Árekstrar við hvali eru tíðastir hjá hvalaskoðunarbátum

HvalaárekstrarSkip og bátar af öllum stærðum sigla öðru hvoru á hvali.  Það gerist nú æ oftar, þegar skip kemur í höfn, að dauður hvalur hvílir ofan á kúlunni í stafni skipsins, eins og fyrsta myndin sýnir.  Hvað þá með alla hina hvalina, sem urðu fyrir árekstri og hurfu í hafið?  Skýrsla Alþjóðahvalveiðiráðsins um árekstra við hvali kom út nýlega og er fróðleg, en hún nær yfir meir en eitt þúsund árekstra sem eru skráðir frá 1885 til 2010.  Auðvitað er galli á svona plaggi, þar sem margir aðilar skrá alls ekki árekstra.  Það eru fyrst og fremst herskip og skip í eigu hins opinbera, sem skrá, en einkaaðilar síður. Árekstrar Það kemur í ljós í þessari og skyldum skýrslum, að algengustu árekstrar við hvali verða hjá hvalaskoðunarbátum.  Hér með fylgja tvö línurit, sem styðja þessa niðurstöðu.  Annað er frá Alþjóðaráðinu en hitt frá Hawaii.  Í báðum þessum heimildum eru hvalaskoðunarbátar og hvalaskoðunarskip á toppnum.  Þetta er auðvitað það sem maður mátti búast við.  Hvalaskoðarar eru fyrst og fremst á þeim slóðum þar sem hvalir eru algengastir og hvalaskoðunarmenn reyna að komast eins nálægt og hægt er, til að þóknast ferðamönnum.  Í Hawaii er reyndar sú regla, að hvalaskoðunarskip mega ekki koma nær hval en 100 metrar. Árekstrar Hawaii Ekki veit ég hver reglan er hér á landi, ef nokkur, en þær eru ekki ófáar myndirnar, sem birtast hér við land þar sem skipið er alveg ofaní hvalnum.   Telur hinn ágæti lesandi að íslenskir hvalaskoðarar veiti upplýsingar til hins opinbera um slíka árekstra?


Bloggfærslur 28. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband