Gestablogg frá Árna B. Stefánssyni, augnlækni

Gestablogg frá Árna B. Stefánssyni, augnlækni

Ráðuneytið gefur Veðurstofu Íslands grænt ljós á átta nýja sérfræðinga. Hvað er Veðurstofan að hugsa? Hvað er Norræna Eldfjallastöðin að hugsa. Hvað er Jarðvísindadeild HÍ að hugsa? Hvað bull er þetta? Af hverju taka þessar stofnanir sig ekki saman og/eða Umhverfis og Loftslagsráðuneyti og setja sama fagráð? Sem í sitja þrír, fimm eða sjö einstaklingar með akademískan bakgrunn, reynslu og þekkingu á Reykjanesskaga, reynslu og þekkingu á jarðskjálftum og reynslu og þekkingu af eldgosum, gráðu í stjórnun og ákvarðanatöku?
Það eru engir átta nýir sérfræðingar í því sem nú er að gerast á Reykjanesskaga á lausu. Þeir eru ekki til, ekki svona margir. Sjálfsagt hefur fjöldi ungs jarðvísindafólks hérlendis og erlendis áhuga, en það eru mörg ár í að það fólk verði raunverulegir sérfræðingar.
Í frétt að íbúafundi Grindavíkur 12.10. segir á forsíðu Mbl.
1. Ekki talið óhætt að halda jólin í Grindavík
2. Fyrirvari á eldgosi í nágrenni við Grindavík gæti orðið skammur
3. Veðurstofa Íslands treystir sér ekki til þess að sjá um öflugt eftirlit ásvæðinu að næturlagi.
4. Því er ekki talið óhætt að hleypa fólki inn í bæinn á þessu ári.
Þetta er slík og þvílík steypa að það er hreint ótrúlegt að enginn skuli hafa andmælt.
Það er engin hætta af eldgosi í Grindavík! Sú hætta er bara ekki til staðar. Það var heldur engin hætta á eldgosi þegar bærinn var rýmdur! Hugsanlega NA til á Sundahnúkareininni, eða við Svartsengi, en ekki í Grindavík.
Það var alla tíð skoðun mín að sá hluti íbúa sem þegar var farinn 10.11, hefði farið vegna jarðskjálftanna. Sem vissulega voru með því versta sem fólk hefur upplifað á Reykjanesskaga, enda fókusinn nánast beint undir bænum. Ef eldgos hefði
komið upp, hefði það komið upp norðaustan til á Sundahnúkareininni. Ekki í Grindavík. Það sama á við nú. Komi upp eldgos er nægur tími fyrir Grindvíkinga að forða sér. Það eru jarðskjálftarnir sem eru að ræna fólk svefni, það eru
jarðskjálftarnir sem hafa gert fólk hrætt og rænt það öryggiskennd.

Það er engin ástæða til að ganga frekar á öryggiskennd íbúa Grindavíkur með eilífu hjali og afar illa grunduðu, um yfirvofandi eldgos. Eldgos er ekki yfirvofandi í Grindavík. Sigdalurinn, fleyglaga í þverskurði, er tappi sem kvika kemst ekki upp í gegnum. Jarðskjáftarnir eru yfrið nóg. Íbúar Grindavíkur þurfa hughreystingu, ekk illa grundað eldgosahjal. Vissulega má halda því fram með rökum að hætta sé á eldgosi við Svartsengi, Bláa Lónið og þar austur eða vestur af. Hækkunin í Svartsengi nú, er sjötta hækkunin frá 2021. Af hverju gaus ekki í hinum fimm hækkununum? Það er engin hætta að kvikulinsan sem nú er undir Svartsengi finni sér leið upp í Grindavík. Það er bara útilokað. Hugsanlega gýs á Sundahrnúkareininni. Ef, þá langt norðaustan við bæinn. Spár um eldgos hljóta að byggjast á jarðvísindalegum gögnum, færni til að lesa úr þessum gögnum, færni til að túlka þau, yfirgripsmikilli þekkingu og dómgreind. Það er greinilegt að ekki er nægileg þekking, færni og reynsla til staðar á Veðurstofu Íslands til að lesa og túlka gögnin. Eldgosa- og jarðskjálftaspár byggja á gögnum, ekki trú. Það er þrennt aðfinnsluvert.

1. Það er eins og þeir jarðvísindamenn sem um eldgosin og jarðskjálftana á Reykjanesskaga hafa fjallað þekki ekki almennilega til eldgosa- eða jarðskjálftasögu Reykjanesskskaga. Eldgos og jarðskjálftar eiga sér nánast undantekningalaust uppruna á hálendi skagans. (Búrfell með Hafnarfjarðarhrauni er undantekning 5.5-6000 ára). Hrauntaumar hafa vissulega náð til sjávar. Harðir jarðskjálftar skóku Reykjavík á öldum áður og
rétt fyrir 1930 og 1968. Lítið skemmdist og enginn fórst. Jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga s.l. 4000 ár hafa hvergi nærri verið eins voðalegir atburðir og af er látið
2. Á þeim tæpu þrem árum sem goshrinan hefur staðið, hefur í tíma og ótíma verið talað um hættur. Í upphrópunum. Voði, skelfing. Hætta á að innviðir skemmist, hætta á loftmengun, hætta af jarðskjálftum, hætta af djúpum gjám, hætta á að Suðurstrandavegur fari undir hraun, hætta á að verða fyrir grjóthruni í fjallgöngum, hætta á að Vogar fari undir hraun. Spárnar hafa ekki staðist. Hætturnar eru ekki jafn miklar og af er látið. Fólk er raunverulega farið að trúa því að hætturnar séu skelfilegar og óyfirstíganlegar.
3. Almannavarnir eru meðvirkar. Spila með. Meðvirkni er eitruð
stjórnunaraðferð. Sá meðvirki gerir þann (almenning) sem stjórnað er háðan sér (Almannavörnum) án þess að skilja hvers vegna. Fær hann (Almannavarnir) út úr því heilmikinn auka (sekunder) ávinning. Hinum sem stjórnað er (almenningi) líður vel eða illa undir þeirri stjórn eftir atvikum, yfirleitt frekar ver, eða jafnvel illa.

Það þarf að setja saman ráðgjafanefnd, þriggja, fimm eða sjö einstaklinga, sem hafa næga þekkingu, reynslu og manndóm til að bera, til að taka jafn afdrifaríkar ákvarðanir og raun ber vitni og axla ábyrgðina. Sem um leið hafa nægilega þekkingu, reynslu og manndóm til að breyta ákvörðunum með skömmum
fyrirvara, taka nýjar og axla á þeim ábyrgð. Og persónustyrk og útgeislun til að telja fólki hughvarf. Tveir, fjórir, eða sex nefndarmanna séu jarðvísindamenn. Nefndarformaður sé stjórnmálamaður, eða valinkunnur einstaklingur úr stjórnsýslunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband