Gosmálarinn í Vestmannaeyjum: Guðni A. Hermansen
14.3.2010 | 17:44
Fjallið hafði ekki gosið í meir en fimm þúsund ár. Þá kom Guðni og málaði það gjósandi og - viti menn: tæpu ári seinna kom gos. Eyjamenn hafa orðið meira fyrir barðinu á eldgosum en flestir aðrir íslendingar. Fyrst var það öll taugaspennan sem fylgdi Surtseyjargosinu frá 1963 til 1968, og svo gosið árið 1973 sem hófst í útjaðri Vestmannaeyjakaupstaðar, og hlóð upp gígkeilunni Eldfelli á örstuttum tíma. Húsamálarinn, jazzistinn og listamaðurinn Guðni A. Hermansen (1928-1989) gerði margar merkar myndir af umhverfinu í Vestmannaeyjum og sérkennilegu landslagi þar. Það er ein mynd eftir Guðna sem er ef til vill sérkennilegust, en hún heitir Hefnd Helgafells og er hér fyrir ofan. Um sumarið 1972 málaði Guðni þessa mynd en tilefnið var að Guðni var reiður út af því að malartaka var þá stunduð í gryfju í austurhlíð Helgafells. Hér var tekin rauðamöl og gjall sem var notuð sem uppfylling í nýja flugbraut í Eyjum. Ljósmyndin sýnir austur hlíð Helgafells, til vinstri, og Eldfell til hægri. Malargryfjan er nú að mestu gróin. Takið eftir svörtu eða dökkgráu línunni af gjallgígum í forgrunni, en það er hluti af sprungunni sem gaus árið 1973. Guðni og margir aðrir Eyjamenn reiddust því að ljótt sár hafði myndast í fjallið helga og taldi Guðni að náttúran myndi hefna sín fyrr en síðar. Það reyndist rétt: gosið 1973 hófst rétt norðar, rúmum sex mánuðum seinna. Hér með fylgir ljósmynd af Guðna að vinna að gerð myndarinnar Hefnd Helgafells, tekin 24. maí 1972 af Sigurgeir. Málverkið Hefnd Helgafells er nú í eigu Jóhönnu Hermannsdóttur í Bandaríkjunum. Helgafell er 227 metrar á hæð og hefur myndast í eldsumbrotum fyrir um fimm þúsund árum. Þetta var mikið gos, sem byrjaði sennilega í sjó en hlóð upp mikla hraundyngju. Fyrir gosið voru hér tvær eyjar. Þegar því lauk hafði hraunbreiðan tengt saman norðurkletta og suðurkletta í Eyjum, og myndað þannig hina stóru Heimaey. Helgafell og Eldfell eru gígar í megineldstöðinni sem við nefnum Vestmannaeyjar, og einnig tilheyrir Surtsey þeirri miklu eldstöð, ásamt mörgum öðrum eyjum allt í kring. Á vefnum Heimaslóð eru nokkrar af myndum Guðna sýndar, og sumar þeirra eru tengdar eldvirkni hér Það er ekki laust við að sumar myndir hans séu súrrealískar og töluvert erótískar. Sumar mynda hans, eins og þessi hér til hliðar, gera skemmtilega samlíkingu á eldfjallinu og þrýstnu konubrjósti. Ási í Bæ minntist oft á listaverk Guðna í pistlum sínum í Morgunblaðinu, til dæmis 7. nóvember 1976: Guðni Hermansen er heimamálari þeirra eyjamanna og það fer ekki á milli mála að kveikjan að myndgerð Guðna er sótt í landslag og náttúruumbrot þar í eyjum. Gosið í eyjum virðist hafa haft mikil áhrif á list hans, og er það ekki nema eðlilegt. Það eru ekki margir listamenn í veröldinni sem upplifa það að jörðin springur og eys eldi við fætur þeirra.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eldfjallalist | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.