Leyfið fólkinu skoða GPS mælingar frá Reykjanesi
18.11.2023 | 16:22
Árið 1978 settu Bandaríkin á loft 24 gervihnetti, sem sendu út geisla eða merki sem tæki á jörðu gátu tekið við til að ákvarða með nokkuð mikilli nákvæmni staðsetningu tækisins á yfirborði jarðar. Þannig varð GPS til (Global Positioning System). Í fyrstu var GPS Amerískt hernaðarleyndamál, en 1990 kom tækið loks á markaðinn og þá eignaðist ég mitt fyrsta Trimble GPS, til rannsókna í Indónesiu og á hafsbotninum í Austur Indíum. Þetta var stórkostleg bylting. Þú ýtir á takka og færð nokkuð nákvæma lengd og breidd á púnktinum sem þú stendur á. Nákvæmnin er um 30 metrar, en ef þú keyrir tækið stöðugt á sama punkti, þá færð þú nákvæmni upp á cm eða jafnvel mm. Nú er GPS komið í hvers manns vasa, þar sem afbrigði af GPS er inni í flestum símum og oft í bílum.
GPS tæknin var bylting en er alveg tilvalin til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum á Íslandi. Sennilega var GPS fyrst notað til að kanna jarðskorpuhreyfingar á Íslandi árið 1986, þegar Breska konan Gillian Foulger og félagar gerðu fyrst mælingar hér. Loks var net af GPS mælum sett upp árið 1999 og það hefur verið rekið af Veðurstofu Íslands síðan. Það er grundvallaratriði fyrir vísindastarfssemi á Íslandi að halda við GPS kerfinu til að fylgjast með skorpuhreyfingum. Tækjanetið virðist vera í góðu standi, en aðgengi almennings að GPS gögnum er því miður afleitt. Vefsíða Veðurstofunnar fyrir jarðhræringar er fyrst og fremst helguð jarðskjálftavirkni. Ef þú leitar að GPS gögnum, þá rekur þú þig á tíu eða tuttugu ára gömul skilaboð sem bægja þér frá. Þar segir til dæmis. ´Upplýsingar á þessari síðu eru úreltar. Ný síða er í vinnslu og verður vonandi opnuð fljótlega.´ http://hraun.vedur.is/ja/strain/index.html Eða þá þetta: ´Athugið að ekki er ráðlegt að nota gögnin nema í samráði við starfsmenn jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands.´ http://hraun.vedur.is/ja/gps/data.html Eða þetta. ´Athugið að aðgengi að ISGPS gögnum hefur verið takmarkað, sjá tilkynningu og leiðbeiningar um aðgengi.´ http://hraun.vedur.is/ja/gps/data.html. Slík skilaboð hafa verið á vefsíðunni síðan 2008. Af einhverjum sökum er GPS olbogabarn innan Veðurstofunnar.
En bíddu nú við! Ekki örvænta, því að góður borgari og áhugamaður úti í bæ hefur komið upp vefsíðu þar sem gott aðgengi er að bæði jarðskjálftagögnum Veðurstofunnar og einnig GPS mælingum á Íslandi. Þetta er vefsíðan https://vafri.is/quake/ Hreinn Beck kvikmyndaframleiðandi á mikinn heiður skilið fyrir þetta merka framtak. En Veðurstofunni ber skylda til að koma þessum gögnum fram í formi, þar sem þau eru aðgengileg öllum almenningi.
Að lokum set ég hér inn mynd af berggangi, fyrir þá lesendur sem ekki hafa rekist á slík fyrirbæri áður. Lóðrétta dökkbrúna bríkin fyrir framan stafn skútunnar er basalt berggangur í eyju á Scoresbysundi í Austur Grænlandi. Gangurinn er frá þeim tíma þegar heiti reiturinn okkar lág undir Grænlandi, fyrir um 50 milljón árum. Skútan er Hildur frá Húsavík.