Fjögur þúsund ára gamall Grænlendingur leysir frá Skjóðunni
11.2.2010 | 14:05
Það hefur lengi verið haldið af mannfræðingum að Grænlendingar hefðu komið frá norður hluta Norður Ameríku, og að forfeður þeirra hefðu átt uppruna sinn að rekja til austur hluta Asíu á ísöld. Nú hafa danskir vísindamenn í fyrsta sinn greint allt erfðamengi manns sem var uppi á Grænlandi fyrir um fjögur þúsund árum. Stóra sprengjan er að hann er ekki náskyldur Inuit, eða Grænlendingum nútímans. Það voru þeir Morten Rasmussen og Eske Willerslev við Kaupmannahafnar háskóla framkvæddu greiningarpróf fyrir erfðarmengi og kortlögðu gen mannsins, en grein þeirra er birt í dag í ritinu Nature. Grein um sama efni birtist í ritinu Scinece í maí árið 2008. Til rannsóknarinnar notuðu danir svartan gamlan hárlubba sem fannst við Diskóflóa á Grænlandi fyrir tuttugu árum. Hárlubbinn var svo þykkur að í fyrstu var haldið að hann væri af birni, en hann fannst á vestur strönd Grænlands árið 1986. Myndin fyrir ofan er byggð á upplýsingum úr erfðagreiningunni, og myndin til hægri er af hárlubbanum. Þetta er í fyrsta sinn að fullkomin erfðagreining er framkvæmd á fornum mannaleifum, en erfðamengi aðeins átta lifandi einstaklinga hefur verið greint til þessa. Grænlendingurinn var af Saqqaq ættbálknum, og nú kemur í ljós að næstu ættingjar hans eru Chukchi mannfélagið, en þeir búa nú á austasta hluta Síberíu. Erfðagreiningin sýnir að sennilega hafa Saqqaq klofnað út úr Chukchi og flutst til Grænlands fyrir um 5500 árum. Leifar af Saqqaq hafa aldrei fundist í Norður Ameríku, og hefur hann greinilega ekki haft langa viðdvöl þar, eða ef til vill farið sjóleiðina til Grænlands. Myndin til vinstri sýnir hugsanlegar leiðir þeirra um heimskautið. Chukchis búa enn austast í Síberíu, en nú eru aðeins um fimmtán þúsund þeirra eftir. Myndin fyrir neðan er ljósmynd af Chukchis, tekin í b yrjun tuttugustu aldarinnar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Mannfræði | Breytt 3.3.2010 kl. 18:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.