metan hydrat, sem er blanda af vatni og efninu sem við nefnum oft mýragas: CH4. Metan gas sem er unnið með jarðborunum djúpt niður í gamlar myndanir af setlögum er eitt mikilvægasta eldsneyti á jörðu. Til dæmis í Bandaríkjunum er það gas um einn fjórði af allri orkuneyslu.
Metan myndast þegar lífræn efni rotna, hvort sem er í setinu á hafsbotni, í mýrum eða í maganum á kúm. Það eru bakteríur sem þrífast við þessi skilyrði, sem brjóta niður lífræn efni og framleiða gasið.
Hvernig myndast metan hydrat ísinn í setinu á hafsbotni? Það er háð því hvað sjórinn er oft ískaldur, eða rétt fyrir ofan frostmark, við hafsbotninn í norðurhöfum. Kortið fyrir ofan sýnir að metan hydrat setmyndanir eru mjög útbreiddar í heimshöfunum. Myndin til hliðar er fasa diagram sem sýnir ástand efnis eins og metans við mismunandi hita og þrýsting eða dýpi. Við ástand eins og ríkir fyrir neðan feitu línuna er metan hydrat í jafnvægi. En ef botnsjórinn hlýnar, þá leysist metan hydrat upp og metan gas streymir út, upp í sjóinn og að lokum upp í andrúmsloftið. Í dag kom út merk grein í vísindaritinu Science um metan eftir hóp vísindamanna frá Alaska og Rússlandi. Mælingar á botnsjó á landgrunninu fyrir utan austur hluta Síberíu sýna að hann er mettaður af metan gasi, og er hér miklu meira ústreymi af metan gasi en áður var talið. Þessi nýuppgötvaða losun af metan undan Síberíu er jafn mikil og var þekkt áður í öllum heimshöfunum. Breskir og þýskir vísindamenn hafa gert svipaða uppgötvun á hafsbotninum í 150 til 400 m dýpi fyrir vestan Svalbarða. Þar fundu þeir að metan gas streymir upp um litil göt úr botninum og upp í hafið, eins og myndin til hægri sýnir.
Metan getur haft 30 sinnum meiri áhrif á hlýnun jarðar en koldíoxíð, og er því mikilvægt að fylgjast með magni þess í andrúmslofti. Myndin til hliðar sýnir að metan hefur stöðugt vaxið í andrúmslofti jarðar. Það er talið að í dag séu gróðurhúsaáhrifin af völdum metan gass í lofthjúpnum um fimmti hluti, en koldíoxíð afgangurinn. Byrgðir af metan, bæði í sífreara á landi og í setinu á hafsbotni, eru gífurlegar, og ekki þarf mikla breytingu á hita botnsjávar til að þær birgðir sleppi út í lofthjúpinn og valdi mikilli hlýjun um jörð alla. Enn ein ástæðan til að fylgjast vel með hvað er að gerast í vísindunum í dag.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Breytt 6.3.2010 kl. 16:05 | Facebook
Athugasemdir
Við birtum færslu um þetta á Loftslag.is fyrr í kvöld, sjá:
- Metan og metanstrókar - Umfjöllun um metan og metanstróka og nýlegar rannsóknir sem benda til þess að ástand setlaga Norðurskautsins sé óstöðugra en áður.
Ég vona að það sé í lagi að geta þess hér.Sveinn Atli Gunnarsson, 5.3.2010 kl. 22:57
Svatli
Ágætt að sem flestir fjalli um þetta atriði sem getur skift miklu máli fyrir loftslagsrannsóknir.
kv Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 6.3.2010 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.