Byrgi í Berserkjahrauni

 

Undir Hrauni

Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna:    … og gera byrgi hér fyrir innan hraunið.”   Hvað er byrgi þetta og hvar er það?  Björn Jónsson (1902-1987)  bóndi á Innri-Kóngsbakka var fróður maður og skráði örnefni í sinni sveit.  Björn taldi Krossrétt vera byrgi berserkjanna.  Ég tel að svo sé ekki, enda hafði Sigurður forni áður bent á  aðrar og miklu líklegri rústir sem hið forna byrgi.

Eyðibýlið Berserkjahraun eða “undir Hrauni” stendur við austur jaðar Berserkjahrauns, en það hefur verið í eyði síðan árið 1953.  Íbúðarhúsið er steypt árið 1944 en er nú komið að hruni.  Spörfuglar gera sér nú hreiður uppi í hillum og skápum.  Til er teikning frá 1897 af bænum undir Hrauni eftir W.G. Collingwood (1854-1932), sem sýnd er hér fyrir ofan.  Bæjarhúsin standa þá á hól við hraunjaðarinn, og umhverfis eru fjögur eða fimm útihús. Í bakgrunni er Bjarnarhafnarfjall, svo myndin er gerð í norðvestur átt.  Collingwood var  hér í för með dr. Jóni Stefánssyni lækni.  Um dys berserkjanna segir Collingwood: “Hún var opnuð fyrir nokkrum árum og þar fundust mjög stór bein.”   Gamli torfbærinn var í notkun allt til 1944.

Á undan Collingwood ferðaðist hér um hraunið sá sérkennilegi maður Sigurður forni Vigfússon (1828-1892).  Hann var sjálfmenntaður fornleifafræðingur, sem sá um ForSigurður forningripasafnið á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík.  Hann átti til að bregða sér í fornmannabúning, eins og myndin sýnir.  Af hverju gera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands ekki slíkt hið sama í dag?  Of mikill Disney World stíll fyrir þeirra smekk?

Í Árbók Fornleifafélagsins sem kom út árið 1893 skrifar Sigurður um Berserkjahraun.  Hann lýsir stórum tóftum (67 og 47 fet á lengd) í grennd við bæinn undir Hrauni og telur aðra þeirra vera kirkju sem Styrr lét reisa og hina rústina af fornum skála.  Handan við Hraunlæk er stór kriki inn í hraunið og nefnist krikinn Tröð.  Hér telur Sigurður að finna megi “gerði” berserkjanna.   Sennilega á hann hér við byrgið, sem minnst er á í Eyrbyggju.  Gerðið telur Sigurður vera meir en 50 faðmar á kannt og ferskeytt.  Veggir, sem nú eru fallnir, voru ákaflega breiðir og hlaðnir úr grjóti og torfi.  

En Sigurður tekur einnig eftir mikilli “grjóttóft” í suðaustur horni gerðisins og vil ég draga athygli lesendans einkum að henni.   Hún er hlaðin í hraunbrúninni og nýtir að nokkru leyti stór björg í hrauninu sem vegg.  Tóftin er um 7 m á lengd og um 4 m á breidd.  En tveir veggir tóftarinnar eru hlaðnir úr óvenju stórum hraunbjörgum, eins og myndin sýnir.  Ljósa stikan er 1 m á lengd.  Hér eru björg sem eru meir en meter í þvermál og hefur þeim verið lyft upp í vegg á einhvern hátt. Er þessi svokallaða grjóttóft í reynd byrgið sem nefnt er í Eyrbyggju?  Það er ekki ólíklegt, en Sigurður forni segir að lokum: “Hér  er auðsjáanlega stórkostlegt mannvirki frá fornöld, og getur enginn efi á verið, að það sé gerði berserkjanna.”   Var þetta stórskorna byrgi notað sem fiskibyrgi, og hver var tilgangur með hinum miklu hlöðnu veggjum, sem Sigurður greinir frá?  Fræðimaðurinn Þorleifur Jóhannesson er sammála Sigurði forna um þessa túlkun í skýrslu, sem hann samdi fyrir Örnefnastofnun.

BerserkjabirgiÞað er fleira sem vert er að minnast á í sambandi við býlið undir Hrauni.  Uppi á hraunbrúninni rétt fyrir vestan bæinn eru fimm eða sex gömul fiskibirgi.  Þau eru hlaðin úr stórum hraunstykkjum, og gisið á milli, eins og venja var í gerð fiskibyrgja. Slík byrgi eru vel þekkt hjá Gufuskálum undir Jökli, þar sem á annað hundrað birgi hafa fundist, og einnig víða á Reykjanesi, til dæmis við Ísólfsskála, Grindarvík og víðar.  Fiskibyrgi eiga eitt sameiginlegt: þau eru öll hlaðin á hrauni, þar sem sótt var til sjávar.   Svo var einnig hér, því fyrir norðan býlið Hraun er Hraunsvík. Þaðan var róið frá Hrauni á Breiðafjörð til fiskjar.  Fiskur var fyrrum verkaður og þurkaður á staðnum.  Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur, en síðan lagður til þerris á þurrkgarða, helst á hrauni. Síðan var fiskurinn lagður í byrgi og geymdur þannig yfir veturinn. Á vori var fiskurinn tekinn úr byrgjunum og lagður á garðana þar til honum var pakkað til að flytja í skútur sem komu erlendis frá til að kaupa fisk eða skreið.  Sennilega hafa slíkar enskar skútur legið í Kumbaravogi (Cumberland Bay?), sem er fyrir framan Bjarnarhöfn. 

 


Bloggfærslur 9. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband