Járnsteinninn frá Thule

Qaanaaq járnsteinnHér hef ég áður fjallað um kjarna jarðarinnar, og bent á að hann er að mestu gerður úr járni. Við getum aldrei haldið á steini sem er kominn úr kjarna jarðar okkar. Hins vegar getum við skoðað og greint steina sem hafa komið úr kjarna fjarlægra pláneta, sem hafa sundrast og borist til jarðar. Það er sú tegund af loftsteinum, sem við nefnum járnsteina. Nyrsta þorpið á Grænlandi er Qaanaaq, en þar rakst ég á merkan loftstein nýlega, sem fyrsta myndin sýnir. Hér gafst mér þá loks tækifæri til að halda á járnsteini, en hann var þungur, þessi. Qaanaaq er fyrir norðan Thule, en þorpið er tiltölulega nýtt. Það var árið 1953 að danir gáfu bandaríkjamönnum leyfi til að reisa einn stærsta herflugvöll á norðurslóðum á Thulesvæðinu. Savigsvik kortTil að gera þetta kleift voru íbúar svæðisins þvingaðir til að flytja mun norðar, á auða og yfirgefna klettaströnd, þar sem nú er þorpið Qaanaaq í dag. Járnsteinninn í litla Thulesafninu í Qaanaaq er eitt lítið brot af risastórum járnsteini, sem barst utan úr geimnum og til jarðar fyrir um tíu þúsund árum. Á leið sinni í gegnum lofthjúp jarðar var viðnámið svo mikið að yfirborð járnsteinsins varð glóandi heitt. Yfirborðið bráðnaði og tapaði um 2 mm á sekúndu þar til steinninn skall til jarðar. Hann splundraðist í þúsund mola í andrúmsloftinu fyrir ofan Thulesvæðið. Hér dreifðust brotin yfir stórt svæði og eru enn að finnast ný. Sagan um hvernig brotin úr þessum risasteini hafa fundist er merkileg og hefur þetta járn haft mikil áhrif á þróun og líf Inuit íbuanna á Thulesvæðinu. Járnsteinninn, sem splundraðist yfir norður Grænlandi dreifði stykkjum yfir stórt sæði í grennd við Yorkhöfða (Cape York) og einkum þar sem þorpið Savissivik eða Savigsvik stendur nú. Kortið til hliðar sýnir fundarstað sex stærstu breotanna af járnsteininum. Stærsta stykkið heitir Ahnighito og er um 31 tonn á þyngd. Það fanns á eynni sem nú kallast Meteoritöen eða Loftsteinseyja, Annað stórt stykki er Agpalilik (20 tonn, nú á safni í Kaupmannahöfn) og svo mörg minni, þar á meðal stykkið sem ég skoðaði í þorpinu Qaanaaq, nyrst á Grænlandi. Evrópubúar fengu fyrst vitnesku um járnsteinana þegar bretinn John Ross kom á þessar slóðir á leið sinni í leit að norðvestur siglingaleiðinni árið 1818. Þá kom fyrst í ljós, að Inuitar hafa fengið sér járn úr þessum steinum í alda raðir og búið til frábæra járnodda á hvalskutla sína og einnig beitta hnífa. Þannig voru Inuítar á Thulesvæðinu komnir inn á járnöldina, þegar allir aðrir Inuítar á Grænlandsslóðum voru enn á steinöld. Það er engin tilviljun að Savissivik þýðir staðurinn þar sem maður finnur járn á máli Inuíta. Hingað hafa þeir leitað í aldaraðir til að sækja hinn verðmæta málm í vopn sín og verkfæri. Peary og stóri járnsteinninnJohn Ross fann aldrei járnstreinan, enda vildu Inuítar ekki sýna neinum vestrænum mönnum þessar gersemar, sem þeir kölluðu járnfjallið. Árið 1897 kom bandaríski sjóliðsforinginn og landkönnuðurinn Robert E. Peary til Thule og fékk Inuíta til að sýna sér járnsteinana og síðan eignar Peary sér þá stærstu. Næsta mynd sýnir þegar Peary og hanns menn komu stærsta járnsteininum, 31 tonna Ahnighito, um borð í skip þeirra, sem var mikið afrek. Síðan var siglt með járnsteinana til New York, og þar eru þeir stærstu nú til sýnis í náttúrugripasafni borgarinnar. þessi risasteinn er einn allra stærsti loftsteinn sem fundist hefur og þurfti safnið í New York að útbúa sérstakar undirstöður, sem ná niður í gegnum gólfið og alveg niður í fornan og traustan berggrunn Manhattan eyjar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fróðlegt, takk

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.7.2012 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband