Brennisteinsnáman í Ijen

Ijen eldfjallÁ ferð minni um eyna Jövu í Indónesíu í síðastliðinni viku komst ég í kynni við námurekstur af brennisteini sem á engann sinn líka í heiminum, en þetta minnti mig á brennisteinsnámur sem voru reknar á Íslandi fyrir um tvö hundruð árum. Brennisteinn var eftirsótt hráefni í Evrópu strax á miðöldum, bæði til framleiðslu á byssupúðri og sprengiefni og ekki síður sem brennisteinssýra sem var nauðsynlegur þáttur í efnaiðnaðinum sem þá var að hefjast. Helstu brennisteinsnámurnar var þá að finna í eldfjallaeyjunum undan ströndum Ítalíu og á Sikiley. Danakonungar háðu styrjaldir við svía og aðra nágranna sína í Evrópu um þetta leyti og höfðu því mikla þörf fyrir brennistein, en hann er ein aðal uppstaðan í byssupúðri, sem er blanda af 75% saltpétri, 15% koli og 10% brennisteini. Þegar kveikt er í þessari blöndu verða efnahvörf sem breyta púðrinu í þrjár gastegundir sem hafa mörgum sinnum meira rúmmál en púðrið og valda því sprengingu:2 KNO3 + S + 3 C → K2S + N2 + 3 CO2Brennisteinn var lengi unninn á Íslandi, og fyrstu heimildir um það eru frá þrettándu öld. Þannig er til dæmis getið um brennistein og kol í Konungsskuggsjá um 1250, sem mikilvægt efni í sjóorustum. Haraldur í gígnum  Danakonungur áttaði sig snemma á verðmæti þessarar auðlindar á Íslandi og reyndi að ná undir sig einkarétti á námurekstri, útflutningi og verslun með brennistein frá Íslandi. Brennistein er að finna á háhitasvæðum Íslands en þar myndar hann skán við eða rétt undir yfirborði jarðar umhverfis hverasvæðin og var hann þar grafinn úr jörðu við mjög erfiðar aðstæður. Niels Horrebow, danskur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn: 
"Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína, því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt." Aðal námusvæðin voru í Þingeyjarsýslu og á Reykjanesi, eins og fjölmörg örnefni benda til í dag. Í Þingeyjarsýslu eru Reykjahlíðarnámur á sléttu fyrir neðan Námafjall og einnig nokkrar utan í fjallinu og fyrir vestan það. Við Kröflu er og nokkuð af brennisteini, einnig við Þeistareyki, og Fremri Námur uppi á Öræfum, fyrir sunnan Mývatnssveit. Í námuniÁ Reykjanesi eru til dæmis Brennisteinsfjöll og Brennisteinsnámur. Um 73 tonn af brennisteini frá Krísuvík voru flutt út á árunum 1755-1763, og árin 1764 til 1786 voru 24 skipsfarmar af brennisteini fluttir út á ári frá Húsavík. Yfirmaður brennisteinsverksins á Húsavík frá 1783 til 1791 var norðmaðurinn Nikulás Arent Buck, einn forfaðir minn. Mér var hugsað til Nikulásar þegar ég kannaði brennisteinsnámuna í Ijen eldfjalli á eynni Jövu í lok nóvember 2009. Austast á Jövu er mikil eldstöð með nokkrum gígum og raða gígarnir sér upp á brúnir öskju sem er um 20 km í þvermál, en hæsti gígurinn er 2799 m. Austast er gígurinn Ijen, sem gaus síðast 1999 og er 2386 metrar yfir sjó. Í Ijen er gígvatn sem er um einn km í þvermál og um 200 metra djúpt, en vatnsborðið er um 200 metrum fyrir neðan gígbrúnina og mjög bratt niður að fara. NámanVatnið er heitt, oftast um 40oC, marglitt og gruggugt, en sýrustig vatnsins er um 0.5 pH. Vatnið er nokkuð sterk blanda af brennisteinssýru, sem tærir flesta málma og brennir strax göt á fatnað og húð. Á einum stað niður við vatnið er mikið háhita hverasvæði, þar sem fjöldi hvera myndar stóran mökk af gufu og brennisteinsgasi. Hitinn í hverunum er frá 150 til 500oC. Námumenn hafa komið fyrir rörum úr eldföstum leir á hverasvæðinu og leiða heita gasið nokkra metra frá stærstu hverunum. Gasið þettist í rörunum og út úr þeim rennur bráðinn brennisteinn, rauður eins og blóð, á um 200oC hita. Hann storknar strax og myndar skæra gula skán umhverfis hverasvæðið. Hér ráðast námumennirnir á kólnandi brennisteininn með járnkarla, brjóta hann upp og hlaða stykkjunum í körfur, sem þeir bera síðan upp úr gígnum og niður af eldfjallinu. Aðstæður við námuna eru mjög erfiðar og reyndar stórhættulegar. Mesta hætta námúmannanna eru eldgos, en það síðasta var 1999. BurðarmennGasmökkurinn sem námumennirnir vinna í daglega er heitur og erfitt að ná andanum. Einnig er mikið af SO2 gasi, sem fer í andfærin og brennir slímhúðina í nefinu og lungum og augum. Sumir eru með gas grímu en flestir eru bara með vasaklút fyrir vitum. Ég þoldi ekki við lengur en fimm mínútur hjá þeim í mökknum. Þeir eru flestir ungir, og segja að þeir elstu, em eru um fertugt, séu orðnir slappir og veikir. Allir eru síhóstandi og á stígnum upp úr gígnum má víða sjá blóðbletti vegna blæðinga í lungum. Hver þeirra ber tvær körfur fylltar af brennisteini á bambus slá yfir öxlina. Farmurinn er oftast 60 til 80 kíló á mann, en sumir taka allt að 100 kíló í ferð. Það tekur um einn tíma að komast upp úr gígnum, og aðra tvo tíma niður af fjallinu til að afhenda farminn og reykja nokkrar sígarettur fyrir næstu ferð. Þeir fara tvær ferðir á dag, en vinna yfirleitt annan hvorn dag.  BurðarmaðurAlls munu vera um 300 námumenn starfandi í Ijen, og að meðaltali flytja þeir alls um 20 tonn af brennisteini á dag upp úr gígnum. Þegar niður af fjallinu kemur, fær námumaðurinn 600 rupia eða um $0.06 fyrir kílóið af brennisteini. Það er um 7 krónur, og tekjur yfir daginn hjá þeim sterkustu og hraustustu, sem burðast með allt að 100 kg í hverri ferð, eru þá í mesta lagi um 700 krónur. Okkur íslendingum finnst þetta ótrúlega lág laun, en þau eru samt betri en kennari í barnaskóla fær í Indónesíu. Einnig er atvinnuleysi mjög mikið, og þegar tekið er tillit til þess, þá er námuvinnan í Ijen gígnum bara góð uppgrip fyrir unga menn. Gasið sem streymir út úr Ijen gígnum losar um 300 tonn af SO2 á dag út í andrúmsloftið, um 720 tonn af CO2 og 4000 tonn af vatnsgufu. Eldfjallið er því fljótt að bæta upp það magn af brennisteini sem námumenn fjarlægja yfir daginn, og náman er með öðrum orðum sjálfbær og ótæmandi. Á leiðinni niðurÉg dvaldi einn dag í gígnum og fylgdist með starfinu. Mér var strax ljóst að enginn staður á jörðu er sennilega líkari hugmyndum manna um víti eða Inferno. Hér niðri í iðrum jarðar fór saman ofsalegur hiti, stækja, sífelldur reykmökkur, hávaði frá hvæsandi hveraholum, og mikill fjöldi fáklæddra manna sem gengu inn og út úr reyknum, vopnaðir löngum járnkörlum sem þeir brutu brennisteininn með. Jörðin umhverfis okkur var algjörlega skærgul á lit, og ég hef aldrei séð svo mörg afbrigði af gula litnum. Öðru hvoru glitti í blóðrauðann leka, þar sem bráðinn brennisteinn rann frá hvernum, kólnaði, storknaði og varð gulur. Við fætur okkar var rjúkandi heitt og undarlega litað gígvatnið, sem er hvorki hægt að drekka úr né að baða sig í. Mér fannst ég vera kominn í annan heim.  WeighingHér var hinn sanni raunveruleiki, en tilveran utan eldfjallsins var eitthvað fjarstætt og langt í burtu. Mennirnir unnu látlaust, og eyddu engum tíma í hangs, því enginn vildi vera lengur í mökknum og á hættusvæðinu en nauðsyn krefur. Strax og körfurnar voru fullar, þá var lagt af stað upp þverbratta brekkuna og uppúr gígnum. Eins og áður getur, þá hefur brennisteinn verið mikilvægt hráefni um alda raðir. Það var árið 1777 að Antoine Lavoisier sýndi fram á að brennisteinn er eitt af frumefnunum en brennisteinn var þá þegar orðinn nauðsynlegur í ýmsum iðnaði. Í dag er framleiðsla á brennisteini um 40 milljón tonn á ári, og er eftirspurnin mest í háþróuðum löndum. Brennisteinn er ekki bara í byssupúðri, en er mikið notaður við hreinsun á olíu, til gerðar á þvottaefni og sem mikilvægur þáttur í áburði. Um 85% af brennisteini fer í að búa til brennisteinssýru, sem er nauðsynleg í pappírsgerð og öllum efnaiðnaði. Í Bandaríkjunum er um 38 milljón tonn af brennisteinssýru framleidd á hverju ári. Í upphafi var allur brennisteinn unninn úr eldfjöllum, eins og í Námaskarði eða á Ijen á Jövu. Nú er öldin önnur, og lang mest af brennisteini er unnið uppúr borholum, þar sem heitu vatni er dælt niður til að bræða brennisteinsrík jarðlög, og bráðinni síðan dælt upp á yfirborðið. Jarðlögin eru að mestu leyti gifs (CaSO4) sem hefur myndast við uppgufun á sjó. En á meðan vinnuaflið á Jövu er enn ódýrt, þá borgar sig fyrir Indónesíu að vinna brennisteininn á hefðbundinn hátt, með námugreftri í Ijen eldfjallinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband