Færsluflokkur: Tindfjallajökull

Tindfjallajökull - Stærsta gosið á Íslandi?

Tindfjallajökull

Ég gekk á Tindfjallajökul í blíðu veðri nú í vikunni og naut mikillar náttúrufegurðar þar.  Þótt Tindfjallajökull sé sennilega eitt óþekktasta og minnst kannaða eldfjallið á Íslandi, þá er það einmitt sú eldstöð sem hefur fætt af sér stærsta gosið sem við vitum um hér á landi. Það voru reyndar ekki jarðfræðiathuganir á landi, heldur rannsóknir á setlögum á hafsbotni suður í Atlantshafi árið 1941 sem gáfu fyrstu vísbendingar um mikið sprengigos á Atlantshafssvæðinu á ísöld. Frekari kannanir sýndu að það má rekja mikla  öskudreif á hafsbotni allt frá svæðinu fyrir norðan Azoreyjar og til Íslands og hlaut hún nafnið Ash Zone-2.  Síðan sýndum við fram á árið 1998 að efnasamseting á gleri eða tinnu í öskunni er sú sama og í gjóskuflóðsmyndun sem finnst í Þórsmörk, en hún er komin úr Tindfjallajökli.  Þá aldursgreindum við bergið í Þórsmörk sem er komið úr Tindfjallajökli og reyndist það vera frá sprengigosi sem varðfyrir um 54 þúsund árum síðan. Askan frá þessu gosi finnst einnig í  Grænlandsjökli, og hefur aldur gossins verið áætlaður um 57þúsund ár samkvæmt því. Við áætlum að heildarmagn gjósku frá þessu gosi, bæði í sjó og á landi, sé ekki innan við 20 km3.  Þegar Tindfjallajökull gaus, þá var Ísland að mestu hulið jöklum. Gjóskan streymdi sem gjóskuflóð yfir jökla og yfir láglendi, á haf út.  Gjóskufall var mikið á hafísinn umhverfis landið. Ísinn rak til vesturs og suðurs, út í Atlantshafið, og bar á yfirborðinu gjóskuna frá Tindfjallajöklis em töluvert öskulag.  Ísinn rak sunnar þar til hann bráðnaði nokkuð fyrir norðan Azoreyjar og askan féll til botns, og blandaðist venjulegu sjávarseti.  Í dag eru mestu vegsummerkin eftir gosið form og lögun Tindfjalla. Eins og sést á myndinni eftir Odd Sigurðsson, er greinileg hringlaga askja í fjallinu, og hefur hún sennilega myndast við þetta stórgos.   Tindfjallajökull er alls ekki dauður í öllum æðum.  Hér varð til dæmis jarðskjálftahrina árið 2000 og sumarið 2001. Jökullinn er um 15 ferkílómetrar og er talinn vera um 50 til 150 m á þykkt, en hann þynnist og minnkar stöðugt.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband