Hamfarir a Grænlandi

EarthÞað er ótrúlega erfitt að fá tryggar heimildir fyrir því hvað gerðist á vestur Grænlandi, laugardagskvöld, hinn 17. júní, 2017. Við vitum að flóðbylgja skall á þorpið Nuugaatsiaq, og fjórir fórust af völdum hennar. Þorpið er á eyju í Uummannaq firði.

Í fjalli sem er um 21 km fyrir norðvestan þorpið varð jarðskjálfti að styrk 4.5 hinn 16. júní, kl. 10:48 á um 10 km dýpi. Kortið sem fylgir sýnir staðsetningu skjálftans og þorpsins fyrir sunnan. Þessi skjálfti verður því meir en einum sólarhring áður en flóðbylgjan rís í Nuugaatsiaq. Þá verður annar skjálfti hinn 17. júní kl. 20:39, sem er minni, eða 3.9 að styrk, en á 0 km dýpi. Hann kemur fram á IRIS kerfinu. Staðsetning seinni skjálftans er í fjallendi um 50 km austar, en stðseting kann að vera óviss.  

Arktisk Kommando hefur birt góðar myndir af fjallshlíðinni fyrir norðan Uummannaq fjörð, teknar hinn 20. júní, sem sýna að hlíðin er öll á hreyfingu og að berghlaup hafa farið af stað. Það er líklegt að fyrri skjálftinn hafi komið af stað hreyfingu í fjallshlíðinni, sem leiddi af sér berghlaup og síðan flóðbylgjuna.  Jarðlög i fjallinu virðast vera blagrytislög, sem eru algeng fra Tertier tima a miðri vestur strönd Grænlands.


Íslenska möttulblómið

atlantic_1060517lato-2Ísland er heitur reitur í jarðsögunni, eins og Hawaíí og Galapagos og nokkrir aðrir merkir staðir með mikla eldvirkni. Undir heita reitnum á Íslandi liggur sennilega möttulstrókur af óvenju heitu möttulbergi, sem kann að ná niður alla leið að mörkum kjarnans og möttuls (2900 km). Möttulstrókurinn hefur oftast verið teiknaður upp sem súla, en sennilega er hann miklu flóknari í laginu, einkum efsti hlutinn. Nú hafa Schoonman og White og birt nýtt líkan af íslenska möttulstróknum, sem er mun flóknara en fyrri líkön, en það er byggt á aðferð sem notar jarðskjálftabylgjur til að gegnumlýsa jörðina. Mötulstrókurinn virðist vera um 100 km í þvermál neðarlega í möttlinum, en breiðist út eins og krónublöð blómsins og skiftist í fimm fingur þegar hann nálgast efri mörk möttulsins. Minnumst þess að bergið í möttulstróknum er mjög heitt, en heilt og óbráðið vegna mikils þrýstings í möttlinum, en bráðnunin gerist tiltölulega nærri yfirborði jarðar.


Loftsteinar til sölu!

UntitledLoftsteinar berast til jarðar öðru hvoru, en eru mjög sjaldgæfir og dýrmætir hlutir. Þeir veita okkur mikilvægar upplýsingar um ástand og gerð pláneta og um uppruna heimsins okkar, en þeir eru einnig mjög fagrir hlutir, sem hafa farið í gegnum hreinsunareldinn við það að komast klakklaust inn í gegnum lofthjúp jarðar. Mig hefur alltaf dreymt um að finna loftstein á göngu minni um óþekkt svæði víðs vegar á jörðu, en hef ekki enn orðið svo heppinn. Uppboðshaldarinn Christie´s heldur fremur óvenjulegt uppboð frá 3 til 10. maí á loftsteinum. Þar er margt merkilegt að finna. Þar á meðal eru loftsteinar sem eru nær algjörlega úr járni, og eru þeir taldir koma úr kjörnum pláneta sem hafa brotnað. Þá er hægt að gera tilboð í pallasít loftsteina, sem eru að hálfu úr járni og nikkel og að hálfu úr risastórum kristöllum af ólivín (mynd). Þeir eru uppáhaldssteinarnir mínir, en þeir mynduðust á mörkum kjarnans og möttuls í einhverri plánetu sem nú er brotnuð í smælki. Nú, ef það er ekki nógu gott, þá getur þú fengið þér loftsteina, sem hafa borist til jarðar frá mars eða frá tunglinu. Mars loftsteinar eru ´serstkir, og hafa efnasamsetningu sem bendir eindreigið til uppruna á mars. Það er vitað um aðeins 150 kg af mars loftsteinum, svo þessi er fágætur, enda er áætlað verð á honum $50,000. Frekari upplýsingar um uppboðið má sjá hér

https://onlineonly.christies.com/s/deep-impact-martian-lunar-other-rare-meteorites/lots/346

 


Fyrstu landnemar Ameríku?

cc_CMS-Excavation-17_16x9Mannkyn átti uppruna sinn í Afríku fyrir meir en milljón árum og geislaði síðan í allar áttir. Það er merkilegt að Ameríka virðist hafa verið síðasta meginlandið sem menn námu land á. Það er almennt talið að fyrstu mennirnir hafi komist til Ameríku fyrir um 14 þúsund árum, þegar sjávarstaða var lægri um allan heim og þá var fært fyrir fótgangandi frá austur Asíu yfir Beringsund til Norður Ameríku.  Jafnvel Ástralía var mönnuð miklu fyrr, eða fyrir um 40 þúsund árum.

En þessi kenning er ef til vill að breytast á mjög róttækan hátt, ef taka má mark á fornleifarannsóknum á minjum sem komu fram við vegavinnu nærri San Diego í Kaliforníu. Bein af mastodon (skyldur loðfílum) komu fram í vegavinnunni árið 1992. Frekari rannsókn hefur leitt í ljós að mikið af beinunum eru brotin. Þetta er engin smábein og þarf mikið afl til að brjóta slíkt, sennilege stórar steinsleggjur bundnar á trjágreinar. Þá hafa fundist steinar (15 kg) í uppgreftrinum, sem gætu verið verkfæri. Það sem gerir þetta hugsanlega mjög mikilvæga uppgötvun er aldursgreining beinanna, 130 þúsund ár. Ef beinin hafa verið brotin af mönnum, eins og nú er haldið fram, þá komust menn með einhverjum leiðum alla leið til Ameríku löngu fyrr en áætlað var. Ef þetta er rétt, þá er hér elsti fornleifafundur í Ameríku. Hvernig voru aðstæður í heiminum á þeim tíma? Fyrir um 120 til 140 þúsund árum var hlýskeið, með loftslag á jörðu mjög líkt því sem ríkir í dag.

Hingað til hafa ekki fundist nein mannabein á staðnum. Þar til slíkar minjar finnast þá verður að taka þessa kenningu með miklum fyrirvara, en nú er unnið af kappi á staðnum við að leita frekari minja.  En það er athyglisvert að ef hér er um menn að ræða, þá voru þeir sennilega Neanderthal, því nútúmamaðurinn kom seinna út úr Afríku.

 


Skófir og fléttur með skynvilluefni?

sko_769_fir2.jpg

 

Skófir og fléttur eru einn hluti af lífríkinu, sem við veitum ekki mikla athygli, en er samt sem áður mjög spennandi fyrirbæri á margan hátt. Þær eru oft fyrstu lífverurnar, sem nema land á ungum hraunum. Þær gefa frá sér sýru sem vinnur á berginu og hjálpar til að mynda jarðveg með tímanum fyrir svokallaðar æðri plöntur. En það er magt fleira óvænt varðandi skófir. Í regnskógum Ekvador í Suður Ameríku vaxa skófir af tegundinni Dictyonema huaorani. Inkarnir í Ekvador vita að þetta er jurt, sem inniheldur skynvilluefni og efnagreiningar sýna að þessar skófir innihalda meðal annars efnin tryptamín og psilocybin. En þessi skóf getur einnig gert menn ónýta. Íslenskar skófir og fléttur hafa verið notaðar sem litunarefni fyrir ullarþráð um margar aldir, en þær gefa af sér dökkbrúnan lit, rauðbrúnan eða gulbrúnan lit. Það er oft rætt um að íslenskar skófir og fléttur kunni að innihalda vímuefni eða skynvilluefni (psychodelic drugs), en enginn virðist hafa fjallað um hvaða tegundir af skófum er hér um að ræða. Það eru um 700 tegundir þekktar af skófum og fléttum á Íslandi.  Sumir halda því fram að skófin umrædda sé Collema Fuscovirens af slembruætt, eða Collema flaccidum (hreisturslembra). Aðrir telja að galdrajurtin sé Parmotrema menyamyaense. Þær munu allar innihalda efnin bufotenin, norbufotenin, tryptophan, tryptamine og serotonin í mismunandi mæli.


Þjófurinn festur á mynd

 img_5522.jpg

Það var hinn 26. mars 2012 að mér bárust fregnir af hvalreka nærri Beruvík undir Snæfellsjökli. Ég flýti mér á staðinn og kom að um fjögur leytið. Þá sá ég stærðar búrhval liggja í fjörunni. Þetta var fremur stórt karldýr, ef dæma má af um tveggja metra löngum tittling, sem hékk utan á bolnum. Þegar nær kom tók ég eftir því að framhluti neðri kjálkans hafði verið sagaður af og blóðið steymdi úr sárinu, eins og önnur mynd sýnir. Í polli rétt hjá lá handsögin, með rautt handfang. Þjófurinn hafði flýtt sér á brott. Búrhvalstennur hafa töluvert verðmæti á svarta markaðnum og eru unnar í minjagripi, skartgripi og aðra smágripi, líkt og fílabein. Þegar heim kom fór ég að skoða myndirnar frá hvalstrandinu. Þá kom í ljós að ég hafði náð þjófnum á tvær myndir, þar sem hann er að hlaupa á brott, með frampartinn af neðri kjálkanum í höndum sér. Þetta er gráhærður meðalmaður á stígvélum, í bláum vinnugalla með rauða hettu, eins og myndin sýnir. Þrjóturinn var fljótur að laumast á brott þegar við komum að og kastar frá sér söginni í poll í fjörunni. img_5537.jpg

Þótt hvalrekinn ætti sér stað inan þjóðgarðsins, þá sýndu yfirvöld hvalnum engan áhuga og létu rotna á saðnum. Þarna var glatað ágætt tækifæri til að eignast heila beinagrind af sjaldgæfri hvaltegund, sem hefði verið merkilegt efni til sýninga í þjóðgarðinum. Ekkert hefði þurt til nema að varpa netdruslu yfir hræið og festa það niður í nokkra mánuði.

Rúmum þremur árum síðar, í byrjun maí árið 2015, var ég á göngu í Búðahrauni. Þá rakst ég á hvalreka í klettafjöru skammt fyrir suðvestan Fremribúðir. Þetta var heillegt hryggjarstykki af mjög stórum hval, eins og þriðja myndin sýnir. Beinin virtust ungleg, með mikið brjósk á milli liða, sem hélt þeim saman á öllum liðamótum.  Grindin var svo ungleg, að hundurinn Snælda vildi hvergi nærri koma að svo stórum beinum. Ég tel að þetta sé hryggurinn úr búrhvalnum, sem rak á land í Breiðuvík, fyrir vestan Búðir. Ef svo er, þá hefur hann rekið um 38 km leið með ströndinni á þremur árum.img_0164.jpg

 


Uppruni Brexit: Stórifoss í Ermasundi

ncomms15101-f1.jpgBretland er að skilja við Evrópu með Brexit þessa dagana, en jarðfræðilegur skilnaður frá meginlandinu gerðist miklu fyrr. Bretland var hluti af Evrópu í margar milljónir ára. Samfeldur hryggur af kalksteini tengdi England við Frakkland, sem loðfílar, flóðhestar og menn gengu um, fram og til baka. Það eru aðeins 450 þúsund ár síðan kalksteinsmyndunin var rofin af hamfaraflóði, sem sennilega á sér engan líka. Þá fossaði fram af Hvítuklettum -- the White Cliffs of Dover – þegar nýr farvegur opnaðist frá stóru jökullóni þar sem nú er Norðursjór. Sjávarmál var þá um 100 m neðar en nú í dag, vegna þess að mikið magn af vatni var bundið í ísaldarjöklinum. Farvegir eftir flóðið eru greinilegir á botni Ermasunds, eins og myndin sýnir. Þegar flóðinu lauk hafði nýtt landslag komið í ljós, en landbrú tengdi England við Evrópu alltaf öðru hvoru þar til fyrir um níu þúsund árum. Síðan hefur Bretland verið eyja.


Sóra sprungan í Petermann jökli

petermann-crack.jpgEinn stærsti jökull Grænlands er Petermann jökullinn, nálægt nyrsta odda Grænlands. Jökultungan er um 70 km löng og um 15 km breið, og flýtur á hafinu. Þykktin á ísnum er um 600 m syðst, en um 30 til 80 m þar sem hún flýtur á hafinu.   Árin 2010 og 2012 brotnaði jökullin og tvær risastórar íseyjar, samtals um 388 ferkm. ráku til hafs og bráðnuðu.   Nú er að opnast ný sprunga í Petermann, og ef hún opnast, þá losnar frá íseyja sem er um 180 ferkm. að flatarmáli. Sennilega myndast sprungurnar vegna þess að jökullinn er að bráðna neðan frá, vegna þess að heitari sjór streymir inn sundið. Sennilega brotnar eyjan frá í sumar, þegar hafið fyrir framan Petermann verður íslaust. En þegar Petermann brotnar á þennan hátt, þá er hætt við að aðaljökullinn skríði fram í meira mæli í náinni framtíð. Það getur haft hröð áhrif á sjávarmál um heim allan.


Blái bletturinn

bluedot.jpgHöf heimsins eru að hlýna allstaðar nema í bláa blettinum í Norður Atlantshafi, rétt fyrir suðvestan Íslands. Fyrsta myndin sýnir frávik frá hita hafsins frá 1900 til 2013. Öll höfin sýna gulan eða rauðan lit, sem þýðir hlýnun, eins og mælikvarðinn undir myndinni sýnir. En það er ein mjög mikilvæg undantekning: blái bletturinn sunnan Grænlands og Íslands. Þetta svæði hafsins sýnir stöðugua og ákveðna kólnun í öllum mælingum. Hnattræn hlýnun er í gangi, en hvernig stendur á þessari staðbundnu kólnun rétt hjá okkur í hafinu? Hingað til hefur verið farið með þetta eins og viðkvæmt feimnismál, og lítt rætt meðal vísindamanna og alls ekki meðal almennings. En málið er grafalvarlegt, þar sem það kann að benda til að Golfstraumurinn sé að hægja á sér.   Árið 2010 stungu Dima og Lohmann upp á að Golfstraumurinn hafi verið að hægja á sér alla leið síðan um 1930. Nú eru nokkrir vísindamenn byrjaðir að kveða við sama tón, til dæmis S. Rahmsdorf (2015) á fundi í Reykjavík. Einn sá fyrsti til að benda á þann fræðilega möguleika að það kynni að draga úr Golfstraumnum í tengslum við hnattræna hlýnun var Bandaríkjamaðurinn Wally Broecker í grein í Nature árið 1980, sem bar titilinn “Unpleasant surprises in the greenhouse?”   Golfstraumurinn er einn mikilvægasti armurinn í hringrás strauma heimshafanna, en að hluta til verður þessi hringrás til vegna þess að mjög kaldur, saltur og þungur sjór sekkur norðan Íslands, steymir með botninum til suðurs, og sem svörun við því streymir heitari sjór (Golfstraumurinn) til norðurs. Nú við hnattræna hlýnun dregur úr myndun þessar sjávartegundar í norðri og Glofstraumurinn hægir á sér. Þetta er kenningin, en mælingar eru allt of fáar á þessu fyrirbæri. Ekki reikna með að Hafró skifti sér af því heldur: þeir halda sig á landgrunninu.liu-2017-1cjpg.jpg

Wei Liu ofl. (2016) hafa gert mjög nákvæmt líkan af áhrifum af hnattrænni hlýnun á Golfstrauminn, sem spáir um líklega hegðun hans í framtíð. Niðurstaða þeirra er sú, að mikið dragi úr Golfstraumnum eftir um 200 ár, eins og önnur mynd sýnir. Þetta líkan gerir ráð fyrir tvöföldun á kolsýru í lofthjúpnum.  Einingarnar fyrir rennsli Golfstraumsins eru í Sverdrup (Sv), en ein Sv er ein milljón rúmmetrar af sjó á sekúndu. Við Björn Erlingsson bentum á þessa hættu í ýtarlegri skýrslu um hnattræna hlýnun til Forsætisráðuneytissins árið 2007, en fengum engin viðbrögð við þeirri skýrslu. Jafnvel skólabörn átta sig á því nú í dag að hegðun og framtíð Golfstraumsins skiftir íslendinga öllu máli.


Hættulegt að anda


 fusioncharts.jpg

Kína er miðstöð alls iðnaðar á jörðu, en því fylgir gífurleg mengun. Það stafar einkum af því að aðal orkugjafi kínverja eru brennisteinsrík kol. Í Peking hefur mengunin verið svo slæm, að Bandaríska sendiráðið lét setja upp skynjara hjá sér árið 2008, sem mælir daglega mafn af P2.5 rykkornum, en þau eru hættulegust heilsu manna. Þetta er svipað að eðli og svifryk það sem myndast í Rekjavík á vetrum vegna umferðar. Síðan hefur Sendiráðsmælirinn verið eins og hornsteinn fyrir mælingar loftgæða í Kína: það eina sem menn treysta.

Hættumörkin á loftgæðum eru talin 300 P2.5 einingar, loft þar yfir er talið mjög hættulegt heilsu og allir verða að halda sig innan dyr á meðan slíkt ástand ríkir. Myndin sýnir mælingar í Peking undanfarna daga. Það er langt yfir hættumörkum og hefur í dag náð upp í 446 einingar.

Kínversk stjórnvöld hafa ekkert verið sérlega ánægð með að erlent ríki sé að fylgjast með loftgæðum þeirra, en þetta eru nú einu gögnin sem allir treysta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband