Hvað skal nýja eyjan heita?

Skorpuhreyfingarnar á Reykjanesi þessa dagana eru meðal merkustu atburða í jarðsögu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur unnið frábært verk með því að skrá jarðskorpuhreyfingar og dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesinu og koma þeim upplýsingum fram til almennings. Ólíkt fyrri umbrotum á Reykjanesi, sem voru fjærri byggð, þá er miklu meira í húfi í þetta sinn, því skorpuhreyfingarnar og hugsanlegar hreyfingar á hraunkviku og gos geta verið bein ógn við Grindavíkurbæ, virkjunina á Svartsengi og Bláa Lónið. 

Screenshot 2023-11-11 at 6.46.35 AM

 Skorpan sem myndar Reykjanes er að rifna í sundur fyrir augum okkar. Þessar stórbrotnu flekahreyfingar fletta ofan af heita reitnum í möttli jarðar undir Íslandi. Þar er hiti í möttlinum undir sorpunni um 1400oC og þessi svampkenndi möttull er gegnsósa af basaltkviku sem er meir en 1250oC.  Einn sterkasti atburðurinn til þessa varð í gær, þegar löng og mjó röð af jarðskjálftum teiknuðu upp mynd af jarðskorpubroti frá norðaustri til suðvesturs. Fyrstu skjálftarnir voru norðan við, en virknin færðist beint til suðvesturs, beint undir Grindavík og síðan út á haf, eða öllu heldur suður í jarðskorpuna í botni landgrunnsins. 

Einfaldasta túlkunin er sú, að kvikugangur hafi myndast sem klauf jarðskorpuna til suðvesturs, alla leð út á landgrunn. Til allrar hamingju streymdi kvikan innan skorpunnar og hefur ekki enn komið upp á yfirborð. Ef meiri kvika streymir inn í ganginn eru allar líkur á því að hann haldi áfram að vaxa til suðvesturs. Þá er hætt við að gangurinn komi fram á landgrunninu fyrir sunnan höfnina í Grindavík, myndi þar gos á hafsbotni og ef tl vill nýja eldey, ef næg kvika er fyrir hendi.  Þetta gæti þá gerst á 150 til 200 m dýpi, en slíkt gos væri þá af sömu gerð og Surtseyjargos.

Nú er varðskipið Þór statt í Grindavík og upplagt að nýta þau tæki sem þar eru um borð til að kanna hafsbotninn á þessum slóðum.

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband