Gosúlfurinn

 

 

Úlfur - úlfurSmalinn í dæmisögu Esops hrópar “úlfur, úlfur!”  til að vekja athygli á sér og til að stríða fólkinu á bænum.   Einn daginn birtist úlfurinn út úr skóginum og smalinn hrópar hástöfum, en fólkið er nú hætt að trúa honum.  Úlfurinn nemur eitt lambið á brott á meðan strákurinn æpir og enginn hlustar lengur á.   Forna dæmisagan er að sjálfsögðu öfgafullt dæmi, en hún minnir okkur á hvað trúverðugleikinn er mikilvægur en brothættur. 

Sérfræðingar sem fjalla um eldgos og aðra náttúruvá verða að þræða hinn örmjóa stíg milli þess að veita upplýsingar og ráðgjöf um yfirvofandi atburð annars vegar, og að forðast þess að lesa ekki of mikið í gögnin og draga ótímabæra ályktun hins vegar.  Eitt frægasta dæmið í þessu sambandi gerðist á  La Soufriere eldfjalli á eynni Guadeloupe í Karíbahafi árið 1976.  Órói hófst í eldfjallinu  og franskir sérfræðingar ráðlögðu að öll byggðin skyldi rýmd, þar á meðal borgin Basse-Terre með 60 þúsund íbúa.  Jarðvísindamaðurinn, sem lagði þau slæmu ráð hafði góð sambönd og mikla hæfileika til að samfæra fólk, enda varð hann síðar menntamálaráðherra Frakklands.  Óróanum fylgdi aukin hveravirkni á svæðinu.  Borgin var tæmd og allt héraðið var lokað fyrir allri umferð í sex mánuði, sem hafði gífurleg áhrif á afkomu fólksins og efnahag eyjarinnar.  Ímundið ykkur að komast ekki heim í háft ár, að loka öllum verslunum og iðnaði!  Aldrei kom gosið.  Merki um eldgos er að kvika kemur upp á yfirborð jarðar í einhverju formi, annað hvort sem hraunkvika eða aska, sem kemur úr kviku við sprengigos.  Einn sérfræðingur á La Soufriere lýsti því yfir að hann hefði fundið glerkorn (storknuð kvika)  í efni sem kastaðist upp í hverasprengingum.  Þar með var dregin sú ályktun að gos væri hafið og svæðið því rýmt.   Síðari rannsóknir sýndu fram á að sérfræðingurinn hafði rangt fyrir sér, en hann hafði  misgreint kristalla af steindinni epídót sem gler.  Það voru dýr mistök, sem minna okkur á að jafnvel svokallaðir sérfræðingar geta haft rangt fyrir sér. 

Á ensku er oft notað orðatiltækið “to err on the right side.”   Ef þú gerir villu, þá er betra að hún sé réttu megin.  Allur er varinn góður, segjum við.  Það er víst betra að hafa spáð gosi, sem ekkert varð úr, en að hafa ekki spáð gosi, þegar gos brýst svo út.  En eftir hvað mörg platgos hættir fólkið að trúa þér?  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þó að vísindamenn geti gert mistök,  þá eru fjölmiðlamenn með andateppu af æsingi líklega hættulegri. 

Þeir valda óróa meðal almennings, meðvituðum og ómeðvituðum og allir eru almenningur.   Þeir eru hættulegir almannaheill vegna síns öfluga lúðurs.   

 

Hrólfur Þ Hraundal, 27.8.2014 kl. 07:39

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Vel mælt, Hrólfur.

Haraldur Sigurðsson, 27.8.2014 kl. 07:49

3 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég er hætt að hlusta á blaðamennina og fylgist bara þegar þið gefið yfilýsingar. Ef það er eitthvað platgos er mér sama en ég ætla ekki að loka eyrunum þegar þið talið um staðreyndir. Við búum á Íslandi og verðum að vera við öllu búin. Sagan hefur sýnt það. Takk fyrir vöktun

Ásta María H Jensen, 27.8.2014 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband