Rótað í dys berserkjanna


 

Að öllum líkindum hefur verið grafið einhvern tíma í flestar ef ekki allar fornar grafir, dysjar og hauga á Íslandi.  Á mestu niðurlæginartímum þjóðarinnar hafa heimamenn sjálfsagt leitað í  fornar grafir í von um fjársjóði eða haugfé.  Á síðari tímum var það rómantíkin um fornmenn og sögutímann, sem kynti undir, einkum meðal erlendra ferðamanna.  Þannig rótaði bretinn W Collingwood í ýmsum gröfum á sögustöðum í lok nítjándu aldar og með fulltingi dr. Jóns Stefánssonar.

Dys berserkjanna hefur einnig orðið fyrir mörgum árásum.   Sú fyrsta sem við vitum um er í lok átjándu aldar, þegar Hallgrímur læknir Bachmann (1740-1811) í Bjarnarhöfn  fór í dys berserkjanna og kom heim með mannabein.  Bachmann, sem var rúmar 3 álnir (yfir 190 cm) á hæð, mældi einn lærlegginn við sig og taldi að berserkurinn hefði ekki verið eins hár og hann.  Þetta hefur Ólafur Thorlacíus í Stykkishólmi eftir kerlingunni Prjóna-Siggu, sem var í vist hjá Hallgrími í Bjarnarhöfn.

Ólafur Thorlacius “observator” (1837-1920) lýsir dys berserkjanna sem 3 álna hárri, og rétt við götuna. Vani er að allir sem ríða framhjá kasta steini í dysina og þessi vegur var mjög fjölfarinn þegar kauptún var í Kumbaravogi hjá Bjarnarhöfn.  Sumarið 1875 fór Ólafur frá Stykkishólmi við áttunda mann út í hraun og byrjuðu þeir að rjúfa dysina. Þegar þeir voru um það bil hálfnaðir gerði sunnan rok og rigningu og verkinu var því hætt.   Ólafur fór aftur að dysinni og gróf frekar og þá fundu þeir bein, sem Hjörtur Jónsson læknir sagði vera hvalbein. Síðan var dysin hlaðin upp. 

Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889. Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta.  Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.  

Árið 1897 fór W.G. Collingwood hér um, en ekki eru heimildir um hvort hann gróf í dysina. Hins vegar rifu hann og dr. Jón Stefánsson upp gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur  á Helgafelli í júní 1897 og voru fyrir vonbrigðum með að  finna aðeins fúnar spýtur og gömul bein. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband