Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!

PoulsonFjármálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð George Bush var Hank Poulson. Hann var við stjórnvölinn þegar efnahagshrunið mikla varð á Wall Street árið 2008 og kreppan hófst.  Hann er hinn dæmigerði kapítalisti, auðkýfingur og repúblikani og er alltaf talinn fremstur í röð þeirra sem orsökuðu hrunið árið 2008.  En á seinni árum hefur Poulson iðrast og sýnt á sér nýjar hliðar. Í grein sem hann skrifar í New York Times í gær hefur Poulson algjörlega snúið við blaðinu.  Reyndar er greinin ein sprengja.  Hann spáir enn stærra efnahagshruni af völdum loftslagsbreytinga ef ekki er tekið strax í taumana. Helsta ráð hans við vandanum er að koma á kolefnisskatti sem leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Það er reyndar furðulegt en auðvitað mjög gleðilegt að maður í hans stöðu og með slíkan bakgrunn skuli nú koma fram úr röðum repúblikana og horfast í augu við staðreyndir í loftslagsmálum.  Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd! 

En tekur almenningur nokkuð mark á tali um loftslagsbreytingar? Okkur, sem fylgjumst vel með breytingunum, finnst þær gerast hratt og óttumst afleiðingarnar.  En hættan er að almenningur og kjósandinn sé eins og froskurinn í potinum á eldavélinni.  Ef kveikt er undir og hitað rólega, þá stekkur froskurinn ekki uppúr pottinum og soðnar að lokum.


Bloggfærslur 22. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband