Þensla hafsins

 

Þensla vatns við hitunÞað er oft sagt að hafið muni drekka í sig mestan hitann, sem bætist nú við vegna hnattrænnar hlýnunar og þar með sé málið leyst. Látum sem svo sé, en þá kemur fram annað vandamál:  hafið þenst út þegar það hitnar og sjávarmál hækkar. Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC).  Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti.  Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti.  Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Eðlisþyngd vatns (og sjávar) er breytileg eftir hita, eins og fyrsta myndin sýnir.  Vatn er þyngst við 4oC, en með frekari hitun eykst eðlisþyngdin: vatnið þenst út.  Ef meðaldýpt hafsins er 3 km, þá hækkar sjávarborð um 60 cm fyrir hverja gráðu sem sjórinn hitnar. En þetta dæmi er of mikil einföldun á raunveruleikanum.   Það þarf að taka til greina marga þætti, þegar við könnum útþenslu hafsins við hitun. Hversu hratt berst hitinn niður í hafið frá yfirborði?  Sumir telja að það taki 30 ár fyrir hitann að hafa áhrif á 100 metra dýpi.  Aðrir telja að straumar færi hitann hratt niður í djúpið.  Í flestum tilfellum er reiknað með því að hafið hitni niður í um 700 metra dýpi.  Samt sem áður sýna mælingar að hafdjúpin eru einnig að hitna enn neðar. Útþensla hafsins er því raunveruleiki, en skoðanir eru enn skiptar um hvað áhrifin á hæðina á yfirborði sjávar verði mikil.   Catia M. Domingues og félagar hafa nýlega komist að þeirri niðurstöðu, að hlýnun og þensla hafdjúpsins hafi nú mikil áhrif á hækkun sjávarborðs.  Önnur myndin sýnir niðurstöður þeirra (efri hluti). Sjávarmál Lóðrétti skalinn er greyting sjávarmáls í millimetrum.  Lárétti ásinn er tímabilið frá 1960 til 2010.  Rauða línan á myndinni er sú hækkun, sem orsakast af þenslu efstu 700 metra hafsins. Gula línan er þensla af völdum dýpri hluta sjávar, dökk fjólubláa línan er vegna bráðnunar á Grænlandi og Suðurheimskautinu og bláa línan er bráðnun annara jökla.  Neðri hluti myndarinnar sýnir, að niðurstöður þeirra passa vel saman við mælingar á sjávarborði frá gervihnöttum ofl.  Á þessu má sjá að þensla heimshafanna hefur mikil áhrif á sjávarmál, og slagar hátt upp í áhrif bráðnunar jöklanna á heimskautunum.  Það er því ekkert einfalt svar við því, hvað hluti þenslu heimshafanna er stór í hækkun sjávarborðs. Eitt er víst: með vaxandi hlýnun þenst hafið út hlutfallslega hraðar og sjávarmál hækkar hraðar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur.

Það vill oft gleymast, meðal okkar virtustu fræðimanna, að jörðin okkar er kúlulaga (eða nánast); en hvers vegna?

Þrátt fyrir þetta kúlulaga form þá er talað um að jörðin “andi”; þ.e.hún sveigist eins og heimshöfin vegna flóðs og fjöru.

Skrítið að jarðvísindamenn á Íslandi skuli ekki vita þetta. Og þó.

Dreifing þyngdarmassa um jarðkringluna hlýtur að jafnast út með bæði hækkandi landi og sigi hafsbotns. Auðvita gerast svona hlutir ekki með þeim hraða sem við getum mælt á klukkum okkar en eftir þúsund ár má kannski lesa eitthvað úr þeim mælingum sem verið er að gera í dag.

Margir staðir sem við heyrum um í fréttum að séu að sökkva í sæ eru raunverulega að sökkva en ekki sjávarborð að hækka eins og hrópað er.

Með bestu kveðju,

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 30.11.2012 kl. 00:09

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Guðmundur - þú hefðir gott af því að hressa upp á þekkingu þína um sjávarstöðubreytingar - í staðinn fyrir að gefa þér einhver undarleg sannindi og hvað jarðvísindamenn eiga að vita og vita ekki. Skoðaðu þetta: Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar

Höskuldur Búi Jónsson, 30.11.2012 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband