Sjávarborð hækkar hraðar

Sjávarborð

 

Loftslagsbreytingar eru nú viðurkennd staðreynd og jafnvel forseti Bandaríkjanna er loksins farinn að fjalla um málið.  Mest hefur umfjöllunin verið um hlýnun, en ein megin afleiðing hnattrænnar hlýnunar er hækkandi sjávarmál vegna bráðnunar jökla og útþenslu hafsins þegar það hitnar.  Alþjóðaskýrslur gerðar af IPCC árin 1990 og 2000 héldu því fram að sjávarmál heimshafanna hækkaði að meðaltali um 2.0 mm á ári.  Nýrri gögn, fyrir tímabilið 1993 til 2011 sýna hins begar að hækkunin er 3.2 ± 0.5 mm á ári, eða 60%  hraðar en fyrri tölur.  Það er segin saga með allar spár um loftslagsbreytingar: þær eru alltaf of lágar og verstu eða hæstu tölurnar eru því miður oftast nærri lagi.  Þetta er staðan í dag, en hvað um framtíðina?  Stefan Rahmstorf og félagar hafa tekið saman spár um sjávarborð framtíðarinnar, eins og sýnt er á línuritinu.  Hér eru sýnd líkön af hækkun sjávarborðs, sem eru byggð á mismunandi tölum um losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið.  Það eru bláu línurnar, sem eru trúverðugastar að mínu áliti og passa best við það sem á undan er gengið.   Allt bendir til að sjávarborð muni rísa hraðar í framtíðinni og sennilega ná allt að 6 til 10 mm á ári fyrir lok aldarinnar, samkvæmt könnun Rahmstorfs. 

Áhrifin af slíkum breytingum verða gífurlegar víða úti í heimi, þar sem stórar borgir hafa risið á áreyrum og öðru láglendi.  Á Íslandi er málið flókið, meðal annars vegna skorpuhreyfinga, sem eru óháðar hnattrænni hlýnun. Á  Reykjavíkursvæðinu sígur jarðskorpan, eins og mórinn í Seltjörn sýnir okkur.  Talið er að Seltjarnarnesið hafi sigið af þessum sökum um 0,6 til 0,7 mm á ári hverju síðan land bygðist.  Sennilega er þetta sig tengt því, að Seltjarnarnesið og reyndar allt Reyjavíkursvæðið fjarlægist hægt og hægt frá virka gosbeltinu, en þá kólnar jarðskorpan lítið eitt,  dregst saman og yfirborð lands lækkar.  Ofaná þetta sig bætist síðan hækkun heimshafana.  Hverjar verða þá helstu breytingarnar hér? Tökum Tjörnina í Reykjavík sem handhægt dæmi.  Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál. Með 3,2 mm hækkun sjávar á ári tæki það 680 ár áður en sjór fellur inn í Tjörnina, en þetta er greinilega allt of lág tala samkvæmt athugunum Rahmtorfs of félaga. Með líklegri hækkun um10 mm á ári í framtíðinni eru það aðeins um 220 ár þar til sjór fellur inn í Tjörnina og yfir miðbæinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mest talað um hækkun heimshafanna í tengslum við bráðnun jökla. Hversu mikil áhrif hefur hlýnun sjávar, með tilheyrandi rúmmálsaukningu, á hækkun sjávarborðsins?

Guðmundur Benediktsson (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 10:41

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Haraldur

Dr Ole Humlum prófessor við Oslóarháskóla heldur úti áhugaverðri vefsíðu sem nefnist Climate4you.  Þar hefur verið safnað saman alls konar ferlum um lofthita, sjávarhita, hafís, sólvirkni, sjávarhæð. o.m.fl.  Ferlarnir eru uppfærðir reglulega og vísað í hvaðan ferlarnir, eða mæligögnin fyrir gerð þeirra, eru fengin.

Ferilinn um sjávarborð má finna með því að opna http://www.climate4you.com/ .  Fara síðan í bláa dálkinn vinstra megin og velja [Oceans].  Þar neðst á síðunni er að finna Global sea level.

Eins og sjá má, þá hefur breytingin verið nálægt 3 mm á ári síðan mælingar með hjálp gervihnatta hófust árið 1993. Þó ekki alveg stöðugt. Árleg hækkun hefur sveiflast töluvert, en ferill sem sýnir 3ja ára meðaltal hækkunar sýnir okkur að breytingin hefur verið á bilinu 2mm til 4mm á ári.  Það er eftirtektarvert að þessi breytingin hefur fekar verið til lækkunar frá árinu 2002.  Sjá næstneðsta ferillinn: "University of Colorado; annual change of global sea level; last 12 months - previous 12 months".  Sá ferill er teiknaður með því að teikna mismun tveggja aðliggjandi ára, eða "last 12 months minus previous 12 months".

Á vefsíðu CU Sea Level Research Group má sjá sama feril og mæligögnin sem Ole Humlum notar. http://www.sealevel.colorado.edu .

Ágúst H Bjarnason, 29.11.2012 kl. 11:25

3 identicon

"Hann bloggar um allt sem hann hefur vit á"(!)

vit 1:  "Loftslagsbreytingar eru nú viðurkennd staðreynd."

Staðdreynd: IPCC hefur gefist upp á að telja almenningi trú um hnatthlýnun og reiðir sig nú á ný trúarbrögð: "Loftslagsbreytingar".

vit 2:  "Mest hefur umfjöllunin verið um hlýnun." (!)

Staðreynd: IPCC hefur viðurkennt að engin hnattræn hlýnun hafi átt sér stað undanfarin sextán (16) ár.

vit 3:  "Hækkandi sjávarmál vegna bráðnunar jökla og útþenslu hafsins."(!)

Staðreynd: Yfirborð heimshafanna hefur ekkert hækkað síðustu 50 ár.

vit 4:  "Áhrifin af slíkum breytingum verða gífurlegar víða úti í heimi, þar sem stórar borgir hafa risið á áreyrum og öðru láglendi."

Staðreynd: Hér fabúlerar blogghöfundur um gefnar forsendur sem eru einfaldlega rangar.

"Hann bloggar um allt sem hann hefur vit á..." ?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 15:56

4 identicon

Mig minnir nú að WMO hafi sagt hækkun sjávarborðs vera um 3 mm á ári síðan 1993 og 200 mm síðan 1870. En hér er ágæt síða NASA um hnattræna hlýnun eða loftslagsbreytingar eða hvað menn vilja kalla það: http://climate.nasa.gov/

Nonni (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 21:11

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar:

1 - loftslagsbreytingar og hlýnun, er staðreynd, sjá Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

2 - Hefurðu eitthvað til að staðfesta þetta bull þitt?

3  - Þú hýtur að lifa í öðrum heimi en aðrir, því það er ekkert sem staðferstir þetta bull þitt - skoðaðu t.d.  Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar

Nýjustu rannsóknir benda reyndar til að of spár IPCC hafi ekki gengið nógu langt ein og kemur fram í greininni sem Haraldur vísar til, sjá  Environmental Research Letters - Stefan Rahmstorf1, Grant Foster2 and Anny Cazenave3 2012 Comparing climate projections to observations up to 2011

Sjá ágripið (feitletrun mín):

We analyse global temperature and sea-level data for the past few decades and compare them to projections published in the third and fourth assessment reports of the Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). The results show that global temperature continues to increase in good agreement with the best estimates of the IPCC, especially if we account for the effects of short-term variability due to the El Niño/Southern Oscillation, volcanic activity and solar variability. The rate of sea-level rise of the past few decades, on the other hand, is greater than projected by the IPCC models. This suggests that IPCC sea-level projections for the future may also be biased low.

4 - fellur um sjálft sig, þar sem allt hitt er bull hjá þér.

Ágúst:

Hvað ertu að halda fram - geturðu útskýrt þetta nánar há þér? Ef þú ert að halda því fram að engin sjávarstöðubreyting sé af því að ferillinn sveiflast (í takt við ENSO og fleiri náttúrulega atburði), þá skaltu lesa þig betur til - meðal annars í greininni sem ég vísa í hér fyrir ofan (og er umfjöllunarefni þessa pistils Haraldar). Í greininni er tekið til náttúrulegra sveifla og niðurstaðn skýr að sjávarstöðubreytingar eru meiri en IPCC gerði ráð fyrir.

Höskuldur Búi Jónsson, 30.11.2012 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband