Elsta Myndin af Heklu er eftir Sebastian Münster

Munster HeklaElsta myndin í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er sennilega frá árinu 1544. Hún er trérista af Heklugosi, úr ritinu Cosmografia eftir þjóðverjann Sebastian Münster. Myndin er sýnd hér fyrir ofan og er þar með elsta myndin af íslensku eldgosi. Það er fróðlegt að fylgjast með hugmyndum manna um eldfjöll á Íslandi, með því að skoða myndir af Heklu og öðrum eldfjöllum landsins eins og þær birtast okkur í landafræðiritum og á landakortum. Fyrst og þekktasta verk Sebastians Münster er Cosmographia universalis (1544) sem er einskonar landafræðirit, lýsing á löndum og þjóðum. Bókin er eitt þekktasta ritið frá byrjun bókaútgáfu í Evrópu. Münster var stórmerkilegur maður. Hann var múnkur í Fransísku reglunni, en eftir siðaskiftin fylgdi hann Marteini Lúter, og stundaði kennslu í Heidleberg og síðar í Basel. Münster sparaði ekki myndir í rit sitt, og fékk frábæra listamenn, eins og Hans Holbein yngri, Urs Graf, Hans Rudolph Manuel Deutsch, og David Kandel til að myndskreyta verkið með tréristum.Etna eftir Munster  Heklumyndin fyrir ofan er því eftir einn af þeim. Auðvitað hefur enginn þeirra séð Heklu, en haft vissa hugmynd um hvernig gjósandi eldfjall ætti að líta út. Í Cosmographia er einnig frábær trérista af eldgosi í Etnu á Sikiley, með borgina Kataníu í forgrunni, eins og sjá má hér til hægri. Reyndar var Hekla komin á prent rétt áður en Münster sýndi henni áhuga. Hekla kemur fyrst fram á landakorti af Norðurlöndum eftir þýska farandlærdómsmanninn Jakob Ziegler árið 1532. Kortið var í bók Zieglers sem ber heitið Schondia, eða Norðurlönd.  Ziegler 1532Ísland er sýnt aflangt frá norðri til suðurs á korti Zieglers, og nær öðrum endanum er ritað: “Hekelfol Promont”. Stækkuð mynd úr korti Zieglers er sýnd hér til vinstri. Árið 1536 gaf Sebastian Münster út landakort af allri Evrópu, þar sem hann sýnir Ísland og Heklu eða Hekl´berg, eins og sýnt er hér fyrir neðan. Eiginlega er þetta mikið bætt endurútgáfa á verki grikkjans Kládíusar Ptolemeusar (90 til 168), en landafræði hans var grundvallarrit allt fram á miðaldir. Næst kemur Hekla fyrir á landakorti því sem Olaus Magnus gaf út af öllum Norðurlöndum árið 1539. Munster 1539Magnus var síðasti kaþólski biskupinn í Svíþjóð, og var í útlegð í Feneyjum á Ítalíu eftir siðaskiftin. Kort hans er stórmekilegt, þótt ekki séu útlínur Íslands nálægt lagi. Hann dregur upp mynd af þremur miklum eldfjöllum á Íslandi, með eldtungur við rætur þeirra. Eitt fjallanna er merkt Mons Hekla og er þetta í fyrsta sinn sem eldur er sýndur í eða undir fjallinu á korti. Myndin fyrir neðan er úr Íslandskorti frakkans Hieronymus Gourmont frá 1548, sem er eftirmynd af korti Olaus Magnus. Olaus Magnus 1539Takið eftir orðinu “saxa” á milli Heklu og Skálholts á kortinu. Saxa er hamrar eða berg á latínu og sennilega er hér átt við stuðlaberg á Íslandi. Á sumum kortum frá þessum tíma eru “saxa” sýnd sem þrír háir turnar, eða skýjakljúfar. Hekla birtist aftur sem Mons Heklfiel á Íslandskorti Fernando Bertelli frá árinu 1566 og er jarðeldur undir fjallinu, og einnig Caos merkt við. Það er greinilega byggt á korti Magnusar frá 1539, en “saxa” turnarnir þrír eru enn greinilegri en áður. Íslandskort Giovanni Camocio í Feneyjum var gefið út árið 1571, en hann tekur upp eftir Bertelli að öllu leyti, þar á meðal Heklu sem Mons Heclafiel, og hér er jarðeldur og chaos undir fjallinu. Stökkbreyting varð í kortagerð Íslands árið 1587, þegar kort Guðbrands Þorláksonar biskups á Hólum birtist. Það var gefið út af Abraham Ortelius í Antwerpen.  Ortelius 1587Þetta er fysrta kortið sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af Íslandi, og speglar það vel þekkingu Guðbrandar biskups á landinu. Eins og myndin til hægri sýnir, þá er Hekla gjósandi hér í allri sinni dýrð. Dökkur mökkur hvílir á toppi fjallsins, grjóthnullungar kastast í allar áttir, og eldur er bæði í rótum þess, sem mun sennilega tákna hraunrennsli, og í toppnum. Kortið er handlitað sem gerir Heklumyndina enn áhrifameiri. Mörg síari kort, eins og Íslandskort Matthias Quad frá 1600 taka upp eftir Ortelíusi og Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, og sýna Heklu gjósandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Stórmerkilegt, takk fyrir. Ég var einmitt nýlega að skoða hvort ég gæti séð Heklu í 1. bindi kortasögu nafna þíns. Ég man ekki eftir því að Sigurður Þórarinsson hafi skrifað um þetta.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 16.2.2010 kl. 11:51

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

The Cosmographia of Sebastian Münster eftir Matthew Adam McLean (2007) upplýsir þó ekki að myndin af eldfjallinu vísi beint í Heklu (Heclu).

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 16.2.2010 kl. 12:23

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Mig grunar að vinur okkar hann Sebastian hafi notað sömu myndina af eldgosi fyrir nokkur eldfjöll. Eins og ég minntist á, þá er nokkurn veginn víst að listamaðurinn sá aldrei fjallið. Hann notaði til dæmis sömu myndina þegar hann flallar um eldfjall á Kanarí eyjum.

Haraldur Sigurðsson, 16.2.2010 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband