Færsluflokkur: Loftslag

Hvert fer Irma?

Irma2Hér er ferill fellibylsins Irmu, sem nú er með styrkleika 3.  Rúmlega helmingur Amerísku þjóðarinnar vonar að Irma gangi yfir Mar-a-Lago, sumarbústað Trumps forseta.


Hvert fer Irma?

 

 ModelTrack

Málin líta öðru vísi út þegar maður á sjálfur í hlut. Stormurinn Irma er nú á leið vestur í miðju Atlantshafinu og stefnir á austur strönd Norður Ameríku --- þar sem ég er búsettur.  Líkön sem spá um feril stormsins benda til að hann komi á land á austurströndinni á svæðinu einhvers staðar á milli Florida og Washington DC. Irma er enn annars flokks fellibylur en getur bætt í sig fljótlega.

Nú er hæð yfir hafinu á milli Portúgals og Nýja Englands, sem kemur í veg fyrir að Irma stefni í norðvestur. Þess vegna er líklegast að hún lendi nokkuð sunnanlega – vona ég.... en við sjáum nú  til.


Orkan kemur úr hafinu

GulfTempOrkan sem fæðir fellibyl eins og Harvey er hiti sem kemur upp úr hafinu. Það er þess vegna sem fellibylir á norðurhveli fæðast nær eingöngu seinni part sumars, þegar hafið er orðið vel heitt.

Sjávarhiti í Mexíkóflóa er venjulega á bilinu 26 til 32 stig, eins og fyrsta myndin sýnir, en hún sýnir meðalhita í flóanum síðustu vikuna. Takið eftir að yfirborðssjórinn undan ströndum Houston er nú kaldari (blátt, 26 til 28 stig) vegna þess að fellibylurinn Harvey hefur þegar tekið í sig hitann úr þessum hluta sjávar og rótað upp kaldari dýpri sjó.

Heitur sjór þýðir meiri uppgufun og meiri hita sem streymir úr hafinu, upp í lofthjúpinn. Hitinn berst úr sjónum upp í andrúmsloftið með úða af sjó í og umhverfis auga fellibylsins, þar sem mikið rót er á yfirborði sjávar vegna stormsins.LoopCurrent

Heiti straumurinn inn í Mexíkóflóa er auðvitað Golfstraumurinn, og á stundum myndast lykkja sem tognar út úr Golfstraumnum og slitnar stundum frá straumun sem hringlaga hverfill af heitari sjó. Þetta má sjá á annari myndinni. Það eru slíkir heitir hvirflar sem spinna upp flóann og geta myndað fellibyl.

Þriðja myndin er mikilvægust, en hún sýnir sögulegt hitaferli í Mexíkóflóa frá 1870 til vorra daga.  Lóðrétti ásinn er frávik frá meðalhita hafsins í vestur hluta Mexíkóflóa. Rauðu púnktarnir eru árin með fellibyl. Takið eftir hvað flóinn er stöðugt að hitna síðasta áratuginn. Hér er sem sagt hnattræn hlýnun í gangi í hafinu einnig. Mexíkóflói var óvenju heitur í ár. Það er í fyrsta sinn sem flóinn fer ekki niður fyrir 73oF eða 22.8 oC síðastliðinn vetur.TEMPHISTORY


Þúsund-ára flóð

Ég hafði rangt fyrir mér, þegar ég staðfesti að Harvey regnstormurinn yfir Houston í Texas væri 500-ára stormur. Nýjar niðurstöður sýna að hann er þúsund-ára stormur þegar mælt er út frá úrkomu.  Það er ekki vitað um annað eins flóð og úrkomu í Bandaríkjunum. Það þýðir að 99.9 prósent af tímanum getur slíkt flóð aldrei gerst. Harvey er nú fyrsta og eina þúsund-ára flóðið í sögu Norður Ameríku. En þetta gildir aðeins ef loftslag í framtíðinni er eins og í dag. Ef hins vegar að hnattræn hlýnun er í gangi, eins og langflestir fræðimenn halda fram, þá geta slík þúsund-ára flóð komið á nokkurra ára fresti. Sem sagt: við erum komin ínn á óþekkt og hættulegt svæði í loftslagsfræðinni.


Houston í kaf

Flóðin í borginni Houston í Texas eru miklar hamfarir, en þar hefur nú rignt stanslaust í þrjá daga og úrkoman er nú komin upp undir 50 tommur alls, eða yfir 123 sentimetra á þeim tíma. Þetta átti að vera svokallað 500 ára flóð (flóð, sem er svo sjaldgæft að það gerist aðeins á nokkurn veginn 500 ára fresti), en staðreyndin er sú, að í Houston hafa komið þrjú slík 500-ára flóð síðustu þrjú árin!Houston

Reynslan sýnir okkur að það er ekki auðvelt að spá um komandi eða yfirgnæfandi hamfarir út frá því sem undan er gengið. Lítið á súluritið hér fyrir ofan. Það sýnir tíðni storma á hverjum áratug, sem orsaka stórrigningar í Bandaríkjunum frá 1900 til vorra daga. Ég held að það sé nokkuð ljóst að tíðni þeirra fer vaxandi. Það er breyting í gangi. Sú breyting er hnattræn hlýnun, en vaxandi tíðni stórrigninga og fellibylja er ein afleiðing hnattrænnar hlýnunar, þótt æstu völd í Bandaríkjunum neiti því og stinga bara hausnum í sandinn eins og strúturinn.

Fellibylurinn Harvey er nú talinn einn af tíu verstu sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Tjónið er nú metið á bilinu $10 til 20 milljarðar dalir.


Eldarnir á Grænlandi eru logandi mór

 Fire-burning-Greenland-800x600

Í fyrstu var talið að það væru sinueldar, sem loga á stóru svæði á vestur Grænlandi, skammt frá bænum Sisimiut. En frekari rannsókn bendir til að það sé mór sem matar eldana. Ef svo er, þá er málið öllu alvarlegra en haldið var. Mór, sem getur brunnið á þessu svæði bendir til að sífrerinn sé farinn úr jarðveginum. Hér hefur ríkt sífreri (þeas. hiti í jarðveginum er um eða undir núll stig) síðan ísöld lauk, fyrir tíu þúsund árum. Nú virðist sífrerinn farinn og þurr mór er eftir.

Með hnattrænni hlýnun dregur hægt og sígandi úr sífreranum á norðurslóðum. Loftslagsfræðingar hafa til þessa spáð að sífrerinn fari ekki úr jarðvegi á Grænlandi fyrr en um næstu aldarmót. Það vekur því undrun að sífrerinn er að hverfa hratt á þessu svæði á Grænlandi. Eins og í öllum tilfellum varðandi þær loftlslagsbreytingar sem nú eru á skella á, þá hafa fræðimenn verið of íhaldssamir í sínum spám, en breytingrarnar eru miklu hraðari en jafnvel djörfustu líkön gerðu ráð fyrir.


Þegar síðasti maðurinn hvarf frá Scoresbysundi

Hinn 18. ágúst árið 1823 hittust Evrópubúar og Thule fólk eða Inuitar í síðasta sinn á Norðaustur Grænlandi. Þessi fundur varð þegar skipstjórinn á HMS Griper, Charles Douglas Clavering að nafni, hitti tólf Inuita í sumarbúðum þeirra á suður hluta eyjarinnar, sem nú ber nafn skipstjórans: Claveringö. Clavering var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi í gegnum hafísinn og komst í land á norðaustur Grænlandi. Eftir þennan fund hafa margir Evrópumenn farið um þessar slóðir, en enginn hefur hitt fyrir neina Inuita eða Thule fólk hér síðan. Sá kynþáttur er því talinn útdauður á norðaustur Grænlandi. Hreindýrin hurfu frá norðaustur Grænlandi um aldamótin 1900.

SodhousesÁrið 1925 fluttu Danir hóp af Grænlendingum , 85 talsins, til Scoresbysunds, til að stofna nýlendu þar. Þetta var gert í þeim tilgangi að helga svæðið danska ríkinu, en Norðmenn gerðu einnig tilkall til norðaustur Grænlands á þessum tíma. Þessi nýlenda er nú þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, með um 450 íbúa.

En hvaðan kom fólkið, sem var hér fyrir árið 1823? Og hvað varð um það? Nú er vitað að Thule fólkið kom upprunalega norðurleiðina, frá Thule á norðvestur Grænlandi, til norðaustur Grænlands. Sennilega hefur fólkið farið þessa ferð að mestu í umiaq bátum. Í byrjun fimmtándu aldar voru miklir mannflutningar á Grænlandi. Þá birtist Thule fólkið fyrst á norðaustur Grænlandi, umhverfis Scoresbysund. Sennilega var þetta landnám tengt loftslags- og umhverfisbreytingum. Rannsóknir á borkjörnum úr vatnaseti benda til þess að fyrir komu Thule fóksins til austur Grænlands hafi ríkt hlýrra loftslag og meiri snjór. En frá 13 öld og fram á nítjándu öldina hafi veðurfar verið kaldara, þurrara, en fremur sveiflukennt. Þegar landnámið gerist, á fimmtándu öldinni, var mikill hafís ríkjandi en minni snjókoma, einkum á því tímabili sem við nefnum “Litlu Ísöldina” frá fimmtándu öld og fram á nítjándu öldina. Á þessum tíma gerði samfelld hafísbreiða og tiltölulega lítil snjókoma Thule fólkinu kleift að ferðast um og nýta sér stórt svæði austur og norðaustur Grænlands með þeirri einstöku tækni sem þeir höfðu þróað: léttum sleðum, snjóhúsum, kayak og sela- og hvalaskutlum. Ef til vill var tækni og kunnátta þeirra við að skutla sel niður um ís mikilvægust, en til þess þurfti að þróa sérstaka skutla og annan sérútbúnað. Við gerum okkur yfir leitt ekki neina grein fyrir því, að fólkið sem forfeður okkar kölluðu skrælingja, hafði þróað mikla tækni sem gerði þeim kleift að lifa og komast sæmilega af á heimskautssvæðinu, miklu betur en forfeður okkar Eiríkur rauði og Grænlandsfararnir frá Breiðafirði, sem réðu ekkert við Litlu Ísöldina og dóu út í Eystribyggð og Vestribyggð á miðöldum.

thulehousediagramFornleifarannsoknir sýna að Thule fólkið hafðist við hluta ársins á annesjum norðaustur Grænlands, þar sem stutt var á miðinn til að taka sel undir ísnum eða í grend við polynyas eða stórar vakir, sem haldast opnar árið um kring og gefa kost á veiðum hvala. En greining á beinum Thule fólksins og leifum í byggðum þeirra sýna að hreindýr voru líka mikilvægur þáttur í matarræði þeirra og jafnvel mikilvægari en selur. Hreindýr þrífast í heimskautaumhvefi þar sem úrkoma (snjókoma) er í lágmarki. Bestu skilyrði fyrir hreindýr á norðaustur Grænlandi ríktu frá um 1600 til um 1850. Fornleifarannsóknir sýna að byggð Thule fólksins var eftir allri norðaustur ströndinni, eins og kortið sýnir.   Það kemur í ljós út frá rannsóknum Mikkel Sørensen og Hans Christian Gulløv (2012) að fjöldi torfkofa er meðfram ströndinni og einnig í innfjörðum. Á þessu svæði lifði Thule fólkið í um 450 ár, um það bil átján kynslóðir.  Í nokkrum hluta af torfkofunum finnast mannabein, eins og fjölskyldan hafi dáið inni, annað hvort af sulti eða sjukdómum. Slík hús eru nefnd dauðahús. Ef til vill er örnefnið Dödemandsbugten á Claveringö af þessum uppruna.

Upplýsingar um norðaustur Grænland koma fyrst frá hvalföngurum sem sigldu frá Evrópu. Breskir hvalfangarar komu fyrst í grennd við norðaustur Grænland árið 1608, á leið sinni til hvalveiða umhverfis Svalbarða. Árið 1612 voru Hollendingar á þessum slóðum og svo skömmu síðar Frakkar, Spánverjar og Danir á hvalveiðum. Hvalfangararnir sáu til lands á norðaustur Grænlandi, en ekki er vitað um lendingar þar. Árið 1822 gerði enski hvalfangarinn William Scoresby furðu nákvæmt kort af þessari strönd. En það er mjög líklegt að hvalfangarar hafi farið í land í norðaustur Grænlandi og haft samneyti við Thule fólkið. Sönnun þess eru einstaka munir úr málmum og gleri og brenndum leir, sem finnast við uppgröft í byggðum Thule fólksins. Fyrst Evrópumenn skiftust á gjöfum og gripum við innfædda, þá hafa þeir einnig skilið eftir smitnæma sjúkdóma. Sennilega hefur orðið mikil fólksfækkun meðal Thule fólksins af þeim sökum, en sú saga er algjörlega óþekkt. Skýrir það að hluta til þessa miklu fólksfækkun og hvarf Thule fólksins á svæðinu?

BoneÁrið 2014 sigldi ég um Scorebysund og kom í mynnið á firði, sem ber nafnið Rypefjörd eða Rjúpufjörður. Mér leist vel á svæðið og velti fyrir mér hvort Thule fólk hefði ef til vill haft aðsetur hér. Best leist mér á grasbala og móa við litla á nálægt mynni fjarðarins (sjá kort). Við fórum í land og, viti menn, þarna gengum við beint á rúst við árbakkann. Hér voru leifar af torfkofa, með hlaðna stein- og torf veggi, svipað því og þekktist á Íslandi fram á tuttugustu öldina. Myndin sýnir skissu af slíkum Thule kofa. Þar er pallur innst inni, sennilega til hvílu, lægra svæði sem hefur verið notað við eldamennsku og svo hlaðin, þröng göng, um tveir metrar á lengd, sem skriðið var út um. Göngin eru hlaðin með steinhellum, sem eru reistar á rönd.

Utan í vegg sá ég standa út úr jarðveginum eitt fallegt bein, sem hafði greinilega verið tálgað til og notað í smíði, sennilega sem rif í kajak. Smiðurinn hafði borað göt í beinið til að binda það við grind kajaksins.  Ég stóðst ekki mátið og tók beinið til aldursgreiningar með geislakola- eða C14 aðferðinni. Aldursgreining á þesu rifbeini gefur aldur um 1660 AD eða um 1780 AD. Það er um tvo möguleika að ræða hvað snertir aldur, vegna þess að kúrvan fyrir C14 tekur lykkju á þessu tímabili, eins og myndin sýnir. Sennilega er yngri aldurinn líklegri, sem bendir til að hér hafi búið Thule fólk um fjörutíu árum áður en kynstofninn þurkaðist út.Curve2


Macron á leik í loftslagsmálum

Hann Emmanuel Macron Frakklandsforseti er klókur maður.   Nú er hann búinn að taka slagorð Trump´s (Make America Great Again!) og snúa því á alla jörðina: Make Our Planet Great Again! Hann hefur sett á laggirnar stórt rannsóknaverkefni fyrir €60 milljón, til að rannsaka loftslagsbreytingar og áhrif þeirra. Verkefnið er einkum mótað til að draga að sér erlenda vísindamenn í loftslagsfræðum, einkum frá Bandaríkjunum með ríflegum (allt að €1.5 milljón) fjögurra ára styrkjum. Umsóknirnar streyma inn og hundruðir hafa þegar sótt um, aðallega frá Bandaríkjunum, þar sem óstjórn Trumps er að draga úr öllum vísindarannsóknum.  Þýskaland er að undirbúa svipaða herferð og er hætt við því að nú flytjist mikill fjöldi loftslagsfræðinga á brott frá Bandaríkjunum, þar sem ótrúleg þröngsýni og skammsýni ríkir.

 

 

 

 


Þegar sífrerinn hopar

 IMG_1620

Allir sem hafa til Grænlands komið dást að fjallendinu þar. Snarbrött fjöll rísa meðfram allri strandlengjunni, einkum þegar norðar dregur. Reyndar eru það ekki fjöllin, sem eru merkileg, heldur hinir djúpu dalir og þröngu firðir, með nær þverhníptum hlíðum. Þeir eru afleiðing skriðjökla, sem hafa grafið út dalina allt frá því að ísöld hófst fyrir rúmum þremur milljónum ára. Myndin hér til vinstri er til dæmis úr Öfjord í Scoresbysundi á norðaustur Grænlandi, þar sem fjöllin eru upp undir 2 km á hæð og þverhnípt.

Sífreri ríkir á Grænlandi, fyrir norðan um 68 gráðu breiddar. Sífreri er skýrður þannig: ef berg eða jarðmyndanir hafa hitastig undir frostmarki í meir en tvö ár, þá er þar sífreri. Hann getur innihaldið allt að 30% ís eða mjög lítinn ís, sem fer eftir lekt og holumunstri bergsins og jarðlaganna. Urð og skriður hafa einhvern tíma verið vatnssósa og í sífreranum frýs allt slíkt vatn og hjálpar til að binda jarðlögin. Skriður og urðir í sífrera geta því verið mjög brattar og jafnvel lóðréttar myndanir, á meðan hitastig er undir frostmarki. Sífrerinn gerir laus jarðefni að föstu bergi – á meðan frostið ríkir. Svo fer allt af stað þegar bráðin kemur.

fig2Það hlýnar á Grænlandi. Merki þess er til dæmis hvað jöklar minnka hratt. Myndin sýnir að Grænlandsjökull tapar mörg hundruð rúmkílómetrum á hverju ári og bráðnunin gerist hraðari með hverju árinu. Línuritið er í gígatonnum, en eitt gígatonn er einn milljarður tonna af ís. Þetta er að mestu leyti vegna hækkandi hitastigs, eins og önnur myndin sýnir. Það má því búast við aukinni tíðni berghlaupa á Grænlandi, þegar sífrerinn hopar fyrir hlýnandi loftslagi.

Það er magt annað sem hopandi sífreri hefur í för með sér. Umhverfis Ilulissat á vestur Grænlandi eru til dæmis merkar fornminjar frá þremur mikilvægustu fornmenningum Grænlandinga, sem eru kenndar við Saqqaq, Dorset og Thule. Nú eru þessar leifar enn varðveittar efigure-1ins og í ísskáp, en þegar sífrerinn fer úr jörð á þessu svæði verða þessar menningaleifar bakteríum að bráð og hverfa að mestu.

 

 


Uppruni Brexit: Stórifoss í Ermasundi

ncomms15101-f1.jpgBretland er að skilja við Evrópu með Brexit þessa dagana, en jarðfræðilegur skilnaður frá meginlandinu gerðist miklu fyrr. Bretland var hluti af Evrópu í margar milljónir ára. Samfeldur hryggur af kalksteini tengdi England við Frakkland, sem loðfílar, flóðhestar og menn gengu um, fram og til baka. Það eru aðeins 450 þúsund ár síðan kalksteinsmyndunin var rofin af hamfaraflóði, sem sennilega á sér engan líka. Þá fossaði fram af Hvítuklettum -- the White Cliffs of Dover – þegar nýr farvegur opnaðist frá stóru jökullóni þar sem nú er Norðursjór. Sjávarmál var þá um 100 m neðar en nú í dag, vegna þess að mikið magn af vatni var bundið í ísaldarjöklinum. Farvegir eftir flóðið eru greinilegir á botni Ermasunds, eins og myndin sýnir. Þegar flóðinu lauk hafði nýtt landslag komið í ljós, en landbrú tengdi England við Evrópu alltaf öðru hvoru þar til fyrir um níu þúsund árum. Síðan hefur Bretland verið eyja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband