Sjávarborð hækkar stöðugt

sja_769_varhae.jpgSjávarborð hækkar um heim allan vegna hnattrænnar hlýnunar. Ég er staddur í Newport, Rhode Island, á austur strönd Bandaríkjanna. Hér hafa menn almennt vaxandi áhyggjur af hækkandi sjávarborði, sem veldur vatni í kjallaranum, rofi á ströndinni og flóði yfir suma vegi meðfram sjónum. Þetta er reyndar vandamál, sem allir berjast við á austur strönd Ameríku í dag.   Hér í Newport hækkar sjávarborð að meðaltali um 2,72 mm á ári.

Í Reykjavík hefur sjávarborð einnig hækkað að meðaltali um 3,6 mm á ári frá 1956 til 2007, eins og myndin sýnir. Síðustu ár hefur hækkunin verið meiri, og er um 5,5 mm á ári fyrir tímabilið 1997 til 2007. Ég hef ekki séð nýrri mælingar en við getum fastlega gert ráð fyrir að hækkunin sé ekki minni í dag. Hluti af hækkun sjávarborðs í Reykjavík er þó tektónísk, þ.e. hún stafar af því að jarðskorpan sígur stöðugt undir höfuðborginni, um það bil 2,1 mm á ári.

Það er athyglisvert að hækkun sjávarborðs virðist gerast hraðar nú í Reykjavík en áður. Það sama kemur fram í gögnum frá austur strönd Ameríku og víðar. Hækkunin getur orðið mjög hröð ef ísinn umhverfis Suðurskautið bráðnar. Sumir vísindamenn telja að í náinni framtíð (á 22. öldinni) geti sjávarborð hækkað um jafnvel 30 cm á áratug, þegar ísbreiðan á vestur hluta Suðurskautsins losnar frá meginlandinu og bráðnar í heitari sjó.

Fyrir þremur árum töldu flestir vísindamenn að hækkun sjávar á ströndum Ameríku verði í mesta lagi 30 cm árið 2100 miðað við sjávarborð í dag. En í dag telja margir þeirra að hækkunin geti jafnvel orðið 180 til 210 cm við næstu aldamót. Ef svo fer, þá eru það einhverjar mestu náttúruhamfarir, sem mannkyn hefur orðið fyrir. Milljónir verða að flýja heimili sín og margar borgir með ströndum landsins verða yfirgefnar.  Þrátt fyrir þessar grafalvarlegu niðurstöður vísindanna, þá neita þingmenn Repúblikana í Bandaríkjunum að viðurkenna hnattræna hlýnun, og stinga hausnum í sandinn, eins og strúturinn.  En framundan kunna að vera einhverjir mestu landflutningar, sem mannkynið hefur upplifað, þegar íbúar yfirgefa sökkvandi stórborgirnar og leita inn á hærri landsvæði meginlandanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur Sigurðsson. Getur þú vinsamlegast vísað í einhver vísindagögn máli þínu til stuðnings?

Bendi af gefnu tilefni á nýútkomna grein í Nature: "Earth's surface water over the past 30 years" 

"Earth's surface gained 115,000 km2 of water and 173,000 km2 of land over the past 30 years, including 20,135 km2 of water and 33,700 km2 of land in coastal areas."

http://www.nature.com/nclimate/journal/v6/n9/full/nclimate3111.html#access

    Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.9.2016 kl. 21:16

    2 Smámynd: Jón Þórhallsson

    Hvað þyrfti sjávarborðið að hækka mikið til að höfnin í rvk yrði ónothæf?

    2-4 metrar?

    Gætum við séð á reiknilíkunum hvnær það yrði með sama áframhaldi hækkun sjávar?

    Jón Þórhallsson, 3.9.2016 kl. 21:57

    3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

    Betri spurning er: hvenær fellur sjór inn í Tjörnina í Reykjavík?   Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál. Með 5,5 mm hækkun sjávar á ári tæki það 40 ár áður en sjór fellur inn í Tjörnina  og yfir miðbæinn.

    Haraldur Sigurðsson, 4.9.2016 kl. 01:29

    4 identicon

    nú hefur jörðinn snúist aðeins senilega er svipað veðurfar nú og var á 17,öld. kanski ekkert til að hlakka yfir var ekki mikkið um jarðhræríngar á þeirri öld. eins hefur orðið nokkrar breitíngar í kyrahafi sem hlítur að hafa áhrif á hríngrásina sem endar á norðurslóðumhef nú grun um að fæsa n á breitarbaugnum norður  fyrir grímsey hafi meiri áhrif en menn halda. það skyptir máli hvort lægðir fara hægra eða vinstra meiginn við fjöll þó vegaleigndinn sé lítil. ef grænlandsjökull lækkar vegna hita ætti kuldaboli að hafa hægar um vik að skríða yfir hann sem þýdi kaldara tímabil á íslandi. nú hefur kólnað nokkuð í mongólíju gæti veri skýrínginn verið sú að kuldinn hefur færst til gétur verið að við súm að ganga inní óstöðugt tímmbil núverandi tímabil hefur verið mjög stöðugt stöðugt tímabil sem varla endist að eilífu   

    kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 4.9.2016 kl. 06:45

    5 identicon

    Sæll aftur Haraldur. Enn og aftur verð ég vinsamlegast að biðja þig um gögn máli þínu til stuðnings. 

    Þú fullyrðir: "Í Reykjavík hefur sjávarborð einnig hækkað að meðaltali um 3,6 mm á ári frá 1956 til 2007, eins og myndin sýnir. Síðustu ár hefur hækkunin verið meiri, og er um 5,5 mm á ári fyrir tímabilið 1997 til 2007. "

    Í forsenduskýrslu fyrir aðalskipulag Seltjarnarness 2006 - 2024 segir um sjávarstöðubreytingar:

    "Í skýrslunni Náttúrufar á Seltjarnarnesi er m.a. fjallað um niðurstöður athugana, sem gerðar hafa verið á sjávarstöðubreytingum við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Rannsóknir sýna að þar hafi sjávarborð hækkað a.m.k. um rúmlega ½ mm á ári undanfarin nokkur þúsund ár.

    Landsig er talið vera megin orsök fyrir þessari sjávarstöðubreytingu en einnig aukning á sjávarmagni vegna bráðnunar jökla. Sjómælingar Íslands hafa mælt meðalsjávarborð í Reykjavíkurhöfn.

    Niðurstöður mælinga á meðalsjávarborði í Reykjavíkurhöfn á árunum 1956 - 1989 benda til þess að litlar sem engar breytingar hafi orðið á meðalsjávarborði í Reykjavíkurhöfn síðan 1956 þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar sjávarborðs vegna bráðnunar jökla á heimsvísu og breytinga af stjarnfræðilegum toga.

    Þessar mælingar benda til þess að ekki hafi verið landsig undanfarin 30 ár í Reykjavík og nálægum svæðum, þ.m.t. á Seltjarnarnesi, samkvæmt túlkun Vísindanefndar um veðurfarsbreytingar og afleiðingar þeirra (Seltjarnarnesbær 1997: Náttúrufar á Seltjarnarnesi)."

    http://www.seltjarnarnes.is/media/skipulag/samth-greinag.pdf

    Þetta virðist vera nokkuð skýr niðurstaða og stangast greinilega á við yfirlýsingar þínar.

    Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2016 kl. 08:34

    6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

    Gognin eru í myndinni fyrir ofan. Þau er að finna hér

    https://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/visindanefndloftslagsbreytingar.pdf

    Haraldur Sigurðsson, 4.9.2016 kl. 08:47

    7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

    Hilmar, í stað þess að heimta vísindagögn með þjósti ættir þú kannski að lesa sjálfur þau gögn sem þú visar í - þar er akkúrat ekkert sem stangast á við það sem Haraldur segir

    T.d. um Reykjavíkurhöfn: "litlar sem engar breytingar hafi orðið á meðalsjávarborði í Reykjavíkurhöfn síðan 1956 þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar sjávarborðs vegna bráðnunar jökla á heimsvísu og breytinga af stjarnfræðilegum toga.." Það á sér sem sagt ekki stað landsig við Reykjavíkurhöfn, en sjávarstaða hækkar engu að síður "vegna bráðnunar jökla á heimsvísu".

    Um Seltjörn: "þar hafi sjávarborð hækkað a.m.k. um rúmlega ½ mm á ári undanfarin nokkur þúsund ár" - að minnsta kosti 1/2 mm á ári á nokkur þúsund ára tímabili. Sem segir ekkert um sjávarstöðubreytingarnar sem Haraldur er að tala um og eru miklu nýrri af nálinni.

    Í skýrslunni sem aðalskipulagið vitnar til stendur enn fremur: "Sjómælingar Íslands hafa mælt meðalsjávarborð í Rekjavíkurhöfn síðan 1956 ... Meðalsjávarborð virðist hafa hækkað að jafnaði um 3,4 mm á ári á tímabilinu 1956-1989 .. Þegar tillit hefur verið tekil til [stjarnfræðilegra þátta] þá stendur eftir að sjávarborð í Reykjavikurhöfn virðist hafa hækkað um 2,4 mm á ári síðan 1956. ... Meðalhækkun sjávarborðs hefur víða um heim einnig mælst um 2,4 +/- 0,9 mm á ári ... " (Náttúrufræðistofnun Íslands og Líffræðistofnun, 1997: Náttúrufar á Seltjarnarnesi.) bls. 28-29

    Allt styður þetta fullkomlega það sem Haraldur segir!

    Brynjólfur Þorvarðsson, 4.9.2016 kl. 10:24

    8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

    Er nefnilega raunverulegt áhyggjuefni.  Hafa ber í huga, að ef heldur fram sem horfir verður stórstraumsflóð meira.  Flóð verða stærri.  Og ef við reiknum þróunina ekkert langt inní framtíðina, þá erum við að tala um að flóð álíka og Bátsendaflóðið gæti vadið hörmungum í Rvk.  

    ,,Meðal stórstraumsflóð er í dag 2,18 m en hæsta flóð sem mælt hefur verið var 3,27 m. Líklegt er að meðalstórstraumsflóð verði um 2,8-3,4 m árið 2100 og framreiknaður atburður á borð við Básendaflóðið yrði árið 2100 í kringum 5,8-6,4 m. Núverandi hæð hafnarbakkanna við Mið- og Austurbakkann er hins vegar 3,53 m."

    http://www.efla.is/frettir/255-2015/november-2015/5163-flodhavarnir-i-kvosinni

    Þetta er alveg skuggalegt.

    Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2016 kl. 11:37

    9 identicon

    Af gefnu tilefni skal tekið fram að ég hirði ekki um hælbíta - en aftur að efninu.

    Á vef landmælinga Íslands segir:

    "Öll gögn Landmælinga Íslands eru aðgengileg og ókeypis á vef stofnunarinnar (www.lmi.is). Strandlína IS 50V gagnagrunns stofnunarinnar hefur verið notuð af fyrirtækinu Loftmyndum ehf.  til að sýna fram á misræmi við loftmyndir/strandlínu fyrirtækisins. Með því að skoða þau sömu gögn þ.e. IS 50V, er á einfaldan hátt hægt að sjá að flatarmál Íslands er 102.592 km2 og hefur landið því stækkað skv. nýjustu tölum Loftmynda ehf. en ekki minnkað eins haldið hefur verið fram í fjölmiðlum undanfarið."(!)

    Ísland er m.ö.o. að stækka en ekki minnka.

    Niðurstaða lmi á ágætlega við í ef-og-hefði speglasjónum um meint hamfaraflóð eftir tæpa öld:

    "Óskandi væri að að umræða um landupplýsingar og kortagerð á Íslandi byggi á faglegri forsendum en svo, að stöðugt sé verið að slá upp tölum um nýjar hæðir fjalla eða stækkun/minnkun lands þegar ljóst er að í síbreytilegri náttúru Íslands er enginn einn sannleikur og engin ein rétt mæling."

    http://www.lmi.is/er-island-ad-staekka-eda-minnka/

    Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.9.2016 kl. 13:46

    10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

    Hilmar, þú ert nú alveg yndislega skemmtilegur. Í fyrstu færslu vitnar þú í grein þar sem bent er á að þurrlendi á jörðinni hafi aukist, en hafsvæði minnkað. En þú hefur greinilega ekki lesið þá grein ef þú vilt tengja hana við hækkun sjávarborðs. Þurrlendi hefur aukist vegna þess að Aral vatn er nánast horfið og önnur svæði hafa verið þurrkuð upp, eins og kemur fram í greininni.

    Núna vitnar þú í Landmælingar sem benda á að Ísland fari stækkandi, nokkuð sem öllum er ljóst enda landrek út frá miðju upp á nokkra cm á ári í hvora átt.

    Hvorugt hefur nokkurn skapaðan hlut að gera með sjávarstöðubreytingar. En það er fallegt af þér að benda Haraldi á þessar alveg óskyldu staðreyndir, þó það sé nú óttalega afkáralegt að nenna ekki að lesa sjálfur sínar eigin heimildir.

    Brynjólfur Þorvarðsson, 4.9.2016 kl. 15:51

    11 identicon

    er: hvenær fellur sjór inn í Tjörnina í Reykjavík?   Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál. Með 5,5 mm hækkun sjávar á ári tæki það 40 Er það ekki rétt munað hjá mér að 2,2 metrar séu 220 cm. eða 2200 mm. Þá ætti að vera 400 ár tæp í að flæði í tjörnina ekki 40

    Þorgeir Hjaltason (IP-tala skráð) 4.9.2016 kl. 16:11

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband