Er bráðnun hluti af öskjusiginu?

bráðnunGPS mælirinn, sem situr á miðri íshellunni yfir Bárðarbungu sígur hægt og hægt, en alls ekki reglulega. Nú mun heildarsig vera komið niður í um 30 metra.  Einfaldasta skýringin á siginu er að botn öskjunnar sé að síga niður í kvikuþróna undir. Við það myndast stórir jarðskjálftar á hringlaga misgengi, af stærðinni 5 til 5,4.  En hægfara sig er einnig í gangi á tímum milli skjálftanna. Er það vegna þess að jarðskorpan er að jafna sig eftir skjálftann, eða er það ef til vill vegna bráðnunar jökulsins  á botni öskjunnar?  Myndin sýnir báða þessa möguleika. Í dag og undanfarna sólarhringa hefur sigið verið mun óreglulegra en áður.  Sumir segja að íshellan sé farin að hoppa upp og niður eins og ísfleki ofan á polli.  Ef slik bráðnun á sér stað, þá leitar vatnið upp milli jökuls og fjallsins, eins og myndin sýnir.  Það árf að komast upp í 1350 m hæð til að streyma yfir dýpsta skarðið í öskjunni, til norðausturs.  Öskjubotninn er í 1100 metra hæð.

Stóra öskjusigið

stóra sigiðStærsta öskjusigið til þessa undir Bárðarbungu varð um kl. 5 í morgun.  Þá seig miðja jökulsins yfir Bárðarbungu um meir en einn meter, samkvæmt GPS mælinum, sem er staðsetur yfir miðri öskjunni.  Sjá mynd hér með, sem er af vef Veðurstofunnar.  Ekki er enn ljóst hvort jarðskjálfti hefur verið þessu samfara, en sennilega er þó svo.  Eftir er að yfirfara jarðskjálftagögnin áður en þau birtast á vefnum. Þetta boðar einhverja rúmmálsbreytingu í kvikuþrónni og ef til vill aukið streymi kviku í ganginum og upp á yfirborð.

Viðbætir: Skömmu síðar hefur yfirborð jökulsins hækkað, og er því heildarsigið í þessu atviki um 30 cm.  En þessi sveifla er einkennandi um meiri óróa í lóðréttum hreyfingum jökulsins  undanfarinn sólarhring.  Ef til vill er þaðvegna þess að jökullinn er bæði að brotna og síga.


Bloggfærslur 27. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband