Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Hekla óróleg?

 

 Þenslumæling

Í dag berast fréttir þess efnis, að Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi í Heklu vegna jarðskjálfta á svæðinu.  Að sjálfsögðu verða menn órólegir og velta fyrir sér hvort eldgos sé í nánd. Ekki eru þessi gögn sýnd á vef Veðurstofunnar.  Hins vegar má nálgast gögn varðandi þenslumælingar í bergi í Heklu í dag.  Fyrsta myndin sýnir þau gögn. Þensla í berginu breytist við eldgos, og kann að gefa vísbendingu um yfirvofandi gos. Jón FrímannSamþjöppun bergsins eykst og minnkar samfara hreyfingu kviku í berginu. Ekki er að sjá neina breytingu á þenslu á línuritinu í dag á þessari mynd.

Aðrar upplýsingar má sjá á vefsíðu, sem Jón Frímann heldur úti um jarðskjálftavirkni.  Hann hefur staðsett jarðskjálftamæli nærri Heklu (í Heklubyggð) og er neðri hluti línuritsins fyrir daginn í dag, hinn 26. mars.  Takið eftir að hver lárétt lína sýnir einn klukkutíma. Neðsta línan er síðasta klukkustundin.

Það er greinilega nokkur órói á jarðskjálftamælinum, bæði í gær og í dag, en það er ekki ljóst hvort óróinn er vegna hreyfinga í jarðskorpunni, eða vegna vinda og veðurs. Eins og Jón hefur bent á, þá er þetta hávaðasöm jarðskjálftastöð vegna vinda.  Það var vindur á svæðinu í gær, en minni í morgun, eins og þriðja mynd sýnir. Þetta getur að hluta til skýrt óróann á jarðskjálftamæli Jóns Frímanns.  Fylgjumst með framhaldinu…

Lítill (1,4) en fremur djúpur (11,2 km) jarðskjálfti varð un dir Heklu hinn 21. mars, sem kann aþ benda til kvikuhreyfinga.Vindur

 


Neyðarlegt símtal í hjólhýsi

 

 

ForsetarObama forseti kom því til leiðar í gær að Netanyahu forseti Ísraels hringdi í Erdogan forseta Tyrklands og barst afsökunar á framkomu ísraelshers.  Eins og kunnugt er, þá skutu og drápu ísraelar marga tyrki á skipi í Miðjarðarhafi, sem voru í mótmælaaðgerðum árið 2010.

En það eru sennilega fáir, sem hafa áttað sig á því hvað símtalið var neyðarlegt. Obama bókstaflega neyddi Netanyahu forseta til að hringja úti á flugvelli, á meðan þota Bandaríkjaforseta beið á brautinni í lok heimsóknarinnar.  Obama og Netanyahu fóru inn í hjólhýsi á flugvellinum og þar hringdi Netanyahu til Tyrklands.  Hvað skyldi Obama hafa beðið oft um símtalið, á meðan heimsóknin til Ísrael stóð yfir?

Þessi litla mynd gefur góða hugmynd um þann mikla þrýsting, sem Obama hefur þurft að beita Netanyahu til að fá afsökunina fram.  Þannig reynir hann að halda utan um starfsemi NATO fyrir botni Miðjarðarhafsins.  Hann gafst ekki upp. Vonandi verður hann jafn farsæll í lausn kjarnorkuvopnadeilunnar við Íran.


Grafið enn dýpra eftir gulli

gullmarkaðurinnGullmarkaðurinn hefur verið á uppleið undanfarin ár. Únsan hefur hækkað frá $400 árið 2003 upp í um $1700 í dag, en nú virðist ef til vill toppnum náð, eins og sjá má á fyrstu mynd til hægri.  Samt grafa menn dýpra og dýpra eftir gula málminum. TauTona náman í Suður Afríku er til dæmis komin niður í um 4 km dýpi.  Þar er hitinn í berginu um 58 stig og þeir nota lyftur sem fara á yfir 50 km hraða á klukkustund til að komst niður í vinnuna.

            En gullgröftur veldur ýmsum vandamálum.  Það eru umhverfisáhrifin af gullnámugreftri, sem valda mestum áhyggjum. Það er talið að vinnsla á 10 grömmum af gulli skapi 20 tonn af námurusli. Í Bandaríkjunum eru námufélög talin orsaka mesta mengun allra iðnfyrirtækja.  Skaðlegast í sambandi við gullnámið er samt notkun blásýru, en þessi baneitraði vökvi er notaður til að leysa upp gullið úr berginu.  Blásýra eða vetnissýaníð HCN er baneitrað efni, sem gufar upp við stofuhita og myndar hættulegt gas.  Sýran hefur alvarleg áhrif á allt lífríki í grennd við gullnámurekstur.

            Nú er vaxandi áhugi fyrir því, að vinna gull úr gömlum raftækjum.  Tölvudrasl, ónýtir farsímar og önnur raftæki innihalda  að jafnaði um 250 til 350 grömm af gulli í hverju tonni, eða miklu meira en þau 2 til 5 grömm af gulli í bergi sem nú er unnið í flestum gullnámum.

Gull kemur fyrir á ýmsan hátt í jarðskorpunni. Það er nokkuð algengt að gull finnist í æðum bergs, þar sem skorpuhreyfingar hafa myndað sprungur eða misgengi. gullæðMyndin sýnir sprungu, sem inniheldur kvarts og gull. Slíkar sprungur myndast að sjálfsögðu við jarðskjálfta. Nýlega kom fram sú kenning, að þegar jarðskjálftar gerast, verði mikið þrýstingsfall í slíkum sprungum, jafnvel að þrýstingur minnki um þúsundfallt á broti úr sekúndu í sprungunni.  Vökvi í sprungunni getur verið a´300 til 400 stiga híta, og þegar þrýstingsfallið verður, þá breytist vökvinn skýndilega í annað ástand, jafnvel í gufu.   Við það falla út ýmsar steindir og nýir kristallar myndast úr vökvanum og jafnvel gull fellur út í sprungunni.  

En það þarf meira til að mynda gull en jarðskjálfta. Að sjálfsögðu verður vökvinn að vera ríkur af gulli í upplausn. Gullríkur vökvi er líklegri að myndast í meginlandsskorpu eða jarðslkorpu sigbeltanna, en síður á svæðum þar sem úthafsskorpa ríkir, eins og á Íslandi.

Kanadískt fyrirtæki, Icelandic Gold, hefur leitað gulls í Þormóðsdal í Mosfellssveit. Hér er kerfi af sprungum í berginu, sem eru um 700 metrar á lengd og ná niður um 450 metra á dýpt. Hér var borað árið 1996, alls 1,4 km í níu borholum til að kanna bergið.  Holurnar sýna að eitthvað af gulli finnst í sprungum, sem eru á um 50 metra dýpi.  Bergsýni úr gryfjum sýna að þa er að meðaltali 4,77 grömm af gulli í hverju tonni í berginu.  Þetta er magnið, sem gefið er upp af fjárfestinum sjálfum Icelandic Gold, en ekki 400 grömm, eins og kom fram í einhverjum fjölmiðlum nýlega.  Fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa fé í þessa rannsókn eru Kísiliðjan, Orkustofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknarráð.

 

 


Til athugunar fyrir þá, sem vilja skera niður skatta

 

Það er eitt hneyksli, sem vekur vaxandi eftirtekt í Bandaríkjunum þessa daga.  Veðurspár gefnar út af hinni opinberu veðurstofnun stórþjóðarinnar, NOAA, klikkuðu algjörlega í tveim mikilvægum tilfellum. Það fyrra var fellibylurinn Sandy í lok október 2012. Þegar Sandy fór að mjakast norðar, út úr Karíbahafinu, þá var það ekki NOAA, heldur Evrópuveðurstofan, sem benti á hættuna fyrst, fjórum dögum áður en stormurinn tók land og gerði hér meiri usla en nokkur annar stormur sögunnar.

Sagan endurtók sig hinn 7. febrúar í ár,  þegar stór snjóbylur færði allan norðaustur hluta Bandaríkjanna á kaf í snjó og truflaði umferð, vinnu og viðskifti í marga daga.  Þá voru kanar viðbúnir, því þeir höfðu lesið veðurspána frá Evrópu.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að Evrópuspárnar eru nákvæmari og betri en þær frá NOAA. Veðurstofa Evrópu gerir spár á mun þéttara neti (16 km) og með miklu kröfturgri tölvum en NOAA, sem er með 28 km net. En grundvallarástæðan er niðurskurður á fjármagni til NOAA, eins og allra ríkisstofnana Bandríkjanna í dag.  Nú súpa ameríkanar seyðið af þessum niðurskurði á margan hátt, á meðan þjóðin tapar smátt og smátt stöðu sinni sem ein fremsta þjóð jarðar á sviði vísinda og tækni.  Nú fá margir Bandaríkjamenn sína veðurspá frá Evrópu, í staðin fyrir NOAA.

Þannig fer þegar menn vilja skera stórlega niður skatta. Er þetta stefnan, sem nú blasir við í íslenskum stjórnmálum? Ég vona ekki að svo fari.


Strandsiglingar er svarið

 

 

Það er furðulegt að strandsiglingar hafa lagst niður umhverfis Ísland.  Á meðan spæna stærri og stærri trukkar upp vegum landsins, eins og kom best fram í vetur.  Vegir okkar eru alls ekki byggðir fyrir slíka þungaumferð.Hér eru nokkur dæmi um flutningskostnað í Bandaríkjunum:

Strandsiglingar eru mikilvægar á þrennan hátt. Flutningur með skipum er ódýrari, hann dregur úr vegskemmdum og hann er vistvænni.

Skip flytur eitt tonn af vörum 576 mílur á einu galloni af olíu.

Járnbrautarlest flytur eitt tonn af vörum 413 mílur á einu galloni af olíu.

Vörubíll flytur eitt tonn af olíu aðeins 155 mílur á einu galloni af olíu.

Losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið frá vörubílum er um 172 tonn á milljón tonn mílur af fragt.

Strandsiglingar losa til samanburðar um 16 tonn af koltvíoxíði á milljón tonn mílur af fragt.  

Stærsta mál okkar tíma er hnattræn hlýnun og það ber að stuðla að því á allan hátt að draga úr losun koltvíoxíðs. Vörubíll losar tíu sinnum meira koltvíoxíð út í andrúmsloftið á hvert tonn af vörum heldur en flutningur sama magns með strandsiglingum.

 


Náttúruminjasafn án náttúrufræðinga?

Í dag fór fram athöfn í Perlunni, þar sem stjórnmálamenn tókust í hendur, létu taka myndir af sér fyrir fjölmiðla og ákvörðuðu að hýsa Náttúruminjasafn í algjörlega óviðeigandi húsnæði í Perlunni.  Það er merkilegt með þennan fund, að enginn náttúrufræðingur var viðstaddur.  Það segir sína sögu.  Þetta er ekki verkefni sem er drifið áfram af náttúrufræðingum, heldur vandræðaleg lausn pólítikusa á því, hvað skammarlega hefur verið farið alla tíð með mál náttúruminja á Íslandi.

Hver er hitastigull á Drekasvæðinu?

 

 

Eins og ég hef fjallað um hér fyrir neðan, þá er lykilatriði í myndun og varðveizlu á olíu og gasi í setmyndunum, að hitinn í jarðskorpunni sé ekki of hár.  Ef svo er, þá brotnar olían fljótlega niður og eyðist, breytist í gas sem streymir upp og út á hafsbotninn. Af þessum sökum er ósennilegt að finna olíu á eldfjallasvæði.  Þó er það ekki alveg útilokað. Það finnst til dæmis olía í fornum hraunlögum á Diskóeyju á vestur Grænlandi.

heatflow_1193325.jpgÞað eru til tvennskonar upplýsingar um hitann í setlögum, sem koma að gagni.   Streymi á hita upp úr setögum á botninum hefur verið mælt víða í Norður Atlantshafi. Mælieiningin sem notuð er fyrir hitastreymi er milliwött á fermeter, eða mWm2.  Fyrsta myndin sýnir gögn um mælingar á hitastreymi umhvefis Ísland, en Drekasvæðið er merkt með rauðu strikunum. Íslandssvæðið og gosmyndanir á hryggnum fyrir sunnan og norðan land er að sjálfsögðu heitt svæði, eins og guli liturinn sýnir (með 100 til 150 mWm2).  En meiri parturinn af Drekasvæðinu, innan rauðu línunnar, er sýnt hvítt á myndinni, með lægra histastreymi, um 75 til 100 mWm2.  Aðeins austasta hornið á Dreka er á grænu svæði, frekar kalt, með 50 til 75 mWm2.

Mynd númer tvö sýnir gögn um hitastreymi í seti sem inniheldur olíu víðs vegar í heimshöfunum. Það er greinilegt að gildi milli 20 og 30 mWm2 er algengast í olíuberandi setlögum, en það er töluvert kaldara en jafnvel köldustu svæðin á Dreka. heatflowseds.jpg

Það er til annar og betri mælikvarði á hitann í setinu, en það er hitastigull.  Hann gefur hitann með vaxandi dýpi í jarðskorpunni og fæst aðeins með fremur djúpum bornunum.  Að mér vitanlega eru ekki til slíkar mælingar á Dreka. Á Íslandi hefur verið mældur hitastigull, sem er allt að 200oC á km, en á landgrunninu, utan virka gosbeltisins, eru til nokkur gögn. Til dæmis er hitastigull í 500 m djúpri borholu á Flatey á Skjálfanda um 50 °C/km.   Hitastigull í Vík í Mýrdal er tæpar 50 °C/km og djúp hola í Vestmannaeyjum er með hitastigul milli 50 og 60 °C/km.  Hitastigull í setlögum þar sem olía er unnin er yfirleitt mun lægri en þessar tölur umhverfis Ísland, eða á bilinu 20 til 30oC/km.

Drekasvæðið er á mörkum úthafsskorpu (eldgosamyndun) í austri og hugsanlegrar meginlandsskorpu í vestri.  Sú síðar nefnda er syðri parturinn af Jan Mayen hryggnum, en hann kann að hafa verið hluti af eystra landgrunni Grænlands. Sennilega er hitastigull á Dreka því töluvert hærri en almennt gerist á svæðum þar sem set inniheldur vinnanlegt magn af olíu, en því miður vantar mig alveg beinar tölur um hitastigul í Drekasvæðinu.  Þriðja myndin sýnir þroskun á olíu í jarðlögum, sem hafa hitastigul um 50oC/km, sem kann að vera viðeigandi fyrir Dreka. Þar væri olían aðeins á 1 til 2 km dýpi, sem er mjög óvenjulega grunnt í samanburði við svæði á jörðu, þar sem olía er unnin.  Á svo litlu dýpi í setinu væri hætt við að olía og gas sé þegar rokið upp og út úr setinu, en aðeins frekari rannsóknir munu skera úr um það.
50ockm.jpg

Árið 1974 voru boraðar einu holurnar sem til eru á Drekasvæðinu, sýndar á þriðju myndinni. Það var alþjóða borstofnunin (Ocean Drilling Project) sem boraði þessar holur (Leg 38). Þær eru því miður fremur grunnar, og aðeins ein þeirra (hola 350) er innan Dreka, en hinar í næsta nágrenni (348, 349, 907, 985). Hola númer 350 er um 400 metra djúp og er eina holan innan Dreka. Hún er í Tertíer setlögum, en endar í basalti, sem er um 44 milljón ára gamalt og frá Eósen tíma.   Hola númer 348, rétt vestan við Dreka, fór í gegnum 500 metra þykk setlög frá Tertíer tíma, en endaði í basalt innskotum sem eru um 19 milljón ára gömul. Innskotin hafa troðist inn í set frá Ólígósen (ca. 30 milljónir ára).  Ekki varð olíu vart í þessum borunum, enda var það ekki tilgangur þeirra rannsókna.


Drekasvæðið: hvað er kolvetnið orðið þroskað?

þroskun olíuOlía myndast sennilega í nær öllum tegundum setlaga á hafsbotni. Hvernig hún þróast og hvort olían varðveitist í setinu er háð því, sem jarðfræðingar kalla maturation eða þroskun.  Fyrsta myndin sýnir þroskun í setlögum á vissu svæði, þar sem ákveðinn hitastigull ríkir. Takið eftir að hér er olían aðallega á 2000 til 4000 metra dýpi í setinu. Þar fyrir neðan hverfur eða minnkar olían og gas tekur við dýpra. Við hærri hitastigul hverfur þessi olía og í hennar stað kemur metan gas.

Olían myndast úr lífrænum efnum í setinu á milli 60 og 150 stiga hita.  Þegar hitinn fer yfir um 150 stig, þá breytist olían og þroskast í metan gas.  “Olíuglugginn” er því lítill og þröngur og algjörlega háður hitastigul í jarðlögunum. Kolvetni í jarðlögunum þroskast því með hækkandi hita. Fyrst eru lífrænar leifar  ríkjandi í setinu við lágan hita, en þegar hitinn vex myndast olían í “olíuglugganum” frá 60 til 150 stigum, og með frekari hitun setlaganna brotnar olían niður í metan og önnur gas sambönd.  

Ef hitastigull er hár, þá þroskast olían snemma og breytist hratt í metan gas.  Síðan getur gasið haldist í setinu eða risið uppá við og sloppið út í hafið fyrir ofan hafsbotninn.  Nú eruð þið sjálfsagt að velta því fyrir ykkur, eins og ég, hve hitastigull er hár í setlögum á Drekasvæðinu.  Það er von að þið spyrjið, því hár hitastigull þýðir engin olía og ef til vill eitthvað gas, eða jafnvel ekki einu sinni gas!  Ég hef leitað víða, en mér hefur ekki enn tekist að finna neinar upplýsingar um hitastigul á þessu svæði. Ef til vill hefur hann aldrei verið mældur. 

Það er alþekkt að hitastigull er hár í grennd við gosbelti og nálægt jarðmyndunum sem hafa myndast við eldgos.  Undir Íslandi er til dæmis oft mældur hitastigull sem er um 200oC á km dýpis, en sennilega er hitastigull undir Íslandi víðast hvar um eða yfir 80oC á km. Af þeim sökum er mjög ósennilegt að olía finnist til dæmis í hinni feikna þykku setmyndun, sem fyllir upp Eyjafjarðarál.  Setið hefur sennilega hitnað svo mikið, að öll lífræn efni hafa breyst í metan gas eða kolagas og gufað á brott. Í olíuríku setlögunum undir Norðursjó er hitastigullinn hins vegar aðeins um 30°C/1000 m, sem er kjörið fyrir myndun og verndun olíu í setinu.  Hætt er við að hitastigullinn sé mun hærri á öllum svæðum í grennd við Ísland.  Vonandi fáum við að heyra um mælingar á hitastigul á Drekasvæðinu fljótlega, eða búum við ekki einmitt í þjóðfélagi, þar sem allt er opið og aðgengi greitt að öllum slíkum opinberum skjölum?  Ég vona stranglega að svo sé. 


Olíuleit á norðurslóðum er hættuleg


 

shells-kulluk-drillship-w-008.jpgÍ janúar strandaði olíuborskipið Kulluk nærri Kodíak eyju í Alaska í miklum stormi, eins og myndin sýnir. Skipið er eign Shell olíufélagsins, sem hefur unnið að mikilli könnun á hugsanlegum olíulindum á hafsbotni umhverfis Alaska.   Í kjölfar strandsoins og svipaðra óhappa hefur Shell nú hætt olíuleit á hafsbotni á norðurslóðum í ár en undanfarin ár hefur Shell eytt $5 milljörðum í olíuleit á botni Chukchihafs og Beauforthafs.

Margir hafa bent á að olíuvinnsla á íshafinu er hættuleg og kann að valda miklum vandamálum fyrir allt umhverfið í norðri. Tíðir stormar, hafís og ýmsar erfiðar aðstæður gera líkur á slysum og óhöppum mun líklegri, alveg eins og íslenskir sjómenn þekkja vel. 

 

Skoska olíufélagið Cairn hefur einnig lent í hrakförum í olíuleit við strendur Grænlands.  Cairn er með 11 svæði frátekin hér á hafsbotni, alls um 80 þús ferkílómetrar.  Undan vestur strönd Grænlands hafa þeir borað árið 2011, þar sem dýpi er um 1500 metrar. Hér var borað  frá júlí til nóvember árið 2011 og engin olía hefur fundist enn, hvorki hér né á öðrum svæðum sem Cairn hefur eignað sér.  Kostnaður við borun Cairn er nú yfir $1,2 milljarðar og hafa þeir nú hætt olíukönnun á hafsbotni við Grænland.  Eitt atriði var mikil áhætta vegna borgaríss og hafíss, en einnig veðurfar á þessum slóðum.   Mesti óttinn meðal náttúrunnenda er þó ekki afdrif skipa olíufélaganna, heldur þau gýfurlegu umhverfisáhrif sem geta orðið þegar bormenn missa stjórn á olíubrunni á hafsbotni, eins og gerðist hjá BP í Mexíkóflóa þegar Deepwater Horizon olíupallurinn sprakk árið 2010 og mengaði allar strendur umhverfis.   Það er greinilegt að olíufélög hafa ekki einu sinni góða stjórn á olíulindum sínum á hafsbotni í hitabletinu, hvað þá heldur í íshafinu. Þetta skal einnig haft í huga þegar rætt er um draumóra varðandi Drekasvæðið.  


Markarfljót og Bakkafjara

a_sa_1192790.jpgÞakka marar góðar hugmyndir varðandi Landeyjahöfn.  Set og annar árframburður fellur til botns þegar straumhraði lækkar. Einnig fellur set til hafsbotns þegar dregur úr ölduhæð. Myndin sýnir ölduhæð undan Landeyjahöfn í austan og suðaustan átt. Gula svæðið er þar sem ölduhæð dettur laveg niður vegna skjóls frá vestmannaeyjum. Þetta er svæðið þar sem dregur úr hreyfingu sets og þar sem set fellur á botninn og myndar rif og setlög. Þessi öldugangsskuggi hefur meðal annars myndað og haldið við sandrifinu sem liggur beint fyrir framan Landeyjahöfn.

Það dregur mikið úr straumhraða þar sem Markarfljót  breiðist út yrir áreyrar og mætir hafinu. Staðsetning hafnar á slíkum stað er því sennilega ekki gott ráð.  Vonandi fáum við að heyra frekar um niðurstöður dana varðandi strauma og set á þessu svæði, áður en frekari ´kvarðanir verða teknar um að kasta krónum í sjóinn hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband