Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Fornskjálftafræði og Dauðahafsmisgengið

DauðahafsmisgengiðJarðskjálftafræðin byggir fyrst og fremst á upplýsingum sem koma frá jarðskjálftamælum.  Fyrsti nákvæmi jarðskjálftamælirinn var smíðaður af John Milne (1850–1913), sem starfaði lengi í Japan.  Nákvæmar upplýsingar um stærð og staðsetningu jarðskjálfta eru því aðeins til fyrir tuttugustu öldina og það sem af er af tuttugustu og fyrstu öldinni.  Reynslan sýnir, að rúmlega ein öld er allt of stuttur tími til að gefa góða mynd af stærð og dreifingu jarðskjálfta á jörðu.  Jarðvísindamenn hafa því leitað í jarðsöguna til að fá frekari upplýsingar um jarðskjálftavirkni fyrr á tímum, áður en jarðskjálftamælingar hófust.  Það er nefnilega hægt að fá upplýsingar um hvernig jörðin hefur hristst og brotnað áður fyrr, með því að rannsaka gömul jarðlög.  Fornskjálftafræðin (paleoseismology) safnar gögnum um eldri jarðskjálfta með því, að rannsaka ummerki þeirra í setmyndunum og öðrum jarðlögum. Fornminjaskjálftafræðin (archeoseismology) byggir á vísbendingum um forna skjálfta sem fást með því að kanna fornar byggingar og mannvirki.  Við getum tekið Dauðahafssvæðið sem gott dæmi um rannsóknir tengdar báðum greinum þessara nýju aðferða í jarðskjálftafræðum.  Myndin til hliðar er frá Google Earth og sýnir Ísrael og hluta Egyptalands. Litla hafið lengst til vinstri er Galíleuvatn.  Dökka vatnið fyrir miðju er Dauðahafið, en langi og mjói fjörðurinn til hægri er Akabarflói.  Hann skerst inn í landið frá Rauðahafinu. Dauðahafsmisgengið í Vadem Jacob kastalavegg Stóri skaginn sem er fyrir sunnan flóann er Sínaískagi.  Það er augljóst að mikið misgengi í jarðskorpunni tengir Galíleuvatn, Dauðahafið og Akabarflóa, en þetta misgengi er nefnt Dauðahafsmisgengið og er um 600 km á lengd.  Það myndar mörkin milli Arabíuflekans fyrir austan og Sínaíflekans fyrir vestan.  Þetta er vinstra sniðgengi, sem þýðir að jarðskorpan fyrir austan (Arabíuflekinn) færist til vinstri.  Alls hefur Sínaíflekinn færst um 110 km til suðurs á síðustu tuttugu milljón árum.  Nú er hreyfingin um 4 mm á ári að meðaltali, en hreyfikrafturinn er tengdur því að Rauðahafið er að gliðna í sundur.  Árið 1178 byggðu krossfarar frá ríki Franka kastalann Vadum Iacob (Jakobsvað) nétt norðan við Galíleuvatn, þar sem besta vaðið var á ánni Jódan.  Þessir riddarar komu úr Frankaríki því, sem Karlamagnús stofnaði forðum. Þeim var auðvitað ekki ljóst að Dauðahafsmisgengið liggur beint undir miðju kastalans við norður strönd Galíleuvans.  Ekki voru yfirráð krossfaranna lengi hér, því Saladdín konungur múslima tók kastalann ári síðar í mikilli orrustu.  Nú er þetta svæði nefnt Ateret af ísraelum.  Komið hefur í ljós, að misgengið hefur klofið veggi kastalans og fært þá í sundur um 2,1 meter, eins og myndin sýnir.  Undirstöður kastalans eru miklu eldri, eða frá Hellenistiska tímanum, um 400 f.Kr. Þar er hreyfing á misgenginu miklu meiri. Þessar rannsóknir sýna, að árið 1202 varð jarðskjálfti hér, sem var meir en 7 á Richter skalanum, og af sökum hans færðust múrarnir til um 1,6 m beggja vegna við Dauðahafsmisgengið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband