Listamaðurinn fundinn!

Heklugos 1970Fyrir um tíu árum rakst ég á þetta sérkennilega málverk í Kolaportinu í Reykjavik.   Það er ekki aðeins mynd af eldgosi, heldur hefur listamaðurinn notað vikur, ösku og gjall í byggingu myndarinnar. Verkið er ekki merkt og hefur því hangið uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi án þess að listamannsins sé getið. Nú hefur komið í ljós, að það er gert af Lýð S. Guðmundssyni árið 1970.   Lýður sá Heklugosið árið 1970 og safnaði vikri og ösku þá til að setja inn í þessa einstöku mynd. 


Fyrsta myndin af Surtsey

 

 

Surtsey úr hafiNýlega var Eldfjallasafni í Stykkishólmi færð góð gjöf. Það er fyrsta myndin, sem tekin var af Surtsey, þegar hún reis úr hafi hinn 15. nóvember 1963.   Það var Sæmundur Ingólfsson, yfirvélstjóri á varðskipinu Albert, sem tók myndina og færði mér.  Hún mun vera tekin um morguninn, sennilega um tíu leytið. Hér má sjá svarta strönd hinnar nýju eyjar, en gosmökkurinn hylur hana að mestu leyti.  Sæmundur tók mikinn fjölda af merkilegum myndum af fyrstu dögum gossins, og eru þær merkileg heimild. Við færum Sæmundi bestu þakkir fyrir þessa gjöf.  Ég var erlendis við háskólanám í jarðfræði þegar gosið hófst, en var svo heppinn að vera um borð í Albert í nokkra daga í desember 1963 í návígi við gosið, ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi. 


Þetta kemur okkur öllum við

 

 

kolakynt orkuverOrkuver í Bandaríkjunum dæla út um 38% af öllum koltvísýringi sem berst út í loftið og veldur neikvæðum loftslagsáhrifum.  Obama vill skera þetta niður um 30% á næstu árum, sem er ekki nóg en spor í rétta átt. Það þýðir að 550 kolakyntar og skítugar orkustöðvar verða að loka og aðrar orkulindir koma í staðinn eða meiri orkusparnaður.  Stóra vonin er að Ameríkanar snúi sér fremur og enn meir að kjarnorkuverum, og þá sérstaklega orkuverum sem keyrð eru af þóríum en ekki úran.  Það er hægt að draga úr mengun frá kolakyntu verunum.  Frá árinu 2005 hefur mengun frá þeim þegar minnkað um 13%.  Obama mun beita sér fyrir svipuðum aðgerðum í öðrum löndum, þegar hann fundar með erlendum ráðamönnum síðar í súmar.   Að sjáfsögðu er Obama nú með þessu að hanna fallegan minnisvarða um valdaskeið sitt og er það hið besta mál.


Bloggfærslur 3. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband