Hvað orsakaði stóra skjálftann?

 

Í morgun kom stærsti skjálftinn í Bárðarbungu til þessa.  Hann var 5,7 að styrk og á 6,2 km dýpi.  Hann er staðsettur djúpt undir norður brún öskju Bárðarbungu, samkvæmt Veðurstofunni.  Athugið að á þessum jarðskjálftaskala er til dæmis skjálfti af stærðinni 5 hvorki meira né minna en 33 sinnum stærri en skjálfti af stærð 4.  Þessi mikli skjálfti er af sömu stærðargráðu og skjáftarnir tíu undir Bárðarbungu, sem Meredith Nettles og Göran Ekstrom rannsökuðu í grein sinni árið 1998.  Það voru skjálftar frá 1976 til 1996, sem þau könnuðu, á dýpi allt að 6,7 km.   Hvað er það, sem hleypir af stað svona stórum skjálftum undir eldfjallinu?  Hvað þýðir það fyrir framhaldið?  Sérfræðingar hafa gefið í skyn að þeir telji skjálftann  í morgun  vera afleiðingu af kvikuflæði út úr kvikuþró undir öskjunni og inn í ganginn.  Það væri þá þak kvikuþróarinnar, sem er að síga niður og skjálftinn verður á brúninni.  Samkvæmt þeirri túlkun ætti kvikuþróin að ná niður á 6,2 km dýpi.    Kvikuþrær undir íslenskum eldfjöllum sem hafa öskjur eru fremur grunnt undir yfirborði.  Þanni er talið að kvikuþró sé á 2 til 3 km dýpi undir Kröflu, 2 km undir Kötlu og um 3 km undir Öskju.  Kvikuþró á allt að 6 km dýpi undir öskju Bárðarbungu væri því mjög ólíkt því sem við höfum vanist.  Þess vegna ber að athuga hinn möguleikan að stóri skjálftinn sé af tegundinni sem Ekstrom stingur uppá: tengdur hreyfingu á hringlaga sprungu, sem er í jarðskorpunni UNDIR kvikuþrónni.  Ég hef fjallað um líkan Ekstroms áður hér:  http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1428037/

Og einnig hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1428340/

 Skjálftafræðingar eiga eftir að ákvarða af hvaða tegund þessi skjálfti er, út frá "first motion" eða könnun á hreyfingu fyrstu bylgjunnar í skjálftanum.  En á meðan verðum við að taka til greina að hann sé samkvæmt líkani þeirra Ekstroms.  Ef sig er að gerast í öskjunni og veldur jarðskjálftanum, þá ætti það að koma fram á GPS mælinum á Dyngjuhálsi. Svo er ekki.  Þá grunar mann að orsökin á þessum stóra skjálfta sé önnur en öskjusig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég ætla nú bara að vera á þessari síðu og læra um jarðfræði Íslands :-)

Ásta María H Jensen, 26.8.2014 kl. 19:24

2 identicon

Ef ekki öskjusig, þá hvað? Berg að brotna vegna landreks? Ég skil að eldfjallafræðingar reyna helst ekki að spá meira en staðreyndir gefa efni til -- og nú eru margar breytur á hreyfingu. En...

Það sem ég á erfitt með að skilja í þessari atburðarás -- svona frá sjónarhorni leikmanns-- er einfaldlega hvenær (og kannski hvort?) hægt sé að gefa einhvern fyrirvara um hvort hér sé á ferðinni undanfari meiriháttar umbrota sem ekki hafa sést á Íslandi í langan tíma og eiga uppruna sinn ekki í venjulegum megin eldstöðvum. Mér finnast upplýsingar sem ég sé á vefsíðum fjölmiðla (ég bý ekki á Íslandi og hef því takmarkaðar fréttir) beinast að sjónarspili (sem er kannski skiljanlegt), en heldur lítið verið spáð í að á Íslandi verða meiriháttar eldgos sem geta haft veruleg skammtíma áhrif á búsetugetu og þá heilsu landsmanna.

Andri H (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 20:12

3 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Sæll Haraldur og takk fyrir þessar upplýsingar, og ég eiginlega segi eins og Hekla þú fræðir mann.

Það er svolítið spennandi að fræðast um þessar hræringar og hvernig þær verða til og eftir lestur þennan þá velti ég því fyrir mér þar sem þú hefur minnst á eiturefni annarsvega sem geta komið frá sumum eldgosum hvort tvenn ólík efni neðanjarðar geti mindað svona við samruna...

Kv.góð og takk en og aftur.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 26.8.2014 kl. 20:28

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta þýðir m.ö.o. að þessi stóri skjálfti (stóru skjálftar) eru vegna viðbótar kvikuinnstreymis í þessa megineldstöð?

Júlíus Valsson, 26.8.2014 kl. 20:42

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Haraldur, fyrir einstaklega viðeigandi framsetningu og spennandi frásögn af hugleiðingum þínum um orsakir jarðhræringanna í Bárðarbungu og um kvikuna, sem nú sækir fram undan Dyngjujökli og stefnir á Öskju. 

Bjarni Jónsson, 26.8.2014 kl. 21:07

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Andri:  Ekstrom líkanið segir að stórir skjálftar af þessu tagi komi vegna þess að þrýstingur í grunnu  kvikuhólfi brýtur jarðskorpuna fyrir neðan á hringlaga sprungum.  Já, mikil virkni ´í Bárðarbungu vekur vissulega hugleiðingar um hugsanlega stóratburði í jarðskorpunni á Íslandi.  Ef til vill er mikið kvikumagn sem hefur safnast hér saman, unir Bárðarbungu.  Á meðan við einblínum á ganginn, sem vext til norðurs, þá kann að vera að gerast önnur atburðarás, sem getur haft miklu meiri áhrif.

Haraldur Sigurðsson, 26.8.2014 kl. 21:20

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ingibjörg: Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hættulegum efnum, fyrr (eða ef...) úr gosi verður.  þá er hætt við útlosun af brennisteinsgasi, klór og flúrgasi, eins og við þekkjum úr mörgum gosum.  Umhverfisáhrifin eru í beinu hlutfalli við magnið af kviku, sem kemur upp á yfirborðið.

Haraldur Sigurðsson, 26.8.2014 kl. 21:22

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Júlíus:  Já, ég held að efri kvikuþróin sé að þenjast út vegna aukins innstreymis af kviku sem kemur djúpt að.  Þetta veldur spennu í skorpunni og það orsakaði stóra skjálftann.

Haraldur Sigurðsson, 26.8.2014 kl. 21:24

9 identicon

sæl

hef verið að gera tilraunir á þessar vefslóð haraldar með að birta hreyfimynd (í tíma) af atburðin. þeir miðlar sem ég hef hingað til hafa umsvifalaust verið lokaðir (vegna "traffic"). nú prófa ég enn einu sinni (bið forláts á þessu, haraldur).

 en hér er síðasta tilraunin. sjá: http://rpubs.com/fishvise/27107

 kveðjur,

einar

einar (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 21:32

10 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir, Einar.  Þetta skilar sér vel og sýnir ágætlega þróun og vöxt kvikugangsins til norðurs, í átt að Öskju.

Haraldur Sigurðsson, 26.8.2014 kl. 21:42

11 identicon

Sæll Haraldur gæti Askja Dyngja og Bárðabunga allar farið af stað í einu?

að virðist vera svo mikil tengin þarna á milli og var ég að spá í hverju mætti eiga von á

Björn (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 23:17

12 identicon

en ætti ekki að sjást þensla á einhverjum mælum ?

annars bara 1000 þakkir fyrir fræðsluna

Rósa Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 23:34

13 identicon

Hinar "opinberu" skýringar á skjálftanum í öskju Bárðarbungu eru semsagt að vegna kvikuútstreymis þá létti á þrýstingi í öskjunni og hún sígi en við það komi skjálftarnir stóru.   Niðurstaðan þá væntanlega sú að þrýstingi sé að létta af kerfinu og minni líkur þá væntanlega á gosi a.m.k. í Bárðarbungu sjálfri.

Skv. tappakenningunni er á hinn bóginn atburðarásin sú að meira er að bætast við af kviku í kvikuþrónna ofan á tappanum sem sígi við það og valdi stóru skjálftunum. Niðurstaða þá væntanlega sú að enn meiri líkur séu á gosi jafnvel í Bárðarbungu sjálfri ef viðnám bergganganna verður of mikið, en þó líka sá möguleiki að þeir spretti upp í sprungugos þegar aðstreymi kvikunnar eykst.

Sé þetta rétt skilið þá er ekki hægt að segja annað en að mikið beri á milli þessara kenninga t.d. hvað varðar líkur á gosi. 

Er ekki annars líklegra að skjálfti við 6 stig sé af völdum samþjöppunar (tappakenningin) en af völdum þrýstiminkunar? 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.8.2014 kl. 23:42

14 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nei, ekkert bendir til þess.

Haraldur Sigurðsson, 27.8.2014 kl. 05:23

15 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sex skjálftar yfir 5 og sá stærsti 5,7 geta vart skýrst af sigi keilulaga tappa sem er víðari að neðan en ofan, er það? Hvernig ætti svo mikil spenna að geta hlaðist upp við slíkt sig. Öskjuvant er 220 metra djúpt og engir slíkri skjálftar urðu við myndun þess sem stafar af öskjusigi eftir hraða tæmingu kviku í Sveinagjá frá ársbyrjun 1875 og með sprengigosinu 28. mars 1875. Hinsvegar sprakk St. Helena með skjálfta uppá 5,1 árið 1980 með þenslu.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.8.2014 kl. 14:26

16 identicon

Nu hef eg spurt adur a odru vefsvædi en langar lika ad spyrja tig, vegna hegdunar gosa i umhverfi Bardarbungu af tvi sem sja ma, ta er oft um ad ræda gos a longum sprungum sem gjosa af nokkrum styrk.

Er hægt ad utiloka tann moguleika ad tessi sprunga muni hegda ser einhvad odruvisi og muni ad endanum rifna upp a vid og ta gjosa a langri sprungu eins og sja ma a ollu halendi i kringu tetta svædi ?

Vona svo sannarlega ad svo se ekki, en er einhvad sem utilokar ad tetta muni hegda ser eins og halendid i kring og sa frodleikur sem leikmadur getur odlast virdist syna ?

Med tokk fyrir endalaust goda sidu sem eg hef fylgst med i nokkur ar :)

Arnthor H (IP-tala skráð) 27.8.2014 kl. 14:27

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Sérfræðingar hafa gefið í skyn að þeir telji skjálftann í morgun vera afleiðingu af kvikuflæði út úr kvikuþró undir öskjunni og inn í ganginn. Það væri þá þak kvikuþróarinnar, sem er að síga niður og skjálftinn verður á brúninni. Samkvæmt þeirri túlkun ætti kvikuþróin að ná niður á 6,2 km dýpi.""

Rennsli kviku úr kvikuþrónni í Bárarbungu ætti að hafa áhryf á spennur bæði fyrir ofan og neðan þrónna, það er að segja skjalftarnir gætu verið afleiðing af renslinu úr þrónni hvort sem kvikan er fyrir ofan þá eða neðan, eða hvað ?

Guðmundur Jónsson, 27.8.2014 kl. 15:21

18 Smámynd: Jón Páll Vilhelmsson

Í umfjöllunum er rætt um að kvika sé að þrýsta sér inn í bergið, gangur myndast og þ.a.l verða jarðskjáltar í þeim átökum. Hvað með hina hliðina, að landið er einfaldlega að gliðna í sundur vegna flekareks og kvika flæði inn í tómarúm sem myndast. Þá eru kannski minni líkur á eldgosi?

Jón Páll Vilhelmsson, 27.8.2014 kl. 22:05

19 identicon

Sæll Haraldur,

Er að velta því fyrir mér að það virðist enn (þegar þetta er skrifað) vera "offical" skýring að þessi kvika sem er þarna á ferðinni komi úr hólfinu undir bárðarbungu og að askjan þar undir sé að síga. En getur það ekki allt eins verið að "pumpan" sé að dæla upp af meira dýpi? Geta þessir öflugu skjálftar ekki einmitt bent til þess, frekar en að þeir orsakist af sigi? Koma svona margir (og tíðir) stærri skjálftar þegar um sig er að ræða?  Rakst á einhverri erlendri síðu, (minnir að það hafi verið http://www.volcanodiscovery.com) þar sem segir að kvikan sem er að koma upp sé mjög rík af áli (hef ekki fundið neitt á íslenskum vef til að staðfesta það). Er það ekki í meira samræmi við að þetta sé að koma djúpt neðan að? Hefur Ágúst Guðmundsson ekki nokkuð til síns máls? 

Óskar Sturluson (IP-tala skráð) 1.9.2014 kl. 14:51

20 identicon

Hér er linkurinn þar sem ég rakst á fréttir af álinnihaldi:

http://www.volcanodiscovery.com/bardarbunga/news/47387/Bardarbunga-volcano-update-Eruption-update.html

Þeir nefna nú enga heimild fyrir þessu. Vonandi eru þeir ekki að skálda þetta.

Óskar Sturluson (IP-tala skráð) 1.9.2014 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband