Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Santorini og Atlantis á BBC TV

BBC TVÉg tók þátt í gerð heimildarmyndar fyrir sjónvarp um stórgosið á Santorini eyju í Eyjahafi á bronzöld, og uppruna þjóðsagnarinnar um meginlandið horfna, Atlantis.  Leikna útgáfan af myndinni ber nafnið Atlantis - End of a World. Birth of a Legend.  Myndin verður endursýnd næsta sunnudag 8. maí kl. 21 á BBC One.  Einnig verður heimildamynd okkar um Atlantis: The Evindence, sýnd 9. maí, mánudag, kl. 19 á BBC Two. Ég er staddur á Santorini þegar þetta er ritað.


Geimkorn eða Chondrules eru elstu steinarnir í sólkerfinu

1.chondruleFlestir halda að heimurinn hafi alltaf verið svona, eins og hann lítur út í dag, og að einu breytingarnar í heiminum séu þegar við spörkum út vissum stjórnmálamönnum og  lyftum öðrum upp í hásæti.  En því fer víðs fjarri: heimurinn var allt öðruvísi fyrir um 4,6 milljörðum ára. Þá var sólkerfið okkar eitt risastórt ský.  Öll líkön af uppruna sólkerfisins byrja með miklu skýi af efni sem snýst af miklum hraða.  2.chondruleSíðan byrjar skýið að þéttast, og smátt og smátt safnast agnir af ryki og dufti, sem mynda fremur laust og brothætt efni. Síðar þéttist það frekar og myndar steina sem safnast saman í plánetur.  Fyrstu hugmyndir um frumskýið komu frá  Emanuel Swedenborg árið 1734 og Immanuel Kant árið 1755, en fyrirbærið er oftast nefnt nebular hypothesis.  Frumstæðustu og jafnframt elstu steinarnir sem við vitum um í sólkerfi okkar eru kolefnisríkir kondrítar (carbonaceous chondrites).  3.AllendeÞessir frumstæðu steinar innilhalda hnöttóttar eða dropalaga kúlur, sem eru nefndar kondrules, en það er dregið af gríska orðinu chondros eða korn.  Kúlurnar voru upphaflega bráðnir dropar í geimnum, sem söfnuðust saman til að mynda fyrstu steinana í sólkerfinu.  Þær eru yfirleitt 1 til 2 millimetrar í þvermál og nálægt því hnöttóttar, eins og fyrsta myndin sýnir.  Það er talið að geimkornin eða kondrules hafi upphaflega verið bráð, sem síðan storknaði í gler eða einskonar tinnu. Síðan hafa steindir vaxið í glerinu og nú eru kondrules samansettar af ýmsum tegundum kristalla, sem eru aðallega ólivín og pýroxen.   Þegar við skerum þessi geimkorn í sundur, og rannsökum þau í smásjá, þá sjást litríkar og fagrar steindir af ólivíni og pyroxen greinilega, eins og á annari myndinni.  Þessir dropar hafa myndast við mjög háan hita, þar sem steindirnar mynda gler fyrir ofan um tvö þúsund stig á Celsíus.  En síðar söfnuðust geimkornin saman og aðrar steindir og smáagnir röðuðu sér umhverfis kornin, til að mynda fyrstu steinana í sólkerfi okkar.  En þessir steinar voru jafn lausir í sér og ullarlagði. 

4.AllendeLoftsteinnStærsti kolefnisríki kondrít loftsteinninn sem fallið hefur til jarðar er Allende loftsteinninn, en hann féll árið 1969 í Mexíkó. Hann var upphaflega á stærð við bíl, en brotnaði í mðrg stykki þegar hann kom inn í lofthjúp jarðar.  Brotin dreifðust yfir svæði sem er um 50 km á lengd og 8 km á breidd. Nú er búið að safna um 3 tonnum af steinum, og fólk er enn að finna steina af þessum merkilega loftsteini. Hann féll til jarðar í norður hluta Mexíkó, skammt fyrir norðan borgina Durango.  Ég var hér á ferð árið árið 1990, en ég og félagar mínir hurfu strax frá svæðinu, þegar fréttist að eiturlyfjasmyglarar færu hér um daglega á leið til Bandaríkjanna, og öll umferð væri stórhættuleg af þeim sökum.  Annars hefði ég sennilega fundið stykki af þessum merkilega loftsteini.  En fjórða myndi sýnir part af Allende steininum, og takið eftir að það er fullt af litlum kúlum eða geimkornum (kondrules) í honum: elsta efni sólkerfis okkar, um 4,6 milljarðar ára að aldri.  


Segulskautið er á fleygiferð

1.bildudalurÞeir sem fljúga mikið milli landa hafa eflaust tekið eftir því að allar flugbrautir eru merktar með númerum.  Númerin eru í röðinni 1 til 36.  Á Reykjavíkurflugvelli eru brautirnar til dæmis 01, 06 og 13.  Hinn endinn á þessum brautum er hins vegar merktur 19, 24 og 31.  Brautir á flugvöllum eru merktar með segulstefnu þeirra. Þannig er stefnan á braut 01 tíu gráður frá stefnu á norður segulskaut jarðar eða segulpólinn. Í Reykjavík er frávik segulnálarinnar frá norðurpólnum í dag um 16 til vesturs, og segulstefnan er því töluvert önnur en landfræðileg stefna.  Þetta frávik hefur verið kallað segulskekkja, en það er auðvitað rang: það eru engar skekkjur í jörðinni, heldur aðeins frávik. Flugmaðurinn er ekkert að velta fyrir sér segulfrávikinu á hverjum stað, heldur horfir hann bara á segulnálina og flugbrautarnúmerið niðri á jörðu.  Myndin fyrir ofan er af flugbrautinni á Bíldudal. Annar endinn, sá sem stefnir í suðvestur, er merktur með tölunni 23, sem er segulstefnan 230, en hinn endinn er merktur  05, sem er 23-18=05, þar sem munurinn á segulstefnu endanna er nákvæmlega 180 gráður.  2.hraði

En norður segulskaut jarðar er á hreyfingu, og fer reyndar nokkuð hratt yfir.  Af þeim sökum varð til dæmis að mála nýtt merki á flugbrautirnar í Tampa í Florída, og merkinu á braut 18 var breytt í 19.  Þið sjáið á myndinni frá Bíldudal að númerin eru nokkuð stór, og það fer mikil málning í þetta.  Segulskautið færist nú um 64 km á ári og stefnir til Síberíu.  Myndin sýnir að hraðinn hefur verið mestur síðustu tíu árin, en hins vegar er suður segulskautið tiltölulega rólegt.  Er þessi mikla hreyfing ef til vill forboði þess að segulskaut jarðar séu að koma að því að pólvendast?  Stefnir í að segulskautin nálgist frekar og renni saman í eitt?  Jarðsagan sýnir okkur að segulskautin pólvendast á nokkur hundruð þúsund ára fresti, og síðasta vending var fyrir um 780 þúsund árum.  Svo er annað: suður og norður segulskautin eru ekki beint á móti hvoru öðru á hnettinum. Hvað er um að vera?

Nú er norður segulskautið á um 85. gráðu breiddar, en suður segulskautið er á 65. gráðu breiddar og hreyfist aðeins um 5 km á ári. Norður segulskautið fór fyrir nokkrum árum á milli Borden og Cosenseyja fyrir norðan Kanada og er nú úti í Íshafinu, eins og þriðja myndin sýnir.

Segulsvið jarðar er myndað af straumum í kjarna jarðar.  Yfirborð kjarnans er á um 2900 km dýpi undir fótum okkar, og  hann er heitur og bráðinn, eða um 5000 gráður á Celsíus.  Allt bendir til þess að kjarninn sé að mestu leyti úr bráðnu járni. Straumar í kjarnanum valda spennu og þar af leiðandi segulsviði.  Breytingar í straumum kjarnans orsaka breytingar á segulsviði jarðar. Rétt er að taka það fram hér, að innri kjarninn, einnig úr járni og einnig mjög heitur, er undir svo miklum þrýstingi að hann er heill, kristallaður.   3.segulskautJarðsgan sýnir okkur að í fyrri tilfellum hefur það tekið um eitt þúsund til tíu þúsund ár fyrir segulsviðið að steypast á koll.  Verða einhverjar hamfarir þegar segulsviðið snýsti við eða steypist um koll?  Segulsviðið hefur ekki aðeins áhrif á jörðina, heldur einnig á næsta nágrenni, einkum jónahvolfið (ionosphere) sem umlykur jörðu og hjálpar til að verja okkur fyrir skaðlegum geimgeislum.  Hrynur jónahvolfið eða kemur gat á jónahvolfið og streyma þá inn skaðlegir geimgeislar þegar segulsviðið steypist?  Ekki er ástæða til að óttast neins ef breytingin er hægfara, og ef eitthvað segulsvið verður ríkjandi allan tíman sem breytingin er í gangi.  En, eins og alltaf, þá er spennandi að fylgjast með stórkostlegum og hraðfara atburðum í okkar lifandi jörðu. 

 


Hvernig leit Ísland út á Ísöldinni?

Ísland á ÍsöldÁrið 2007 töldu Van Vliet-Lanoë og félagar að jökulþekjan hefði verið nokkuð takmörkuð yfir Íslandi þegar Ísöld stóð sem hæst. Líkan þeirra er sýnt sem svörtu svæðin á myndinni.  Ísskjöldurinn er yfir miðju landinu, annar skjöldur á Vestfjörðum og svo smærri jöklar í fjöllum á Snæfellsnesi.  Takið eftir að gráa línan markar landgrunnið í dag, eða 200 metra dýpið.   Árið 2006 lögðu þeir Hubbard og félagar til að jökulþekjan hefði verið miklu utar á landgrunninu, og þeirra Ísaldarjökull er afmarkaður af púnktalínunni á myndinni.  Þetta líkan fyrir útbreiðslu jökulsins verður að telja miklu líklegra, ef dæma skal út frá dreifingu jökulgarða eða mórena á hafsbotni. Það eru þrír jökulgarðar sýndir á myndinni, merktir með feitri svartri línu.  Einn er nokkuð langt undan Breiðafirði, annar út af Húnaflóa og sá þriðji undan Suðurlandi.  Jökulgarðar myndast þar sem skriðjökullinn nemur staðar. Samkvæmt þessu virðist Ísaldarjökullinn hafa náð yfir nær allt landgrunnið.   Olex kort

Nýlega birti norska fyrirtækið Olex ný kort af hafsbotninum, sem má nálgast hér: http://www.olex.no/dybdekart_e.html#isofiler  Kortin eru sérstök og mjög nákvæm, en þau eru byggð að miklu leiti á gögnum sem togarar og aðrir fiskibátar senda inn til Olex.  Næmi kortanna er um 5x5 metrar, sem þýðir að stór rúta eða vörubíll myndi sjást á hafsbotninum á slíku korti.  Íslandskortið frá Olex er sýnt hér til hliðar. Hér koma fjölmörg fyrirbæri fram á hafsbotninum, sem við höfðum ekki hugmynd um áður, og þar á meðal margir jökulgarðar sem sýna fyrri stöðu stóra jökulsins yfir Íslandi á Ísöldinni.  Þessi nýju gögn styrkja mjög þá mynd af Íslandi sem ser sýnd af púnktalínunni í fyrri myndinni hér fyrir ofan.  Ískjöldurinn var svo stór að hann náði út á ystu mörk landgrunnsins víðast hvar. En takið eftir að á Ísöldinni var sjávarstaða miklu lægri en hún er í dag og landgrunnið var því um 100 metrum grynnra en í dag, vegna þess að mikið af vatnsforða hafsins var  geymt í jöklum heimsskautanna.


Kirkjufell og Aldur Grundarfjarðar

1.SigHolmKirkjufell er fjall eitt í Grundarfirði á Snæfellsnesi, 463 m á hæð. Það stendur eistakt í landslaginu og er einnig einstakt fyrir fagurt form sitt, eins og myndin eftir Sig Holm sýnir.  Einnig er jarðfræði þess merkileg.  Talið er að landnámsmenn hafi nefnt fjallið Firðafjall og væri réttast að taka það forna nafn upp aftur.  Þetta er einmit fjallið milli fjarða.  Fyrrum nýlenduherrar vorir, Danir, kölluðu fjallið því lágkúrulega nafni Sukkertoppen, en á þeim tíma var sykur fluttur til landsins í stórum stykkjum sem voru eins og spírur í laginu.   Yfirleitt er Kirkjufell klifið upp suður hlíðina, enda minnstur brattinn hér.  

Talið er að jarðfræðingurinn Helgi Pjéturss hafi klifið Kirkjufell árið 1906, en er upp kom réðst á hann grimmur örn, enda er suður toppur fjallsins nefndur Arnarþúfa.   Ég kleif Kirkjufell sumarið 1967 ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi og tveimur bandarískum jarðfræðingum.  Ferðin er mér mjög eftirminnileg en ekki hef ég hug á að endurtaka hana nú.  Verst þótti mér að klífa upp rennandi blautar og sleipar torfur af grasi og mold,  þar sem fótfesta var lítil, og hengiflug fyrir neðan.  Ekki veit ég fjöldann af dauðsföllum í Kirkjufelli, en alltaf öðru kvoru koma fréttir af mönnum sem hrapa þar niður og bíða ávallt bana.   2.KirkjufellNýlega rakst ég á gamla frétt í Morgunblaðinu frá 21. júní 1945.  “Frá fréttaritara vorum,  Stykkishólmi, miðvikudag:  Það hörmulega slys vildi til í Grundarfirði í fyrra dag, að ungur maður hrapaði í Kirkjufelli og beið bana af.   Maður þessi var Ragnar  Steinþórsson, Bjarnareyjum,  Breiðafirði, 20 ára gamall.  Hann hafði gengið með félaga sínum sér til skemmtunar  upp á Kirkjufell og mun hafa farið svo tæpt á fjallið, að  hann hrapaði. Félagi hans gerði þegar aðvart á næstu bæjum, ennfremur var lækni gert aðvart. Þegar komið var að Ragnari var hann enn með lífsmarki,  en er læknirinn kom var hann  örendur.”  

Jarðlögin sem eru í miðju Kirkjufelli innihalda mikilvægar upplýsingar um jarðfræði á norður hluta Snæfellsnes á jökultíma og þróun í hafninu þar sem nú er Breiðafjörður.  Skammt fyrir norðvestan Kirkjufell er fjallið Stöð, en ég hef áður fjallað um jarðlögin í því fjalli hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1060932/   Einnig bloggaði ég um Búlandshöfða hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1021036/.  Jarðmyndanir í þessum þremur fjöllum eru náskyldar, eins og Helgi Pjéturss benti fyrst á.    Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) menntaskólakennari hélt áfram rannsóknum á norðanverðu Snæfellsnesi árið 1922 og birti grein um þær árið 1929.  Hann benti á að í 140 til 160 metra hæð í fjallinu er lag af völubergi og lagskiftum sandsteini, sem hann taldi skylt setlögum af völubergi og sandsteini í 160 metra hæð í Mýrarhyrnu fyrir sunnan Kirkjufell, í Hyrnudal, og lagi sem er í 130 til 150 metra hæð í Skerðingsstaðafjalli, þar sem hann fann sjávarskeljar af ýmsum tegundum (Saxicava rugosa , Scalaria grønlandica, Balanus).  Hann rakti setlagið enn vestar, í Höfðakotsgil í 150 til 165 metra hæð, en þar er það lagskiftur leirsteinn, sandsteinn og völuberg með sjávarskeljum (Saxicava rugosa).  Enn vestar, rétt áður en leið liggur fyrir Búlandshöfða, fann Guðmundur leirsteins- og völubergslagið með ýmsar sjávarskeljar í 150 til 160 metra hæð (Cardium ciliatum, Astarte borealis, Astarte elliptica, Astarte Banksii, Saxicava  rugosa, Acmæa, Scalaria grønlandica).   Hann áleit þetta lag halda áfram til vesturs í Búlandshöfða.  

Skipan jarðlaga í Kirkjufelli er sýnd í stórum dráttum í annari mynd, sem er af  fróðlegu upplýsingaskilti við þjóðveginn skammt fyrir vestan kaupstaðinn Grundarfjörð.  Neðsta jarðmyndunin er merkt Tertíer hraun og er sýnd dökkblá á myndinni, upp undir um 130 metra hæð.  Þessi fornu hraunlög eru sennilega um 5 til 10 milljón ára að aldri, og tilheyra þeirri fornu blágrýtismyndun sem skapar sökkul Snæfellsness.  Eins og myndin sýnir, þá koma setlög (sýnd græn) ofan á blágrýtismyndunina í um 130 metra hæð og náupp í um 160 metra hæð.  Þetta eru setlögin sem Guðmundur Bárðarson fjallaði um. Hann fann ekki steingervinga eða skeljar í þessum lögum, en ég hef heyrt um að minnsta kosti einn hrúðurkarl sem fundist hefur í því.  Þess vegna er nokkuð víst að þessi setmyndun varð til í sjó eða rétt við sjávarmál. 

En hvað með aldur á setlaginu í Kirkjufelli?  Ameríkanarnir tveir sem ég kleif Kirkjufell með árið 1967, Richard Doell og David Hopkins, voru sérfræðingar í að ákvarða segulsvið jarðar á ýmsum tímum, og greina aldur bergs.  Þeir sýndu fram á að öll jarðlögin fyrir ofan setið í 160 metra hæð eru öfugt segulmögnuð.  Það er að segja: segulstefna þeirra stefnir í þveröfuga átt miðað við núvernadi segulsvið jarðar.  Þetta er sýnt með litlum hvítum hringjum við hlíð jarðlaganna á myndinni fyrir ofan.  Nú er vitað að segulsvið jarðar snérist við fyrir um 700 þúsund árum.  Öll efri jarðlögin í Kirkjufelli eru því eldri en um 700 þúsund ár. 

Efst á Kirkjufelli er um 50 metra þykkt lag af móbergi, sem hefur gosið þegar þykkur ísaldarjökull lá yfir öllu landinu og Breiðafirði.   Þegar ég rakst á móbergið árið 1967 þá vakti það furðu mína hvað það var líkt móberginu sem myndar kolinn á fjallinu Klakki (380 m) austan við Grundarfjörð. Það kom reyndar í ljós að þetta er sama móbergslagið, en upptök þess eru í sívölum gígtappa sem ber nafnið Steinahlíðarhaus, sunnan til í Eyrarfjalli.  Fyrir um einni milljón árum var samfellt landsvæði milli Kirkjufells og Klakks, þegar móbergslagið breiddist út við gos undir jökli. Skömmu síðar rifu skriðjöklar lagið niður og skáru út Grundarfjörð og núverandi landslag umhverfis Kirkjufell.Þegar fjörðurinn var fullmyndaður varð nokkuð stæort eldgos í fjallgarðinum fyrir sunnan Grundafjörð.  Mikið grágrýtishraun rann til norðurs og finnast leifar þess nú í Melrakkaey og í Krossnesi. Sennilega var þetta gos á síðasta hlýskeiði, fyrir um eitt hundrað þúsund árum, en þá var Grundarfjörður fullmyndaður.


Flugslóðir valda hlýnun jarðar

FlugslóðÞegar við lítum upp til himins á björtum degi má oftast sjá hátt í lofti eina eða fleiri flugvélarslóðir eftir þoturnar sem fljúga milli meginlandanna.   Flugsamgöngur hafa töluverð áhrif á andrúmsloftið og lengi hefur leikið grunur á að flugið kunni að hafa áhrif á loftslag á jörðu.  Þoturnar dæla út miklu magni af koltvíoxíði, köfnunarefnissamböndum, vatnsgufu og sóti.  Magnið af koltvíoxíði sem þotan losar á flugi er talið um það bil 100 til 200 grömm á kílómeter á farþega.   Flugslóð eða flugvélarslóð nefnist contrail á ensku, dregið af orðinu condensation, eða þétting.  Það minnir á að slóðin myndast aðallega vegna þettingar á gas útblæstri úr þotuhreyflinum, sem myndar ljósgráa eða hvíta gufu rétt fyrir aftan vélina, eins og fyrsta mynd sýnir.  Þétting í gufu verður á örsmáum sótkornum í útblæstrinum, eða á smáum ískristöllum.  Í upphafi þotualdarinnar var litið á slíkar flugslóðir sem skemmtilegt og saklaust fyrirbæri, en nú eru slóðirnar víða orðnar áberandi hluti af himninum,  sjónmengun og farnar að hafa veruleg áhrif.   Þar sem umferð er mikil mynda flugslóðirnar cirrus eða klósiga ský.  Flugslóðir2004Nýjustu ransóknir sýna að slík ský geta þakið 1 til 2% af himninum yfir Evrópu og Norður Ameríku og allt að 10% yfir mið Evrópu.   Önnur mynd er frá NASA og sýnir hvernig suðaustur hluti Norður Ameríku er þakinn af flugslóðum árið 2004. Nú kemur í ljós, samkvæmt rannsóknum Ulrike Burkhardt og Bernard Kärcher áhrifin á loftslag og hlýnun jarðar frá þessum flugslóðum og skyldum skýjum eru miklu meiri en frá  því koltvíoxíði sem þoturnar dæla frá sér.  Skýin draga í sig langbylgjugeislun sem berst frá jörðinni og orsaka með því óæskilega hlýjun.  Vandinn er þessir örsmáu ískristallar, sem myndast í útblæstrinum og skapa aðstæður fyrir myndun á klósiga skýjum.  Ef til vill verður hægt að hanna þotuhreyfla sem mynda stærri dropa eða kristalla, sem falla hratt til jarðar og mynda ekki ský.  Það er merkileg uppgötvun að átta sig á því að flugslóðirnar hafa meiri áhrif á hlýjun jarðar en útblástur koltvíoxíðs frá þotuhreyflum.  En áhrifin eru ekki beint sambærileg.  Koltvíoxíð varir í loftinu tugi eða hundruðir ára, en flugslóðin og skyld ský hverfa eftir nokkra klukkutíma. 

Hvað klikkaði í Japan?

SpáRaunveruleikiÞað var rétt eftir klukkan 2:46 eftir hádegi að síminn hjá prófessor Kensuke Watanabe í borginni Sendai sendi út neyðarkall. Hann skipaði öllum nemundunum í bekknum að skríða undir borð. Skömmu síðar lögðu þau á flótta út úr byggingunni.  Japan hefur fullkomnasta jarðskjálftakerfi á jörðu, sem kostar um einn milljarð dollara, og er með meir en eitt þúsund jarðskjálftastöðvar.  Upptök skjálftans voru klukkan 2:46:45 en neyðarkallið fór út klukkan 2:46:48.  Það eru tvær tegundir af bylgjum sem myndast í jarðskjálfta. P bylgjan fer hraðar, en S bylgjan fylgir á eftir og veldur mestum usla. S bylgjan fer á um 4 km hraða á sekúndu í gegnum jarðskorpuna.  Nemendur Watanabe höfðu því þar til klukkan 2:47:17 eða 32 sekúndur til að koma sér á öruggari stað.  S bylgjan náði til Tókíó eftir um 90 sekúndur.  Samt sem áður verður að telja að kerfið hafi ekki virkað í Japan í þetta sinn. Í fyrsta lagi var flóðbylgjan miklu hærri en nokkur hafði gert ráð fyrir og flóðgarðar voru að mestu gagnlausir.  Í öðru lagi höfðu jarðskjálftafræðingar áætlað aðeins 30 til 40% hættu á að sigbeltið undan austur strönd norður Japan myndi rifna næstu tíu árin, og 60 til 70% næstu tuttugu árin.  Þetta voru  helstu niðurstöður á jarðskjálftahættukorti sem var gefið út í marz 2009.  Myndin til hliðar sýnir tvö kort af norður hluta Japan. Kortið til vinstri er spá um hreyfingu jarðskorpunnar vegna jarðskjálfta í sigbeltinu.  Hreyfing eða hristingur er að sjálfsögðu mest í grennd við upptökin en minnkar hratt með fjarlægð.  Hreyfingarskalinn er sýndur lengst til hægri, frá 1 til 7.  Kortið til hægri er hreyfingin sem var mæld í kjölfar skjálftans 11. marz.  Hér er notaður sami skalinn og sömu litir til að sýna hreyfinguna. Það er greinilegt að spáin var röng og hreyfing miklu víðtækari og meiri.  En stærstu mistökin voru tengd flóðbylgjuhættunni.  Stærsti varnargarður heims var vígður þvert fyrir Kamaishi flóa árið 2009, eftir framkvæmdir í þrjátíu ár sem kostað hafa um 1,4 milljarðar dollara.  Garðurinn er 20 metrar á þykkt,  nær frá hafsbotni á 63 metra dýpi og stendur 8 metra upp úr sjó.  Almenningur og sérfræðingar  héldu að garðurinn væri svo stór að hann mundi örugglega verja byggðina.  Hann reyndist gagnlaus þegar meir en 20 metra há flóðbylgjan skall á. Þegar Fukushima kjarnorkuverið var reist árið 1965 var gert ráð fyrir að flóðbylgjuhættan væri minni en 6 metrar. Niðurstöður eru þær, að enginn hafði gert ráð fyrir versta tilfelli.  Nú verðum við því miður að endurskoða allar spár um náttúruhamfarir á jörðu og taka sík verstu tilfelli inn í reikninginn.

Náttúruhamfarir í ríkum og fátækum löndum

1.CostsÞað eru tveir heimar hér á jörðu. Í öðrum þeirra er mikil tækni ríkjandi og næg orka fyrir hendi. Í hinum heiminum, sem er miklu fjölmennari, skortir þessi gæði að mestu.  Náttúruhamfarir hafa gjörólík áhrif á þessa tvo heima.  Nú er talið að skaði vegna jarðskjálftans í Japan sé allt að $300 milljarðar, og að 28 þúsund hafi farist í þessu auðuga landi.  Jarðskjálftinn sem átti upptök sín í Indónesíu árið 2004 orsakaði tjón í fátækum löndum umhverfis allt Indlandshaf  (Indónesia, Sri Lanka, Indía, Taíland, Maldiveyjar) sem nemur $14 milljörðum og meir en 226 þúsund fórust. Það er merkilegt að munurinn á manntjóni og skaða er tífaldur á milli þessara landsvæða, en áhrifin víxlast.  Fyrsta myndin er línurit yfir tjón af völdum náttúruhamfa í milljörðum dollara. Tölurnar lengst til hægri sýna hundraðshlutfall tjónsins sem prósent af þjóðarframleiðslu.  T2.Dauði$akið eftir að jarðskjálftinn árið 2004 kemst ekki á blað!  Löndin sem uðru fyrir áhrifum skjálftans voru einfaldlega of fátæk til að komast á blað.  Sama er að segja um skjálftann í Haíti.  Mynd númer tvö sýnir hlutfallið milli manntjóns á lóðrétta ásnum og efnahaglegs tjóns á lárétta ásnum, í milljörðum dollara.  Skjálftinn í Japan í marz er stóri krossinn, en hann er rétt við hliðina á skjálftanum sem reið yfir San Francisco árið 1906 (24 þúsund fórust, og tjón um $500 milljarðar).   Mikið af því tjóni var vegna eldsvoða í borginni.  Munurinn milli dauðsfalla í ríkum og fátækum löndum er beinlínis tengdur húsagerð.  Hús í Japan eru vönduð og  stóðu sig vel,  en í Haíti hrundu hreysin og fókið grófst í rústunum. 

Fyrstu myndir af Merkúr

mercur1Í dag birti NASA fyrstu myndirnar af plánetunni Merkúr, en geimfarið Sendillinn (Messenger) fór á braut umhverfis Merkúr hinn 17. marz.  Nú mun Sendillinn vinna í heilt ár við að mynda, mæla og rannsaka Merkúr vandlega.  Það er tiltölulega lítið vitað um þessa plánetu, meðal annars vegna þess, að maður þarf að horfa næstum beint í sólina til að sjá Merkúr í sjónauka., en hann er plánetan næst sólu.  Við vitum að yfirborðið er þakið gígum eftir árekstra loftsteina og einnig er vitað að Merkúr hefur stóran járnríkan kjarna eins og jörðin, en ólíkt tunglinu.  Járnkjarninn er hlutfallslega miklu stærri en í jörðinni, og heildar eðlisþyngd plánetunnar Merkúr er því einnig óvenju mikil.  messengerSem sagt:  allt öðruvísi heimur en við eigum að venjast.  Yfirborðshitinn sveiflast ótrúlega mikið yfir sólarhringinn, eða  frá −183 °C til 427 °C.   Það er því hugsandi að ís finnist í skugga í botni á sumum gígunum.  Tvær myndir fylgja hér með af Merkúr, önnur tekin fjær en hin nær yfirborði. 

Votlendi er mikilvægt

 1.SkurðgröÁrið 1839 kom daninn Japetus Steenstrup kom til Íslands ásamt aðstoðarmanni sínum Jónasi Hallgrímssyni, til að rannsaka brennisteinsnámur.  Tveimur árum áður hafði Steenstrup gert rannsókn á mýrum í Danmörku, sem er fyrsta vísindalega könnunin á mýrum og votlendi.  Íslendingar þekkja mýrar vel, en lengi vildu þeir fyrst og fremst eyða þeim.  Í mörg ár voru meir en þúsund kílómetrar af skurðum grafnir á ári hverju til að ræsa fram mýrar og eyða votlendi í þágu landbúnaðarstefnu þeirra tíma. Myndin til hliðar sýnir þetta sérstaka tímabil í sögu Íslands, frá stríðslokum og fram undir 1990. 2.MýNú hefur málið snúist við, þar sem komið hefur í ljós að votlendi  um allan heim hefur mjög mikið gildi fyrir bindingu kolefnis.  Einnig er votlendi mikilvægt fyrir miðlun vatns, hringrás næringarefna og verndun á fjölbreytni lands og lífríkis. Þegar ég var strákur í sveit á Snæfellsnesi varð ég að ganga um mýrarnar daglega til að sækja kýrnar til mjalta. Ég var í íslenskum gúmmískóm, eins og allir hinir krakkarnir, en þeir voru gerðir úr leifum af gúmmíslöngum úr bíladekkjum. Gúmmískórnir dugðu nokkuð vel í mýrunum.  Eitt af höfuðverkefnum Auðlindar Náttúrusjóðs er verndun og endurheimt votlendis. Sjá vefsíðu Auðlindar hér:  http://www.audlind.org/votlond/   Mýrar þekja um  þrjár og hálfa milljón ferkílómetra lands á jörðu (3%). Önnur myndin sýnir útbreiðslu mýra á norðurhveli jarðar, þar sem þær eru mikilvægastar, einkum norðan við 45. breiddargráðu.   Dökku svæðin eru mýrarnar sem innihalda mest kolefni.  Mýrar og mórinn undir þeim eru að sjálfsögðu plöntuleifar og þar af leiðandi mikill geymir fyrir kolefni. Binding kolefnis í mýrar á jörðu er talin um 600 gígatonn (Gt er einn milljarður tonna). Það er helmingi meira en allt kolefnið í skógum heims og um 75% af öllu kolefni sem er í andrúmsloftinu (CO2).    Votlendi getur því verið mjög mikilvægur þáttur varðandi loftslagsbreytingar, með því að draga niður koltvíoxíð úr loftinu.  Mýrin safnar kolefni, dregur í sig koltvíoxíð CO2  en gefur frá sér bæði koltvíoxíð og metan CH4.  Það er talið að nettó dragi mýrar í sig koltvíoxíð úr loftinu sem nemur 700 kg á hvern hektar, en það er 150 til 250 milljón tonn af kolefni sem fer á ári úr andrúmsloftinu og niður í mýrina um heim allan.   3.MýÞriðja myndin sýnir hvernig kolefni hefur safnast fyrir í mýrum heims síðan ísöld lauk.  Það er á milli 20 til 100 gígatonn af kolefni sem safnast fyrir í mýrinni á hverju árþúsundi (grænt).  Blái ferillinn sýnir að söfnun kolefnis í mýrar hefur verið milli 20 og 40 grömm á fermeter á ári.  En nú eru mýrar heims víða í mikilli hættu.  Vonandi er ekki of seint að bjarga íslensku mýrunum, en  víða í heimi er hættan meiri.  Einn vandinn er sá, að þegar loftslag hlýnar er hætta á því að mýrar tapi kolefni til andrúmsloftsins í meira mæli og vinni því ekki á móti hlýnun jarðar. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband