Flestir halda að heimurinn hafi alltaf verið svona, eins og hann lítur út í dag, og að einu breytingarnar í heiminum séu þegar við spörkum út vissum stjórnmálamönnum og
lyftum öðrum upp í hásæti.
En því fer víðs fjarri: heimurinn var allt öðruvísi fyrir um 4,6 milljörðum ára. Þá var sólkerfið okkar eitt risastórt ský.
Öll líkön af uppruna sólkerfisins byrja með miklu skýi af efni sem snýst af miklum hraða.
Síðan byrjar skýið að þéttast, og smátt og smátt safnast agnir af ryki og dufti, sem mynda fremur laust og brothætt efni. Síðar þéttist það frekar og myndar steina sem safnast saman í plánetur.
Fyrstu hugmyndir um frumskýið komu frá
Emanuel Swedenborg árið 1734 og Immanuel Kant árið 1755, en fyrirbærið er oftast nefnt nebular hypothesis.
Frumstæðustu og jafnframt elstu steinarnir sem við vitum um í sólkerfi okkar eru kolefnisríkir kondrítar (carbonaceous chondrites).
Þessir frumstæðu steinar innilhalda hnöttóttar eða dropalaga kúlur, sem eru nefndar kondrules, en það er dregið af gríska orðinu chondros eða korn.
Kúlurnar voru upphaflega bráðnir dropar í geimnum, sem söfnuðust saman til að mynda fyrstu steinana í sólkerfinu.
Þær eru yfirleitt 1 til 2 millimetrar í þvermál og nálægt því hnöttóttar, eins og fyrsta myndin sýnir.
Það er talið að geimkornin eða kondrules hafi upphaflega verið bráð, sem síðan storknaði í gler eða einskonar tinnu. Síðan hafa steindir vaxið í glerinu og nú eru kondrules samansettar af ýmsum tegundum kristalla, sem eru aðallega ólivín og pýroxen.
Þegar við skerum þessi geimkorn í sundur, og rannsökum þau í smásjá, þá sjást litríkar og fagrar steindir af ólivíni og pyroxen greinilega, eins og á annari myndinni.
Þessir dropar hafa myndast við mjög háan hita, þar sem steindirnar mynda gler fyrir ofan um tvö þúsund stig á Celsíus.
En síðar söfnuðust geimkornin saman og aðrar steindir og smáagnir röðuðu sér umhverfis kornin, til að mynda fyrstu steinana í sólkerfi okkar.
En þessir steinar voru jafn lausir í sér og ullarlagði.
Stærsti kolefnisríki kondrít loftsteinninn sem fallið hefur til jarðar er Allende loftsteinninn, en hann féll árið 1969 í Mexíkó. Hann var upphaflega á stærð við bíl, en brotnaði í mðrg stykki þegar hann kom inn í lofthjúp jarðar. Brotin dreifðust yfir svæði sem er um 50 km á lengd og 8 km á breidd. Nú er búið að safna um 3 tonnum af steinum, og fólk er enn að finna steina af þessum merkilega loftsteini. Hann féll til jarðar í norður hluta Mexíkó, skammt fyrir norðan borgina Durango. Ég var hér á ferð árið árið 1990, en ég og félagar mínir hurfu strax frá svæðinu, þegar fréttist að eiturlyfjasmyglarar færu hér um daglega á leið til Bandaríkjanna, og öll umferð væri stórhættuleg af þeim sökum. Annars hefði ég sennilega fundið stykki af þessum merkilega loftsteini. En fjórða myndi sýnir part af Allende steininum, og takið eftir að það er fullt af litlum kúlum eða geimkornum (kondrules) í honum: elsta efni sólkerfis okkar, um 4,6 milljarðar ára að aldri.