Setbergseldstöðin

 

 Setbergkort copy

Tíminn líður – tíminn flýgur.  Fyrir 54 árum birti ég þetta jarðfræðikort af Setbergs eldstöðinni á Snæfellsnesi.  Það var margt sem dró mig í áttina að Eyrarsveit og Snæfellsnesi á sínum tíma. Einu sinni var ég, sjö ára gamall strákur frá Stykkishólmi, í sveit að Kolgröfum í Eyrarsveit. Þar var þá búskapur með fornu sniði. Til dæmis stundaði bóndinn fráfærur á lömbum og ám.  En aðal aðdráttarafl að þessari fallegu sveit var sú skoðun mín að hér í Eyrarsveit væri að finna rætur af mikilli fornri eldstöð, líkt þeim sem breski jarðfræðingurinn George P.L. Walker og  nemendur hans höfðu rannsakað á Austurlandi.  Á þesum tíma stundaði ég jarðfræðinám í Queen’s University í Belfast í Norður Írlandi, en á sumrum vann ég sem aðstoðarmaður Þorleifs Einarssonar jarðfræðings við Atvinnudeild Háskóla Íslands.   Þorleifur hvatti mig til að rannsaka Setbergseldstöðina á ýmsan máta. Til dæmis lánaði hann mér reiðhjól sitt til að ferðast um sveitina.  Verkefnið var flókið, enda mikill fjöldi bergtegunda og löng jarðsaga sem felst í þessu merkilega svæði.  Loks lauk ég við verkið og setti fram í BSc ritgerð minni á Írlandi árið 1965, sem Vísindafélag Íslands birti síðan árið 1966. Síðar var Setbergseldstöðin uppistaðan í doktorsritgerð minni.  Doktorsritgerðina frá Durham Háskóla árið 1970 er hægt að nálgast hér:

 

http://etheses.dur.ac.uk/9338/1/9338_6269.PDF?UkUDh:CyT=

Við vitum heilmikið um stórar megineldstöðvar á Íslandi vegna rannsókna á virkum eldstöðvum eins og Heklu, Öræfajökli, Öskju ofl.  En fornar og útdauðar megineldstöðvar eins og Setberg gefa okkur aðra mynd, vegna þess að yfirborðsmyndanir hafa verið rofnar á brott af jöklum, og innri gerð eldstövarinnar kemur þá í ljós. Þannig kom í ljós, að undir Setbergseldstöðinni er mikill fjöldi af skálaga, hallandi innskotslögum, sem ég nefndi keilugana eða cone sheets.  Þeir eru bæði úr basalti og líparíti. Keilugangarnir raða sér í hring umhverfis eldstöðina, eins og kortið sýnir,  og eru megin þáttur í eldvirkni hér á sínum tíma.  

Jóhann Helgason, jarðfræðingur hjá Landmælingum Íslands  hefur nú teiknað jarðfræðikortið  af Setbergseldstöðinni upp á nýtt og við birtum það hér með.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband