Færsluflokkur: Eyjafjallajökull

Vogunarsjóðurinn Elliott og Eyjafjallajökull

ElliottStrax og eldgosið í Eyjafjallajökli hófst fékk ég símtöl frá fyrirtæki í New York sem heitir Elliott Management Corporation.  Þeir vildu fá reglulegar skýrslur frá mér varðandi hegðun gossins og spá um líkur á framvindu mála í Eyjafjallajökli.  Ég kom alveg af fjöllum varðandi þetta fyrirtæki og átti erfitt með að átta mig á hvað væri í gangi.  Áhugamál mín eru vísindin og fróðleikur en ekki viðskiptaheimurinn og ég hafði enga hugmynd um hvers vegna þeir sóttust eftir þessum upplýsingum.  Það er nú loks fjórum árum síðar að ég átta mig á hvað var að gerast.   Elliott er einn stærsti vogunarsjóðurinn eða “hedge fund”  á jörðu (númer 10, með $19 milljarða).  Þetta er einnig sá vogunarsjóður, sem hefur eignast flestar kröfur á fallna íslenska banka.  Kjarninn hefur nýlega fjallað um Elliott og gefið honum nafnið hrægammasjóður.   Kjarninn telur að Elliott sé á bakvið eða jafnvel eigandi af kröfum á stóru þrotabú föllnu íslensku bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.   Auðvitað var það í þeirra hag að fræðast um framvindu mála varðandi náttúruhamfarir á Íslandi á meðan á gosinu stóð. 


Skoðið 60 Minutes á CBS hinn 5. janúar

Sunnudaginn 5. janúar mun birtast í 60 Minutes, fréttaþætti CBS stöðvarinnar í Bandaríkjunum, sjónvarpsefni þar sem Haraldur Sigurðsson kannar Eyjafjallajökul ásamt fréttamanninum Scott Palley.

Kolmónoxíð í eldgosum

EyjafjallajökullKolmónoxíð gas er eitrað.  Það berst sem útblástur úr bifreiðum og öðrum vélum, sem brenna benzíni eða olíu og einnig við bruna á kolum. Kolmónoxíð (CO) var komið í hættulega hátt magn við sumar aðalumferðaæðar í Reykjavík í lok tuttugustu aldar, en þá komu lög og reglugerðir varðandi lögleiðingu hvarfakúta á bíla eftir 1995, og síðan hefur dregið verulega úr kolmónoxíð mengun.  Heilsuverndarmörk á kolmónoxíð eru nú 10 mg/m3.  Hátt magn af kolmónóxíði brýtur niður hemóglóbín blóðsins og veldur dauða.

Kolmónoxíð berst einnig upp á yfirborð jarðar í eldgosum. Það er töluvert magn af bæði CO2 og CO í eldfjallagasi og sennilega er miklu meira af CO en menn gerður sér grein fyrir. Hættulegt CO breytist hratt í tiltölulega meinlaust CO2 í andrúmsloftinu við oxun.

Nú hefur CO í eldgosum verið mælt í fyrsta sinn úr gervihnetti. Það gerðu Martínez-Alonso og félagar í sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum árið 2011.  Þeir beittu Terra gervihnettinum frá NASA við þessar mælingar.   Kolmónoxíð Eyjafjallaj.

Fyrsta myndin sýnir dreifina af ösku og gasi sem barst suður frá Íslandi í gosinu í Eyjafjallajökli hinn 11. maí 2010.  Gosmökkurinn er greinilegt brúnt strik, sem stefnir til suðurs.  Önnur myndin sýnir hins vegar mælingar á kolmónoxíði  frá gervihnetti hinn 19. apríl 2010.   Gulu og rauðu svæðin eru hæstu gildin af CO í mekkinum.  Enda þótt kolmónoxíð sé sjáanlegt og mælanlegt í gosmekkinum, þá er það samt langt undir hættumörkum.  En niðurstöðurnar sýna hvernig tæknin er að valda stórkostlegri byltingu í eftirliti með eldgosum og áhrifum þeirra.


Haraldur á CBS News

CBS NewsÍ dag sýndi CBS News sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum myndefni sem ég vann að ásamt Scott Pelley. Hann fór með mér ða Eyjafjallajökul á meðan á gosinu stóð í fyrra. Meiningin var að sýna efnið á þættinum 60 Minutes, en nú er Scott fluttur milli deilda og styrir kvöldfréttum CBS. Hér má sjá myndefnið með okkur Scott: http://www.youtube.com/watch?v=xz99nuPURXA

Múlakvíslarhlaupið – eldgos í Kötlu eða jarðhiti?

Gossaga tveggja eldstöðvaMikið var rætt um hugsanleg tengsl milli Eyjafjallajökuls og Kötlu í fyrra, þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst. Ég hef bloggað um það áður hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1036190/    Því hefur verið haldið fram að Kötlugos hafi komið strax í kjölfar á gosum í Eyjafjallajökli, um árið 920, árið 1612, og síðast í gosinu sem var árið 1821 til 1823.  Það voru því allir á nálum, í ótta um að nú byrjaði Katla með enn stærra sprengigosi. Gögnin sem birt voru í fjölmiðlum í fyrra fylgja hér með á fyrstu myndinni.  Hætt er við að umræðan um jökulhlaupið sem varð nýlega í Múlakvísl hinn 9. júlí 2011 vekji upp þennan gamla draug: er fylgni eða tengsl milli  gosa í þessum miklu eldstöðvum?  Í jökulhlaupinu undan Kötlujökli bárust fram um 18 milljón rúmmetrar af vatni,  og þrír miklir sigkatlar mynduðust.  Hlaupið reif burt brú og vatnshæðarmæli við Múlakvísl og orsakaði óróa á skjálftamælum umhverfis Mýrdalsjökul. En það virðast skiftar skoðanir um orsök jökulhlaupsins í Múlakvísl.  Sigketill í Kötlu - LandhelgisgæzlanÍ Morgunblaðinu inn 12. júlí telur Helgi Björnsson jöklafræðingur að flóðið í Múlakvísl hafi orsakast af kvikuinnskoti eða jafnvel litlu eldgosi undir Mýrdalsjökli. ,,Þetta sýnist mér af því að þarna eru lóðréttir hringlaga strompar sem segja mér að þarna hafi bráðnað mjög mikið staðbundið og skyndilega," segir Helgi.  Daginn eftir  kom nokkuð önnur skoðun í ljós í Morgunblaðinu:  Ekkert bendir til þess að eldgos hafi orðið undir Mýrdalsjökli og valdið hlaupinu sem reif með sér brúna yfir Múlakvísl aðfaranótt laugardags, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings. Báðar þessar skoðanir eru sennilega jafngildar, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Myndir af sigkötlunum eru stórfenglegar, en ég læt hér með fylgja eina mynd frá Landhelgisgæzlunni, sem sýnir á skemmtilegan hátt öskulgið frá gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra (nú á um 10 metra dýpi í jöklinum) og einnig öskudreifina frá gosinu í Grímsvötnum í síðasta mánuði.  Það er algengt að jökulhlaup verði af völdum langvarandi jarðhita undir jöklum.  Þar er stöðug bráðnun jökulsins og mikið vatnsmagn safnast fyrir. Þegar krítisku marki er náð, þá lyftir vatnið upp jökulsporðinum, hleypur fram, og jökullinn lokast aftur á eftir hlaupinu.  Síðan byrjar sama hringrásin aftur, bráðnun, vatnssafn undir jöklinum, og svo annað hlaup einhverjum áratugum síðar.  Mælingar á nýja hlaupvatninu sýndu meðal annars að kolmónoxíð (CO) er fyrir hendi og vakti það grun hjá sumum að hér væri vitneskja um gos, en rétt er að benda á, að mælingar á þessu gasi hafa ekki berið framkvæmdar áður hér, og því ekki tímabært að draga mikla ályktun út frá því.   Óvissa ríkir einnig um fyrri hlaup úr Múlakvísl: voru þau tengd gosum eða voru þau afleiðing langvarnadi jarðhita undir jöklinum? Sumir telja til dæmis að hlaupin árin 1955 og 1999 hafi einnig verið af völdum smágosa undir jöklinum (sjá grein eftir Erik Sturkell og félaga 2009, og vefsíðu hins Norræna Eldfjallaseturs).    Höfuð ástæðan að ég ræði þessa óvissu um túlkun hlaupsins í Múlakvísl er sú, að ef um gos er að ræða, þá eru hgusanlega komin fram fjögur tilfelli, þar sem Kötlugos fylgir fast á eftir gosi í Eyjafjallajökli (ca. 920, 1612, 1821-23 og 2010-2011?).  Er það tilviljun, eða er eitthvað samband milli eldstöðvanna?  Ég hallast að því að hér sé um hreina tilviljun að ræða, þar sem við höfum enga fræðilega kenningu um hugsanlegt samband.  En hver veit:  við erum alltaf að læra eitthvað nýtt!  Að lokum: nú var rétt í þessu að koma fram á mælum jarðskjálfti af stærðinni 3,1 í Kötluöskjunni, sem bætir enn á taugaspennuna varðandi Kötlu. 

Seigja kviku

Tilraunin

Seigja (viskositet) er eiginleiki efnis sem við hugsum oftast ekkert um, en hún er mjög mikilvæg varðandi hegðun allra vökva, eins og til dæmis hraunkviku.  Berum til dæmis saman tvö vökva sem þið þekkið vel: vatn og tómatssósu.  Seigja tómatssósunnar er einmitt  eitt hundrað sinnum hærri en vatnsins, þegar við berum þessa vökva saman með seigjumælingu og notum seigjugildi vísindanna, en það nefnist Pa s eða paskal-sekúndur. Tjara er ótrúlega seigur vökvi, og lengsta tilraun vísindanna er tilraun með seigju tjöru.  Þessi tilraun er enn í gangi í Queensland háskólanum í Brisbane í Ástralíu, eftir 84 ár, enda á tilraunin metið í Guinness Book of Records.  Prófessor Thomas Parnell setti tjöru í trekt árið 1927 og beið síðan eftir því að dropar af tjöru læku niður úr trektinni. Hann sá fyrsta dropann falla árið 1938, og annan dropann árið 1947, rétt áður en hann dó.  Tilraunin er enn í gangi í Brisbane (vonandi hafa flóðin þar nýlega ekki haft nein slæm áhrif) en nú hafa alls átta dropar fallið, sá síðasti í nóvember árið 2000.  Seigja tjöru hefur verið reiknuð út á grundvelli þessar tilraunar, og reyndist hún 230 milljörðum hærri en seigja vatns, eða 2,3x108 Pa s.   Eðlisfræðideild Queensland Háskóla í Brisbane hefur vefmyndavél á tjörutilrauninni, svo þið getið, kæru lesendur, fylgst með því þegar næsti dropi fellur, ef þið þafið mikla þolinmæði og góðan tíma og yfirleitt nennið að bíða eftir þeim merka atburði.  Vefmyndavélin er hér http://www.smp.uq.edu.au/pitch/

Það er annars upplagt að rannsaka seigju einmitt heima í eldhúsinu, og gera sjálfur tilraunir varðandi áhrif hita á seigjuna. Eftirfarnadi gildi eru fyrir seigju ýmissa efna við 20 stiga hita, gefin í pascal-sekúndum eða Pa s: vatn  0,001, hunang 10, tómatsósa 100, bráðið súkkulaði 130, hnetusmjör 250.  Myndin til hliðar sýnir seigju á nokkrum tegundum rúðuglers, eða réttara sagt heita vökvans eða kvikunnar sem myndar  rúðugler.  Svarta kúrvan sýnir áhrif hita á seigju fyrir “venjulegt” rúðugler, en einingarnar eru í log Pa s.   Seigja glerkvikunnar við um 700 stiga hita er sem sagt mörgum milljörðum sinnum hærri en við 1100 stiga hita, samkvæmt línuritinu.  Seigja glerkviku

Það sem við köllum föst efni, eins og ís, hafa líka seigjueiginleika, þegar litið er á efnið í nógu miklu magni.  Heill skriðjökull af ís rennur, og er seigja jökuls um 1013 Pa s.   Möttlull, jarðar, lagið undir jarðskorpunni, er enn seigari.  Venjulegur möttull, eins og undir meginlöndunum, er um 1021 Pa s.  Möttullinn undir Íslandi er alls ekki venjulegur, þar sem hann er óvenju heitur.  Seigja okkar möttuls er um það bil 1018 Pa s og þessi lága seigja hefur þau áhrif að  lóðréttar jarðskorpuhreyfingar eru mun hraðari á Íslandi en víðast hvar á jörðu.

En snúm okkur nú að aðalefninu: seigju hraunkviku.  Það er gífurlegur munur á seigju á ýmsum tegundum af kviku, en seigjan er háð bæði hita og efnasamsetningu og einnig innihaldi vatns og annara reikulla efna í kvikunni.  Seigja kviku  getur verið allt frá 100 Pa s fyrir mjög heita basalt kviku, og allt til 1011 Pa s fyrir mjög kísilríka líparít kviku, og nær sviðið á seigju kviku því yfir um ellefu stærðargráður!  Auk þess er seigjan háð þrýstingi, og er seigja kviku djúpt í jörðu, undir háum þrýstingi, því enn lægri en á yfirborði.  Heitasta og þynnsta kvikan sem við þekkjum er kölluð komatiít, og hefur hún seigjugildi um 0,1 til 10 Pa s, eða álíka og hunang.  Komatiít hraun runnu á frumöld jarðar, fyrir meir en 2,5 milljörðum ára. Síðan hefur þessi kvika ekki komið upp á yfirborð hér á okkar plánetu.  En hins vegar gýs kómatiít hraunum á plánetunni Io, eins og ég hef bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/admin/blog/?entry_id=997761

Ég hef mælt seigju kvikunnar sem kom upp í gosinu á Fimmvörðuhálsi í fyrra, og einnig kvikunnar sem gaus í toppgíg Eyjafjallajökuls.  Aðgerðin byggist á efnagreiningu glerdropa, sem finnast inni í kristöllum.  Þessir kristallar eða steindir  hafa myndast í kvikunni á miklu dýpi, og berast upp á yfirborðið með kvikunni. Þessar mælingar á efnasamsetningu veita upplýsingar um hita, sem ég hef einnig bloggað um hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1141566/Seigja Eyjafjallajökuls

og er þá hægt að reikna út seigjuna. Niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni til hliðar. Alkalí basalt kvika frá Fimmvörðuhálsi hefur seigju frá 5 til 50 Pa s, og hún er sem sagt lapþunn.  Hins vegar er trakíandesít kvikan sem kom upp úr toppgíg með seigju á bilinu 1000 til 4000 Pa s, eða um eitt hundrað sinnum seigari!  Þessi mikli munur á seigju er að nokkru leyti skýringin á því, hvers vegna þessi tvö eldgos voru svo gjörólík í hegðun.  Alkalí basalt kvikan var heitari, mjög þunnfljótandi og myndaði hraun.  Hins vegar var trakíandesít kvikan svo seig, að gasbólur sem mynduðust í kvikunni gatu ekki risið og sloppið út, heldur bárust upp með kvikunni og sprungu á yfirborði.  Að sjálfsögðu átti samspil kviku og bráðnandi jökuls og gufusprengingar einnig mikinn þátt  í sprengivirkninni í Eyjafjallajökli, en seigja kvikunnar er mikilvægt atriði, sem taka verður inn í reikninginn.


Eyjafjallajökull og flugið: Var Lokun Norður Atlanshafsins ekki réttmæt?

Dagana 15. og 16. september 2010 var haldin alþjóðaráðsefna í Keili á Keflavíkurflugvelli um áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á flugsamgöngur.  Það er best að byrja á því að taka strax fram, að ekkert slys varð í lofti af völdum gossins, og einnig er það mikilvæg staðreynd að ENGIN farþegaþota varð fyrir neinum áhrifum sökum eldfjallaösku frá gosinu.  Mér þótti þetta merkar upplýsingar, en auðvitað auðskildar, þar sem nær öllum farþegaþotum á þessu svæði var lagt og þær teknar úr umferð í lengri tíma.  Alls voru um 300 þáttakendur frá ýmsum löndum á ráðstefnunni, og þar á meðal yfirmenn helstu flugyfirvalda, fulltrúar flugfélaga, jarðvísindamenn, veðurfræðingar, og einnig fulltrúar fyrirtækja sem smíða þotuhreyfla. Ég tók þátt í ráðstefnunni, flutti fyrirlestur um sprengigosið, og stýrði þeim hluta fundarins sem fjallaði um eldgos.  Það er nú vel ljóst að langmesta hættan fyrir þotur í sambandi við eldgos er aska sem sogast kann inn í þotuhreyfilinn, en hún bráðnar þar og myndar glerhúð sem stíflar inntak fyrir eldsneyti og súrefni.  Af þeim sökum kann að drepast á hreyflinum, eins og gerst hefur í sambandi við sprengigos í Indónesíu árið 1982 og í Alaska árið 1989.  Rolls-Royce hreyflar og aska

Á tímabilinu frá 15. til 21. apríl tóku yfirvöld sem ráða flugstjórn í Evrópu þá ákvörðun að loka og leggja niður nær allar flugsamgöngur  yfir Norður Atlantshaf og í Evrópu.  Þetta voru viðbrögð yfirvalda við sprengigosinu í Eyjafjallajökli sem hófst  hinn 14. apríl.  Yfir 104 þúsund flugum var aflýst, um 10 miljón farþegar voru strandaglópar víðs vegar um Evrópu og í Norður Ameríku, flugfélögin töpuðu um $1.7 miljörðum,  313 flugvellir voru lokaðir,  aðeins um 20% af flugsamgöngum í álfunni voru enn í gangi, og tekjutap flugvalla var yfir $317 miljónir.  Þetta er mesta áfall sem flugsamgöngur hafa orðið fyrir í heiminum síðan flugvélin var uppgötvuð af Wright bræðrunum árið 1903.  Það er líklegt að áhrifin af þessarri truflun á flugsamgöngum á efnahag heims séu ekki innan við $5 miljarðar.  Var þetta nauðsynlegt eða voru þetta röng viðbrögð?  Eldgosið í Eyjafjallajökli og askan í loftinu var alvarlegur raunveruleiki, en voru viðbrögð yfirvalda rétt og réttmætanleg, eða voru gerð stórfeld og mjög dýrkeypt mistök?  Í upphafi kom yfirlýsing frá flugstórn Evrópu að ekkert mætti fljúga innan svæðisins ef minnsti vottur um ösku væri fyrir hendi: “zero tolerance”.  Var það ef til vill allt of ströng regla?  Auðvitað er öryggi mikilvægasta atriði flugsins, en margir þáttakendur á ráðstefnunni litu svo á að lokunin hefði verið langt út úr hlutfalli vil hugsanlega hættu.   Ulrich Schulte-Strathaus, fulltrúi sambands flugfélaga í Evrópu, taldi til dæmis að “lokunin hefði alls ekki verið í hlutfalli við áhættuna”  eða “closures were disproportionate to safety risk”. 

Lokun á flugsvæðinu var gerð samkvæmt ráðgjöf frá VAAC í London, sem er eitt af níu stofnunum í heiminum sem gefa út yfirlýsingar og veita ráðgjöf um dreifingu ösku frá eldgosum.  VAAC London bjó til reiknilíkön um dreifingu öskunnar, sem voru byggð á upplýsingum frá veðurstöðvum um loftstrauma yfir Atlantshafi.  Þessi líkön voru ekki byggð á neinum mælingum á öskumagni í loftinu. Það var ef til vill eitt mikilvægasta atriði ráðstefnunnar að menn byrjuðu að átta sig á því að lokunin var eingöngu byggð á líkönum um hugsanlega dreifingu öskunnar, en alls ekki á  mælingum.  Einnig kom það fram, að reiknilíkön frá VAAC London voru ekki sammála VAAC Tolouse um sömu svæði.

Það er auðvitað ein spurning sem skiftir öllu máli varðandi flug í gegnum öskudreif eins og frá Eyjafjallajökli.  HVAÐ mikla ösku þola þotuhreyflarnir?  Framleiðendur hafa af eðlilegum ástæðum ekki viljað til þessa gefa svör við þessari spurningu.   Þotuhreyflar fyrir flugvélar heims eru smíðaðir aðallega af tveimur fyrirtækjum:  General Electric í Bandaríkjunum og Rolls-Royce í Bretlandi.  Það kom fram í erindi Patrick Emmott frá Rolls-Royce  að þeir hafa ákvarðað það magn af ösku í loftinu sem hreyflar þeirra geta þolað.  Myndin til hliðar er af línuriti því sem Emmott sýndi á ráðstefnunni, og hefur það aldrei sést fyrr.  Það er vitað að hreyflar Rolls-Royce fljúga oft í gegnum rykský af finum sandi og ryki yfir flugvöllum í Kaíró í Egyptalandi og í Rydiah í Arabíu og víðar á eyðimerkursvæðum.  Þar er magnið af ryki og sandi í loftinu um 10 til 2000 míkrógrömm á rúmmeter af lofti (það er ein miljón míkrógrömm í einu grammi).  Rolls-Royce telur því óhætt að fljúga með hreyfla þeirra í þessu magni af ösku í lofti, það er að segja undir 2000 míkrógrömm.  Það lætur nærri lagi að það samsvarar tveimur kornum af matarsalti á hvern rúmmeter af lofti sem þotan dregur inn í hreyfilinn.  Ekki getur það talist mikið magn af ösku.  Efri mörkin, þar sem þotuhreyflar drepa á sér, setur Rolls-Royce við um 0.1 gramm. Það er áætlað öskumagn í lofti þegar tvær risaþotur lentu í öskskýum með þeim afleiðingum að allir þotuhreyflarnir stöðvuðust.  Fyrra tilfellið var flug BA-09 í Indónesíu árið 1982 og hið seinna var KLM-867 yfir Alaska árið 1989.   Loks fengust mælingar á öskumagninu í lofti yfir Evrópu og Atlantshafi, til dæmis mælingar yfir Zurich hinn 17. apríl, en þær sýndu aðeins um 50 til 80 míkrógrömm af ösku í hverjum rúmmeter af lofti, eða um þrjú prósent af leyfilegu magni, samkvæmt meðmælum Rolls-Royce.    Varðandi frekari umfjöllun um mistök flugumferðastjórna í sambandi við gosið í Eyjafjallajökli  bendi ég hér á forsíðugrein eftir David Learmount, ritstjóra Flight International hinn 16. september,  þar sem deilt er harðlega á meðferð málsins. Kapt Moody og Ólafur Forseti

Ég tók myndina sem er til hliðar á Bessastöðum í lok ráðstefnunar. Þar stendur flugstjórinn Eric Moody við hlið forseta Íslands.  Moody er frægasti flugstjóri heims, en hann flaug risaþotu inní öskuský í Indónesíu árið 1982, þar sem drapst á öllum fjórum hreyflum, en ásamt áhöfn sinni tókst honum að koma hreyflunum aftur í gang eftir hrap vélarinnar í 15 mínútur og lenda þotunni á eynni Jövu. Ég hef áður blogað um þetta fræga flug hér.  Moody flutti frábært erindi á ráðstefnunni.

 


Landeyjahöfn – Þar sem Jörðin og Kjölurinn kyssast

Herjólfur siglir innStundum er styttsta leiðin ekki besta leiðin, og það kann að sannast nú í samgöngumálum þeirra Vestmannaeyinga.  Allt frá fyrsta degi  hefur hin nýja Landeyjahöfn á Bakkafjöru reynst Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi erfið.  Skipið tekur niðri við hafnarbakkann í Landeyjahöfn á fjörunni og  nú er frekari ferðum frestað en á meðan er höfnin að fyllast af sandi og ösku. Sumir telja hafnarframkvæmdirnar hina mestu vitleysu, og telja þetta “óþarfa framkvæmdir sem hefur verið þrýst fram á pólitíska sviðinu”  en aðrir  líta allt öðruvísi á málið:  “Höfnin er þrekvirki sem var byggð á stað þar sem ekki átti að vera hægt að byggja.”  “Landeyjahöfn er til marks um kjark okkar og snilli.” 

Það hefur verið lengi vitað að það er gýfurlegur sandburður meðfram suður strönd Íslands, og einnig er mikill framburður úr Markarfljóti.  Orkustofnun áætlar til dæmis framburðinn úr Markarfljóti vera um 150.000 m3 á ári.  Siglingastofnun telur að 300 til 400 þúsund m3 berist meðfram ströndinni á þessu svæði ár hvert, en í sterkum suðvestan eða suðaustan áttum getur sandburður með ströndu verið yfir 100 þúsund m3 á mánuði.  Framburðurinn og sandburður meðfram ströndinni orsaka það að hafsbotninn rétt undan ströndinni er á sífelldri hreyfingu.  Þannig hefur til dæmis myndast margra km langt sandrif um 1000 metra undan fjörunni fyrir framan Bakkafjöru, og er dýpi niður á sandrifið um 2 til 4 metrar að jafnaði.  Við slíkar aðstæður virkar ferjuhöfnin eins og risastór trekt þar sem sandburðurinn safnast fyrir.  Þannig  breyta báðir hafnargarðarnir öllu eðlilegu flæði á sandburðinum þar sem garðarnir skaga fram í sjóinn.  Við bætist nú að framburður Markarfljóts í jökulhlaupinu í apríl 2010 var að minnsta kosti 200 þúsund m3 á einum degi!  Það má reikna með eldgosum í framtíðinni og aurburðurinn heldur áfram.  Reksturinn á þessari höfn verður því að öllum líkindum endalaus og mjög dýr barátta við náttúruöflin.  Var einhver að tala um að berjast við vindmyllur?

Hafið þið tekið eftir því, að Bakkafjara skagar dálítið suður út í Atlantshafið, og myndar þannig syðsta tangann hér um slóðir.  Það er ekki tilviljun heldur eru tvær góðar og gildar ástæður fyrir því að svo er:  (a) framburður af aur úr Markarfljóti, og (b) var eða hlé sem Vestmannaeyjar mynda fyrir sunnan áttunum og orsaka þannig söfnun af aur og sandi við Bakkafjöru, eins og myndin til hliðar sýnir.  ölduhæð i suðvestan átt Í framtíðinni, á jarðsögulegum tíma, mun Bakkafjara teygjast enn lengra suður og að lokum umlykja Vestmannaeyjar, á sama hátt og Mýrdalssandur hefur umkringt Hjörleifshöfða og fært hann upp á þurrt land.  Þá þurfa Vestmannaeyingar ekki jarðgöng til að aka til Reykjavíkur. 

Tökum þá Mýrdalssand og Hjörleifshöfða sem nærtækt dæmi um stórkostlegar landslagsbreytingar af völdum eldgos og árframburði.  Við landnám Íslands skagaði Hjörleifshöfði út í Atlanshafið sem langur tangi. Inn af honum að vestan var Kerlingarfjörður, eins og fjallað er um í Landnámabók.   Síðan hafa jökulhlaup frá Kötlu flutt fram ógrynni af viki, ösku og sandi til sjávar og flutt fram ströndina á Mýrdalssandi um 3 til 4 km. Þannig hefur verið talið að Kötlugosið 1918 hafi til dæmis bætt við allt frá 1 til 8 km3, og víst er að ströndin er um 2.5 km sunnar en hún var fyrir gosið 1660.  Að vísu er ekkert sem bendir til að Eyjafjallajökull verði jafn iðinn og eldstöðin Katla, en samt sem áður verður að gera ráð fyrir slíkum hamförum í framtíðinni.  Það hefur auðvitað verið ljóst allt frá landnámsöld að hafnarskilyrið eru slæm á suðurströndinni víðast hvar. 

 


Merkir molar

bombubrotHér eru myndir af steinbrotum úr einni hraunbombunni sem ég safnaði á gígbrúninni á Eyjafjallajökli hinn 26. maí.  Svarta efnið er glerkennt andesít úr bombunni.  Gráa efnið er gabbró eða kristalríkt berg. Það eru brot af djúpbergi sem kvikan ber upp. Ástæðan fyrir því að ég hef mikinn áhuga á þessum steinum er sú, að þeir geta varpað ljósi á eitt mikið vandamál:  kvikan sem kemur upp úr gígnum í Eyjafjallajökli í toppgíg er ekki sú sama og kvikan sem kemur upp í fjallið úr möttlinum.  Það er eitthvað sem gerist þar á milli.  Kvikan sem kemur upp úr möttlinum heitir alkalí basalt. Hún gaus á Fimmvörðuhálsi. Kvikan sem gýs í toppgíg Eyjafjallajökuls heitir andesít.  GabbróEin hugmynd er sú, að alkalí basalt kvikan verði fyrir breytingum í jarðskorpunni og afleiðingin sé andesít. Það getur gerst á margan hátt, til dæmis með því að mikið magn af kristöllum vex í alkalí basalt kvikunni, og að hún breyti um efnasamsetningu af þeim sökum. En það eru margar aðrar kenningar sem gætu skýrt málið.  Við erum að kanna þetta atriði með ýmsum efnagreiningum á þessum steinum. Meira um það síðar....

Aftur á Jökulinn

 

Gígurinn 26. maíÞað var blíðskaparveður í gær þegar við flugum austur,  en Reynir Pétursson þyrluflugmaður var ekkert sérlega hrifinn af öskufokinu sem lá eins og brúnt teppi yfir Markarfljótsaurum og öllu svæðinu umhverfis Eyjafjallajökul.  Eftir að við tókum eldsneyti á Hvolsvelli var farið beint upp til að sjá hvað teppið væri þykkt og hvort nokkur von væri að komast yfir það og að eldstöðvunum. Það var útilokað að fljúga í gegnum það vegna áhrifa ösku á þotuhreyfil  Bell þyrlunnar.  Ég var í ferð með kvikmyndaliði Profilm, sem nú vinnur að annari heimildamynd um gosið fyrir National Geographic TV.  Þegar við vorum kominir í 7000 fet sást loksins Hekla, dökkgrá af öskufalli, og einnig kolsvartir  topparnir á Tindfjallajökli.  Allstaðar virtist þyrlast upp af jörðu mjög fín aska sem hélt áfram að bæta við rykteppið.  Við fórum aðeins hærra og nú sást í hvítan gufumökkinn úr Eyjafjallajökli og umhverfi toppgígsins var klárt.  Reynir  valdi leið fyrir ofan öskuteppið, beint að gígnum.  Það var stórkostlegt að komast loks alveg að nýja gígnum og geta horft niður í hvítan gufumökkinn sem liðaðist  uppúr honum, eins og risastórum  sjóðandi potti.  En satt að segja var ég meira heillaður af  því að fá loks að sjá nýja hraunið sem þekur nú dalinn þar sem áður var efri hluti Gígjökuls.  Hraunið Hér er komið alveg nýtt og stórfenglegt landslag.  Ég var loksins kominn upp aftur að eldstöðvunum, eftir tíu daga fjarveru.  Gígurinn er hlaðinn upp af gjalli og hraunbombum, en norður brún gígsins er nú orðin gulgræn af brennisteinsútfellingum. Öðru hvoru glitti í kólnað hraun inni í gígnum, þar sem gufan rauk stöðugt út.  Hraunið sem fer í norður, niður farveg Gígjökuls,  er brúnleitt og virðist vera apalhraun.  Mér datt í hug að lenda á hrauninu með þyrluna til að taka sýni, en það var ekki efst á lista okkar og verður því að bíða.  Eftir að hringsóla um gíginn lentum við á vestur barmi öskjunnar eða stóra gígsins, rétt fyrir sunnan Goðastein.  Yfirborðið er slétt og fremur harður dökkbrúnn vikur. Við vorum um 100 metra frá stóra bombugígnum sem ég kannaði í ferðinni 16. maí, eins og ég hef bloggað um hér.    Aðrir bombugígar voru á víð og dreif, og yfirborð vikursins minnir jarðsprengjusvæði.  Þetta eru gígar eftir hraunslettur af ýmsum stærðum, sem sprengingarnar hafa varpað upp, og þegar þær lenda grafast þær djúpt niður í vikur og ís. Bombugígur Ég gróf upp nokkrar bombur, sem eru fremur glerkenndar.  Mér til mikillar gleði innihalda sumar þeirra gabbró mola eða stórar þyrpingar af steindum eða mínerölum af tegundunum olívín, plagíóklas og pýroxen.  Glerkennd áferð þeirra er stórfalleg.  Við flýttum okkur eftir megni við að taka upp myndefnið, en öskuteppið var stöðugt að hækka og Reynir var greinilega orðinn áhyggjufullur og órólegur.   Að lokum tók hann af skarið og skipaði okkur um borð í þyrluna.  Við fórum aftur beint upp, og loks í 8500 feta hæð vorum við komnir upp fyrir öskuteppið og höfðum aftur sjón af Heklu og Tindafjallajökli og áttum örugga leið til baka í byggð. Liðið


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband