Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Holuhraun í hnattrænu samhengi

HoluhraunKvikan, sem hefur komið upp í Holuhrauni til þessa er nú vel yfir einn rúmkílometri að magni. Þetta er því ef til vill stærsta gosið á Íslandi síðan Skaftáreldar geisuðu árið 1783. En hvar er gosið í alþjóðlegu samhengi? Árið 1991 var stórgos í eldfjallinu Pinatubo á Filippseyjum, með um 5 rúmkílómetra af kviku. Nokkrum mánuðum síðar gaus Cerro Hudson í Síle og þá komu upp um tveir rúmkílómetrar. Kilauea á Hawaií hefur gosið stöðugt í meir en þrjátíu ár (síaðn 1983) og upp er komið um 4 rúmkílómetrar í því gosi, sem enn stendur yfir. Síðasta stórgosið var í Puyehue-Cordon Caulle eldfjalli í Síle á Suður Ameriku árið 2011, en þar kom upp um 2 rúmkílómetrar af hrauni og gjósku.  Gosið í Holuhrauni skipar sér nú í hóp með þessum stórgosum á tuttugustu og tuttugu og fyrstu öldinni. Þessar rúmmálstölur vísa allar á magn kvikunnar.


Huang Nubo tókst það ekki, en CNOOC er komin inn, með Eykons hjálp

Árið 2011 munaði litlu að Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo næði fótfestu á 300 Eykon á Drekaferkílómetra eign á Grímsstöðum á Fjöllum. Málið vakti mikla athygli og deilur, en flestir Íslendingar voru hreinlega furðu lostnir á þessum áhuga Kínverja á landssvæði inni á öræfum og við fengum aldrei fulla skýringu á hvað Kínverjar væru eiginlega að fara. Það mun hafa verið skelegg mótstaða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem kom í veg fyrir að svo færi. Nubo er nú horfinn af sjónarsviðinu, en aðrir Kínverskir umboðsmenn eru komnir í stað hans og í þetta sinn hefur þeim tekist að koma sér fyrir í Íslenskri lögsögu, að því er virðist á þess að nokkur taki varla eftir.   Sérleyfi var veitt til olíuleitar á Drekasvæðinu í janúar 2014. Leyfið var veitt til CNOOC Iceland ehf. sem rekstraraðila með 60 % hlut, Eykon Energy ehf., með 15 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut. CNOOC er China National Offshore Oil Corporation, risastórt Kínverskt olíufélag, sem er eigandi margra borpalla og ræður yfir miklu fjármagni. Þeir eru færir um að bora margar borholur, en ein slík getur kostað eins og heil Harpa, eða marga tugi milljarða. Orkuleitarfyrirtækið sem nú er skráð inn á Drekasvæðinu er undir nafninu Eykon Energy, en nú vitum við að Kínverski olíurisinn CNOOC er 60% meirihluta hlutafi í Eykon.   Þannig hafa Kínverjar náð fótfestu án nokkura mótmæla innan Íslenskrar lögsögu. Drekinn er að verða Kínverski Drekinn. Þetta eru tímamót, ekki einungi á Íslandi, heldur á öllum norðurslóðum: fyrsta Kínverska fyrirtækið, sem kemur sér fyrir í þessum heimshluta, þrátt fyrir mótstöðu Kanada, Bandaríkjanna og Rússa. Sennilega er mikilvægara fyrir Kína að komast inn á norðurskautasvæðið, en að finna hér olíu. Það var sennilega alla tíð markmið Nubos, að komast inn, án þess að hafa áhyggjur af hagnaði eða viðskiftalíkani rekstursins. Loksins komast Kínverjar inn á norðurskautasvæðið, í gengum Ísland, þrátt fyrir mótstöðu stórveldanna. Fáir hér á landi virðast gera sér grein fyrir því, að við erum orðinn leppur í refaskák stórveldanna á þennan hátt. Jú, að vísu gætum við fengið einhverjar tekjur af þessum leik, því skattlöggjöf tryggir Íslendingum hluta af tekjum, allt að 50%, EF einhver olía finnst á Drekasvæðinu. En, eins og ég hef áður bloggað um hér fyrir neðan, þá eru vissar jarðfræðilegar aðstæður, sem benda á að mjög litlar líkur séu á olíu undir Drekasvæðinu. Það skiftir Kínverja ekki miklu máli, af því að alþjóðapólítík, ekki gróðasjónarmið, er aðalmarkmið Kínverja á norðurslóðum. Þeir vilja fyrst og fremst koma löppinni í gættina.

En hvað um CNOOC? Þar kemur margt fremur skuggalegt í ljós. Dagblaðið DV birti í júní 2013 umfjöllun um þennan vafasama Kínverska olíurisa árið 2013.  CNOOC hóf fyrir nokkru samvinnu með heróín og opíum baróninum Lo Hsing Han við olíuleit í Burma í fyrirtækinu Goldern Aaron.  Frekari fróðleik um CNOOC, samstarf þess við Lo Hsing Han og viðleitni til að komast inn í Grænland og Ísland má finna á vefsíðu Jichang Lulu hér: http://jichanglulu.tumblr.com/iceland-jan-mayen-cnooc


Ísbjarnastofninn hrynur

ÍsbjarnarslóðirÞeir eru ósköp sætir og feldirnir eru seldir dýrum dómum, en stofn ísbjarna er í mikilli hættu. Þeir eru líka mannætur, ef ekkert betra býðst.  Á hafísnum norður af Alaska (Beauforthaf) hefur stofninn dregist saman um 40% á tíu árum. Það eru húnarnir, sem fara verst út, en stofninn af ísbjörnum á þessu svæði er nú aðeins um 900 dýr.  Ein ástæðan fyrir hruni stofnsins er talin vera að hafísinn er veikur og þunnur, sem gerir selveiðar bjarnanna erfiðar. Hnattræn hlýnun er að eyða hafísnum og ísbjörninn er nú að verða “strandaður” á þurru landi, þar sem hann getur lítið veitt og leitar þá til mannabyggða. Sérfræðingarnir telja að stofninn verði horfinn af Beaufort svæðinu um miðja þessa öld með sama áframhaldi.  Alls munu vera eftir um 25 þúsund ísbirnir í heiminum, allir umhverfis norðurskautið.

Nú dvelja ísbirnir lengur á landi á öllu norðurskautssvæðinu vegna þess hvað hafísinn er veikur. Þess vegna eru árekstrar við fólk í byggð orðnir algengir og þá eru birnirnir tafarlaust skotnir. Ísbirnir eru sérhæfðir í að veiða sel á hafísnum. Þetta sést vel á annari myndinni, sem er gervihnattarmynd af Hudsonflóa í norður Kanada. Lituðu slóðirnar eru eftir ísbirni, sem eru útbúnir með GPS tækjum. Það kemur vel í ljós að þeir eyða nær öllum sínum tíma á hafísnum. Þar eru þeir kóngar í sínu ríki, veiða vel og hafa algjörlega aðlagað sig að þeirri náttúru og ísnum. Nú eru þeir neyddir til að eyða nokkrum hluta ársins á landi vegna þess að ísinn er veikur. Talið er að 700 til 900 bjarndýr séu veidd á ári hverju á norður slóðum. Þessi veiði er að lang mestu leyti vegna eftirspurnar af bjarnfeldum meðal auðmanna í öðrum löndum. Feldur af ísbirni er nú seldur á um $20 til 30 þúsund, eða um tvær til þrjár milljónir króna. Eftirspurn er einkum mikil í Kína og Rússlandi. Í sumar heimsótti ég þorpið Ittoqqortoormiit í mynni Skoresbysunds á austur Grænlandi, en hér hefur lengi verið ein mesta ísbjarnaveiðstöð Grænlands. Hér hafa verið drepnir milli 50 til 100 birnir á ári. Þeir eru aðallega drepnir í febrúar og mars og svo aftur í byrjun vetrar í september og október. Heimamenn kvarta yfir því að birnir séu ágengnir, en lítið eða ekkert er vitað um fjölda bjarna á þessu svæði.

 


Hvað gerist milli gosa?

TkacicÞrátt fyrir alla spennuna í sambandi við gosið í Holuhrauni, þá er reyndar mikilvægast að reyna að skilja hvað gerist undir Bárðarbungu.   Einkum er mikilvægt að skilja þróun mála undir eldstöðinni milli gosa, sem er forvari þess sem koma skal. Strax í upphafi umbrotanna í Bárðarbungu benti ég að grein, sem þau Meredith Nettles og Göran Ekström skrifuðu árið 1998. Þar fjölluðu þau um mjög óvenjulega en stóra jarðskjálfta, sem orðið hafa undir Bárðarbungu frá 1976 til 1996. Skjálftarnir voru af stærðargráðunni 5 eins og skjálftarnir, sem þar verða nú, en það er samt grundavallar munur á þessum skjálftum. Nú eru skjálftarnir skýrðir sem hreyfing á lóðréttu misgengi þegar öskjubotninn sígur niður (“double-couple” eða sniðgengi). Skjálftarnir frá 1976 til 1996 voru hins vegar af allt annari gerð. Þeir eru það sem skjálftafræðingar kalla “highly non-double-couple” skjálftar, með sterkan lóðréttan ás.

Það er nú ekki á færi venjulegs jarðfræðings að skilja allt í sambandi við þessa flóknu skjálfta, en samt sem áður hef ég reynt að rýna í gögnin, því ég held að ef til vill geti fundist hér mikilvægar upplýsingar um, hvað gerist undir Bárðarbungu fyrir gos og milli gosa og þar með hvað mun gerast undir eldstöðinni þegar þessu gosi lýkur. Nettles og Ekström leggja til að skjálftarnir frá 1976 til 1996 hafi orsakast vegna þrýstings uppá við, annað hvort vegna vaxandi kvikuþrýstings eða lóðréttra skorpuhreyfinga á tappa undir kvikuþró.

Í annari grein árið 2009 fjölluðu þau Hrvoje Tkalčić, Íslandsvinurinn Gillian R. Foulger og félagar aftur um þessa sérstöku skjálfta. Þau skýra skjálftana sem afleiðingu á streymi af kviku milli tveggja kvikuhólfa á um 3,5 km dýpi, eða streymi á kviku úr hólfi og inn í sprungu. Hugmynd þeirra af þversniði jarðskorpunnar undir Bárðarbungu fylgir hér með.   Það er ljóst af rannsóknum á þessum stóru skjálftum, að eitthvað verulega óvenjulegt gerist undir Bárðarbungu milli gosa, eða á áratugunum fyrir gos. Eru slíkar kvokuhreyfingar tengdar flæði kviku upp úr möttli og í kvíkuþró undir bungunni? Eru slíkir skjálftar ef til vill tengdir vaxandi þrýstingi í kvikuþrónni og þá einnig ef til vill risi öskjubotnsins? Ef öskjubotninn sígur við minnkandi kvikuþrýsting í eldgosi (eins og nú gerist), þá er líklegt að hann rísi milli gosa vegna vaxandi kvikuþrýstings.


Rennur jökull Bárðarbungu niður í skálina?

Viðbragðstími jöklaHalldór Björnsson hefur stungið uppá hér fyrir neðan að sigið í Bárðarbungu sé ekki að hægja á sér, eins og ég hef haldið fram hér í síðasta bloggi, heldur sé jökullinn að renna inn í sigdældina. Ég sting uppá að sigið sé að hægt á sér, vegna þess að kvikuþrýstingur inni í kvikuþrónni undir öskjunni sé að dvína og þá sígur botn öskjunnar hægar niður. Við skulum líta á þetta og bera hegðun skálarinnar saman við hegðun annara jökla.   Sigið nemur nú um 45 metrum í miðri skálinni. Radíus hennar er um 5 km. Þá er hallinn 1:110, eða um 0,5 gráður. Jöklar bregðast lítt eða ekki við í svo litlum halla. Myndin sem fylgir (frá Haeberli 1995) sýnir halla jökla á Suðurskautinu á móti viðbragðstíma. Lítill halli eins og 0,15 gráður kemst ekki einu sinni á blað hér. Viðbragðstími í minnsta halla (5 gráður) á línuritinu er um hundrað ár. Á þessum rökum er hægt að álykta að sennilega sé lítið eða ekkert rennsli á jöklinum inn í skálina. Þá álykta ég að breytingar á síginu orsakist af breytingum í kvikuhólfinu undir.


Þróun Bárðarbungu og Holuhrauns

Sig BárðarbunguVísindaheimurinn hefur aldrei orðið vitni af slíku fyrirbæri, eins og því sem nú er að gerast undir Bárðarbungu og mælt og skráð það jafn vel. Athygli margra Íslendinga beinist nú mest að Holuhrauni af eðlilegum ástæðum. Nú er hraunið orðið rúmlega 70 ferkílómetrar að flatarmáli, ef til vill um einn rúmkílómeter (það er óvissa um þykkt hraunsins) og slagar því hátt upp í það magn af kviku, sem Surtsey gaus frá 1963 til 1965. Þetta er stórgos.   En gosið sjálft er eiginlega hálfgerð blekking náttúrunnar, því aðal sjónarspilið fyrir vísindin er ekki í Holuhrauni, heldur í eldstöðinni Bárðarbungu. En þar er sjónarspilið hulið augum okkar undir 600 til 800 metra þykkum jökli. Ég held að enginn jarðvísindamaður geti verið í vafa um að sigið, sem mælist á íshellunni á Bárðarbungu er beint tengt gosinu í Holuhrauni. Frá 16. ágúst til 29. september urðum við öll vitni af myndun kvikugangs, sem tengdi Bárðarbungu í suðri við sprungugosið í Holuhrauni um 50 km fyrir norðan. Síðan hefur gosið látlaust í Holuhrauni og Bárðarbunga sigið að sama skapi. Sennilega hefur sigið hafist strax og gangurinn byrjaði að myndast um miðjan ágúst, en nákvæmar mælingar á sigi hefjast hinn 14. september. Þá var sigdældin í jöklinum orðin 22 metra djúp, en síðan hefur sigið numið um 23 metrum í viðbót, eða heildarsig alls um 45 metrar í dag. Sig er nú um 20 cm á dag, en var áður allt að 50 cm á dag og það hefur hægt stöðugt á því.

Ég hef áður bent á hér í bloggi mínu, að sigið í Bárðarbungu fylgir ótrúlega vel kúrfu eða ferli, eins og sýnt er á línurítinu hér fyrir ofan (gögn af vef Veðurstofunnar). Kúrfunni er best lýst sem “polynomial” fylgni með þessa jöfnu: y = -0.0012x2 + 0.4321x. Innbyrðis fylgni kúrfunnar er R² = 0.99946. Þetta er reyndar ótrúlega góð fylgni. Ef allir púnktarnir liggja á kúrfunni, þá væri R² = 1.0000.   Það er mjög óvenjulegt að atburðir í jarðfræðinni fylgi svo vel og reglulega einhverri þróunarlínu. Sennilega gerist það aðeins þegar um mjög stóra atburði er um að ræða, eins og nú þegar botninn á öskju Bárðarbungu sígur reglulega niður í kvikuþróna djúpt undir í jarðskorpunni.   Sennilega er þetta landspilda, sem er um 10 km í þvermál og um 8 km á þykkt, sem sígur, eða meir en 600 rúmkílómetrar af bergi!

Það er athyglisvert að þessi reglulega kúrfa beygir af, þ.e. það hefur verið að draga úr siginu frá upphafi. Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að áætla hvenær sig hættir, sem er sennilega einnig sá tímapúnktur þegar kvika hættir að stryma út úr kvikuhólfinu og gos hættir í Holuhrauni. Ég hef því framlengt kúrfuna á þróunarlínunni, með jöfnunni fyrir ofan, þar til hún verður lárétt, þegar sig hættir. Það gerist eftir um 170 daga frá því að mælingar hófust, hinn 14. september. Kúrfan spáir því um goslok í lok febrúar eða byrjun mars 2015. En það eru margir þættir, sem geta haft áhrif á kvikurennslið þegar dregur úr kraftinum, einkum viðnám í kvikuganginum undir Holuhrauni og fleira. Allir þessir þættir virka í þá átt að goslok yrðu eitthvað fyrr.

Eins og ég benti á í síðasta bloggi, þá er ljóst að virka gossprungan er mjög nærri gígaröðinni, sem gaus í Holuhrauni árið 1797. Gosið í dag virðist vera nokkuð nákvæm endurtekning á gosinu í lok átjándu aldarinnar. Það er hughreystandi og styrkir þá skoðun að sennilega haldi eldvirknin sig við Holuhraun og ólíklegt að nokkur kvika komi upp í Bárðarbungu sjálfri.

Gosið í Holuhrauni er þegar oríð frægt í vísindaheiminum, en það er samt ekki stærsta gosið, sem er í gangi í dag. Kilauea á Hawaii hefur gosið stöðugt síðan 1983 og nú hefur komið upp á yfirborðið alls um 4 km3 af hraunkviku í því gosi, eða um fjórum sinnum meira en í Holuhrauni.


Haraldur á frímerki

frímerkiEnn og einu sinni í viðbót fæ ég fullnægt hégómagirnd minni! Ríkið Mozambique í Afríku hefur gefið út frímerki með mynd minni og eldfjallinu Krakatau í Indónesíu. Þetta er hlut af heilli örk sex frímerkja, sem sýna eldfjöll og eldfjallafræðinga víðs vegar um heiminn. Í fyrstu hélt ég að þetta væri gabb og eitthvað Photoshop grín, en svo virðist ekki vera.


Enn ein ferð í Holuhraun

7 okt radarÞað var afar fróðlegt að koma inn á gosstöðvarnar í Holuhrauni dagana 7. til 10. nóvember. Ég hafði þá ekki séð gígana og hraunið síðan hinn 3. október. Nú var ég á ferð með Grími Björnssyni, ásamt tveim frábærum fjallamönum frá Akureyri, þeim Smára Sigurðssyni og Anton Erni Brynjarssyni. Það var afar þung færð frá Möðrudal og inn að Drekagili í Dyngjufjöllum vegna mikilla snjóa, en breyttir jeppar þeirra Antons og Smára komu okkur á leiðarenda. Það tók til dæmis 7,5 tíma að aka þessa 85 km leið. Færð batnaði mikið þegar við komum á sandana sunnan Vaðöldu og á Flæðurnar í grennd við Holuhrun hið nýja.  Virku gosstöðvarnar eru nú í um 400 metra langri gosrás, sem er allt að 100 metrar á breidd. Fyrsta myndin er radarmynd frá Fjarkönnun ehf, tekin 7. október, sem sýnir gosrásina mjög vel. Þar kemur einnig fram hraunáin, sem streymir út um skarð í norðaustur hluta rásarinnar. Fyrir neðan er nýrri mynd af gosrásinni frá 21. október, tekin úr lofti af Milan Nykodym. Gosrásin er samruni nokkura gíga og videó tekið úr lofti af Jóni Gústafssyni (sjá hér http://vimeo.com/111344670) sýnir vel að uppstreymi kviku er aðallega á fjórum eða fimm stöðum í gosrásinni. Það kraumar í allri gosrásinni, en kvikan skvettist lítið upp og sjaldan upp fyrir gígbrúnirnar. Hraunáin streymir út um skarð til norðausturs og langt út yfir nýja hraunið. Það er mikill hraði á hraunrennsli í ánni, með flúðum og busli og gusur af kviku kastast upp í loft í nokkra metra hæð. Allt bendir til að seigja kvikunnar sé mjög lág, eins og ég hef fjallað um hér áður. Hraunið virðist nú breiðast út aðallega til austur og suðausturs, en tvær tungur eru virkar til norðvesturs og mjakast nú í áttina að þjóðveginum F910, sem fer yfir Flæðurnar. Hraunið er hætt að breiðast út til norðausturs og hefur ekki enn náð mótum Jökulsár og Svartár. Fossinn Skínandi er því ekki í beinni hættu í augnablikinu. En hraunrennsli til suðausturs út í farveg Jökulsár er virkt og myndar mikinn gufumökk, sem rís hátt og sameinast gosmekkinum efra. Við vorum útbúnir gasgrímum og gasmælum, en aldrei skráðu mælar okkar annað en núll, allt í kringum gosstöðvarnar. Uppstreymi var mikið og því enginn gosmökkur nærri jörðu. Gosmökkurinn yfir gosrásinni er áberandi bláleitur eða sannkölluð blámóða, vegna brennisteins tvíoxíðs. Ekki urðum við heldur varir við koldíoxíð.

Nov 2014Við suður enda nýju gígaraðarinnar rákumst við á nýjar sprungur með NNA stefnu. Á þeim er gliðnun um 40 til 80 cm á hvorri. Þær geta því verið hættulegar fyrir bæði gangandi og akandi. Suður endi virku gossprungunnar er fast við gjall og klepragíga, sem eru frá 1797, þegar Holuhraun eldra rann. Þessir eldri gígar eru þaktir snjó á neðri myndinni. Það er því greinilegt að nýja gosið er í sprungu eða yfir gangi, sem er samhliða og mjög nærri sprungunni sem gaus árið 1797. Ferð okkar til byggða gekk mjög vel, enda slóðin nú vel troðin.


Ris í Bárðarbungu?

Síðan á hádegi hefur sigið snúsit við í Bárðarbungu og nú er ris. Eru þetta truflanir eða sveiflur í GPS mælinum, eða er hér breyting í hegðun Bárðarbungu?  Ef til vill krítiskur tími fram undan. Risið virðist vera meir en 1.5 metrar. Ekki er svo að sjá að nein breyting hafi orðið í skjálftavirkni. Ef til vill er þetta aðeins hreyfing í íshellunni, en ekki á botni öskjunnar. Ef til till eru ísflekar að haggast og vagga í öskjunni.

 

OK.  Skyringin er komin: Veðurstofan hækkaði loftnet GPS mælisins um 1,5 metra.  Ekkert að óttast. Engin breyting.Ris


Koldíoxíð frá Bárðarbungu

Uppleysanleiki CO2 í kvikuNýlega var sagt frá því að tveir verðir laganna hefðu átt í erfiðleikum með að anda í grennd við gosstöðvarnar í Holuhrauni. Ég tel líklegast að það hafi verið koldíoxíð gas sem olli því, en ekki brennisteinstvíoxíð. Koldíoxíð er algeng gastegund í eldgosum. Hún er ekki eitrandi, en ef koldíoxíð eða CO2 er fyrir hendi í miklum mæli, þá dregur úr súrefni í loftinu og af því orsakast vandi við öndun og jafnvel köfnun. Þannig fórst einn maður í kjallara sjúkrahússins í Vestmannaeyjum í gosinu árið 1973.

Þetta verkur spurningar um magnið af koldíoxíði, sem berst upp í gosinu í Holuhrauni. Mér er ekki kunnugt um neinar beinar mælingar á því, en við getum samt farið nærri um útlosun á þessu gasi í gosinu til þessa.   Til samanburðar var magnið af CO2 í basalt kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi árið 2010 um 0,15%. Magn af koldíoxíði er nokkuð þekkt í basalt kviku almennt, en uppleysanleiki þess er háður þrýstingi eða dýpi. Fyrsta myndin sýnir uppleysanleika á CO2 í kvikum af ýmsum gerðum við mismunandi þrýsting. Lóðréti ásinn sýnir CO2 í ppm (partur úr milljón), en sá lárétti sýnir þrýsting í kílóbörum. Eitt kílóbar er þrýstingurinn á um 3 km dýpi niðri í jarðskorpunni. Það er viðeigandi að álíta að kvikan undir Bárðarbungu, sem nú kemur upp í Holuhrauni hafi verið á um 8 til 10 km dýpi, samkvæmt dýpi jarðskjálfta. Þá er magn af CO2 í kvikunni um 1500 ppm eða 0,15% af kvikunni. Það er á bilinu milli kvikutegundanna basanít og þóleíit, eins og rauði hringurinn sýnir.

Nú er talið að um einn rúmkílómeter af basalt kviku hafi komið upp í Holuhrauni. Það mun vera um 2,8 gígatonn af kviku (gígatonn er einn milljarður tonna). Ef kvikan inniheldur 0,15% CO2, þá er útlosun af koldíoxíði í gosinu því orðin um 4 milljón tonn (0,004 gígatonn). Hvað er þetta mikið, miðað við útblástur allra eldfjalla á jörðu af CO2 á einu ári? Nú er áætlað að heildarútblástur allra eldfjalla á jörðu sé um 300 milljón tonn á ári (0,3 gígatonn). Gosið í Holuhrauni er því búið að losa meir en eitt prósent af árlegum skammti eldfjallanna.

KoldíoxíðEr þetta mikið magn, í samhengi við útblástur mannkyns af koltvíoxíði vegna bruna á olíu, kolum og jarðgasi? Mannkynið losar um 35 gígatonn af CO2 á hverju ári. Eldfjöllin losa aðeins um eitt prósent af þessu magni á ári hverju, til samanburðar. Þetta er vel þekkt staðreynd, en samt sem áður koma stjórnmálamenn og sumir fjölmiðlar oft fram með alvitlausar staðhæfingar um, að eldgos dæli út miklu meira magni af koldíoxíði en mannkynið. Hvar fær slæikt fólk þessar upplýsingar? Eða eru þær ef til vill einungis heimatilbúnar, til að henta stjórnmálamönnum í hvert sinn?

Seinni myndin sýnir hvernig CO2 hefur vaxið stöðugt (rauða línan) í lofthjúp jarðar, frá 1960 til dagsins í dag. Blái ferillinn sýnir stærstu eldgosin á þessu tímabili, en sýndar eru breytingar á brennisteinstvíoxíði í lofthjúpnum. Er það ekki alveg augljóst, að eldgosin hafa ekki haft nein áhrif á CO2 í lofthjúpnum?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband