Hokusai og Eldfjallið Fuji
7.1.2010 | 20:17
Flestar þjóðir eiga sinn Kjarval, sinn uppáhaldslistamann, sem skarar öðrum framúr í vinsældum meðal almennings. Þannig er einnig með japana, en sá listamaður er frægastur fyrir myndir sínar af eldfjallinu Fuji, sem síðast gaus árið 1707. Fuji er hæsta eldfjallið í Japan (3776 metrar) en í huga japana er Fuji miklu meira en eldfjall. Það er helgur staður, og að klífa Fuji hefur lengi verið talin hin mikilvægasta pílagrímsför þar í landi. Ótal ljóð hafa verið ort til heiðurs Fuji og mikill fjöldi mynda gerður af fjallinu helga. Það er þó einn listamaður sem skarar langt framúr þegar kemur að umræðunni varðandi túlkun á Fuji í myndlist. Hann hét Katsushika Hokusai (1760-1849) og er tvímælalaust fremsti listamaður sem japanir hafa eignast. Hvers vegna er Fuji svona ótrúlega mikilvægt fjall fyrir Japani? Við skulum líta á nokkrar staðreyndir sem kunna að skýra málið. Fjallið er meir en tvisvar sinnum hærra en Snæfellsjökull, og blasir við frá fornu miljónaborginni Edo, sem nú er nefnd Tokyo, og fjallið sést mjög víða frá öðrum héruðum í Japan. Hugsið ykkur að Snæfellsjökull væri helmingi hærri og breiðari um sig! Þannig er fjallið Fuji jafn mikill hluti af tilverunni í Japan, eins og sólin og tunglið, með ógnþrunginn kraft og sterkt aðdráttarafl. Frá Fuji er styttsta leiðin til himna, og einnig beinasta leiðin til vítis í gegnum gíginn eða hellinn nærri toppnum sem nefnist mannholan. Auk þess er mjúka formlínan á hlíðum Fuji nær einstök. Hún er stærðfræðilega hárrétt, sem parabóla eða katenary kúrva, og dregur augað ósjálfrátt að fjallinu og gígtoppnum. Í þriðja lagi er Fuji virkt eldfjall, með langa gossögu og hefur því haft vissan ævintýraljóma í augum Japana um aldaraðir. Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við nokkur mjög verðmæt verk eftir Hokusai, sem safnið hefur eignast. Sum þeirra eru sýnd hér með. Listform Hokusai var tréristan eða öllu heldur tréblokk eða woodblock á ensku, sem er dálítið frábrugðið tréristunni, eða woodcut. Hann beitti list sinni á sviði því sem kallað er Ukiyo-e í Japan, sem má ef til vill þýða sem myndir frá hinum fljótandi heimi. Það var heimur sem sýndi líf fóksins á götunni, almennings. Í byrjun vann Hokusai aðallega við að myndskreyta bækur og gerði yfir 30 þúsund verk á því sviði. Í kringum 1823 byrjaði hann á verki sem hann nefndi Þrjátíu og Sex Svipir Fuji, sem varð ef til vill hans frægasta verk. Í því safni er frægasta verkið Rauði Fuji sýnd hér fyrir ofan. Það er einstaklega einföld og áhrifamikil mynd, og margir hafa bent á að hér er Hokusai kominn með abstrakt mynd, langt á undan listamönnum vesturlanda. Hokusai gerði enga mynd sem sýnir gjósandi eldfjall, en hann gerði hins vegar tvær myndir sem sýna áhrif eldgosa. Þær myndir koma í síðasta verki hans, sem ber nafnið Eitt Hundrað Svipir Fuji, en hann lauk því rétt fyrir dauðann, þá 90 ára gamall. Hér fjallar Hokusai meðal annars um gosið í Fuji sem er kennt við Hoei. Gosið í Fuji 1707 var ekki í toppgíg fjallsins, heldur opnaðist nýr gígur í hlíðinni, eins og myndin fyrir ofan sýnir. Þetta var sprengigos og gjalli og ösku ringdi yfir þorpin í nágrenni fjallsins. Það var þetta atriði, bein áhrif gossins á fókið, sem Hokusai sýnir í tveimur tréristum sem fylgja hér með. Hann var alltaf að segja sögu, enda er hann sennilega færasti og reyndasti listamaður sem hefur fengist við að myndskreyta bækur. Munurinn er sá, að í bókum Hokusai er lítill eða enginn texti, enda óþarfi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.1.2010 kl. 12:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.