Er jarðhiti undir Grænlandsjökli?

Vorið 2016 var óvenjulegt á Grænlandi vegna mikillar bráðnunar jökulsins. Í fyrri hluta apríl 2016 sýndu 12 prósent af yfirborði Grænlandsjökls meir en 1 mm bráðnun, samkvæmt dönsku veðurstofunni (DMI). Slíkt hefur aldrei gerst áður á þessum árstíma, en venjulega hefst bráðnun ekki fyrr en um miðjan maí.ngeo2689-f1

En það er fleira óvenjulegt í gangi með Grænlandsjökul, sem ef til vill er ekki beint tengt hlýnun jarðar, heldur jarðhita. Jöklafræðingurinn Jesse Johnson frá Montana birti vísindagrein í Nature í fyrra þar sem hann sýnir fram á að nær helmingur af norður og mið hluta Grænlandsjökuls situr á púða af krapi, sem auðveldar skrið jökulsins (fyrsta mynd). í kraplaginu eru rásir sem veita vatni til sjávar, milli jökulsins og bergsins sem er undir. Hann byggir kenningu sína á því að hraði hljóð- og skjálftabylgna sýnir að það er útilokað að jökullinn sé botnfrosinn. Til að skýra þetta fyrirbæri telur Johnson útilokað annað en að það sé jarðhita að finna undir jöklinum. Rannsóknir hans og félaga ná yfir norður og mið hluta Grænlands, eins og fyrsta myndin sýnir. Þeir setja fram þá tilgátu að bráðnunin í botni og jarðhitinn þar undir séu enn leifar af íslenska heita reitnum, sem fór undir Grænlandsskorpuna, frá vestri til austurs, fyrir um 80 til 40 milljón árum.IMG_2889

En nú koma aðrar og óvæntar upplýsingar frá athugun flugmanna yfir suður hluta Grænlandsjökuls, sem Björn Erlingsson og Hafliði Jónsson hafa sett fram. Í vor flugu bandarískir flugmenn með Twin Otter vél yfir Grænlandsjökul, á stefnu eins og kortið sýnir (þriðja mynd). Skammt fyrir vestan Kulusuk (um 75 km) sáu þeir mökk rísa upp úr sprungu í jöklinum og héldu í fyrstu að hér hefði flugvél hrapað niður. Staðsetingin er merkt með “plume” á kortinu. Ekki er enn staðfest hvort mökkurinn eða gufubólstrarnir á myndinni séu vegna jarðhita, en allar líkur eru á því. Ef svo er, þá breytir það miklu varðandi hugmyndir og kenningar okkar um jarðskorpuna undir Grænlandi. Jarðhiti kemur fram á nokkrum stöðum meðfram ströndum Grænlands, einkum í grennd við mynni Scoresby sunds á austur Grænlandi.Plumes - location


Bloggfærslur 11. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband