Saga Íslenska Heita Reitsins

lawver2002.jpg

Fyrstu ár mín í jarðfræðinni, í kringum 1963, varð ég hugfanginn af því hvað Mið-Atlantshafshryggurinn væri mikilvægur fyrir skilning okkar á jarðfræði Íslands. Á þessum árum reyndu flestir framsæknir ungir jarðfræðingar að finna Íslandi stað í hinum nýju vísindum sem snertu úthafshryggi og landrek. Margir hinna eldri voru þó skeptískir og vildu ekkert af landrekskenningunni heyra lengi vel. En árið 1971 kom Jason Morgan fram með kenninguna um heita reiti og möttulstróka og gerði okkur ljóst að einn slíkur væri staðsettur undir Íslandi. Allt í einu fór athygli okkar að beinast að þessu nýuppgötvaða fyrirbæri og með árunum hefur mikilvægi heita reitsins orðið mun skýrara en vægi úthafshryggsins minnkað að sama skapi. Nú er okkur ljóst að sérstaða Íslands stafar af heita reitnum, sem situr djúpt í möttlinum og framleiðir mikið magn af kviku og heldur landinu vel ofan sjávarborðs.

En heiti reiturinn undir Íslandi á sér langa sögu, sem er um 16 sinnum lengri en öll jarðsaga Íslands. Ég hef aðeins stuttlega fjallað um þessa sögu hér á blogginu í pistlinum   http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1559307/   og bent á tengsl við Síberíu. Nú lagar mig til að skýra frekar frá þróun hugmynda og staðreynda um sögu heita reitsins okkar. Saga vísindanna er mikilvæg og okkur ber skylda til að viðurkenna og minnast þeirra, sem gert hafa fyrstu uppgötvanirnar á hverju sviði. Það er einmitt hlutverk þeirra fræða, sem við nefnum sögu vísindanna. Enn er of snemmt að skrifa þessa sögu varðandi Íslenska heita reitinn, en hér er byrjunin.

Árið 1994 birtu Lawrence A. Lawver   og Dietmar Müller, jarðeðlisfræðingar í Texas, grein sem nefnist “Iceland hotspot track”, eða slóð íslenska heita reitsins. Þeir könnuðu jarðskorpuhreyfingar eða flutning flekanna á norðurhveli jarðar. En ólíkt flekunum, þá hreyfast heitir reitir lítið eða ekkert með árunum, þar sem þeir eru akkeraðir eða fastir djúpt í möttlinum og því óháðir reki flekanna á yfirborði jarðar. Lawver og Müller sýndu fram á að heiti reiturinn, sem er nú undir Íslandi, var undir Kangerlussuaq á Austur Grænlandi fyrir um 40 milljón árum, undir Umanak firði á Vestur Grænlandi fyrir um 60 milljón árum, undir Ellesmere eyju fyrir 100 til 130 milljón árum,   og að fyrir þann tíma hafi heiti reiturinn sennilega myndað Mendeleyev hrygginn og einnig Alpha hryggin í Íshafinu. Lengra ráku þeir ekki sögu heita reitsins í þetta sinn, sem nú er undir Íslandi. Rauðu dílarnir á myndinni sýna ferilinn, sem heiti reiturinn hefur farið eftir á þessum tíma. Tölurnar eru milljónir ára.

Þá kemur að annari grein, sem birtist árið 2002, einnig eftir Lawver og félaga. Þar kanna þeir flekahreyfingar yfir heita reitinn enn fyrr í jarðsögunni og rekja slóðina alla leið til Síberíu fyrir um 250 milljón árum (grænu stjörnurnar á myndinni). Það ég best veit, þá er þetta í fyrsta sinn sem tengslin milli Íslands og Síberíu eru viðruð meðal vísindamanna. Við vitum þá nú um uppruna heita reitsins, sem Ísland situr á í dag. Í síðara bloggi mun ég fjalla um þær miklu hamfarir þegar þessi heiti reitur kom fyrst upp á yfirborðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Það er mjög ánægjulegt að lesa pistlana þína. Það er eins og að vera í ókeypis námi. Hvet þig að halda áfram að dæla í okkur lesendum svona fróðleik. Þessi vísindi eru nefnilega lifandi og eru að gerast þó við skynjum þau ekki endilega sem lífverur, með okkar stutta líftíma.

Sumarliði Einar Daðason, 8.9.2016 kl. 06:31

2 identicon

...þetta er áhugavert.

Og ef ég skil samhengið rétt þá er heiti reiturinn sem myndaði hraunflóðin í Síberíu fyrir 250m+ árum og átti þátt í Permian útdauðanum núna staddur undir Íslandi.

Úff :-)

Magnús (IP-tala skráð) 8.9.2016 kl. 07:22

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk fyrir Haraldur, mjög áhuga vert sem jafnan. Er talið að svona möttulstrókar séu margir? 

Hrólfur Þ Hraundal, 8.9.2016 kl. 09:29

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Magnús: Já, einmitt. En það er ekki ljóst að fæðing heita reitsins hafi orsakað útdauðann á PerTrías.  Verður þó að teljast líklegt.

Hrólfur:  Heitu reitirnir eru nokkrir.  Sumir segja þá vera 15, aðrir telja þá fleiri.  Merkir heitir reitir auk Íslands eru:  Hawaíi, Galapagos, Azoreyjar, Yellowstone, Samoa,

Haraldur Sigurðsson, 8.9.2016 kl. 11:06

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Takk fyrir þetta, flandur fleka yfir heita reiti er heillandi fyrirbæri. Það skýrir jafnframt tilvist einhverra merkilegustu lífvera sem finnast á Íslandi, grunnvatnsmarflónna sem lifa í grunnvatnskerfum eldvirku svæðanna. Þessu litlu og fremur óásjálegu dýr tengja saman jarðfræði, þróunarfræði og vistfræði á einstakan hátt. Það er gaman að vera náttúrufræðingur :)

https://en.wikipedia.org/wiki/Crangonyx_islandicus

https://en.wikipedia.org/wiki/Crymostygius

Haraldur Rafn Ingvason, 8.9.2016 kl. 11:59

6 identicon

eiga þessir staðir eithvað sameiginlegt t,d, koma margir flekar þarna saman. er jarðskorpann þinri á þessum slóðum, meira landrek. skildi möttullin þrýsta hviku meira inná þessi svæði. eru þessir mötulstrókar nálæht svæðum sem flekar fara undir aðra fleka. þar sem afríka er að rifna í sundur kallast það möttulstrókur ef jörðinn hefur ekki við að llandreki 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 8.9.2016 kl. 11:59

7 identicon

Sæll Haraldur.

Ég held ég muni rétt að fyrir all mörgum árum kom hingað erlendur jarðfræðingur sem ég man ekki lengur nafnið á. Hún hélt því fram að heiti reiturinn undir landinu okkar næði ekki nógu langt niður til þess að geta talist heitur reitur. Hvað heldur þú um það?

Ragnheiður Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2016 kl. 12:50

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Kristinn: Heitir reitir verða ekki fyrir neinum áhrifum flekanna. Flekarnir eru skinnið á yfirborðinu.  Heitu reitirnir eru mun dýpra, og eiga ef til vill uppruna sinn að rekja til marka möttuls og kjarna, á um 2900 km dýpi.

Haraldur Sigurðsson, 8.9.2016 kl. 15:52

9 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ragnheiður:  jarðeðlisfræðingar nota jarðskjálfta til að gegnumlýsa jörðina. Þá sjá þeir að heiti reiturinn undir íslandi nær niður fyrir 450 km og sennilega niur fyrir um 650 km.  Að öllum líkindum nær þessi heiti reitur niður að mörkum kjarna og möttuls eða yfir 2000 km.

Haraldur Sigurðsson, 8.9.2016 kl. 15:54

10 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mér skilst að það séu tveir svona "heitir reitir" í heiminum. Það er á Hawaii og á Íslandi. Að Bárðarbunga sé til dæmis mjög varasamt eldfjall í þeim skilningi. Er þetta rétt?

Er það rétt að öll hin eldfjöllin á Íslandi séu bara brandari miðað við Bárðarbungu?

Ég hef lesið mig til um eldfjöll bæði hérlendis og erlendis. Horft á alls konar fræðslumyndbönd sem útskýrir þetta grafískt. En þegar allt kemur til alls þá er svo mikið af kenningum og enginn veit eitt eða neitt með vissu.

Sumarliði Einar Daðason, 8.9.2016 kl. 17:56

11 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Haraldur, mig langar að þakka þér fyrir allan fróðleikinn hér á blogginu þínu.

Kær kveðja frá Eyjum. :-)

Helgi Þór Gunnarsson, 8.9.2016 kl. 23:23

12 identicon

þakka fyrir . en eythvað hefur áhrif á uppstreimið það kemur ekki af sjálfu sér jöðrðinn er ekki riplek og virðast vera að mestu á svipuðum breidarbaug bæði norðan miðbaugs og sunnan. 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 9.9.2016 kl. 09:17

13 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Kristinn:  Uppstreymi efnis í heita reitnum er sennilega vegna þess að heiti reiturinn er heitari og þar af leiðandi eðlisléttari en möttullinn umhverfis.

Haraldur Sigurðsson, 9.9.2016 kl. 10:13

14 identicon

no. 12.ekki veri skýríng en hver önnur. en stangast það ekki svolítið við eyjafjallajökul sem er sagður fá kviku nokkuð djúpt í jarðskorpunni. en katla sækor sitt í þró ef það er rétt að skaftáreldar hafi komið frá köllu eldstöðinni að hluta gæti verið að það hafi í raun komið úr eyjafjallasprungukerfinu þettað eru skrýtinn siskin eyjaföll og katla. í landfræðilegum skilníngi.

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 9.9.2016 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband