Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Eldgos um heim allan

untitled_1293481.jpgSmithsonian stofnunin í Washington DC hefur lengi fylgst með eldgosum um heim allan og gefið út árlega skýrslur um virkni þeirra. Nú hefur Smithsonian gert þetta efni vel aðgengilegt á vef sínum sem “app”, sem spilar öll eldgos frá 1960 til okkar daga. Appið er hér:   http://volcano.si.axismaps.io/

Þar eru einnig sýndir jarðskjálftar og útlosun brennisteins. Takið eftir að virknin er miklu meiri í sigbeltum á jöðrum meginlandanna heldur en á úthafshryggum. En auðvitað fara flest eldgos á hafsbotni framhjá okkur þar sem engin tækni er enn þróuð til að skrá þau.

 

 

 


Beerenberg og hvalfangarar

whaling.jpgVinur minn hér í Newport rekur gallerí með gömlum listaverkum víðsvegar að úr heiminum. Þar á meðal var þetta málverk eftir Hollendinginn Bonaventura Peeters (1614-1652). Það eru hvalveiðimenn að verki undan ströndum Jan Mayen, en Beerenberg eldfjall gýs ákaft uppi á landi. Myndin er frá um 1640. Hann seldi myndina nýlega til Hvalasafnsins í New Bedford í Massacussets.  Verkið minnir okkur á, að Hollendingar sigldu reglulega á norðurslóðir til hvalveiða og versluðu einnig töluvert við Grænlendinga, löngu áður en Hans Egede sigldi til Grænlands árið 1721. Það er því ekki útilokað að Hollendingar hafi rekist á síðustu Íslendingana á Grænlandi, áður en þeir dóu út í kringum árið 1450. En Hollendingar voru á norðurslóðum aðallega til að veiða norðurhvalinn. Hann er sléttbakur eða grænlandssléttbakur, sem heldur sig við ísröndina og var hér í miklu magni á sautjándu öldinni. Sléttbakurinn er mjög hægfara og því auðvelt að skutla hann. Um 200 Hollendingar voru í vinnu hér í hvalstöðinni á Jan Mayen á sautjándu öldinni. Veiðar Hollendinga lögðust af um 1640, en þá var þessi hvaltegund nær útdauð í norðurhöfum. Hollendingar reistu einnig hvalstöðvar á þessum tíma á Íslandi á Ströndum, á Kóngsey, Strákatanga og Strákey. Nafnið Jan Mayen er hollenskt og var gefið eynni árið 1620, eftir hollenskum skipstjóra. Nafnið Beerenberg er einnig hollenskt, og þýðir björnsfjall, eftir hvítabirninum. Það er virkt eldfjall staðsett á Mið-Atlantshafshryggnum, sem gaus síðast árið 1985.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband