Krafturinn og Norður Ameríkuflekinn

jarðskjálftar aflÉg byrja hér með merkilega mynd, sem sýnir kraft og tíðni jarðskjálfta á Reykjanesi frá 5. nóvember (lengst til vinstri) til 20. nóvember (lengst til hægri).  Efri kassinn sýnir fjölda skjálfta á dag, en við tökum það strax fram, að skjálftafjöldi er frekar lélegur mælikvarði á kraftinn eða aflið. Neðri kassinn sýnir samanlagðan fjölda jarðskjálfta (rauða línan) sem er kominn nær 3000 alls.  En það er reyndar bláa línan í neðri kassanum, sem skiftir öllu máli fyrir okkur, því hún sýnir  aflið eða kraftinn sem hefur verið leystur úr læðingi í jarðskjálftum undir Nesinu síðustu vikur.  Krafturinn er gefinn í Nm, eða Newton-metrum.  Í heild eru þetta nú  3.3x1016 Nm, sem er jafnt og  33x1015 Joule (femtojule). Þetta kann að virðast stór tala, en til samanburðar er þetta aðeins 0.5% af orkulosun sem varð í Suðurlandsskjálftunum árið 2000.

Ef við lítum á þetta nánar, þá er það áberandi að það eru tvö stór þrep á bláu línunni. Eitt er jarðskjálftinn hinn 9. nóvember, en hitt þrepið, sem er mun stærra, var skjálftinn hinn 11. nóvember. Þann eina dag losnaði úr læðingi um 60 % af allri orku sem hefur komið fram í þessum miklu jarðhræringum. Þann dag var einn jarðskjálftinn nokkuð stór, eða um 5.0. Síðan hefur þetta verið smá gutl í skorpuhreyfingum.  Við verðum því að reyna að skilja hvað gerðist þennan merka dag og við getum notfært okkur GPS mælitækin til þess.

GPS stöðvar sem eru staðsettar á eða nærri norður og vestur strönd Reykjanesskaga eiga að gefa góða mynd af flekahreyfingunni miklu, sem varð hinn 11. nóvember.  Þær eru allar á Norður Ameríkuflekanum.  Krafturinn sem hreyfir þennan mikla jarðskorpufleka er Ridge push - eða hryggjarþrýstingur, sem ég hef bloggað um hér fyrir framan. 

GPS stöðin HAFC   Hafnir færðist skyndilega til vest-norðvesturs (um 6 cm til norðurs og 11 cm til vesturs) hinn 11. nóvember.  Þar varð ekkert sig.  GPS stöðin VOGC Vogar rak 4.5 cm norður og 2 cm vestur hinn 11. nóv.   Hún rís upp 4 cm.  Þessar tvær GPS stöðvar benda til þess að Norður Ameríkuflekinn hafi færst ca. 5 til 10 cm til vest-norðvesturs hinn 11. nóvember. Ef svo er, þá má búast við að hann sé þá búinn að færa sig fyrir næstu tíu árin, því  að langtíma meðal hraði flekans er um 1 cm á ári.  

Ef við færum okkur aðeins fjær norður strönd Reykjanesskaga og nær flekamótunum á miðjum skaganum, þá er flekastefnan svipuð en hreyfingin miklu meiri. Það er vegna þess að hér verður aflögun innan flekans.  GPS stöðin LISK við Litla-Skógfell, rétt norðan Bláa Lónsins, kippist 40 cm til vesturs og um 25 cm til norðurs hinn 11. nóvember, og reis um 25 cm.  Þetta er dæmigerð VNV hreyfing Norður Ameríkuflekans.  Samtímis er það GPS stöðin THOB  Þorbjörn sem kippist um 60 cm til vesturs og um 10 cm til norðurs hinn 11. nóvember, en sígur um 90 cm.  Það er ljóst að skorpuhreyfingar eru stærri nær flekamótunum á miðju Reykjaness, heldur en úti á norður jaðrinum. Ef til vill þýðir það að spenna hefur hlaðist upp í jaðri flekans, sem á eftir að losna úr læðingi.  Síðar fjalla ég um aðrar skorpuhreyfingar á suður og austanverðu Reykjanesi.

 


Bloggfærslur 20. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband