Hvar eru hin eiginlegu flekamót?

Síðan umbrotin miklu hófust á Reykjanesi hinn 9. nóvember 2023, þá hefur jarðskjálftavirkni verið nokkuð dreift yfir Reykjanesið og því erfitt eða ómögulegt að gera sér grein fyrir hvar hin eiginlegu flekamót eru milli Norður Ameríkuflekans fyrir norðan og Evrasíuflekans fyrir sunnan nesið.  Það er mikilvægt að átta sig á því, vegna þess að sennilega streymir kvikan mest upp úr möttlinum á eða alveg í grennd við flekamótin.  ReykjanesSkjálftar

Ég rakst á þessa mynd í dag á vef ISOR.  Hún er merkileg á ýmsan hátt.  Myndin sýnir gögnin fyrir eitt ár (2020) af skjálftum, sem gerðust fyrir umbrotin miklu í nóvember 2023. Myndin sýnir okkur ansi vel hvar flekamótin raunverulega eru, en þau eru á frekar mjóu og vel afmörkuðu svæði, sem er um 4 til 5 km á breidd. Því miður var engin virkni í austur hluta gosbeltisins þetta árið, svo flekamót eru ekki eins vel þekkt þar. 

Flekamótin liggja ekki eftir nesinu miðju, heldur vel fyrir sunnan miðju Reykjaness. Það er merkileg asymmetría eða misskipting milli norður og suður helmings nessins, sitt hvoru megin við skjálftabeltið. Norður helmingurinn virðist stækka meira, sennilega af dyngjuhraunum.  Renna dyngjuhraun sjaldan eða aldrei til suðurs, spyr ég. Eða er það bara miklu meira rof á sunnanverðu nesinu vegna ríkjandi vindáttar og sjávarrofs.  Það þykir mér líklega skýringin. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband