Bárðarbunga er bólugrafin

Bárðarbunga radarHvernig lítur Bárðarbunga út eftir allar þessar hamfarir neðan jarðar? Hefur hún látið á sjá? Svar við því fáum við með því að skoða þessa mynd, sem TerraSAR-X radar gervihnöttur Þjóðverja tók. Það er German Aerospace Center (DLR) eða Geimrannsóknastöð Þýskalands, sem tók myndina, en Fjarkönnun ehf leyfir okkur að birta hana hér.  Við þökkum Ágústi Guðmundssyni fyrir. Radarmyndin er sérstök, því að upplausn um 1 metri. Hún er tekin hinn 3. mars 2015. Það sem maður tekur strax eftir eru sigkatlarnir, sem raða sér eftir brúnum öskjunnar. Þeir myndast einmitt þar sem jökullinn er þynnstur. Í miðju öskjunnar er þykkt jökuls um 800 metrar, en um það bil 200 metrar á brúnum öskjunnar, þar sem bergið kemur næst yfirborði. Maður tekur stax eftir því að það eru þrír stórir sigkatlar, og tveir minni.  Þeir raða sér á öskjubrúnina, en sennilega er það vegna þess að hiti leitar upp með berginu og bræðir ísinn fyrir ofan. Að öllum líkindum hefur hitauppstreymi vaxið á meðan eldsumbrotunum stóð, en þá var mikil hreyfing á hringlaga misgengi, sem markar útlínur öskjunnar. Mér þýkir líklegast að nú dragi hægt og hægt úr því uppstreymi hita og að sigkatlarnir fyllist aftur af snjó með tímanum.


Bloggfærslur 12. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband