Færsluflokkur: Ferðalög

Milljón kúkar úti á túni

við veginnVið fögnum því að erlendir ferðamenn hópast nú til Íslands og eru duglegir að njóta náttúrufegurðar hér á Fróni. En því fylgja óhjákvæmilega ýmis vandamál, sem ekki hefur verið nægilega fjallað um, en munu óhjákvæmilega valda miklum spjöllum á náttúru landsins í náinni framtíð. Eitt af þeim er umgengni ferðamanna, sem velja sér næturstað við þjóðveginn. Þegar ekið er um landið eru litlir sendibílar eða campers við veginn orðin mjög algeng sjón, en þar hafa erlendir ferðamenn komið sér fyrir yfir nóttina. Margar bílaleigur, eins og Kúkú campers, Go Iceland, Happy Campers og fleiri, beinlínis hvetja ferðamenn til að hafa þennan ferðamáta og auglýsa þannig ókeypis gistingu við veginn. En hvar gengur þetta fólk örna sinna? Auðvitað úti í móa við veginn eða á bak við bílinn. Erum við að ef til vill komast á það stig að hér verði gerðir milljón kúkar á dag við veginn? Viljum við lýða slíkan sóðaskap á okkar landi? Í öllum bæjarfélögum eru ágætis tjaldstæði, með salerni og hreinlætisaðstöðu. Er ekki kominn tími til að stemma stigu við þessari þróun og skipa erlendum ferðamönnum að notfæra sér slík viðurkennd og skipulög tjaldstæði? Sumar bílaleigur og netmiðlar hafa skapað andrúmsloft, sem hvetur ferðamenn til að gera allar sínar þafir úti í Íslenskri náttúru. Hér eru nokkur dæmi um slíkt, tekin af netinu:

Passion Passport: “The Law of Survival states that you can stop on any man’s land for a night and eat anything that grows on that land. That means that it’s completely acceptable – and legal – to sleep in your car, whether you’re on private property, in a national park, or at a designated rest stop.“

“By the end of our trip, I felt like I really communed with nature in the sense that (how do I put this delicately?) I peed in every corner of Iceland.”

“You can park the car nearly anywhere in the country and sleep in the back of it.”

Myndin sem fylgir segir sína sögu, en takið eftir skiltinu inni í rauða hringnum, sem bannar tjaldsvæði.

 

 

 


Flóttamenn eða ferðamenn?

BátsfylliFréttir berast um að varðskipið Týr hafi “bjargað” 320 manns á báti í Miðjarðarhafi og komu þeim í land á Ítalíu. Skyldu Ítalir nú fagna þessu framtaki íslensku Landhelgisgæslunnar?  Ég leyfi mér að efast um það. Það var fyrir rúmu ári að Ítalía hætti að líta á flóttamenn sem ólöglega innflytjendur og byrjaði að “bjarga” fjölda manna sem lögðu á hafið á litlum bátum frá norður strönd Afríku. Fréttin um að Ítalir tækju flóttafólki opnum örmum barst eins og eldur í sinu um alla Norður Afríku og öllum skekktum er nú ýtt á flot í átt til fyrirheitna landsins. Ítalía er nú orðin gáttin inn í Evrópu fyrir ólöglega innflytjendur. Það er talið að um 200 þúsund manns hafi komið frá Afríku árið 2014 til Ítalíu á þennan hátt, en þeir greiða frá eitt til tvö þúsund evrur til smyglara eða scafisti í Líbíu fyrir ferðina. Ítalska ríkið heldur þeim uppi fyrst í stað þegar þeir koma til fyrirheitna landsins, og er talið að það kosti landið um 43 evrur á hvern mann á dag, eða alls meir en fimm milljón evrur á dag! Þótt þeir hefji ferðina oftast frá Líbíu, þá er þetta fólk frá ýmsum löndum utan Afríku: Afganistan, Sýrlandi, Palestínu og Írak. Þegar til Ítalíu er komið er auðvelt að koma sér áfram í lest eftir stutta dvöl, til dæmis til Frakklands, því Schengen kerfið gerir öllum kleift að ferðast án vegabréfs, eftir að þeir eru komnir einhvers staðar inn í Evrópu. Í einfeldni okkar lítum við flest á svokallaða flóttamenn sem fólk á flótta undan pólitísku ofbeldi. Ég held að það sé rangt. Fólkið er fyrst og fremst í leit að tækifærum, atvinnu og bættum efnahag. Sumir eru einnig einfaldlega á flótta undan yfirvaldinu í heimalandinu vegna glæpastarfssemi. Hvenær verður þolinmæði ítalskra skattgreiðanda á þrotum? Þangað til hefur varðskipið Týr vinnu við þessa “björgun”.


Haraldur í þættinum Um Land Allt

Um Land AlltKristján Már Unnarsson hefur tekið upp tvo þætti með spjalli við mig í Stykkishólmi. Efnið má sjá hér: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP33495

Fyrri þátturinn er sýndur 9. febrúar 2015 í þáttaröðinni Um land allt. Hér er kynning á efninu frá visir.is:

Heim í Hólminn eftir 40 ára eldfjallaflakk: Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur flutti aftur heim í Stykkishólm eftir 40 ára vísindastörf við rannsóknir á eldfjöllum víða um heim. Í þættinum „Um land allt“ segir Haraldur frá æskuslóðum sínum í Hólminum, starfsferli og einkalífi og sýnir Eldfjallasafnið. Þetta er fyrri þáttur af tveimur. Í seinni þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 þann 10. febrúar, fer Haraldur umhverfis Snæfellsnes með Kristjáni Má Unnarssyni og Arnari Halldórssyni kvikmyndatökumanni.  Við þökkum þeim fyrir að fá þetta tækifæri til að kynna Eldfjallasafn í Stykkishólmi.


Möskvastærð er ekkert mál!

fishing-in-cambodia11.jpgHort vilt þú deyja úr hungri, eða úr malaríu? Í Afríku er þetta ekkert grín, heldur alvöru mál. Í Zambíu og mörgum öðrum löndum Afríku eru moskítónet algeng vörn gegn malaríu, en nú eru margir íbúar búnir að taka netið niður fyrir ofan rúmið og farnir með það út á vatn eða út í ána, sem rennur í nágrenninu. Húsbóndinn er búinn að taka öll netin ur heimilinu, sauma þau saman og notar þau til að trolla eftir fisk í ánni eða vatninu. Það er ekkert spursmál um möskvastærð hér. Netið fangar bókstaflega allt sem lifir í vatninu, ungviði sem fullorðinn fisk og ekkert er skilið eftir. Þessi dásamlegu moskítónet, sem hjálparstofnanir færa heimamönnum ókeypis eru að bjarga þeim, ekki frá malaríunni, heldur frá hungri. Netin eru ókeypis, en þau eru menguð af permethin, sem drepur moskító flugur en einnig mikið af lífriki vatnanna. Hjálparstofnanir dreifa hundruðum milljóna moskítónetja á hverju ári í Afríku, sem öll eru menguð efnum til að fæla frá moskító flugur. En nú eru þessi efni að fara í vatnið.  En þessi aðferð er ekki bundin við Afríku.  Myndin sem fylgir er reyndar frá Kambódíu, þar sem þeir nota sömu aðferð með moskító net.


Sigurfari á haugana?

SigurfariÞegar ég heimsæki Akranes, þá kem ég gjarnan við hjá Sigurfara, síðasta kútternum á Íslandi. Ég hef alltaf litið á hann sem merkilegustu menningarminjar sem Akurnesingar hafa í sínum fórum. Hann er nú reyndar aðeins svipur hjá sjón og nú hafa yfirvöld tilkynnt að hann veri rifinn og kastað á hauga, í staðinn fyrir að ráðast í dýra viðgerð. Þetta er ótrúleg skammsýni hjá bæjarfélagi sem kastaði hins vegar um 150 milljónum króna í að semja sögu bæjarins. Ef þetta væri gamalt hús, þá væri það lögbrot að rífa það. Er engin hreyfing á Akranesi, sem hefur áhuga á að halda utan um svo merkilegan grip? Hvar er metnaður bæjarbúa í menningarmálum?


Sukk og svínarí

img_1955.jpgÉg var að ljúka vikudvöl minni í fornu borginni Marrakesh í Marokkó. Borgin er stórmerkileg, en hún var stofnuð af Berbum árið 1062. Marrakesh situr við rætur hinna fögru og snævi þöktu Atlasfjalla, sem ná meir en 4000 metra hæð. Hús, hallir og moskur borgarinnar er nær öll byggð úr rauðum sandsteini og einnig borgarmúrarnir, sem gefur borginni sérstakan rauðan lit. Berbar settu strax á laggirnar markað eða “souk” hér á elleftu öld og reyndar eru í borginni einir átján “souks” starfandi í stígum og götum, sem eru svo þröngar að engir bílar fara þar um, aðeins fótgangandi og asnakerrur með farangur á markaðinn. Karlar sitja við störf sín úti á götu eða í þröngum sundum, en konur eru lítt áberandi. Hér er hægt að kaupa bókstaflega allt sem þér dettur í hug. Krydd er áberandi, einnig fatnaður, teppi, grænmeti, ávextir. Ég rakst jafnvel á nokkra karla sem voru eingöngu að selja steingervinga og kristalla af ýmsu tagi, enda er jarðfræði Marókkó stórmerkileg. Aðrir selja forngripi frá ýmsum kynþáttum Norður Afríku, einkum Tuareg fólki. Það er enginn vandi að eyða mörgum dögum í “souk”, en maður stoppar öðru hvoru til að fá sér heitt te með mintu.   Þeir taka fersk mintublöð og hella sjóðandi vatninu yfir þau, sem gerir hinn besta drykk. Svo setja þeir tvo stóra sykurmola út í. Einn daginn, á leið í “souk” áttaði ég mig allt í einu á því að reyndar var ég að fara í sukkið! Ég tel að það sé enginn vafi á því að íslenska orðið sukkið er dregið af “souk”. Sennilega hefur það borist okkur í gegnum dönsku. Eina “souk” í Evrópu sem ég veit um er í Marseille í suður Frakklandi, enda eru Arabar í meirihluta í þeirri borg.   Að fara í sukkið getur að vissu leyti verið neikvætt, enda er maður hér til að eyða tímanum, á flækingi, og þar á meðal er hætta á að dragast út í einhverja óreglu. En það er ekki hættan í Marrakesh. Þar hjá múslimum er ekkert áfengi selt í sukkinu.


Hvernig kóngur Marókkó tók á hryðjuverkamönnum

Marrakesh í Marokkó er góð borg. Hún er hrein, skemmtileg og hefur gömul markaðshverfi eða souk, sem eru sennilega óbreytt frá fyrri hluta miðalda. Það kemur mér ekki á óvart að Marrakesh er til fyrirmyndar. Fólk frá Marokkó hefur mjög gott orð á sér í Frakklandi, ólíkt því sem sagt er um hina fremur óvinsælu innflytjendur frá Alsír. En þótt þröngt sé í gömlu Marrakesh, þá er þrifnaður til fyrirmyndar, engir flækingshundar, og kurteist fólk. Gömlu hverfin eru svo flókin, að það þarf GPS til að komast út úr þeim auðveldlega, en yfirleitt finnur maður alltaf aftur stóra torgið Jaama el Fna. Maður gengur bara á hljómlistina eða þá í áttina þaðan sem hrossataðslyktin kemur. Hér á torginu halda nefnilega til um eitt hundrað skrautlegar hestakerrur. Torgið stóra er miðja borgarinnar á margan hátt. En undir þessu fagra yfirbragði leynist ef til vill önnur hlið á Marokkó. Hér var gert eina hryðjuverkið, sem Marokkó hefur orðið fyrir. Það var í apríl árið 2011, þegar sprengja sprakk í Argana veitingahúsinu. Hún drap 17 manns, mest túrista. Þá fylgdu handtökur og réttarhöld. Mohammed VI konungur er harður í horn að taka. Árið 2012 voru tveir dæmdir til dauða fyrir hryðjuverkið en nokkrir í viðbót settir í fangelsi. Mér hefur ekki tekist að fá beint staðfest að þeir hafi verið teknir af lífi, en mér var sagt af heimamanni hér í borginni að svo væri. Hann staðfesti einnig mýtu sem ég hafði oft heyrt í Frakklandi um þetta mál. Hún er sú, að auk sprengjuvarganna hefðu fjölskyldur þeirra einnig verið teknar af lífi, þar á meðal afar og ömmur, sem viðvörun til þeirra sem hyggjast stunda hryðjuverk í þessu konungsríki. Amnesty International hefur mótmælt því harðlega hvað allt réttarfar er fótum troðið í þessu landi, einkum er varðar mótmæli og áróður á móti ríkinu.


Það sem enginn þorir að tala upphátt um í Frakklandi

Það er enginn vandi að dvelja nokkra daga í Frakklandi án þess að hafa neinar áhyggjur af innflytjendamálum. En samt sem áður kemur að því fyrr eða síðar að maður fer að taka eftir fólkinu, oft hjónum, sem er að koma sér fyrir úti í skúmaskotum á kvöldin, liggur á tómum pappakössum og breiðir yfir sig og nokkur börnin einhverjar plastdruslur fyrir nóttina. Innflytjendamálin eru stóra málið í þessu landi. Fyrrum forseti Nicolas Sarkosy sagði í ræðu nýlega að innflytjendur væru í þann veginn að eyðileggja hinn franska lífsstíl. Rithöfundurinn Michel Houellebecq, í nýrri skáldsögu sinni Soumission, gerir Frakkland að múslimaríki árið 2022. Þetta er auðvitað pólitík og skáldskapur. Hverjar eru staðreyndirnar? Það er margt rangt í hinum almennu skoðunum um innflytjendur í Frakklandi. Aðeins níu prósent af Frökkum eru innflytjendur, en þeir streyma nú inn í vaxandi mæli um 200 þúsund á ári. Eru þeir allir múslimar frá Afríku? Rangt. Nær helmingur innflytjenda til Frakklands eru Evrópubúar (46%), ekki Afríkubúar (30%), eins og margir kynnu að halda. Portúgalar eru reyndar stærsti hópurinn af innflytjendum til Frakklands (8%), þá næst Marokkó og síðan Alsírbúar.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir er andúð á móti innflytjendum mjög útbreidd.  Eða er kannske ekkert mark takandi á þessum opinberu tölum um innflytjendur? Enginn veit hvað margir smjúga inn bakdyramegin yfir landamærin.  Skoðannakannanir sýna að um 60% af Frökkum eru á móti því að veita útlendingum kosningarétt. En mótstaðan er fyrst og fremt gegn múslimum. Skoðanakönnun blaðsins Le Monde sýnir að 74% af Frökkum telja Islam vera trú, sem virðir engin önnur trúarbrögð (intolerant) og er því ekki gjaldgeng trúrbrögð í Frönsku samfélagi. Það veit reyndar enginn hve margir músimar búa í Frakklandi, því það er á móti lögum að spyrja um trúarbrögð og kynþátt í opinberum skoðanakönnunum eða manntali. En almennt er talið að nú séu um 10% þjóðarinnar múslimar. Með mannfjölda sem er um 66 milljónir, þá hefur því Frakkland fleiri múslima en nokkur önnur þjóð í Evrópubandalaginu. Í sumum borgum eru múslimar mjög fjölmennir. Til dæmis í Marseille eru þeir taldir milli 30 og 40% og er sú borg talin hin hættulegasta allra borga í Evrópu. Það vakti mikla athygli nýega að í einni skoðanakönnun kom í ljós að einn af hverjum sex íbúum Frakklands hefur samúð með ISIS skæruliðum, sem eru að berjast í Sýrlandi. Hver er framtíðin? Þeim fjölgar hraðar en okkur hinum. Múslimar eru taldir ná 26,4% af mannfjölda jarðarinnar árið 2030, en voru 23,4% árið 2010. Talið er að Frakkar nái 70 milljónum árið 2030 og þar af verða 28 milljón þeirra múslimar, eða um 40%. Kannske er Michel Houellebecq á réttu róli?


Gagngata og vörður í Berserkjahrauni


 

GagngataÞrjár götur liggja um Bererkjahraun: Skollagata, Berserkjagata og Gagngata. Síu síðarnefnda liggur frá Hraunsfirði og þvert yfir hraunið til austurs fyrir norðan Gráukúlu.  Forna gatan er nokkurn veginn eins og þjóðvegur  númer 558, sem nú nefnist Berserkjahraunsvegur.  Við vestur jaðar hraunsins hefur verið hlaðið upp töluvert mannvirki fyrr á öldum, til að gera kleift að komast upp í bratt hraunið.   BerserkjavarðaVörður eru mjög áberandi í Berserkjahrauni, enda getur hér legið yfir þoka og slæmt skyggni. En eitt er mjög merkilegt við þessar vörður: þær hafa flestar einskonar vegvísi.  Það er langur og mjór steinn, sem skagar út úr vörðunni miðri og vísar veginn í áttina að næstu vörðu.  Þetta er reyndar mjög skynsamlegt fyrirkomulag.  Í blindbyl er ekki nægilegt að komast bara til næstu vörðu. Ferðamaðurinn þarf einnig að vita í hvaða átt hann á að fara til að finna næstu vörðu.  Þetta er einkum mikilvægt þar sem vegurinn er krókóttur eins og hér.

            Ég hef ekki séð svo merkar vörður annars staðar á ferðum mínum. En vil þó geta þess, að vörður á Skógaströnd hafa einnig vegvísi, til dæmis í grennd við Hvallátur.  Þessi vegvísir er á annan hátt.  Það er ferhyrnt gat í miðri vörðunni, og með því að sigta í gegnum gatið sér maður næstu vörðu, eða alla vega áttina til hennar.

 


Leiðir á Snæfellsnesi

Fornir vegir, reiðgötur og gamlir bílvegir eru menningarminjar. Sennilega eru gamlar götur elstu menningarminjar okkar og þær ber að varðveita. Myndin sýnir Berserkjagötu, sem mun vera frá söguöld. Ég birti hér lýsingu á vegum í Helgafellssveit, sem varðveitist í handriti. Mér þætti væntu m að heyra frá þeim sem þekkja aðrar fornar gönguleiðir á Snæfellsnesi.

 

Vegir í Helgafellssveit

 

Björn Jónsson (1902-1987)

Innri-Kóngsbakka

 

“Ég ætla að greina hér frá hvar voru aðal umferðarleiðir um Helgafellssveit og til Stykkishólms, áður en nokkur vegagerð þekktist eða hófst hér í sveit. En ég ætla, að fyrsta spor í þá átt hafi verið að brúa með grjóti yfir verstu fúakeldurnar, sem á leið manna voru, en þess var sérstaklega þörf í Þórsnesinu, en þar er landslagi þannig háttað, að þar skiftast á klappaholt og fúakeldur. Auk þessa mun hafa verið kastað steini úr götu, þar sem umferðin var mest. En vegagerð, sem heitið gat því nafni held ég að ekki hafi hafist fyrr en á síðasta tug nítjándu aldar.

       Berserkjagata     Leiðin frá sæluhúsinu á Kerlingarskarði til Stykkishólms, ef farið var á hestum, lá inn hjá Norðara Dysi.  Það fram undan voru Þrengslin. Það var bratt einstigi í vestur rótum Kerlingarfjalls. Brátt var þá komið niður á Sandinn, en þar var greið leið á vesturbakka Furu, sem þarna á upptök sín. Þegar komið er framhjá grjóthólum sem þarna eru er beygt til hægri og farið yfir Furu, og er þá komið yfir á Sneiðina, en í norður brún hennar liggur leiðin niður bratta sneiðinga, sem farnir eru í mörgum krókum.  Þegar komið er niður úr Sneiðinni, er greiðfær leið til austurs merð Kerlingarhlíðinni inn að Grettistaki, en þar er áningarstaður.  Þaðan liggur leiðin spottakorn inn með hlíðinni og svo niður Stórholtin. Þarna eru góðar reiðgöturniður að Bakkaá.   Yfir hana var farið á vaði við rætur á melarana, sem er fyrir ofan Gríshólslækinn.  Áfram liggur vegurinn niður með Bakkaá að austanverðu, yfir Gríshólslæk, niður Langáseyrar, og áfram með ánni niður að Bakkafossi.  Þaðan liggur gata niður Hlíðina ofan í Tungu og niður í Amtsmannsbrekku, en hún er neðan Markholts. Í Amtmannsbrekku var sjálfagður áningarstaður.  Áfram er svo haldið niður ármót og inn yfir Gríshólsá en þar greinist leiðin.  Ef háfjara er, þá er styttra að fara niður Hofsstaðavaðal ofan í Haugsnes, niður yfir Flæðilæk og áfram niður fyrir Axlir, ofan á Skálholt, yfir Norðlingabrú, inn Hádegisás, og niður fyrir innan Ögrið. Þaðan inn með Axlarhausum, fyrir ofan Skaldárvatn og inn að Nesvogsbotni.  Síðan er haldið inn með Nesvog og um Selskóg, ofan á Byrgisborg, yfir endann á Grensás og niður á Vatnsás, og mátti þá fara hvort heldur sem vildi inn Vatnsás og ofan í Maðkavík og þaðan Steinólfshöfðann niður á Pláss, eða fara af vestari Vatnsásendanum út í Ásklif niður á Húshala, þaðan niður á Lágholt, niður Silfurgötu ofan á Pláss. 

            Ef hásjávað var, þegar litast var um við Gríshólsá þá varð að fara niður Engjaskóg, inn með Berhól, inn yfir Taklæk (Saurasíki) inn Vogaskeið niður á Ambáttarholt, inn Stigamannaborg, inn með Illugabjörgum, yfir Rauðsteinalæk, upp Röngugötu, niður Munkaskörð, yfir Kýrbrú, inn með Klifsholti, niður Kvíastöðul, og þaðan inn fyrir Fell, niður Götuholt, niður fyrir Flæðilæk, niður Dældarkotsmela, fram hjá Kaupmannaborg, út fyrir Nesvogsbotn, og þar komið á veginn inn Selskóg, sem áður er lýst.  

            Leiðin innan frá Álftafirði var á svipuðum slóðum og vegurinn nú. Farið var yfir Vaðilshöfða við botn Álftafjarðar, út hjá Bólstað (bær Arnkels goða), og niður Úlfarsfellshlíð að Hrísasneiðingum.  Þaðan framan Úlfarsfells, yfir Krákunes, út fyrir Þórsá. Upp á Hrísamela. Einnig mátti fara af Vaðilshöfða, upp hjá Úlfarsfelli, út yfir Úlfarsfellsháls, niður hjá Hvammi (bæ Þórólfs bægifóts) niður yfir Þórsá út Hrísamela, út yfir Svelgsá, fyrir sunnan Svelgsártún. Út yfir Hauksá, upp Hólahvörf, út í Söðla, niður yfir Brettingsstaðalæk, niður yfir skógarásinn hjá Fögrubrekku, fram hjá Kallhamri, niður Kallhamarsbrekku, og niður á Fornastöðul hjá Saurum.  Þaðan niður Sauratögl, og niður á Vogaskeið, og komum þar á götuna sem hér að framan er lýst. 

            Ef ferðinni er heitið út Helgafellssveitina, þá var farið af Hólahvörfum, upp  Hauksdal, fyrir ofan Skálafell, og út og niður Vatnsdal, út Bólin, niður með Drápuhlíðartúnum niður hjá Akranesi, út Drápuhlíðarmela, ýfir Gríshólsá út Hlíð, yfir Bakkaá, á vaðinu fyrir ofan Bakkafoss, og þaðan út Skeið.

Leið úr Eyrarsveit lá um Tröllaháls, in yfir Árnabotn, að Fjarðarhornsá, inn Fjarðarhornsleiti inn hjá Snorrastöðum, að Hraunsfirði, niður yfir Þórsá, inn Hornsmýrar inn með hraununum að Hraunklifi. Hraunkanturinn er þarna 10-12 m hár, og varð því að laga þarna veginn, svo fært væri hestum. Þarna hafði verið klauf í hraunkantinum og þar hefir verið jafnaður botninn og flórað með hellum en þetta var svo bratt og skreift á hellunum, að fæstir kærðu sig um að sitja á hesti yfir klifið.  Leiðin lá svo inn Gagngötu inn í Kúlur, niður Smáhraun, að Berserkjahraunsbæ, yfir ………………. Með Höfðum og niður á Hraunháls,  niður Hraunhálsmelainn yfir Stafá, áfram inn fyrir ofan Kóngsbakka, inn Kóngsbakkahvörf, inn skeiðið að Kljáá, og þaðan áfram inn fyrir Kljárlæk, og þaðan inn á Skeið þangað sem komið var þegar komið var innan úr sveit. 

En nú beinum við af þessum vegi og förum niður Bringur og inn fyrir ár, og komum þá á veginn sem ápur er lýst inn Engjaskóg.  Þegar komið var inn á Kóngsbakkahvarfið, þá var litið á hvernig stæði á sjávarfalli.  Væri lágsjávað eða fjara, þá var kanski farið af hverfinu niður fyrir innan Klettenda, niður fyrir utan Sandvíkurlæk, og ofan í Sandvík.  Þaðan var haldið inn með Kljárbökkum, inn fyrir neðan Bug, og inn fyrir neðan Staðarbakkatún, og áfram inn að Sauðskeri.  Þá var farið niður Marbakka og komið ofan í Haugsnes, og þar á götum sem áður er lýst á leið í Stykkishólm.  Að vetrinum, ef þungfært var vegna snjóa, þá var oft farið um þessar fjörur.  Um litlar fjörur var stefnan tekin frá Sauðskeri á Arnarstaði og eftir að komið var af fjörunum, þá var haldið áfram fyrir neðan Arnarstaðatún, og inn með Arnarstaðavog, og niður fyrir vogsbotninn og inn á Arnarstaðagötu, á leið til Helgafells, en þegar komið var á móts við Bygghamarstún, þa´beygt niður fyrir Flæðilæk og komið á þá götu á Deildarkotsmelum, sem hér framan hefir verið lýst.”

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband