Þeir vilja færa Markarfljót í öfuga átt
28.2.2013 | 11:14
Nú hefur Siglingastofnun sett fram tillögu um að færa farveg Markarfljóts til austurs, um 2,5 km leið, að ráði danskra sérfræðinga. Þetta á að draga úr aurburði inn í Landeyjarhöfn, sem aldrei hefur virkað sem skyldi, eins og ég hef til dæmis fjallað um áður hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1092129
Það er ljóst að sandrifið sem myndast vegna aurburðar frá Markarfljóti til hafs er fyrst of fremst fyrir vestan Landeyjahöfn, eins og fyrsta myndin sýnir. Sandrifið er gult á myndinni. Ríkjandi straumar og tilfærsla efnis eru hér frá austri til vesturs, alla jafna, og þessi hreyfing efnis heldur sandrifinu við fyrir sunnan og vestan Landeyjahöfn. Árlegur framburður Markarfljóts er um 100 þúsund rúmmetrar af sandi og aur á ári.
Þetta er og verður alltaf vandræðamál, enda var höfnin upprunalega staðstett með aðeins einu markmiði: að fá styttstu siglingaleið til Vestmannaeyja. Flutningur mynnis Markarfljóts til ausutrs mun aðeins kaupa tíma og seinka fyllingur hafnarinnar, en það verður dýrkeypt. Viturlegri ráðstöfun, ef yfirleitt á að halda þessari höfn við, væri að flytja Markarfljót til vesturs.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Jarðefni | Facebook
Athugasemdir
Sæll Haraldur.
Þessi blessaði sandkassi við suðurstöndina ætlar að vera landsmönnum erfiður. Markarfljót í austur eða vestur, skiptir það svo miklu máli?
Væri ekki betra að virkja hluta fljótsins í gegnum höfnina, láta rennsli þess sjá um að hreinsa hana. Auðvitað yrði þá að setja einhvern dælubúnað við sjálfa bryggjuna, til að halda dýpi þar viðunnandi, en þær dælur þyrftu þá einungis að dæla sandinum fram í strauminn sem lægi út úr höfninni.
Það getur verið að þessi hugmynd sé arfavitlaus, enda hef ég enga menntun á þessu sviði. Vann hinsvegar í mörg ár við framræslu og hef séð með eigin augum hversu öflugt rennandi vatn getur verið, jafnvel þó mikill framburður fylgi því.
Það sem vekur þó mesta furðu manns, þegar þessi framkvæmd á Landeyjasandi er skoðuð. Þarna er í megin dráttum sama framkvæmd, skipulögð af sömu fræðingum og fyrir framan Vík í Mýrdal. Þar var þó ekki verið að gera höfn, heldur fanga sand að landi. Verjast landbroti.
Merkilegt, ekki satt!
Gunnar Heiðarsson, 28.2.2013 kl. 13:15
Þetta er hugmynd Haraldur, sem vert er að skoða. En mín tilfinning er að standi valið milli nokkurra kosta þá sé Siglingastofnun fyllilega teystandi til að velja þann versta.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.2.2013 kl. 13:43
Láta fljótið renna í gegnum höfnina og skola hana út.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 28.2.2013 kl. 14:35
Það kann að virðast í fljótu bragði góð hugmynd að láta fljótið renna í gegnum höfnina og "skola hana út". Ég myndi giska á að straumhraðinn í hafanrmynninu yrði þá á bilinu 15 til 20 hnútar, ef ekki meiri. Innsiglingin yrði þá með öllu ófær.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.2.2013 kl. 15:13
Hvernig væri að láta lítinn hluta Markarfljóts streyma í gegn um höfnina.
Segjum t.d. um 10%. Það má síðan prófa sig áfram og auka eða minnka streymið þar til sandburðurinn inn í höfnina er í lágamrki, án þess að straumur sé of mikill.
Ágúst H Bjarnason, 28.2.2013 kl. 16:12
Halló.
Vatnasvið Markarfljóts er 1200 ferkm. þar af eru 240 ferkm. jökull.
Jökull sem skríður niður móbergsfjall, lækkar fjallið um ca. 5 mm á ári
Það gera 1.200.000 rúmm. á ári .
Af 960 ferkm. jökulausu landi skolast burt ca 480.000 rúmmetrar á ári (meimsmeðaltal).
Grein úr golfstraumnum liggur milli lands og Eyja, svigkraftur jarðar leggst á sveif með golfstraumnum , sömuleiðis fallstraumurinn.
Austlægar vindáttir eru ríkjandi hér á landi og þar af leiðandi rökrétt að flytja ósinn vestur fyrir höfnina.
Kv. Gestur Gunnarsson tæknifræðingur
Gestur Gunnarsson (IP-tala skráð) 28.2.2013 kl. 16:21
Eins og ég sagði í fyrri athugasemd minni, hef ég ekki hundsvit á þessu.
Ég var þó ekki að tala um að láta Markarfljótið í heild sér renna þar í gegn, heldur að virkja hluta fljótsins. Það yrði auðvitað með stýringu þannig að hæfilegt rennsli næðist, án þess að gera höfnina ófæra innkomu. Hugsanlega mætti einnig gera einhverjar ráðstafanir til þess að sem mest af framburði fljótsins síist frá og hreinna vatn látið renna til hafnar. En ég ítreka enn og aftur að þetta er einungis hugdetta, byggð á þeirri staðreynd að hafa séð hversu rennandi vatn er megnugt.
Það er ljóst að margar stæðstu hafnir í norðanverðri Evrópu eru byggðar við fljót, meira að segja vatnsmikil fljót.
Gestur, þú segir að hluti golfstraumsins liggi milli lands og eyja. Í hvora áttina liggur sá straumur, til austurs eða vesturs?
Sérfræðingar Siglingastofnunar héldu því fram að við suðurströndind væru vestlægir vindar ráðandi. Því væri vandi hafnarinnar tímabundinn vegna óvenjulegrar vindáttar. Ekki ætla ég að dæma um hvort er algengara, vestlægir eða austlægir vindar þarna, en veðurstofan hlýtur að geta sagt ákveðið til um það.
Það má vel vera að betra sé að færa Markarfljótið, annað hvort til austurs eða vesturs. Sennilega eru þó báðar þær lausnir einungis til skamms tíma. Hvor mun virka lengur veit ég ekki, en treysti því að höfundur þessa bloggs hafi eitthvað fyrir sér í þeim fræðum.
Það sem er kannski alvarlegast við þetta mál allt saman, er að fræðingarnir virðast algjörlega hafa látið hjá líða að skoða framburð Markarfljóts og hvernig sandurinn hagar sér undan ströndinni. Þetta er háalvarlegt mál.
Ef það dugir að færa Markarfljót 2,5 km til austurs, eða færa það vestur fyrir höfnina, hefði auðvitað verið betra að byggja höfnina annað hvort 2,5 km vestar, eða austan við fljótið, eftir því hvor lausnin þykir betri. Kostnaðarauki vegna þess hefði sennilega verið núll, ef rétt staðsetning hefði verið valin í upphafi.
Gunnar Heiðarsson, 28.2.2013 kl. 16:44
Ég held það sé fyllsta ástæða til að íhuga tillögu Gunnars Heiðarssonar nánar.
Þó svo aur og sandur berist niður með fljótinu, þá getur vel verið að hann skríði með botninum og auðvelt sé að fleyta tiltölulega hreinu vatni um stillanlegt yfirfall inn í höfnina til að losna við að aur berist þá leið inn í hana.
Þetta væri verðugt verkefni fyrir straumfræðinga að spá í. Straumfræði er fræðigrein sem fjallar um flæði vökva eða lofts og byggir mikið á stærðfræðilíkönum. Þessari aðferðafræði er t.d. beitt við hönnun vatnsaflsvirkjana, aðveituskurða, aðveituganga, osfrv. Töluverð reynsla er einnig fyrir hendi hér á landi varðandi aurskolun á virkjanasvæðum. Sjá t.d. grein bls. 10 hér, og hér á landi eru vel menntaðir og hæfir straumfræðingar.
Svo getur auðvitað komið í ljós að best sé að færa fljótið ásamt því að beita skolun.
-
Verði fljótið flutt vestur fyrir höfnina, þá þarf væntanlega að leggja nýjan veg að höfninni frá þjóðveginum austan við Markarfljótsbrú.
Ágúst H Bjarnason, 28.2.2013 kl. 18:30
Má ekki bara hjálpa blessuðu fólkinu í land. einu sinni og forever. Þarf að vera að standa í þessu eftir og fyrir gos og síðan alla tíð.
Óskar Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2013 kl. 18:51
Mér hefur lengi fundist rökrétt að rennsli væri í gegnum höfnina sem hægt væri að auka og minka eftir þörfum og aðstæðum. Því geta hinsvegar fylgt ýmis vandamál þar sem höfnin var ekki hönnuð með tilliti til þess, en hafnarmynnið ætti þó að hreinsasig.
Ísmyndun gæti komið til og straumur gæti orðið til óþæginda. , En hvort ós árinnar á að vera austar eða vestar, ætlast ég til að sér fræðingarnir segi okkur og af hverju. Hér hefur magt gott verið sagt og ég ber virðingu fyrir þeim sem segja það sem aðrir hafa hugsað og spjallað enn ekki sagt.
Hrólfur Þ Hraundal, 28.2.2013 kl. 20:24
Almennt myndi maður halda að straumar og vindáttir við Suðurströndina myndu beina framburði austur en ekki vestur frá ósnum. Þetta sést víðast annars staðar á Suðurlandi þar sem jökulár falla til sjávar, framburðurinn leitar alltaf austur (og myndar jú hinar miklu malar- og sandstrendur sem ná frá Öræfajökli að Djúpavogi). En mér dettur í hug að Vestmannaeyjar trufli straumstefnu og Eyjafjallajökull hafi áhrif á ríkjandi vindáttir akkúrat á þessum stað.
Hvað varðar að beina farvegi árinnar gegnum höfnina þá er það eflaust fræðilega hægt. Manni verður hugsað til Hornafjarðaróss þar sem dýpið er einhverjir tugir metra vegna straumsins sem þar verður á útfalli.
Ef nota ætti hluta rennsli Markarfljóts til að skola höfnina þyrfti væntanlega að taka "ofan af" ánni til að losna við framskrið efnis með botninum. Áin yrði þá straumminni neðar og setið í henni myndi fljótt hlaðast upp í farveginum með slæmum afleiðingum - hún myndi byrja að flæmast neðan úrtaksstaðarins og jafnvel stíflast í flóðum, með tímanum myndi hún hlaða undir sig náttúrulega stíflu neðar úrtaksstaðarins, rennslisfallið myndi stöðva setið enn ofar og sjálfsagt enda með því að flæmast í annan farveg, væntanlega yrði það Affallið eða jafnvel Þverá.
Ef vandamálið með höfnina er fyrst og fremst að innsiglingin (og höfnin sjálf) fyllist af framburði þá mætti beina vatnsflaumi með rörum að botninum til að halda honum hreinum. Rörin gætu greinst og opnast á mismunandi stöðum til að skola frá sér. Jafnframt þyrfti að sjá til þess að sandrif myndist ekki framan við hafnarmynnið. Í raun þyrfti að skola öllu efni fram á eitthvert dýpi, ég giska á einhverja tugi metra hið minnsta. Allt myndi það krefjast talsvert mikils vatns og rétt að benda á að framburður meðfram ströndinni er ekki nema að hluta háður árstíðarsveiflum í rennsli árinnar. Spurning er hvort vetrarrennsli myndi nægja til að bægja sandi frá.
Ef áin yrði öll færð í gegnum höfnina er rétt að bend á að ár leita til þess, með framburði sínum, að mynda jafnan halla á öllu rennslissvæði sínu. Þar sem á rennur út í opið vatn myndast ós vegna falls í straumhraða. Þar sem enginn hliðarstraumur tekur framburðinn (eins og gerist við núverandi ós Markarfljóts) gerist ósmyndun mjög hratt. Höfnin myndi því fyllast á mjög skömmum tíma og ósinn teygja sig fram fyrir hafnargarða.
Málið er að allir 1,5 milljón rúmmetrarnir sem áin skolar til sjávar á hverju ári (sbr. innskot Gests hér að ofan) þurfa á rennsli árinnar að halda til að ná alla leið. Ef áin yrði færð að hluta myndi uppsöfnun hefjast neðan við afrennslisstaðinn. Ef áin yrði færð í heild sinni myndi framburðurinn setjast allur í höfnina þar til hún væri sléttfull.
Brynjólfur Þorvarðsson, 1.3.2013 kl. 07:10
Góðan dag.
Golfstraumurinn liggur vestur með suðurströndinni. Við Reykjanes er alltaf straumur í vestur.
Borgir byrjuðu að byggjast við árósa og þá viðhélt árennslið dýpinu.
Hér á landi er ein svona höfn, á Hornafirði.
Á Hornafirði lokaðist ósinn í köldum og þurrum árum (1979).
Við Markarfljótsós gæti því þurft lón með lokum, til þess að skola út ósinn.
Kv. Gestur
Gestur Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 13:47
Sæll Haraldur, ég hef sterkar skoðannir á Land - Eyjahöfn, og var ég á móti þessari framkvæmd, en úr því þeir vildu þetta þá reyni ég að vera jákvæður í garð Land-Eyjahafnar. Mig langar að spyrja þig út í þessa speki Dönsku sérfræðingana um hafnargarðana? Þeir vilja hafa hafnarminnið áfram upp í grunnbrotum, mér finnst það arfa vitlaust.
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 3.3.2013 kl. 12:58
Sæll Helgi: Því miður hef ég ekki séð sjáfa skyrslu dönsku sérfræðingana og get því ekki dæmt frekar um hugmynd þeirra um hafnargarðana.
Haraldur Sigurðsson, 3.3.2013 kl. 13:39
:-)
Helgi Þór Gunnarsson, 3.3.2013 kl. 15:53
Menn verða að fara að læra þetta. Sandburður við Suðurströndina er frá vestri til austurs að meðaltali. Þetta munar litlu, austanáttin er algengari en vestanaldan þyngri. Efnið kemur mest fram í kjölfar eldgosa, þvælist fram og aftur meðfram ströndinni og hverfur loks á haf út. Sjá athugasemd 6.9.2010. Þetta flökt fram og til baka gerir að engin höfn á suðurströndinni verður nokkurntíma í friði fyrir sandburði. En það er ekki stórmál, margar hafnir halda úti sanddæluskipum árið um kring til að hreinsa sand.
Hvað varðar Markarfljót, þá er efnið úr Eyjafjallajökuls-gosinu að koma fram þar. Það lagast þangað til Katla bætir í það aftur. Og ef Kötlugosið kemur vestanmegin þá kemur sandurinn inní höfnina landmegin frá og menn mega þakka fyrir ef þeir finna höfnina aftur.
Flutningur á Markarfljóti austur getur hjálpað eitthvað, þegar litið er til skemmri tíma.
En stóra spurningin er ekki þetta, heldur þessi: Verður Landeyjahöfn nokkruntíma góð vetrarhöfn ? Mun ekki alltaf verða að loka henni lengri eða skemmri tíma á vetrum ?? Það er hugsanlegt en sem betur fer er um 75 % af umferðinni að sumri til svo vetrarlokanir gera takmarkaðann skaða.
Jónas Elíasson (IP-tala skráð) 4.3.2013 kl. 09:14
Flutningur efnis gerist bæði til austurs og vesturs meðfram suður ströndinni, en það þýuðir ekki að efni falli til botns bæði í austir og vestri. Ég tel að efni falli fyrst og fremst til botns í þeim vind- og ölduskugga sem Vestmannaeyjar mynda, rétt fyrir vestan Landeyjahöfn. Hér dettur niður ölduhæð og aðstæður eru góðar fyrir setmyndun. Rifið fyrir framan og vestan höfnina snnar það. Sem sagt: mælingar á flutningi efnis (verkfræðilegt sjónarmið) er ekki nægilegt til að skilja málið, heldur þarf að hafa jarðfræðilegt sjónarmið á því hvar efnissöfnun verður.
Haraldur Sigurðsson, 4.3.2013 kl. 13:19
Sæll Haraldur, Það hefur löngu vitað að vesturfallið er sterkara en austurfalið, svo langar mig að benda Jónasi á staðreyndarvillu ganvart samgöngum yfir vetrartíman, við viljum ferðast allt árið.
Það er ekki gott að vera með höfn upp í grunnbrotum!
Helgi Þór Gunnarsson, 5.3.2013 kl. 22:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.