Hvorir eru betri á Reykjanesið og Grindavík:  Innfluttir ítalskir sérfræðingar eða vanir heimamenn?

Nýlega barst út sú frétt í fjölmiðlum, að Almannavarnir stefni á að flytja til Íslands nokkra eldfjallafræðinga frá Ítalíu, sem ráðgjafa um atburði og eldgosahættu á Reykjanesi.  Mig rak í rogastans yfir þessari frétt, fyrir ýmsar sakir.  Í fyrsta lagi eru jarðskorpuhreyfingar allt aðrar á Ítalíu en á Íslandi. Í því fagra landi rekast jarðskorpuflekar saman, þvert á við gliðnun fleka á Íslandi. Þeir þekkja ekki gjár og sprungur og hafa enga reynslu í gosbelti sem er að togna í sundur.  Bestu sérfræðingar á því sviði eru í Hawaíi, fyrir utan íslenska jarðvísindamenn.

Þá er ég kominn að spurningunni sem felst í titli þessa pistils: Hvar eru jarðvísindamennirnir,  sem ekki starfa fyrir Almannavarnir en hafa mesta reynslu í rannsóknum á jarðfræði og jarðeðlisfræði á Reykjanesi?   

Það er engin tilviljun að Reykjanesið er meira og betur rannsakað en nokkurt annað svæði á Íslandi, hvað varðar jarðfræði og jarðeðlisfræði. Það er ekki vegna nándar við Reykjavík, heldur stafar það af áhuga íslendinga á að virkja jarðorku, sem er fyrir hendi í miklu magni á Nesinu. Ríkisstofnanir eins og Orkustofnun og stofnanir eins og ISOR,  HS Orka og fleiri hafa rannsakað jarðfræði og hugsanlegar orkulindir Reykjaness í áratugi.  Þar hefur safnast saman mikill sjóður af fróðleik og þekkingu um alla þætti jarðvísinda Reykjaness. Ég tek hér saman fyrir neðan  nokkur nöfn þeirra sem starfa á Nesinu en eru ekki beint tengdir liði Veðurstofu og Háskóla Íslands.

Brautryðjandi í jarðfræðirannsóknum á Reykjanesi er tvímælalaust Jón Jónsson (1910-2005), sem starfaði lengi við Orkustofnun.  Eftir margra ára starf gaf Jón út hið fyrsta Jarðfræðikort af Reykjanesskaga árið 1978. Hann gerði sér fulla grein fyrir því að hér eru margar ungar eldstöðvar og árið 1964 skrifaði Jón grein í Vikuna undir fyrirsögninni: “Það má búast við gosi á Reykjanesi“.  ´´Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga´´ segir Jón í  Morgunblaðinu árið 1965.

Kristján Sæmundsson er tvímælalaust sá jarðfræðingur sem þekkir Nesið best.  Hann birti mjög nákvæmt Jarðfræðikort af  Suðvesturlandi og Reykjanesi árið 2016.  Það má vel minnast á, að Kristján er talinn meðal fremstu jarðfræðinga á jörðu á því sviði að gera jarðfræðikort og hefur verið verðlaunaður fyrir.

Gudmundur Ómar Friðleifsson stýrði jarðborun niður  á 4.5 km dýpi á Nesinu (og í 550 stiga hita…) og hefur með því fært okkur nýja sýn á eðli neðri hluta jarðskorpunnar.

Haukur Jóhannesson og félagar birtu merk rit, Krísuvíkureldar 1, Jökull 1989 og Krísuvíkureldar 2. Jökull 1991. 

Það er of langt mál að fara yfir störf hvers og eins, en ég nefni einnig þessa jarðvísindamenn, sem hafa starfað eða eru starfandi á Reykjanesi.

Magnús Á. Sigurgeirsson 

Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur

Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðingur

Sigmundur Einarsson

Ragnar Stefánsson

Eftir lauslega könnun virðist svo að Almannavarnir hafi ekki leitað til þessara reyndu manna varðandi umbrotin á Reykjanesi. 

  Það er víst viss tegund af íslenskri minnimáttarkennd að útlendingar viti alltaf betur en heimamenn.  Það er rétt í vissum tilfellum, vegna þess að þjóðin er lítil, en í jarðvísindum er það alls ekki svo.  Á landinu búa allir þeir sem eru sérfræðingar á öllum hliðum jarðvísinda á Reykjanesi. En yfirvöld hafa sniðgengið þá kunnáttu.

 

Etna_eruzione_1669_plataniaEn snúum okkur nú aftur að Ítölum. Það verður ekki af þeim skafið, að ítalir voru fyrstir manna til að gera tilraun til að breyta rennsli hrauns.  Það gerðist árið 1669, þegar  Etna á Sikiley gaus miklu hraungosi (sjá mynd).  Hraunið var úfið apalhraun sem stefndi í átt að borginni Catania á austur strönd Sikileyjar. Það streymdi inn í suður hverfi borgarinnar og braut niður húsin. 

Leiðtoginn don Diego Pappalardo safnaði liði. Hans menn klæddust vatnssósa nautahúðum til að verjast hitanum. Þeir gripu járnstangir, skóflur og járnkarla og réðust á jaðar hraunsins, til að reyna að valda rennsli til suðurs. 

Þegar athafnir þeirra virtust bera árangur, þá kom vopnað lið frá næsta bæ (Paterno) og stöðvaði allar frekari aðgerðir.  Úr þessari deilu varð mikið pólitískt mál, og þá varð það bannað með lögum að breyta rennslisstefnu hrauna á Italíu. Sú löggjöf var loks felld niður árið 1983.

 

 


Bloggfærslur 15. desember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband