Eldgígar eru Listaverk
2.3.2010 | 22:07
Árið 1970 skapaði Robert Smithson bryggju sem myndaði eins kílómeters langan spíral út í Saltavatn í Utah í Bandaríkjunum. Það er eitt fyrsta og þekktasta verkið sem má nefna landlist eða jarðverk, þar sem listaverkið er stór og nátengdur hluti af landslaginu. Auðvitað eru píramídarnir í Egyptalandi einnig stórkostleg jarðverk á sína vísu. Annað frægt verk af þessu tagi er enn í byggingu, en það er Roden Crater eftir James Turrell. Hann byrjaði á því að kaupa 400 ferkílómetra af landi árið 1979 í jaðri eyðimerkurinnar sem kölluð er Painted Desert í Arizona fylki í Bandaríkjunum. Á landi hans eru nokkrir gígar, sem tilheyra San Francisco Peaks gígaþyrpingunni, og einn þeirra er gígurinn Roden, sem er um 390 þúsund ára gamalt og útdautt eldfjall, um 200 metrar á hæð. Gígar eru auðvitað listaverk frá náttúrunnar hendi, en Turrell vildi gera enn betur og nota gíginn sem umgerð fyrir listaverk sitt, en það fjallar um ljós og áhrif þess. Turrell hafði lengi starfað sem flugmaður, og flaug meðal annars njósnavélum fyrir CIA, en varð þekktur fyrir að smygla múnkum út úr Tíbet til Indlands í lítilli flugvél sinni, þegar Kína gerði innrás í Tíbet. Hann dáði landslagið, eins og það lítur út úr lofti, og byrjaði að velta því fyrir sér hvernig hann gæti tengt listaverk sitt nánar landslaginu. Vinna hófst fyrir alvöru í Roden árið 1980, og enn í dag er verið að starfa að verkinu. Gestir ganga inn í eldfjallið í gegnum löng göng, þar til þeir koma í sal undir gígnum. Í loftinu fyrir ofan, sem er botn gígsins, er stór sporöskjulagað gat, sem Turrell kallar auga gígsins, þar sem gestir horfa upp til himins og sjá stjörnurnar fyrir ofan. Það er mikið tæknilegt vandamál að gera göng í gegnum vikur og gjall, sem þarf að fóðra með steinsteypu. Kostnaður hefur orðið gífulegur og er kominn langt yfir 10 miljón dollara. Erfitt hefur reynst að fá fjármagn til að ljúka verkinu og er Roden gígur ekki enn opinn almenningi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eldfjallalist | Breytt 3.3.2010 kl. 18:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.