Þegar síðasti maðurinn hvarf frá Scoresbysundi

Hinn 18. ágúst árið 1823 hittust Evrópubúar og Thule fólk eða Inuitar í síðasta sinn á Norðaustur Grænlandi. Þessi fundur varð þegar skipstjórinn á HMS Griper, Charles Douglas Clavering að nafni, hitti tólf Inuita í sumarbúðum þeirra á suður hluta eyjarinnar, sem nú ber nafn skipstjórans: Claveringö. Clavering var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi í gegnum hafísinn og komst í land á norðaustur Grænlandi. Eftir þennan fund hafa margir Evrópumenn farið um þessar slóðir, en enginn hefur hitt fyrir neina Inuita eða Thule fólk hér síðan. Sá kynþáttur er því talinn útdauður á norðaustur Grænlandi. Hreindýrin hurfu frá norðaustur Grænlandi um aldamótin 1900.

SodhousesÁrið 1925 fluttu Danir hóp af Grænlendingum , 85 talsins, til Scoresbysunds, til að stofna nýlendu þar. Þetta var gert í þeim tilgangi að helga svæðið danska ríkinu, en Norðmenn gerðu einnig tilkall til norðaustur Grænlands á þessum tíma. Þessi nýlenda er nú þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, með um 450 íbúa.

En hvaðan kom fólkið, sem var hér fyrir árið 1823? Og hvað varð um það? Nú er vitað að Thule fólkið kom upprunalega norðurleiðina, frá Thule á norðvestur Grænlandi, til norðaustur Grænlands. Sennilega hefur fólkið farið þessa ferð að mestu í umiaq bátum. Í byrjun fimmtándu aldar voru miklir mannflutningar á Grænlandi. Þá birtist Thule fólkið fyrst á norðaustur Grænlandi, umhverfis Scoresbysund. Sennilega var þetta landnám tengt loftslags- og umhverfisbreytingum. Rannsóknir á borkjörnum úr vatnaseti benda til þess að fyrir komu Thule fóksins til austur Grænlands hafi ríkt hlýrra loftslag og meiri snjór. En frá 13 öld og fram á nítjándu öldina hafi veðurfar verið kaldara, þurrara, en fremur sveiflukennt. Þegar landnámið gerist, á fimmtándu öldinni, var mikill hafís ríkjandi en minni snjókoma, einkum á því tímabili sem við nefnum “Litlu Ísöldina” frá fimmtándu öld og fram á nítjándu öldina. Á þessum tíma gerði samfelld hafísbreiða og tiltölulega lítil snjókoma Thule fólkinu kleift að ferðast um og nýta sér stórt svæði austur og norðaustur Grænlands með þeirri einstöku tækni sem þeir höfðu þróað: léttum sleðum, snjóhúsum, kayak og sela- og hvalaskutlum. Ef til vill var tækni og kunnátta þeirra við að skutla sel niður um ís mikilvægust, en til þess þurfti að þróa sérstaka skutla og annan sérútbúnað. Við gerum okkur yfir leitt ekki neina grein fyrir því, að fólkið sem forfeður okkar kölluðu skrælingja, hafði þróað mikla tækni sem gerði þeim kleift að lifa og komast sæmilega af á heimskautssvæðinu, miklu betur en forfeður okkar Eiríkur rauði og Grænlandsfararnir frá Breiðafirði, sem réðu ekkert við Litlu Ísöldina og dóu út í Eystribyggð og Vestribyggð á miðöldum.

thulehousediagramFornleifarannsoknir sýna að Thule fólkið hafðist við hluta ársins á annesjum norðaustur Grænlands, þar sem stutt var á miðinn til að taka sel undir ísnum eða í grend við polynyas eða stórar vakir, sem haldast opnar árið um kring og gefa kost á veiðum hvala. En greining á beinum Thule fólksins og leifum í byggðum þeirra sýna að hreindýr voru líka mikilvægur þáttur í matarræði þeirra og jafnvel mikilvægari en selur. Hreindýr þrífast í heimskautaumhvefi þar sem úrkoma (snjókoma) er í lágmarki. Bestu skilyrði fyrir hreindýr á norðaustur Grænlandi ríktu frá um 1600 til um 1850. Fornleifarannsóknir sýna að byggð Thule fólksins var eftir allri norðaustur ströndinni, eins og kortið sýnir.   Það kemur í ljós út frá rannsóknum Mikkel Sørensen og Hans Christian Gulløv (2012) að fjöldi torfkofa er meðfram ströndinni og einnig í innfjörðum. Á þessu svæði lifði Thule fólkið í um 450 ár, um það bil átján kynslóðir.  Í nokkrum hluta af torfkofunum finnast mannabein, eins og fjölskyldan hafi dáið inni, annað hvort af sulti eða sjukdómum. Slík hús eru nefnd dauðahús. Ef til vill er örnefnið Dödemandsbugten á Claveringö af þessum uppruna.

Upplýsingar um norðaustur Grænland koma fyrst frá hvalföngurum sem sigldu frá Evrópu. Breskir hvalfangarar komu fyrst í grennd við norðaustur Grænland árið 1608, á leið sinni til hvalveiða umhverfis Svalbarða. Árið 1612 voru Hollendingar á þessum slóðum og svo skömmu síðar Frakkar, Spánverjar og Danir á hvalveiðum. Hvalfangararnir sáu til lands á norðaustur Grænlandi, en ekki er vitað um lendingar þar. Árið 1822 gerði enski hvalfangarinn William Scoresby furðu nákvæmt kort af þessari strönd. En það er mjög líklegt að hvalfangarar hafi farið í land í norðaustur Grænlandi og haft samneyti við Thule fólkið. Sönnun þess eru einstaka munir úr málmum og gleri og brenndum leir, sem finnast við uppgröft í byggðum Thule fólksins. Fyrst Evrópumenn skiftust á gjöfum og gripum við innfædda, þá hafa þeir einnig skilið eftir smitnæma sjúkdóma. Sennilega hefur orðið mikil fólksfækkun meðal Thule fólksins af þeim sökum, en sú saga er algjörlega óþekkt. Skýrir það að hluta til þessa miklu fólksfækkun og hvarf Thule fólksins á svæðinu?

BoneÁrið 2014 sigldi ég um Scorebysund og kom í mynnið á firði, sem ber nafnið Rypefjörd eða Rjúpufjörður. Mér leist vel á svæðið og velti fyrir mér hvort Thule fólk hefði ef til vill haft aðsetur hér. Best leist mér á grasbala og móa við litla á nálægt mynni fjarðarins (sjá kort). Við fórum í land og, viti menn, þarna gengum við beint á rúst við árbakkann. Hér voru leifar af torfkofa, með hlaðna stein- og torf veggi, svipað því og þekktist á Íslandi fram á tuttugustu öldina. Myndin sýnir skissu af slíkum Thule kofa. Þar er pallur innst inni, sennilega til hvílu, lægra svæði sem hefur verið notað við eldamennsku og svo hlaðin, þröng göng, um tveir metrar á lengd, sem skriðið var út um. Göngin eru hlaðin með steinhellum, sem eru reistar á rönd.

Utan í vegg sá ég standa út úr jarðveginum eitt fallegt bein, sem hafði greinilega verið tálgað til og notað í smíði, sennilega sem rif í kajak. Smiðurinn hafði borað göt í beinið til að binda það við grind kajaksins.  Ég stóðst ekki mátið og tók beinið til aldursgreiningar með geislakola- eða C14 aðferðinni. Aldursgreining á þesu rifbeini gefur aldur um 1660 AD eða um 1780 AD. Það er um tvo möguleika að ræða hvað snertir aldur, vegna þess að kúrvan fyrir C14 tekur lykkju á þessu tímabili, eins og myndin sýnir. Sennilega er yngri aldurinn líklegri, sem bendir til að hér hafi búið Thule fólk um fjörutíu árum áður en kynstofninn þurkaðist út.Curve2


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög fróðlegt, Haraldur, og þakkarvert að birta þetta hér.

Jón Valur Jensson, 20.7.2017 kl. 22:32

2 identicon

Skemmtileg samantekt.

margoft komið í Rypefjord og skoðað minnjar þar auk dýralífs.

fyrir 2 árum fann ég þar grjóthleðslu sem er líklega notuð til að geyma kjöt.

Náði í mann sem þekkir svæðið vel og var ekki viss hvort hún væri þekkt meðal fornleifafræðinga. Hann ætlaði að koma þessu áfram. þarf að komast að því hvort það hafi skilað sér og hver niðurstaðan var.

Takk fyrir

Gísli

Gísli A Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.7.2017 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband