Órói í jarðskorpunni
27.11.2023 | 00:31
Í dag varð töluverð viðbót á fjölda jarðskjálfta á kerfinu sem kennt er við Svartsengi, og teygir sig niður í Grindavík. Skjálftarnir eru litlir og flestir á 3 til 5 km dýpi. En þetta er breyting, sem er vel þess virði að fylgjast með, t.d. á https://www.vafri.is/quake/. Annars virðist flest nú rólegt á yfirborði, en jarðskjálfti af stærð 3.35 undir Henglinum í gær minnir okkur á að flekamótin eftir endilöngu Reykjanesinu hafa vaknað. Það þarf ekki endilega að þýða eldvirkni, en þessi sjö kerfi sem mynda flekamótin munu halda áfram að skjálfa og rifna. Hvort þau munu gjósa veit enginn. Þessi kerfi eru, frá vestri til austurs, Eldey, Reykjanes, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krísuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fagradalsfjallskerfið er búið að afgreiða sig vel, með þremur hrinum og eldgosum árin 2021, 2022 og 2023. Óvíst er hvort Svartsengi sé lokið af, en hætt er við að hin kerfin eigi eftir að umbyltast, hvert á fætur öðru næstu árin, þar til þessi miklu flekamót á milli Norður Ameríkuflekans og Eurasiuflekans er komin í jafnvægi aftur.
Þótt alt virðist vera í ró í augnablikinu, þá er ýmislegt að gerast undir niðri, sem vert er að fylgjast með. Það eru fyrst og fremst jarðskjálftar og GPS hreyfingar. Þegar berg brotnar og springur í sundur, þá koma alltaf fram skýr merki á jarðskjálftamælum sem mynda P- og S-bylgjur. Þessar bylgjur eru skarpar á línuritum jarðskjálftamæla og endast stutt, en berast mjög hratt í gegnum bergið, eða um 5 km á sekúndu. En það er önnur tegund af bylgjum, sem kemur fram á jarðskjálftamælum, sem nefnist órói. Oft er rætt um að kvikuhreyfingar í eða undir skorpunni orsaki þennan titring sem kallast órói, og sumir telja að órói geti verið forboði eldgosa. En órói á jarðskjálftamælum getur einnig myndast vegna veðurofsa, brims við ströndina og jafnvel mikillar umferðar.
Rétt sunnan Hagafells er skjálftastöðin Melhóll, sem er um 2 km NA af Grindavík. Fyrri myndin sýnir að óróa gætir nú undir þessari stöð, en það er ekki nýtt, heldur hefur órói eða titringur verið hér síðan 11. nóvember. Órói er í gangi en ekki eldgos ennþá. En hvað sýna jarðskjálftagögnin þegar eldgos skellur á? Seinni myndin sýnir gögn um óróa á jarðskjálftastöðinni faf í grennd við Litla Hrút, rétt austan Fagradalsfjalls. Hinn 11. júlí 2023 hófst eldgos við Litla Hrút kl. 16.40. Það er ljóst á línuritinu (mynd 2) að það eru fimm toppar af óróa tveimur dögum áður og svo rýkur órói upp um klukkutíma fyrir gos. Var hægt að nota slík gögn til að spá fyrir um eldgos? Lesandinn getur sjálf dæmt þar um, en ég held ekki. Það er augljóst að óróinn rýkur upp þegar gýs, en það er ekki grundvöllur fyrir spá um gos. Samt sem áður held ég að það sé mikilvægt að fylgjast með óróa á jarðskjálftamælum, og beita þeim upplýsingum til að tilkynna aðvörun þegar skorpugliðnun á GPS stöðvum og jarðskjálftar benda til að eldstöðin sýni merki um kvikuhreyfingar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)