Andy Warhol lætur Vesúvíus gjósa

Warhol

Hér fyrir ofan er ein uppáhalds myndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, sem ég keypti í Bandaríkjunum árið 1999. Hún er eftir Andy Warhol, og sýnir Vesúvíus gjósandi. Hér er stutt lýsing á því hvernig myndin varð til. Árið 1985 var haldin sýning á verkum Andy Warhol (1928-1987) í borgini Napólí á Ítalíu, sem hlaut nafnið “Sterminator Vesevo” eða Ógnvaldurinn Vesúvíus. Napólí er við rætur eldfjallsins fræga. 

Andy

Andy var þá þegar orðinn heimsfrægur. Hann var listamaðurinn sem tók eitthvað auðkennt og vel þekkt myndrænt efni, eins og miðann utan á súpudós, eða ljósmynd af Marilyn Monroe eða Mao Tse Tung, og vann úr því ógleymanlegt listaverk á einfaldan máta. Þannig urðu mörg verk hans strax hluti af nútímamenningunni og birtust reglulega í fjölmiðlum sem eins konar vörumerki, íkon eða stimplar sem voru æðstu fullrúar Pop Art hreyfingarinnar. Höfuðeinkenni Pop Art hreyfingar Andy Warhols var að taka þekkta mynd úr fjölmiðlum og veita henni nýtt gildi. Í því sambandi er mynd af eldgosi alþekkt fyrirbæri úr fjölmiðlum og Andy vildi notfæra sér það, en þetta var í fyrsta og eina sinn sem hann valdi landslag sem myndefni sitt, og tókst stórkostlega að leysa verkefnið.

MSH1980

 Árið 1980 var Andy í Napólí á Ítalíu um tíma og snéri aftur til borgarinnar árið 1985 til að vinna að myndinni af Vesúvíusi. Í viðtali frá þessum tíma segir Andy: “eldgos er algjörlega yfirþyrmandi myndefni, sem einstakt og stórkostlegt fyrirbæri sem jafnast á við stórkostlega höggmynd.”Árið 1980, þegar Andy var að vinna að Vesúvíusi, varð einmitt mikið sprengigos í Sánkti Helenu eldfjalli í Washington fylki í Bandaríkjunum, og varð Andy tvímælalaust fyrir áhrifum af því mikla gosi. Allir fjölmiðlar voru fullir af myndefni frá Sánkti Helenu og gjóskustrókurinn upp úr fjallinu var ógleymanleg sjón. Ýmsir listamenn brugðu strax við og máluðu ameríska gosið, og þar á meðal Roger Brown (1941-1997) í Chicago, sem nefndi sýna mynd First Continental Eruption, eða Fyrsta meginlandsgosið. Titillinn er mikilvægur, og vísar til þess að ameríkanar voru ekki vanir því að eiga við eldgos svo að segja heima hjá sér, heldur sem eitthvað fjarlægt fyrirbæri langt úti í heimi eða í Hawaii eyjum. 

BrownRoger

Myndin eftir Roger Brown er sýnd hér til vinstri, en hún er í Art Institute of Chicago.Afköst Andy Warhol í Napólí voru mikil. Hann lauk við sextán málverk og tuttugu og sex silkiþrykk myndir af Vesúvíusi gjósandi, og var hver mynd með mjög sérstakt litaval. Grundvallarmynin er mjög lík í flestum útgáfunum af silkiþrykkinu, þar sem formföst eldkeila Vesúvíusar rís upp yfir rústir gamla eldfjallsins Monte Somma, sem sést lengst til vinstri á myndinni. Við lítum hér til eldfjallsins frá vestri til austurs. Andy sá aldrei gos í Vesúvíusi, þar sem síðasta gosið þar var árið 1944, eins og sýnt er á ljósmyndinni fyrir neðan frá stríðsárunum.  

Vesuvius 1944  WWII

En honum tókst samt sem áður að skapa mjög kraftmikið sprengigos. Hann notaði tímann vel í Napólí og byrjaði á því að skoða mikið af málverkum af eldgosum Vesúvíusar frá sautjándu og átjándu öldinni, sem eru til í hundraða vís á söfnum borgarinnar, og notaði þau sem fyrirmynd af gosinu. Listamaðurinn Martin Creed tók þátt í að setja upp sýningu á verkum Warhols í Napólí og hafði þetta að segja: "Mér datt strax í hug Mozart og Andy Warhol. Þeir eru tveir uppáhaldslistamenn mínir, og mér finnst verk þeirra vera mjög lík. Í verkum þeirra beggja er allt á yfirborðinu. Þau eru stórkostlega grunn, og yfirborðskennd í besta skilningi. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá fyrst málverk Andy Warhol af Vesúvíus gjósandi, en mér fannst það fallegt eins og rjómaís. Það var upplyftandi og léttir að dást að því.”Það er freistandi að bera mynd Warhol saman við verk annara stórmeistara sem hafa málað Vesúvíus gjósandi. Einn þeirra er sjálfur Joseph Mallord William Turner (1775-1851), en hann gerði gosmynd af Vesúvíusi árið 1817. Myndin, sem er í Yale Center for British Art, er hér fyrir neðan, en hún er ekki ein af bestu myndum Turners. Hún ber samt með sér höfuðeinkenni listamannsins, mikið ljós og birtu. Alveg það sama má einmitt segja um mynd Warhols af eldfjallinu. 

Turner

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

gaman að lesa pistlana þína

Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Kærar þakkir! Ég er byrjandi í blogginu og hef gaman af.

H

Haraldur Sigurðsson, 5.10.2009 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband