Elsta jarðskorpan er eins og Ísland

Kanada einsog Ísland

 

Í norðvestur hluta Kanada eru bergmyndanir, sem eru um 4.02 milljarðar ára að aldri.  Þetta berg nefnist Idiwhaa Gneiss  og er meðal elsta bergs, sem finnst á jörðu.  Til samanburðar er aldur jarðar talinn vera 4.54 milljarðar ára. Mikið af þessu bergi í Kanada er kallað greenstone, eða grænsteinn, en það er ummyndað basalt.  Ummyndunin er af völdum jarðhita, eins og gerist í jarðskorpunni undir Íslandi. Reyndar er grænsteinn bergtegund sem er algeng á Íslandi.  Við finnum til dæmis grænstein í Hafnarfjalli á móti Borgarnesi og í fjöllunum fyrir ofan Staðarsveit á Snæfellsnesi. Ransóknir á jarðefnafræði og steinafræði þessara fornu myndana í Kanada sýna að þessi jarðskorpa hefur myndast á alveg sama hátt og Ísland.  Frumkvikan er basalt, sem hefur myndast við bráðnun í möttli jarðarinnar.  Basalt gosin hafa hlaðið upp miklum stafla af hraunum, sem er margir kílómetrar eða jafnvel tugir km á þykkt.  Basalt hraunstaflinn  varð svo þykkur, að neðri hluti hans grófst djúpt og breyttist vegna jarðhitans í grænstein. Á vissum svæðum í djúpinu bráðnaði ummyndaða bergið og þá varð til líparítkvika.   Jarðefnafræði gögnin á forna berginu frá Kanada eru nauðalík niðurstöðum á jarðskorpunni frá Íslandi.  Þetta skýrðist allt þegar Kanadískir jarðfræðingar beittu skilningi á myndun Íslands við að túlka Kanadíska fornbergið.  Það má segja að myndun Íslands skýri á nokkurn hátt myndun meginlandsskorpu af vissri tegund. Myndin sem fylgir er túlkun Kanadamanna á þeirra elstu jarðskorpu.  Takið eftir að jafnvel landakortið, sem þeir teikna á yfirborðið er hermt eftir útlínum Íslands.  Það er langt síðan að jarðfræðingar fóru að bera saman gömlu jarðskorpuna í Kanada og Ísland.  Robert Baragar var þegar kominn á sporið í kringum 1970.


Ljósmynd Howells af Hrauni


Howell HraunÉg hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum.  Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell  yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu.  Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell:  “Hraun. Styr's home.  Howell, Frederick W. W.  ca. 1900.”  Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni.   Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar.  Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu.  Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.


Bloggfærslur 13. júní 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband