Náttúruhamfarir í ríkum og fátækum löndum
3.4.2011 | 13:57
Það eru tveir heimar hér á jörðu. Í öðrum þeirra er mikil tækni ríkjandi og næg orka fyrir hendi. Í hinum heiminum, sem er miklu fjölmennari, skortir þessi gæði að mestu. Náttúruhamfarir hafa gjörólík áhrif á þessa tvo heima. Nú er talið að skaði vegna jarðskjálftans í Japan sé allt að $300 milljarðar, og að 28 þúsund hafi farist í þessu auðuga landi. Jarðskjálftinn sem átti upptök sín í Indónesíu árið 2004 orsakaði tjón í fátækum löndum umhverfis allt Indlandshaf (Indónesia, Sri Lanka, Indía, Taíland, Maldiveyjar) sem nemur $14 milljörðum og meir en 226 þúsund fórust. Það er merkilegt að munurinn á manntjóni og skaða er tífaldur á milli þessara landsvæða, en áhrifin víxlast. Fyrsta myndin er línurit yfir tjón af völdum náttúruhamfa í milljörðum dollara. Tölurnar lengst til hægri sýna hundraðshlutfall tjónsins sem prósent af þjóðarframleiðslu. Takið eftir að jarðskjálftinn árið 2004 kemst ekki á blað! Löndin sem uðru fyrir áhrifum skjálftans voru einfaldlega of fátæk til að komast á blað. Sama er að segja um skjálftann í Haíti. Mynd númer tvö sýnir hlutfallið milli manntjóns á lóðrétta ásnum og efnahaglegs tjóns á lárétta ásnum, í milljörðum dollara. Skjálftinn í Japan í marz er stóri krossinn, en hann er rétt við hliðina á skjálftanum sem reið yfir San Francisco árið 1906 (24 þúsund fórust, og tjón um $500 milljarðar). Mikið af því tjóni var vegna eldsvoða í borginni. Munurinn milli dauðsfalla í ríkum og fátækum löndum er beinlínis tengdur húsagerð. Hús í Japan eru vönduð og stóðu sig vel, en í Haíti hrundu hreysin og fókið grófst í rústunum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskjálftar, Jarðskorpan | Facebook
Athugasemdir
Það væti gaman að vit hvort gosið sem sem kom upp kringum 933, og sumir láta dett í hug að þetta gos hafi stoppað landnámið um tíma.Hefur þetta verið rannsakað af vísindamönnum.
Albert Ríkarðsson (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 00:36
Þú munnt eiga við gosið sem myndaði Eldgjá um 934. Þetta er eitt allra mesta hraungos á Íslandi og hafði mikil áhrif. Því miður eru litlar eða nær engar sögulega heimildir um gosið, en upplýsingar um það má finna í ískjörnum á Grænlandi og í öskulögum og hraunlögum á Íslandi. Síðasta stórgos af þessu tagi voru Skaftáreldar árið 1783.
Haraldur Sigurðsson, 5.4.2011 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.