Hvað gerist ef gangurinn nær alla leið til Öskju?
24.8.2014 | 19:07
Það er ljóst að mikil breyting varð á skjálftavirkni undir Vatnajökli hinn 23. ágúst. Þá tók skjálftavirknin mikið stökk til norðurs, eins og fyrsta myndin sýnir. Hún er byggð á skjálftagögnum frá Veðurstofu Íslands, en lóðretti ásinn á myndinni er breiddargráðan (norður). Aðeins skjálftar stærri en 2 eru sýndir hér. Þessu samfara er einnig stökk niður á bóginn, eins og seinni myndin sýnir. Hún er dreifing jarðskjálfta í tíma og dýpi. Lóðrétti ásinn er dýpið í kílómetrum undir yfirborði. Undanfarna viku hefur þungamiðjan af skjálftum stærri en 2 verið á dýpi í kringum 7 til 12 km. En hinn 23. ágúst er virknin mun dýpra, með flesta skjálfta af þessari stærð á bilinu 12 til 15 km. Gangurinn virðist fara dýpra en áður. Þetta er ekki sú hegðun, sem maður býst við sem undanfara eldgoss. Það skal þó tekið fram að stærsti skjálftinn, 5,3, og mesta útlosun orku til þessa, var á 5,3 km dýpi og annar 5,1 á 6 km. Það vekur athygli manns að nær engir skjálftar eiga upptök dýpri en um 15 km. Hvað veldur því? Er það ef til vill vegna þess, að á meira dýpi er jarðskorpan orðin svo heit, að hún brotnar ekki? Sjálfsagt eru kvikuhreyfingar að gerast dýpra en 15 km en við höfum ekki tólin og tækin til að sjá þær.
Kvikugangurinn frá Bárðarbungu heldur áfram að vaxa, en hefur nú breytt stefnu frá norðaustri til norðurs. Hann stefnir því beint að megineldstöðina Öskju. Getur hann náð alla leið til Öskju? Það er aðeins 25 km leið frá jökulsporðinum á Dyngjujökli og til Öskju. Gangar geta orðið mjög langir. Tökum nokkur dæmi frá Íslandi. Skaftáreldar eða Lakagosið árið 1783 var sprungugos, sem kom upp í gegnum jarðskorpuna úr kvikugangi. Gossprungan sjálf er um 25 km löng, en allt bendir til að hún nái inn undir Vatnajökul og alla leið til Grímsvatna. Kvikan sem gýs í Grímsvötnum er sú sama og kemur upp í Lakagígum. Það bendir til að gangurinn nái frá kvikuþrónni undir Grímsvötnum og alla leið til Lakagíga, eða um 70 km veg. Svipaða sögu er að segja um Eldgjá og Kötlu. Sprungan sem myndar Eldgjá er vitneskja á yfirborði um gang, sem nær alla leið til Kötlu. Efnagreiningar sýna að kvikan úr Eldgjá samsvarar kvikunni í kvikuþrónni undir Kötlu. Hér mun vera gangur sem myndaðist árið 934, sem er um 55 km langur. Þriðja dæmið er Askja sjálf. Árið 1875 gaus í Öskju, en undanfari þess goss var sprungugos í Sveinagjá, um 70 km norður af Öskju. Aftur hjálpar efnafræðin okkur hér og sýnir að basaltkvikan sem kom upp í Sveinagjá er hin sama og gaus í Öskju. Það er því auðvelt að hugsa sér að nýi gangurinn frá Bárðarbungu gæti náð til Öskju. Ef það gerist, þá er atburðarásin háð því hvort gangurinn sker kvikuþró Öskju, eða sneiðir framhjá. Eitt er það sem við lærum af hegðun ganganna í Lakagígum 1783, Eldgjá 934 og Sveinagjá 1875, að kvikan kom alltaf upp á yfirborðið þar sem gangarnir brutust í gegnum jarðskorpuna á láglendi. Kvikan er þungur vökvi og það er eðli hennar að streyma til hliðar, frekar en upp, svo framalega sem opin sprunga er fyrir hendi. Mestar líkur eru því á gosi nú, þegar gangurinn skríður í gegnum jarðskorpuna undir söndunum norðan Dyngjujökuls og sunnan Öskju. Ef hann gýs ekki þar, þá tekur við norðar mikið hálendi Dyngjufjalla, Kollóttudyngju og Ódáðahrauns og ólíklegt að hann komi upp á yfirborð þar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bárðarbunga, Berggangar, Jarðeðlisfræði | Facebook
Athugasemdir
Til að bæta aðeins við þessar fabúleringar, ef kvikan úr Bárðarbungu brýtur sér leið inn í kvikuhólf Öskju, gæti það þá valdið því að Askja myndi gjósa?
Eru til einhverjir sambærilegir atburðir sem gefa vísbeningu um hvað gæti gerst við slíkar aðstæður?
Hákon S (IP-tala skráð) 24.8.2014 kl. 20:23
Má ég bera upp eina spurningu? Smá formáli að henni. Gamalreyndur jarðfræðingur sem ég þori ekki að nafngreina án hans leyfis sagði mér eitt sinn, að svona kvikuinnskot gætu "kveikt í" kvikuþróm, þar sem kvikan hefði sest til, þ.e. basísku efnin sokkið til botns en þau súrari flytu ofan á, líkt og rjómi á byttu. Af gætu hlotist sprengigos, öskugos, vegna þess að basísk kvika væri með miklu hærra bræðslumark, hátt í 1.300°C á móti því að súra efnið væri með bræðslumark um 700°C +
Ef ég hef ekki misskilið eitthvað, þá var eitthvað af þessu tagi sem gerðist í Eyjafjallajökli í síðasta gosi þar. Spurningin er því; Hefur kvikuhólfið sem talið er að sé undir Öskju náð að "þróast" á þeim tíma sem liðinn er frá síðasta gosi í þessa átt og gæti því slíkur "kveikiþráður" sett af stað sprengigos í þeirri mögnuðu eldstöð?
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 24.8.2014 kl. 21:37
Þorkell: Sennilega ert þú nú að vitna í þessa grein, sem við birtum árið 1977: Sparks, R.S.J., H. Sigurdsson and L. Wilson, l977. Magma mixing: a mechanism for triggering acid explosive eruptions. Nature 267, 3l5-3l8. Hugmyndin er byggð á athugun okkar á Öskjugosinu árið 1875. Þá blandaðist heit og basísk kvika súrri kviku, og sprengigos hófst.
Haraldur Sigurðsson, 24.8.2014 kl. 21:46
Ég er nú ekki svo víðlesinn, prófessor Haraldur, að ég hafi lesið þessa tilvitnuðu grein. Heimild mín er viðtal við mann, jarðeðlisfræðing, sem er nú sestur í helgan stein og fræddi mig ómenntaðan alþýðumann um ýmsa leyndardóma jarðvísindanna. Eins og ég sagði áðan, vil ég ekki nefna nafnið hans í leyfisleysi.
Þorkell Guðbrandss (IP-tala skráð) 24.8.2014 kl. 21:56
Sæll Haraldur.
Þakka þér fyrir áhugaverða pistla. Ég hef verið að velta fyrir mér hvað veldur þessum miklu sveiflum í óróa ef kvika hefur ekki náð yfirborði, þ.e. enn hefur ekkert gos orðið.
Las í dag tilgátu Dave McGarvie á Twitter; Hann ræddi þar um stóru skjálftana sem hafa orðið í Bárðarbunguöskjunni sem að öllum líkindum eru vegna þess að askjan er að síga vegna lækkandi þrýstings í kvikuhólfinu? Hann líkti þessu við pressukaffikönnu og út úr henni stæði lárétt rör. Þegar askjan sígur þá þrýstir hún kvikunni niður sem veldur þrýstingi á bergganginn.
Ég skil þetta þannig að þegar askjan sígur þá þrýstist kvikan inn bergganginn af miklu afli sem svo veldur þessum óróa sem mælist við flestar stöðvar. Skýrir kannski af hverju berggöngin lengdust lítið í nokkra daga en tóku svo kipp þegar stór skjálftarnir komu, þ.e. askjan virkar þá eins og fýsbelgur og þeytir kvikunni áfram inn gönginn.
Sé þetta rétt, er þá ekki líklegt að lítið kvikuuppstreymi sé úr mötlinum upp í kvikuhólfið, úr því askjan sígur?
Ef eitthvað er til í þessu, þá er sjálfsagt hægt að greina samband á milli stærri skjálfta í öskjunni og óróa í berggöngunum sem síðan verður til þess að göngin lengjast?
Eitthvað til í þessu?
Tómas Veigar (IP-tala skráð) 24.8.2014 kl. 22:21
Það sem okkur skortir eru upplýsingar um lóðréttar hreyfingar öskjunnar. Í Kröflueldum árin 1975 til 1984 reis askjan hægt og rólega, þar til hún seig skyndilega og kvikuhlaup gerðust út í sprungukerfið fyrir norðan. Þar var greinilega uppstreymi kviku úr djúpinu og inn í grunnt kvikuhólf hinn ríkjandi þáttur. Við (venjulegt fólk, sem hefur ekki aðgang að gögnum sérfræðinganna) vitum ekki um hegðun GPS púnktanna. Þau gögn eru ekki sjáanleg almenningi á vef Veðurstofunnar.
Haraldur Sigurðsson, 24.8.2014 kl. 22:34
Sæll Haraldur.
Þakka þér fyrir áhugaverð og upplýsandi pistla sem er einkar fróðlegt og ánægjulegt fyrir okkur leikmenn að lesa. Það er tvennt sem vekur sérstaka athygli mína í skrifum þínum núna. Annars vegar ef ekki er verið að greina dýpri kvikuhreyfingar með nútímamæliaðferðum er þá kvikumagnið í þessum gangi, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum e.t.v. stórkostlega vanmetið ? Hins vegar eru þetta mjög stórir atburðir sem þú tekur samlíkingu við varðandi kvikuganga sem enda með löngum gossprungum. Ef þessi atburðarás endar með eldgosi ertu að gefa því undir fótinn að það yrði fremur stór atburður ?
Oddur Þórir Þórarinsson (IP-tala skráð) 24.8.2014 kl. 22:42
Eins og ég hef bent á, þá "sjáum" við aðeins kvikuhreyfingar þar sem berg brotnar. Það er ljóst að mikið magn af kviku er neðar í skorpunni, sem við vitum nær ekkert um. Nei, ég er ekki að spá gosi, heldur er ég að velta fyrir mér afdrifum gangsins. Hvort hann kemur upp á yfirborð virðist mér nokkuð tilviljanakennt. Slíkir atburðir sem þessi enda sennilega oftast með því að virknin fjarar út, samanber Upptyppinga árið 2007.
Haraldur Sigurðsson, 24.8.2014 kl. 22:49
Upptyppingar eru minnisstæðir en var sá órói ekki bæði miklu staðbundnari og miklu dýpra hægari yfir langan tíma, þannig að menn veltu janfvel fyrir sér að þar væri á ferð kvika beint úr möttulstróknum því þeim hreyfingum fylgdi engin virkni í megineldstöð eða öskju og því var engin sem gekkst við króanum.
Reyndar gæti þetta hugsanlega ýtt við Upptypping á nýjan leik — eða hvað?
Helgi Jóhann Hauksson, 25.8.2014 kl. 10:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.