Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Hvað gerist þegar heitur reitur fæðist?

plumes.jpgVið höfum engar rannsóknir á þessu sviði, en sennilega berst mikið gas upp á yfirborð jarðar þegar heitir reitir fæðast. Það getur því haft afgerandi áhrif á lífríki og valdið útdauða. Heitir reitir á jörðu eru af ýmsum aldri. Sennilega er íslenski heiti reiturinn elsti virki returinn, en hann er um 250 milljón ára. Hér er fæðingaraldur nokkurra heitra reita: Yellowstone 18 milljón, Samoa 23, Reunion (Deccan) 66, Galapagos 90, Hawaii 87 milljón ár. Við vitum að efni í möttulstróknum sem myndar heita reitinn á yfirborði kemur af miklu dýpi í jörðu. Jarðskjálftabylgjur sýna að heiti reiturinn nær niður fyrir 660 km undir Íslandi og sennilega langleiðina niður af mörkum möttuls og kjarna (2900 km). Sönnun um mikið dýpi möttulstróksins kemur frá mælingum á hlutfalli á ísótópunum af vetni: basalt í heitum reitum hefur óvenju hátt hlutfall af 3He/4He sem bendir á uppruna á miklu dýpi.

Hiti í venjulegum möttulstrók er talinn um 300oC hærri en í möttlinum umhverfis. Myndin sýnir líkan fræðimanna af hegðun möttulstróks í jörðu. Hann rís upp eins og sveppur, sem breiðir úr sér nálægt yfirborði jarðar. Ummál á haus möttulstróksins er talið vera um 200 til 400 km. Möttulstrókurinn er heitur, en þrýstingur í möttlinum er svo mikill, að hann byrjar ekki að bráðna fyrr en nálægt yfirborði jarðar, eða á um 100 km dýpi. Þá verður partbráðnun við um 1300 stig, þannig að bráðin eða kvikan er aðeins um 1 til 3% af möttulstróknum. Þessi bráð er basalt kvika, en ekki er vitað hver efnasamsetning hennar er á því augnabliki þegar möttulstrókurinn kemur fyrst upp á yfirborð, rins og þegar heiti reiturinn fæddist í Síberíu. Það er hægt að færa nokkrar líkur á því að þessi fyrsta basaltkvika sé mjög rík af reikulum efnum, eins og koltvíoxíði, vatnsgufu, brennisteinsgasi og öðrum reikulum efnum.

Það er því líklegt að eldvirkni sé allt önnur og gas-ríkari í upphafi heita reitsins, þegar möttulstrókurinn kemur fyrst upp á yfirborðið, en að gasmagn minnki hratt með tímanum. Nýlegar greiningar á gömlum basalt hraunum Síberíu styrkja þetta. Benjamin A. Black og félagar hafa sýnt fram á að basalt hraunin sem gusu í Síberíu fyrir um 250 milljón árum eru óvenju rík af brennisteini, klór og flúor gasi. Þeir telja að útgösun á hraununum í Síberíu hafi losað um 6300 til 7800 Gt brennisteinsgas, 3400 til 8700 Gt klórgas, og 7100 til 13,600 Gt flúorgas (eitt GT er einn milljarður tonna). Í viðbót verður útlosun af miklu magni af CO2. Ef þetta reynist rétt, þá er hér hugsanlega skýring á útdauðanum á mörkum Perm og Trías í jarðsögunni.


Hvernig tunglið varð til

tungl.jpgTunglið er alltaf þarna, uppi á himninum, okkur til aðdáunar. Það veldur einnig sjávarföllum, sem eru mikilvæg fyrir lífríki jarðar. En hvernig myndaðist tunglið? Flest bendir til þess að tunglið hafi myndast fyrir um 4,5 milljörðum ára vegna áreksturs loftsteins eða lítillar plánetu á jörðina, eða aðeins um 40 milljón árum eftir að jörðin myndaðist. Kenningin er sú, að loftsteinn á stærð við Mars hafi rekist á jörðina og þá hafi kastast mikið magn af efni frá jörðinni, sem myndaði disk af grjóti og ryki umhverfis jörðina. Tunglið myndaðist síðan úr þessum disk. Það eru viss vandamál varðandi þetta líkan, eins og það að jörð og tungl hafa nær nákvæmlega sömu efnasamsetningu og ekkert efni hefur enn fundist, sem gæti verið efni úr stóra loftsteininum.  Getur það verið vegna þess að efni úr loftsteinum og ytri lögum jarðar blönduðust vel saman?  Er tunglið aðallega myndað úr efni frá loftsteininum eða úr efni frá jörðinni? Nú hefur komið í ljós að það er lag á mörkum kjarnans og möttuls jarðar, og Miki Nakajima og félagar hafa stungið uppá að þetta lag séu leifarnar af loftsteininum stóra.

Nú hefur einnig komið í ljós að tunglið hefur hærra magn af kalíum ísótópum (K41) heldur en jörðin. Það er því mælanlegur munur á efnasamsetningu tungls og jarðar. Það bendir til þess að áreksturinn hafi verið mjög kröftugur, og að mikill hluti af möttli jarðar og loftsteinninn hafi blandast í gas skýi umhverfis jörðina. Tunglið myndaðist síðan við kólnun á þessu skýi. Á þessum tíma, skömmu eftir myndun jarðar, var himingeimurinn hættusvæði, vegna mikils fjölda smástirna og loftsteina, sem orsökuðu tíða árekstra fyrstu milljónir ára í sögu jarðar.


Afdrifarík fæðing íslenska heita reitsins

640px-extinction_intensity_svg.jpgHeiti reiturinn sem nú er undir Íslandi spratt fyrst upp á yfirborð jarðar samstundis og mesti útdauði lífríkis varð á jörðu. Er samband þar á milli?  Það eru merk tímamót í jarðsögunni, þegar Perm tímabilinu lýkur og Trías hefst fyrir um 252 milljón árum. Þá dó út skyndilega um 96% af öllu lífi í sjónum og mikill hluti alls lífríkis á landi.   Þessi tímamót eru svo mikilvæg að steingervingafræðingarnir kalla þau Stóra Dauða. Myndin sýnir áhrifin á lífríkið í heild, en lárétti ásinn eru milljónir ára og lóðrétti ásinn er fjöldi tegunda lífríkisins.

Jarðfræðingar eru allir sammála um mikilvægi þessa tímamóta í jarðsögunni en það eru mjög skiftar skoðanir um hvað gerðist til að valda þessum útdauða. Fyst í stað töldu þeir að mikill árekstur loftsteins á jörðu væri orsökin, svipað og útdauðinn mikli á mörkum Krítar og Tertíer fyrir um 65 milljón árum. En enginn stór loftsteinsgígur hefur fundist sem gæti skýrt Perm-Trías útdauðann. Það má þó ef til vill skýra með því að ef til vill hefur sá gígur eyðst eða horfið af yfirborði jarðar niður í sigbelti.

Önnur kenning og vinsælli nú um Stóra Dauða er sú, að stórbrotin eldgos í Síberíu hafi svo mengað haf og loft að lífríki hrundi á jörðu. Fyrir 252 milljón árum hófust eldgos í Síberíu sem mynduðu hraunbreiðu sem hefur sama flatarmál og öll Bandaríkin. Þetta er mesta eldvirkni á jörðu og kemur kvikan upp úr heita reitnum sem nú situr undir Íslandi. Við vitum að eldgos geta valdið hnattrænni kólnun vegna slæðu af brennisteinsefnum, sem umlykja jörðina eftir mjög stór eldgos (Tambora 1815). Sumir fræðimenn vilja einnig halda fram þeirri kenningu að koldíoxíð frá eldgosum geti bætt í gróðurhúsaáhrif lofthjúpsins og valdið hnattrænni hlýnun. Enn ein kenning er að hraunvikan sem barst upp á yfirborðið braust upp í gegnum þykk kolalög, með þeim afleiðingum að mikið magn af metan og koldíoxíð gasi barst út í andrúmsloft jarðar. Það orsakaði þá gróðurhúsaáhrif og hnattræna hlýnun sem aldrei fyrr.

Eins og málin standa, þá vitum við að útdauðinn á Perm-Trías gerist á sama tíma og heiti reiturinn fæðist og Síbería logar öll í heitum hraunum, en hingað til hefur ekki tekist að færa sannanir á samband þar á milli.


Hver hreinsar skítinn í Camp Century?

iceworm.jpgNú þegar Grænlandsjökull bráðnar, þá er hætta á að geislavirk efni, skolp, saur og úrgangur frá heilli borg inni í jöklinum berist út í Atlantshafið. Það getur haft áhrif á sjóinn og lífríkið, alla leið til Íslandsmiða. Árið 1959 reistu Ameríkanar herstöðina Camp Century í norðvestur Grænlandi. Reyndar var herstöðin ekki reist, heldur grafin niður í jökulinn. Hún er staðsett uppi á meginjöklinum, skammt fyrir austan herstöðina Thule. Með mikilli leynd komu Ameríkanar fyrir langdrægum eldflaugum í ísnum undir Camp Century, vopnuðum kjarnorkusprengjum. Sovíetríkin voru auðvitað skotmarkið, ef alvöru stríð brytist út í kalda stríðinu. Samtímis voru langdrægar sprengjuflugvélar með kjarnorkusprengjur staðsettar í flugherstöðinni Thule.

Ameríkanar grófu mörg löng göng í gegnum jökulin, í um 2000 m hæð yfir sjó. Þar komu þeir fyrir Camp Century herstöðinni í þágu verkefnis, sem mikil leynd hvíldi yfir: Project Iceworm. Hvorki Danir né Grænlendingar vissu neitt um markmið Project Iceworm, og sannleikurinn um kjarnvopnaðar eldflaugar kom ekki fram að fullu fyrr en árið 1995, þegar Danska þingið rannsakaði málið.

Kjarnaofn framleiddi tvö megawött af raforku fyrir borgina umdir ísnum. Stöðin var rekin frá 1959 til 1966, en var þá yfirgefin vegna þess að jökullinn var á hreyfingu. Kjarnaofninn var fjarlægður þegar stöðinni var lokað, en geislavirk úrgangsefni, rusl, skólp og skítur eru enn undir ísnum, seð óðast þynnist. Þar á meðal eru um 200 þúsund lítrar af dísel olíu.

Loftslagsfræðingar telja að allur sóðaskapurinn muni koma upp á yfirborðið vegna bráðnunar jökulsins og hnattrænnar hlýnunar, og reikna með að það gerist ekki seinna en árið 2090. Hverjir sjá um hreinsunina? Ameríkanar, Danir, Grænlendingar? Hér þarf ríkisstjórn Íslands að skifta sér af mengunarmálinu fyrir alvöru, því geislavirku úrgangsefnin geta auðveldlega háft áhrif á og umhverfis Ísland.

 

 


Saga Íslenska Heita Reitsins

lawver2002.jpg

Fyrstu ár mín í jarðfræðinni, í kringum 1963, varð ég hugfanginn af því hvað Mið-Atlantshafshryggurinn væri mikilvægur fyrir skilning okkar á jarðfræði Íslands. Á þessum árum reyndu flestir framsæknir ungir jarðfræðingar að finna Íslandi stað í hinum nýju vísindum sem snertu úthafshryggi og landrek. Margir hinna eldri voru þó skeptískir og vildu ekkert af landrekskenningunni heyra lengi vel. En árið 1971 kom Jason Morgan fram með kenninguna um heita reiti og möttulstróka og gerði okkur ljóst að einn slíkur væri staðsettur undir Íslandi. Allt í einu fór athygli okkar að beinast að þessu nýuppgötvaða fyrirbæri og með árunum hefur mikilvægi heita reitsins orðið mun skýrara en vægi úthafshryggsins minnkað að sama skapi. Nú er okkur ljóst að sérstaða Íslands stafar af heita reitnum, sem situr djúpt í möttlinum og framleiðir mikið magn af kviku og heldur landinu vel ofan sjávarborðs.

En heiti reiturinn undir Íslandi á sér langa sögu, sem er um 16 sinnum lengri en öll jarðsaga Íslands. Ég hef aðeins stuttlega fjallað um þessa sögu hér á blogginu í pistlinum   http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1559307/   og bent á tengsl við Síberíu. Nú lagar mig til að skýra frekar frá þróun hugmynda og staðreynda um sögu heita reitsins okkar. Saga vísindanna er mikilvæg og okkur ber skylda til að viðurkenna og minnast þeirra, sem gert hafa fyrstu uppgötvanirnar á hverju sviði. Það er einmitt hlutverk þeirra fræða, sem við nefnum sögu vísindanna. Enn er of snemmt að skrifa þessa sögu varðandi Íslenska heita reitinn, en hér er byrjunin.

Árið 1994 birtu Lawrence A. Lawver   og Dietmar Müller, jarðeðlisfræðingar í Texas, grein sem nefnist “Iceland hotspot track”, eða slóð íslenska heita reitsins. Þeir könnuðu jarðskorpuhreyfingar eða flutning flekanna á norðurhveli jarðar. En ólíkt flekunum, þá hreyfast heitir reitir lítið eða ekkert með árunum, þar sem þeir eru akkeraðir eða fastir djúpt í möttlinum og því óháðir reki flekanna á yfirborði jarðar. Lawver og Müller sýndu fram á að heiti reiturinn, sem er nú undir Íslandi, var undir Kangerlussuaq á Austur Grænlandi fyrir um 40 milljón árum, undir Umanak firði á Vestur Grænlandi fyrir um 60 milljón árum, undir Ellesmere eyju fyrir 100 til 130 milljón árum,   og að fyrir þann tíma hafi heiti reiturinn sennilega myndað Mendeleyev hrygginn og einnig Alpha hryggin í Íshafinu. Lengra ráku þeir ekki sögu heita reitsins í þetta sinn, sem nú er undir Íslandi. Rauðu dílarnir á myndinni sýna ferilinn, sem heiti reiturinn hefur farið eftir á þessum tíma. Tölurnar eru milljónir ára.

Þá kemur að annari grein, sem birtist árið 2002, einnig eftir Lawver og félaga. Þar kanna þeir flekahreyfingar yfir heita reitinn enn fyrr í jarðsögunni og rekja slóðina alla leið til Síberíu fyrir um 250 milljón árum (grænu stjörnurnar á myndinni). Það ég best veit, þá er þetta í fyrsta sinn sem tengslin milli Íslands og Síberíu eru viðruð meðal vísindamanna. Við vitum þá nú um uppruna heita reitsins, sem Ísland situr á í dag. Í síðara bloggi mun ég fjalla um þær miklu hamfarir þegar þessi heiti reitur kom fyrst upp á yfirborðið.


Fyrstu norðurfararnir

untitled_1291704.jpgHvenær komu menn fyrst inn á Norðurheimskautssvæðið? Á Ísöldinni var þetta vægast sagt erfitt svæði til að búa á, kalt, dimmt og erfitt yfirferðar. Það er vitað að menn voru fyrst á ferðinni á Ísöldinni frá Síberíu til Norður Ameríku fyrir um 18 þúsund árum, en nú hefur komið í ljós vitneskja um að maðurinn hafi farið á norðurslóðir miklu fyrr á Ísöldinni, eða fyrir um 45 þúsund árum. Árið 2004 fundust tól úr steini og beini í Uralfjöllum í Rússlandi sem reyndust vera 35 þúsund ára, og einnig hafa fundist nýlega leifar af slátruðum mammútum eða loðfílum frá sama tíma.  En merksti fundurinn til þessa varð árið 2012, þegar 11 ára rússneskur snáði, Zhenya að nafni, rakst á leggi af hálfrosnum loðfíl, sem stóðu út úr árbakkanum við Yenisei flóa í norður Síberíu, um 2000 km fyrir sunnan norðurpólinn. Rannsókn leiddi í ljós að fílnum hafði verið sátrað af mönnum fyrir um 45 þúsund árum. Þetta sýnir að maðurinn hefur snemma aðlagað sig að helkulda Ísaldarinnar í norðri, sennileg með góðum skinnklæðum og vel vopnaður spjótum til að eiga við stór dýr eins og loðfíla.  Loðfílar og önnur mjög stór dýr voru algeng á steppunum við jökulröndina á Ísöld. Maðurinn hefur sótt inn á þetta svæði til að afla sér fæðu frá hinum stóru dýrum, en það þurfti mikið vit og mikla samvinnu margra veiðimanna að ná að drepa slík dýr með fremur frumstæðum spjótum með steinoddi. En þarna úr einu dýri eru komin á matarborðið mörg tonn af kjöti, sem getur haldið lífinu í heilu þorpi í marga mánuði. Á ferðum sínum um Síberíu leitaði maðurinn meðal annars enn austar, þar sem hann komst þurrum fótum frá Síberíu og til Alaska fyrir um 18 þúsund árum og hóf að nema land í Ameríku.


Veðurstofan bregst okkur

gps_1291637.jpg

Veðurstofan heldur úti merkilegri vefsíðu, sem veitir upplýsingar á rauntíma um ýmsa þætti í jarðeðlisfræði Íslands. Það er ef til vill einstakt á jörðu og mjög lofsvert, að almenningur skuli hafa beinan aðgang að jarðskjálftagögnum svo að segja um leið og þau birtast hjá Veðurstofunni. Við sem ekki störfum á Veðurstofunni höfum þannig getað fylgst vel með þróun skjálftavirkni undir eldfjöllum og í brotabeltum landsins á rauntíma. Hinn vel upplýsti og áhugasami Íslendingur getur þannig skoðað og túlkað gögnin um leið og þau berast til járðskjálftafræðinganna. Svona á það að vera, og jarðeðlisfræðigögn eiga að vera jafn aðgengileg og gögn um veður á landinu, einkum ef tekið er tillit til þess að þessum gögnum er safnað fyrir almannafé á ríkisstofnun.  

Auk jarðskjálftagagnanna hefur Veðurstofan einnig safnað tölum um GPS mælingar á landinu. Þær eru ómissnadi fyrir þá, sem vilja að fylgjast með láréttum eða lóðréttum hreyfingum jarðskorpunnar undir okkur og undir eldfjöllunum. Að sumu leyti eru GPS mælingarnar enn mikilvægari en skjálftagögnin, því skorpuhreyfingar eru afgerandi og geta verið mikilvægar til að segja fyrir um kvikuhreyfingar og jafnvel eldgos. Þetta var sérstaklega áberandi í umbrotunum í Bárðarbungu og Holuhrauni nýlega.

En svo gerist það, að í miðjum klíðum, einmitt þegar mest gekk á í Bárðarbungu og Holuhrauni, þá slekkur Veðurstofan á GPS vefnum. Í staðinn koma þessi skilaboð: “Nýr vefur er varðar GPS mælingar er í smíðum.” Síðustu gögni sem eru birt eru nú orðin meir tveggja ára gömul: “Last datapoint 18. Jun 2014”.

Hvers vegna ríkir þessi þögn? Yfirleitt þegar nýr vefur er í smíðum, þá er notast við gamla vefinn þar til daginn sem sá nýi er tilbúinn og þá er engin hætta á að aðgengi af gögnum sé rofið. Svo er ekki há Veðurstofunni. Getur það verið að Veðurstofan sé að dunda við að smíða nýan vef í meir en tvö ár? Getur það verið að Veðurstofan vilji loka aðgengi að þessum GPS gögnum af einhverjum annarlegum ástæðum? Vilja þeir koma í veg fyrir að aðrir vísindamenn hafi gagn af? Það væri sennilega lögbrot fyrir opinbera stofnun sem þessa, enda erfitt að ímynda sér að slíkt hugarfar ríki þar í bæ …. en hver veit?


Sjávarborð hækkar stöðugt

sja_769_varhae.jpgSjávarborð hækkar um heim allan vegna hnattrænnar hlýnunar. Ég er staddur í Newport, Rhode Island, á austur strönd Bandaríkjanna. Hér hafa menn almennt vaxandi áhyggjur af hækkandi sjávarborði, sem veldur vatni í kjallaranum, rofi á ströndinni og flóði yfir suma vegi meðfram sjónum. Þetta er reyndar vandamál, sem allir berjast við á austur strönd Ameríku í dag.   Hér í Newport hækkar sjávarborð að meðaltali um 2,72 mm á ári.

Í Reykjavík hefur sjávarborð einnig hækkað að meðaltali um 3,6 mm á ári frá 1956 til 2007, eins og myndin sýnir. Síðustu ár hefur hækkunin verið meiri, og er um 5,5 mm á ári fyrir tímabilið 1997 til 2007. Ég hef ekki séð nýrri mælingar en við getum fastlega gert ráð fyrir að hækkunin sé ekki minni í dag. Hluti af hækkun sjávarborðs í Reykjavík er þó tektónísk, þ.e. hún stafar af því að jarðskorpan sígur stöðugt undir höfuðborginni, um það bil 2,1 mm á ári.

Það er athyglisvert að hækkun sjávarborðs virðist gerast hraðar nú í Reykjavík en áður. Það sama kemur fram í gögnum frá austur strönd Ameríku og víðar. Hækkunin getur orðið mjög hröð ef ísinn umhverfis Suðurskautið bráðnar. Sumir vísindamenn telja að í náinni framtíð (á 22. öldinni) geti sjávarborð hækkað um jafnvel 30 cm á áratug, þegar ísbreiðan á vestur hluta Suðurskautsins losnar frá meginlandinu og bráðnar í heitari sjó.

Fyrir þremur árum töldu flestir vísindamenn að hækkun sjávar á ströndum Ameríku verði í mesta lagi 30 cm árið 2100 miðað við sjávarborð í dag. En í dag telja margir þeirra að hækkunin geti jafnvel orðið 180 til 210 cm við næstu aldamót. Ef svo fer, þá eru það einhverjar mestu náttúruhamfarir, sem mannkyn hefur orðið fyrir. Milljónir verða að flýja heimili sín og margar borgir með ströndum landsins verða yfirgefnar.  Þrátt fyrir þessar grafalvarlegu niðurstöður vísindanna, þá neita þingmenn Repúblikana í Bandaríkjunum að viðurkenna hnattræna hlýnun, og stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn.  En framundan kunna að vera einhverjir mestu landflutningar, sem mannkynið hefur upplifað, þegar íbúar yfirgefa sökkvandi stórborgirnar og leita inn á hærri landsvæði meginlandanna.


Þegar allt bráðnar

untitled_1291468.jpgSífrerinn í norðri er að bráðna hratt. Sumar afleiðingar þess eru strax ógnvænlegar, eins og losun af miltisbrandi upp úr gömlum gröfum, sem eru nú að þiðna í Síberíu. Aðrar afleiðingar eiga eftir að koma í ljós á næstunni. Sífrerinn eða freðmýrar er miklu umfangsmeiri en flesta grunar, en hann nær yfir um 24% af öllu norðurhveli jarðar. Í sífreranum leynast um 1700 milljarðar tonna af kolefni, sem mun berast út í andrúmsloftið þegar hann bráðnar. Þá berst þetta kolefni út í andrúmsloftið sem CO2 og metan gas, CH4. Bráðnun sífrerans er hægfara þróun, sem mun smátt og smátt valda losun af kolefni, mest metan, út í andrúmsloftið næstu tvær aldirnar. Árið 2300 er talið að sífrerinn hafi gefið frá sér um 400 milljarða af metan út í andrúmsloftið. Til samanburðar er útlosun mannkynsins af kolefni vegna brennslu af kolum og olíu nú um 8 milljarðar tonna á ári. Ef við höldum áfram að brenna kolum og olíu í sama magni og nú, þá bætum við við meir en 2000 milljörðum tonna á sama tíma. Við mengum því enn meir en sífrerinn getur -- nema ef við breytum um hátterni. Sífrerinn er því ekki stóra vandamálið, heldur er maðurinn sjálfur stóra hættan hvað varðar loftslagsbreytingar og hnattræna hlýnun. Þúfurústir og melatíglar eru vitneskja um sífrera og þessi fyrirbæri eru nokkuð algeng á hálendi Íslands.


Kom líf frá Mars?

shergottite.jpgÍ fyrri færslu hér á blogginu hef ég fjallað um elstu lífverur sem fundist hafa á jörðu, en þær eru strómatólítar á Grænlandi, um 3,7 milljarðar ára gamlir. Líf byrjar hér mjög fljótt eftir að jörðin hafði kólnað niður frá því að vera glóandi hnöttur. Þetta vekur upp stóra spurningu: kviknaði líf hér á jörðu, eða barst það til okkar utan úr geimnum? Ef til vill barst það hingað frá næsta nágranna okkar, plánetunni Mars? Fundur á nokkrum sérstökum loftseinum styrkja þá kenningu. Shergottites, Nakhlites og Chassigny eru þrjár tegundir af loftseinum, sem berast til jarðar, en þeir bera allir einkenni þess að koma frá Mars. Til þessa hafa aðeins 132 steinar fundist frá Mars hér á jörðu, og eru þeir dýrmætur fjársjóður um upplýsingar varðandi bergfræði og uppruna rauðu plánetunnar Mars. Þessir loftseinar eru merkileg heimild um það, að ef til vill hefur líf (einfrumungar, gerlar og annað) getað borist með slíkum steinum frá Mars til Jarðar. Myndin sem fylgir er af shergottite loftsteini frá Mars. Þeir hafa efnasamsetningu sem er nálægt blágrýtinu okkar, og hafa sennilega myndast við eldgos fyrrum á Mars. Þeir yngstu eru um 145 milljón ára, en þeir mynduðust þegar mjög stórir loftsteinar rákust á Mars og köstuðu þessum smærri steinum út í geiminn frá Mars. Greiningar á gas tegundum í loftsteinunum sem hafa fundist hingað til sýna að þeir köstuðust frá Mars á ýmsum tímum, fyrir 20, 15, 11, 4.5, 3, 1.3 og 0.7 milljón árum. Það er því alls ekki útilokað að frumstæðar lífverur hafi borist til jarðar á yfirborði loftsteina frá Mars.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband