Innri gerð Bárðarbungu

kortBárðarbunga er á heimslista hjá Göran Ekström yfir mjög óvenjulega jarðskjálfta, og er merkilega sögu að segja af því. Í október árið 1996 urðu margir skjálftar á eða við brúnir öskju Bárðarbungu, undir Vatnajökli, eins og sýnt er á fyrstu mynd.   Hvort þessi skjálftavirkni sé tengd gosinu í Gjálp það ár er umdeilt efni,  en það skiftir reyndar ekki máli hér í þessu sambandi.  Það hafa orðið alls tíu stórir en fremur grunnir (3 til 8 km)  jarðskjálftar í Bárðarbungu á tuttugu ára tímabili (frá 1976 til 1996), sem mynda hring umhverfis öskjuna. Þeir eru allir af stærðinni 5,1 til 5,6 og á 3,3 til 6,7 km dýpi. tappinn  Flestir skjálftar á Íslandi eru tengdir gliðnun flekamótanna, en þessir skjálftar undir Bárðarbungu sýna aftur á móti þrýsting í jarðskorpunni.  Meredith Nettles og Göran Ekström hafa túlkað þessa skjálfta sem afleiðingu af  þrýstingi af keilulaga jarðskorputappa undir Bárðarbungu, eins og myndin sýnir.  Það er hringlaga sprungukerfi undir öskjunni, sem afmarkar jarðskorputappann.  Ofan á tappanum situr  kvikuþró, skammt undir yfirborði, eins og þriðja myndin sýnir.  Þegar kvika safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni, þá vex þrýstingur þar, sem hefur þær afleiðingar að tappanum er ýtt niður,  hringlaga sprungur myndast umhverfis tappann og valda jarðskjálftum.   Upp í gegnum miðjan tappann teikna þau Nettles og Ekström rás, sem kvika leitar upp um frá möttli til kvikuþróarinnar fyrir ofan tappann.  innri gerðÞessi mynd er sú fyrsta sem hefur verið dregin af jarðskorpunni undir Bárðarbungu og á hún eflaust eftir að verða bætt og endurbætt með tímanum. Askjan sem sést á yfirborði Bárðarbungu er um 10 km í þvermál, og er líklegt að grunna kvikuþróin sé svipuð að stærð.  Nú virðist skjálftavirknin raða sér í hringlaga form eftir útlínum öskjunnar, eins og kemur fram á síðustu myndinni.  Er það orskað af hreyfingu tappans, sem Ekström sér undir Bárðarbungu?  Er þá kvika að safnast fyrir í grunnu kvikuþrónni ofan tappans? Samkvæmt hans líkani er þá von á skjálftum af stærðargráðunni 5, þegar tappinn þrystist niður. Bárðarbunga

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Sæll Haraldur

Er þetta sama eða svipað fyrirbæri og gerðist fyrir nokkrum árum í Nyiragongo í Austur-Afríku?

Júlíus Valsson, 17.8.2014 kl. 08:17

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nei, Nyiragongo hefur ekki öskju. Það er hátt og fagurt eldfjall, með 2 km viðum toppgíg.  Oftast er virk hrauntjörn í gígnum.  Hraungos fræa eldfjallinu hafa valdið miklum usla, einkum árið 2000 og 1977.

Haraldur Sigurðsson, 17.8.2014 kl. 11:01

3 identicon

er tapin það þettur í að þrístíngurinn leiti til hliðar hve oft skildi gosið úr toppstikkinu. og kanski er eins gott að tappin haldi

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 11:06

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Líkanið byggist á því að hreyfingar tappans séu niður á við. Við það dregur úr þrýstingi í kvikuþrónni fyrir ofan.

Haraldur Sigurðsson, 17.8.2014 kl. 12:26

5 identicon

Sæll Haraldur, virkilega áhugavert. Ég varð forvitinn og tók þessvegna tölur af vefsíðu veðurstofunnar og gerði þrívíddar plott af þessari jarðskjálftahrinu. Veit ekki hvort það sé í lagi að setja inn tengla inn í athugasemdir, en ég prófa.

http://picpaste.com/bardarbunga_animation.gif

Þú sérð þrjár stærðir af hringjum (merkjum), minnsta eru skjálftar undir einum og stærsta yfir þremur. Maður byrjar suð vestan við Bárðarbungu og horfir í norð austur, svo færist maður suður fyrir og endar á að horfa á norð vestur. Liturinn segir til um aldur skjálftans.

Kveðja H.Sig.

H.Sig. (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 13:16

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég þakka H.Sig fyrir þetta framlag. Setjið tengslin inn á vefþjón ykkar og spilið.  Þá kemur fram 3-D mynda af dreifingu skjálfta í rúmi og dýpi.  Fróðlegt að sjá að skjálftar frá sama tíma virðast raða sér upp í lóðréttar línur.  Skjálftar virðast fylgja mest hringlaga myndun,  sennilega tappanum sem ég hef fjallað um hér fyrir ofan.

Haraldur Sigurðsson, 17.8.2014 kl. 13:30

7 identicon

þakka fyrir. þá hlýtur þetað að vera þykkur tapi. og stórir leiðarar frá bárðarbúngu skýrir eflaust ymis gos sem frá henni kemur

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 14:33

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi þrívíddarmynd er alveg hreint frábær, takk fyrir hana. Á henni sést greinilega móta fyrir strokk- eða keilulaga fyrirbæri, sem gæti einmitt verið þessi tappi sem um ræðir. Ef það er tilfellið þá er þessi tappi risavaxinn.

Hvað gerist ef hann losnar, eða til dæmis brotnar í smærri parta undan þrýstingi vegna þessara hræringa? Gæti þá komið gos upp úr stóru kvikuþrónni sem er undir honum? Yrði það þá ekki gríðarlega stórt gos?

Vonum samt það besta fyrir land og þjóð.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.8.2014 kl. 16:11

9 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Tappinn er hluti af jarðskorpunni og jafn djúpur og hann er breiður, eða 10 til 20 km á kant.  Engin hætta á að hann losni! En það er kvikuþróin sem er fyrir ofan hann, sem við höfum mestan áhuga á.  Þur henni koma gosin, ef einhver verða. Þakka H. Sig fyrir þrívíddarmyndina.  Gott ef hann uppfærir hana fljótlega.

Haraldur Sigurðsson, 17.8.2014 kl. 16:17

10 identicon

Reglulega flott þrívíddarmynd H.Sig, ég tók mér bessaleyfi og setti hana á annan þjón sem gerir manni auðveldara að skoða hana betur, stækka, setja á pásu og fl. (Ég get að sjálfsögðu fjarlægt hana ef þú vilt)

http://gfycat.com/GlumUncommonDragonfly

Guðmundur Harðarson (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 16:43

11 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég tek undir, að þetta er mjög gagnleg mynd. Svo virðist sem skjálftavirknin sé á hverjum tíma bundin við eina hlið tappans.  Einnig merkilegt að skjálftar ná varla niður fyrir 15 km. Er skorpan þar fyrir neðan orðin of heit til að brotna? Orðin plastísk?

Haraldur Sigurðsson, 17.8.2014 kl. 17:52

12 identicon

Takk fyrir að flytja myndina Guðmundur, að sjálfsgöðu er það í lagi. Var í smá vandræðum að finna einhvern stað þar sem hægt er að vista stórar GIF myndir.

Ég prófaði aðeins að fínpússa grafíkina og uppfærði gagnasettið. Kvarðinn á báðum vatnsréttu ásunum er núna nærri því jafn (var ekki alveg jafn á upphaflegu myndinni). Það eru ca. 55 km á hvern kannt. Dýptin nær niður á 25 km svo hlutfallið milli lóð og vatnsrétts er rétt rúmlega 2.

Það sem mér finnst áhugaverðast við þetta er hvernig skjálftarnir raðast í kringum þennan tappa í tíma. Ég reyndi að fanga það með því að teikna inn tíu skjálfta í einu (um hundrað myndir í allt þar sem það eru um þúsund skjálftar í gagnasafninu), og við hverja mynd snéri ég um eina gráðu réttsælis (eins og áhorfandi ferðist rangsælis).

Hér má sjá þetta:

http://gfycat.com/RichSoreAustraliankestrel

Það gerist eitthvað þarna hálfa leið inn í sem ég get ekki leiðrétt, eins og gagnsæið á öllum punktunum breytist tímabundið.

Hér er svo önnur svipuð og þessari fyrstu, nema með þessum áðurnefndu breytingum og nýjustu gögnum, og reyndar bætti ég við núna að hún snýst heilan hring umhverfis bunguna:

http://gfycat.com/FaithfulRipeIntermediateegret

Pílan á botninum bendir í norður.

H.Sig. (IP-tala skráð) 17.8.2014 kl. 19:35

13 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir þetta, H. Sig. Málið er að skýrast.  Tappinn er greinilega raunverulegt fyrirbæri.

Haraldur Sigurðsson, 18.8.2014 kl. 00:18

14 Smámynd: Ásta María H Jensen

Þið eruð magnaðir. Gaman að sjá þetta og reyna að skilja

Ásta María H Jensen, 27.8.2014 kl. 15:21

15 Smámynd: Ásta María H Jensen

Það er eins gott að hann sé í gatinu annars færi allt til fjandans

Ásta María H Jensen, 28.8.2014 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband